Showing posts with label Pönnukökur. Show all posts
Showing posts with label Pönnukökur. Show all posts

Sunday, 9 July 2017

Pönnsuklám; beikon og ostapönnukaka með steiktu eggi, fínt skorinni púrru og steiktum tómat


Þetta er bara örfærsla.

Við fórum í tvöfalt fertugsafmæli í gær hjá vinum okkar, Steinunni Þórðardóttur og Árna Grími Sigurðssyni. Þar var bæði fjölmennt og góðmennt. Þetta var sérstaklega vel heppnað gilli enda eru þau hjónin stórskemmtileg! Við vorum saman í læknadeildinni og útskrifuðumst sumarið 2004 - síðan eru liðin þrettán ár. Og þarna voru samankomnir margir góðir vinir úr deildinni - mikið var gaman að sjá þessa gömlu vini aftur. Og eins og í veislum á árum áður þá var skálað og dansað.

Og það hefur, jú, sínar afleiðingar daginn eftir. Það er eðlilegt að verða örlítið framlágur eftir slíka veislu.

En þessi uppskrift réttir mann, sko, við ... ég lofa, í þessum skrifuðu orðum hafa syndir gærkvöldsins horfið út í heiðbláan sumarhimininn.

Pönnsuklám; beikon og ostapönnukaka með steiktu eggi, fínt skorinni púrru og steiktum tómat

Og, já, þetta er líklega ekki hollt - en með illu skal illt út reka!

2 bollar hveiti
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 egg
3 dl mjólk
3 epli
2-3 msk smjör til steikingar
2-3 msk smjör til steikingar
beikon (ad libidum - háð líkamlegri líðan) 
nokkrar handfyllir af cheddarosti
fullt af eggjum


Hveiti í skál, svo salt, lyftiduft og matarsódi. 


Fáið þessa yndislegu morgunhressu prinsipissu til að hræra! Hún er í stuði!


Skiljið hvíturnar frá eggjarauðunum og þeytið með písk þangað til þær eru hálfstífþeyttar.


Hrærið deigið saman og blandið svo eggjahvítunum saman við - varlega, með sleif eða sleikju - við viljum ekki slá loftið úr þeim.


Hitið grillið - í dag er kjörinn dagur til að elda utanhúss.


Veljið álegg. Það er metið eftir frammistöðu gærkvöldsins. Í mína pönnsu fóru tvær sneiðar af beikoni, allur þessi ostur, og svo smá púrra - maður verður alltaf að hafa grænmeti með!


Steikið beikon.


Já, og tómat, hann ku vera fullur af andoxunarefnum - og þeirra er þörf í dag!


Bræðið smjör.


Byrjið að steikja pönnukökuna.


Saxið beikon.


Og dreifið því svo á pönnsuna.


Svo rifinn ost. Nóg af rifnum osti.


Steikið egg, sunnyside up!


Snúið pönnukökunni til að steikja ostinn.


OMG!


Hvílík fegurð sem í frelsaranum felst!


Þið hljótið að sjá að þetta hafi verið ótrúlega gott! 


 Nú er maður, sko, til í tuskið! 

Bon appetit!


Sunday, 13 July 2014

Flamberaðar pönnukökur með jarðaberjasírópi, ferskum jarðaberjum og þeyttum rjóma

Fyrir tveimur vikum var ég með innslag í helgarblaði moggans þar sem ég fjallaði um veislu sem ég hafði nýverið verið með. Þá var tengdafaðir minn, Eddi, og sambýliskona hans, Dóróthea, í heimsókn hjá okkur hérna í Lundi. Þau voru einstaklega heppin með veður og sólin lék við þau. Við gestgjafarnir reyndum að gera okkar besta að þeim liði sem best hjá okkur. 

Þau voru hjá okkur yfir langa helgi og það var frábært að hafa þau hjá okkur. Við brugðum okkur meðal annars til Kaupmannahafnar á laugardeginum og röltum um, settumst niður á nokkrum stöðum, og glugguðum í bókina Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn eftir Björn Th. Björnsson sem er stórmerkileg lesning. Hvet fólk til að kynna sér þessa bók - hún dýpkar gönguferðirnar um borgina til muna!

Eftir frábæran dag enduðum við svo á Litla Apótekinu á Stóra Kaninkustræti og fengum fullkomlega misheppnaða máltíð. Hún var svo glötuð að ég setti langa færslu inn á Tripadvisor um heimsókn okkar. Eigandi staðarins var svo móðgaður við gagnrýnina að hann sendi mér kvörtunarbréf um kvörtun mína - þvílíkt og annað eins - ég hló bara!  Allavega, sleppið því að fara þangað, það er úr nógu öðru að velja. 

Á sunnudeginum héldum við því veislu heima og buðum upp á þríréttaðan matseðil og meðal annars þennan ljúffenga eftirrétt. 


Flamberaðar crepes með jarðaberjasírópi, ferskum jarðaberjum og þeyttum rjóma

Hérna eru íslensku pönnukökurnar teknar í hæstu hæðir!

Fyrir fjóra

Fyrir pönnukökurnar
2 dl hveiti
1 msk sykur
1/4 tsk salt
1/4 tsk matarsódi
1/2 tsk vanilludropar
25 g brætt smjör
250 ml mjólk
2 egg
10 g smjör (aukalega)

Fyrir sírópið

75 g sykur
100 ml vatn
10 jarðaber
50 ml koníak

10 jarðaber
Þeyttur rjómi

Blandið þurrefnunum saman í skál. Hrærið egg og vanilludropa saman við ásamt mjólkinni. Bætið svo brædda smjörinu út í deigið og hrærið vel saman.



Hitið smjör á pönnukökupönnu og bakið pönnukökurnar, 8-10 stykki.



Setjið pönnukökurnar til hliðar.



Hellið sykrinum á pönnu ásamt vatninu og hitið að suðu. Hrærið vel á meðan og gætið þess að allur sykurinn leysist upp. Skerið jarðaberin niður og bætið úr í sírópið og látið krauma þangað til að sírópið er þykkt.



Setjið pönnukökurnar út á, eina í einu og brjótið upp á þær í ferninga.



Hellið svo koníakínu á pönnuna og kveikið í. Gætið þess að brenna ykkur ekki! Raðið á disk, setjið umfram sírópið með á pönnukökuna. Raðið niðursneiddum jarðaberjum ofan á og skreytið með þeyttum rjóma.



Njótið vel!

Thursday, 29 March 2012

More Crepes! Gómsætar pönnukökur fylltar með súkkulaði og bönunum!

Það gerist stundum að maður gengur í gegnum svona tímabil, þ.e.a.s. í eldhúsinu - ég hef síðustu daga verið að ganga í gegnum svona pönnukökutímabil. Og það er ekki að ástæðulausu - pönnukökur eru alveg hreint ljúffengur matur. Og þá er það sama hvort maður eldar þær sem máltíð eða sem eftirrétt - niðurstaðan virðist bara vera ein; það er veisla framundan! Í síðustu viku gerði ég pönnukökur fylltar með heimagerðum rikottaosti og spínati, sem birtist í seinustu færslu og svo um helgina gerði ég galette með skinku, osti og steiktu eggi og hafði í sunnudagsmorgunverð.

Eins og svo oft áður gerði ég aðeins of mikið af deigi svo ég stakk því inn ísskáp svona til öryggis! Seinna um daginn varð mér síðan hugsað til ferðar okkar hjónanna til Parísar snemma síðastliðið sumar og þar gæddum við okkur einn eftirmiðdaginn á þunnri pönnuköku fylltri með nutella súkkulaði og bönunum - algerlega ljúffengt. Kannski hefði ég átt að nota eitthvað flottara súkkulaði til að rísa upp úr meðalmennskunni en það var eiginlega bara óþarfi - þetta var nógu ári gott!

More Crepes! Gómsætar pönnukökur fylltar með súkkulaði og bönunum! 
Ég gerði nákvæmlega sömu uppskrift og í síðustu færslu nema að ég bætti við smá sykri. Ég setti einn bolla af hveiti, 1/2 tsk salt, 1/2 tsk lyftiduft, 1 msk olíu, 1 egg, 2 tsk sykur og einn bolla af mjólk og hrærði vel saman. Steikti á pönnu.



Þegar búið var að steikja pönnukökuna á annarri hliðinni var henni snúið og Nutella súkkulaðinu smurt á í þykku lagi. Þarna mætti auðvitað nota bráðið súkkulaði af hvaða gerð sem var - ég átti nutella og það var það sem við fengum í París og því var það notað. Síðan nokkrar sneiðar af sneiddum bönunum.



Þá var kökunni lokað með því að brjóta ósmurða hlutann yfir þann súkkulaðismurða. Steikt í smá stund og svo snúið aftur og steikt á hinni hliðinni.

Sett á disk og borið fram með tveimur vanilluískúlum og smáræði af myntu.
Borðað með áfergju og stunið reglulega á með (þetta er ekki leiðbeining heldur það sem gerist þegar maður gæðir sér á öðru eins sælgæti)!

Tími til að njóta!

P.s. Minni aftur á - The Doctor in the Kitchen - hlekkinn á Facebook. Áhugasamir eru velkomnir að kíkja í heimsókn - glugginn er hérna til hægri. Mbk, Ragnar

Tuesday, 27 March 2012

Holy crepes: Dásamlegar fylltar pönnukökur með heimagerðum ríkottaostiog spínati

Síðustu dagar hafa verið ljúfir hérna í Lundi. Vorið hefur aldeilis látið á sér kræla og í dag hefur verið glampandi sól. Við sváfum frameftir morgni og eyddum drjúgum hluta dagsins að snurfusa í garðinum. Næstu helgi ætla ég að gera mér ferð til Flyinge þar sem er fallegt gróðurhús og kaupa inn kryddjurtir, kartöfluútsæði og fleira í garðinn minn. Það er ekki seinna vænna en að fara að búa í haginn fyrir sumarið. Það verður komið áður en við vitum af!

Ég hef lengi verið aðdáandi alls þess sem á rætur að rekja í Frakklandi. Núna eins og oft áður er ég að hlusta á tónlistina úr bíómyndinni Amelie en þar semur og flytur Yann Tiersen stærsta hlutann. Hann er í miklu uppáhaldi hjá mér. Talandi um Frakkland þá eiga crepes rætur að rekja þangað - og þær eru vissulega ljúffengar - ætli íslensku pönnsurnar séu ekki úr franska eldhúsinu. Ég hef margoft eldað crepes - oftast á laugardagsmorgnum þegar ég hræri í þunnt deig og steiki eina pönnuköku sem ég ber fram smurða með dijonsinnepi, skinkusneið, osti og svo einu steiktu eggi. Fullkomnun á diski.

Innblásturinn að þessum rétt er fenginn frá nýjum vini mínum handan Atlantsála - kvikmyndagerðarmanninum Þorkeli Harðarsyni. Við kynntust í tengslum við heimasíðu mína og höfum meira að segja spjallað saman á skype í kjölfarið um ýmsar hugmyndir okkar um matargerð, ást okkar á mat og hvernig best væri að miðla áhugamálum sínum. Hann býr í Brooklyn í New Yor þar sem hann eldar - á milli þess sem hann gerir ýmsar kvikmyndir (og hefur unnið Edduna fyrir mynd sína - Featered Cocaine). Hann eldar gómsæta rétti, og jafnvel selur þá, í gegnum heimasíðuna sína - cookinggoodinthehood.com. Fyrir tveimur vikum var hann að elda fylltar pönnukökur með ricottaosti, spínati og sveppum - og það var svo girnilegt að ég varð hreinlega að stela hugmynd hans og prófa sjálfur. Þorkell... takk fyrir mig!

Holy crepes: Dásamlegar fylltar pönnukökur með heimagerðum ríkottaosti og spínati
Kvöldið áður gerði ég ricottaost. Sem er einfaldara en margan grunar. Ég hafði í fyrra keypt hráefni frá sjálftitlaðri drottningu ostagerðar, Ricki Carroll - the cheesemaking Queen of New England.



Fyrsta sem ég gerði var að hella 4 lítrum af nýmjólk í hreinan stálpott. Bætti útí 1 tsk af sítrónusýru og 1 tsk af salti (cheese salt - sem ég held að sé bara venjulegt salt!). Hitaði upp að 90 gráðum og hrærði vel í á meðan. Mjólkin fer að skilja sig um þetta leyti og þá slekkur maður undir pottinum og lætur standa í 5-10 mínútur. Þá setur maður "butter muslin" í sigti (hugsa að maður gæti bara notað hreina bómullarbleyju - að sjálfsögðu hreina!!!) og hellir vökvanum í gegn. Eftir situr osturinn sem ég lét síðan hanga í 30-40 mínútur í vaskinum. Og úr varð þessi frábæri ríkottaostur - sem tók innan við klukkustund að útbúa! Settur í kæli þangað til daginn eftir.

Næsta skref var að útbúa pönnukökurnar - hvaða íslenska pönnukökuuppskrift myndi ganga vel hérna, nema hvað að ég myndi sleppa því að bæta sykri saman við!



Ég setti alltént einn bolla af hveiti, 1/2 tsk salt, 1/2 tsk lyftiduft, 1 msk olíu, 1 egg og einn bolla af mjólk og hrærði vel saman. Steikt á pönnu eins og lög gera ráð fyrir og lagði á disk.



Skar niður 20 skógarsveppi sem ég steikti í 2 msk af kraftmikilli hvítlauksolíu ásamt einum smátt skornum rauðlauk. Þegar sveppirnir voru eldaðir og laukurinn var mjúkur bætti ég saman við 300 gr af fersku þvegnu spínati sem fékk að sjóða niður þannig að það koðnar niður í pönnuna - og rýrnar um hartnært 80 prósent.



Þá setti ég sveppa- og spínatblönduna í skál og muldi heimagerða ríkottaostinn samanvið. Bætti við nóg af salti og pipar og kannski 3 msk af góðri jómfrúarolíu. Hrærði vel saman við. Smakkaði til!



Þá var ekkert annað eftir en að fylla pönnukökurnar. Setti væna matskeið af fyllingu í miðjuna á hverri köku og braut þær svo saman.



Næst var að setja kökurnar í ofnskúffu og baka í ofni í 20 mínútur við 180 gráður til að bræða ostinn. Á meðan gerðum við þessa ótrúlega einföldu tómatsósu. Skar niður hálfan hvítan lauk, 1 hvítlauksrif og steikti í 5 mínútur. Bætti síðan við einni dós af niðursoðnum tómötum. Salt, pipar, balsamedik og síðan smáræði af sykri (en bara ef tómatarnir eru í súrari kantinum...breytilegt eftir tegund).



Með matnum fengum við okkur smá tár af þessari ágætu búkollu sem ég sótti nýverið þegar ég skaust yfir brúna yfir til Danmerkur. Ég fann þessa í einni af búðunum í grenndinni við Kastrup. Þetta er ljómandi góð búkolla. Er framleidd á Sikiley á Ítalíu. Þetta er fremur létt Chardonnay vín. Ilmar af ávöxtum, melónu. Létt á tungu - ávaxtakennt og þurrt. Prýðisvín! Og var svo sannarlega ekki dragbýtur á máltíðina!



Bárum fram með ákaflega litríku salati. Græn lauf, niðurskornir tómatar og mislitar papríkur.

Einfalt...ekki satt!

Tími til að njóta!

Sunday, 8 November 2009

Gómsæt Galette pönnukaka með osti, skinku og steiktu eggi á erfiðumlaugardagsmorgni


Það var gott að koma heim til Svíþjóðar aftur. Þetta var ansi hressilegt frí á Íslandi þessa daga - ef frí skyldi kalla. Hittum nærri alla bæði vini og fjölskyldumeðlimi og það var einstaklega ljúft að sjá alla aftur. En það er full vinna að vera að hitta fólk alla daga - mörgum sinnum á dag. Einn daginn fékk ég þrjá hádegisverði - sem ef maður væri Hobbiti væri fullkomið, en fyrir þann sem langar að komast niður beltisgat er þetta þungur róður! En þetta var allt gaman samt sem áður - en ekki var mikið um hvíld þessa viku. Það má segja að maður hafi hvílt sig í vinnunni þessa síðustu vikuna. En það var samt indælt að koma á frónið - þessa ljósmynd tók ég síðasta sunnudagsmorgun í Lækjarkoti þegar við vorum að leggja í hann á leið á flugvöllinn. Það er ekki leiðinlegt að fylla hugann með minningum sem þessum. Fátt er fallegra en íslensk fjöll!

Bróðir minn, Kjartan, kom í heimsókn frá Köben og við erum búin að eiga ljúfa helgi hérna saman. Á fimmtudagskvöldið gerðum við íslenskt slátur - soðna og steikta lifrarpylsu og kartöflumús. Virkilega ljúffengt. Í okkar fjölskyldu er vaninn að bera fram rifsberjasultu með steiktu lifrarpylsunni - fyrir þá sem hafa ekki prófað þá er það sérstaklega ljúffengt...ég lofa!Á föstudaginn vorum við með ekta "comfort" mat - entrecote með ekta bernaise, hef bloggað um slíkt áður - sjá hér. Eftir matinn fórum við svo í næsta hús - til Signýjar Völu og Þóris manns hennar. Hún var með systur sína í heimsókn og pabba sinn. Það var dregin upp ákavítisflaska og þá fer sem fer. Morguninn eftir var því þörf á steiktu eggi - stundum krefur líkaminn bara um slíkt. Þá jafnar maður sig fyrr. Við fórum síðan í góða gönguferð um bæinn. Um kvöldið vorum við svo með lambahrygginn sem ég hafði smyglað frá Íslandi, fylltur núna með rósmarín og timian og niðursneiddum hvítlauk með sveppasósu a la mamma með rótargrænmeti, ekkert ólíkt því sem ég gerði síðustu viku, sjá hér. Í kvöld var svo flatbaka með afgöngum. Ljúffengt!

Annars var ég líka að sýsla við að gera kindakæfu eftir leiðbeiningum Helgu Sigurðardóttur úr bókinni - Matur og Drykkur - en breytti aðeins útaf með því að nota ekki mör og í stað þess mun minna magn af smjöri, meira af pipar og svo setti ég einnig hvítlauk í mína uppskrift. Sjáum hvernig rætist úr þessu.

Gómsæt Galette pönnukaka með osti, skinku og steiktu eggi á erfiðum laugardagsmorgni

Hráefnalisti

75 gr hveiti
75 gr grahamsmjöl
Salt
Jómfrúarolía
Lyftiduft
2 egg
400 ml mjólk
Ostur
Skinka

Þessi réttur sameinar ást mína á pönnukökum - sérstaklega crepes, bræddum osti og steiktu eggi. Fyrir mat á föstudaginn var ég að blaða í bók sem heitir Culinaria France og þar rakst ég á þessa uppskrift. Samkvæmt uppskriftinni í þeirri bók var kveðið á um að nota "buckwheat" sem að ég held að sé bókmjölshveiti - alltént þýðist það yfir á bovete og boghvede á sænsku og dönsku - ef ég hef rangt fyrir mér þá óskast leiðréttingar. Bókmjölshveiti er unnið úr grastegund ekki hveititegund ef ég hef skilið literatúrinn nógu vel. Þessi grastegund á uppruna sinn að rekja til Austurlanda og tóku Evrópubúnar vel á móti henni þar sem hún óx bæði hratt og var harðger. En hvað um það.

Ég átti ekkert bókmjölshveiti, þannig að ég blandaði bara saman venjulegu hvítu hveiti og grahamsmjöli, síðan skvettu af salti, olíu, smá lyftiduft, tvö falleg egg og svo næg mjólk og úr varð þetta fallega pönnukökudeig. Pönnukökupannan er hituð og við hliðina önnur til þess að steikja eggið. Þá er deigið sett á pönnuna í fremur þunnu lagi og á sama tíma er eggið sett á hina.

Samkvæmt uppskriftinni á kokkurinn að setja hreina fitu á pönnukökuna þegar búið er að snúa henni en ég ákvað í stað þess að setja ost, síðan nokkrar sneiðar af skinku og þvínæst er eggið sett ofaná. Brotið upp á kantana og steikt áfram þangað til að allt er orðið fallega brúnt. Borið fram með rjúkandi kaffi og góðum appelsínusafa.

Annars hef ég mikið verið að spá í bíómyndir þar sem matur leikur eitt af aðalhlutverkunum eftir að ég sá sýnishornið af Julia&Julie. Mér hefur dottið í hug mynd Stanley Tucci - Big Night, danska myndin Babette's gestebud, teiknimyndin Ratatouille, og svo Like water for Chocolat. Ef lesendum dettur fleiri myndir í hug væri ég þakklátur fyrir athugasemdir.

Sunday, 1 March 2009

Stórgóður sunnudagsmorgunverður í nýja húsinu; Amerískar pönnukökur og eggs Ragnarict




Við erum búinn að búa í nýja húsinu í Annehem í rúma viku. Okkur hefur liðið vel. En það er búið að vera mikið af gera. Setja saman húsgögn - bæði gömul og ný - ég hugsa að ég myndi setja hraðamet í samsetningu IKEA húsgagna um þessar mundir, raða upp úr kössum - komum með 75 kassa til Svíþjóðar, taka til, taka til, taka svo til og síðan fara með í endurvinnsluna. Það er þvílíkt farganið af pappa sem fellur til við svona flutninga. Manni blöskrar hreinlega. Það mætti kalla einn svona flutning nánast náttúruhamfarir. Það eru allir á fullu í kringum okkur. Alls voru sex hús afhent síðast liðin föstudag. Þar af fimm íslenskar fjölskyldur. Hér var einn íslenskur kollegi fyrir og ein bíður eftir að fá afhent í apríl. Þannig að við verðum sjö íslenskar læknafjölskyldur hérna á einum reit. Hálfkjánalegt, en á sama tíma huggulegt að þekkja alla nágrannana sína. Og þekkja þá vel...af þessum sjö, vorum við fjórir saman í bekk og höfum fylgst að í deildinni síðan 1998. Ein útskrifaðist árinu á undan og einn á eftir. Við höfum varpað því fram að breyta nafninu á götunni - Pukgranden - í Aðalstræti, það væri sennilega hægt enda fáir Svíar hérna til þess að mótmæla.

Tengdamóðir mín kom til okkar á fimmtudaginn og er búinn að vera fjandi dugleg að hjálpa til. Við erum svona að leggja lokahönd á þetta. Aðeins nokkrir kassar eftir, gluggatjöld á neðri hæðina og einstaka ljós sem á eftir að klára. Ætli við náum ekki að slútta þessu í vikunni. Það er mikilvægt að reyna að gera þetta allt strax annars er hætt við því að maður láti þetta danka alltof lengi. Ég setti aldrei upp ljós í eldhúsinu í Skaftahlíðinni - ekki í fjögur ár - hætti bara að taka eftir því að það stóðu tveir kóngabláir feitar snúrur útúr loftinu. Maður verður alveg blindur á svona. 




Ég er ferlega ánægður með eldhúsið mitt. Ég reyndi lengi að fá þá hjá NCC til að setja gaseldunartæki í eldhúsið en það var ekki tauti við þá komið - það mátti ekki einu sinni hafa ekki neitt þannig að ég gæti sett gashellur - þannig að ég valdi spanhellur - fékk Ittala pottasett með...nánast gefins. Eldhúsið er að drukkna í pottum. Alltént - hafði ég bitið það í mig að vera með gas - enda vanur því - endaði með að kaupa eldvél frá SMEG sem var á útsölu í fallegri verslun fyrir utan Helsingborg. Þannig að núna er ég drukkna í eldunartækjum - ekki bara í pottum.

Ég hef nefnt það í færslu áður að við erum búinn að gera það svona að hefð að gera pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Börnin elska að byrja daginn með þessu - þeim finnst líka gaman að hjálpa til. Valdís er orðin ansi lunkin við þetta. Villi - duglegur að hræra. Efnileg börn, finnst mér!

Ég keypti þessa koparpotta á markaði í Frakklandi í sumar. Þeir höfðu staðið inn í skáp í áraraðir og eftir því sem ég komst næst aldrei verið notaðir. Það þurfti smá vinnu að bóna þá upp aftur og hreinsa innan úr þeim. Mér finnst þeir vera fallegt skraut og svo eru þetta líka góðir pottar. Þungir og leiða vel hitann frá eldinum.




Ákvað að skella inn mynd af því sem ég kem til með að kalla kjarnorkukljúfinn - þvílíkt og annað eins hvað spanhellur eru öflugar. Það kom mér á óvart að sjá hversu hraðar þær voru að hita upp vatn og svoleiðis - næstum eins og hraðsuðuketill. Ætli spanið verði ekki notað mest í það - sjóða pasta og kartöflur.


Kaffibarinn okkar. Höfum átt þessa prýðis góðu kaffivél lengi - keypti hana í einhverju brjálæði eftir næturvakt með dönskum kollega - Ulrik Overgaard sem ég vann með á sínum tíma á bráðamóttökunni í Fossvogi. Hann er mikill gourmet og kaffibrjálæðingur. Brennir sínar eigin baunir. Hann fluttist einnig í nágrennið og býr utan við Lund í fallegu húsi í Vallakra með eiginkonu sinni Ingunni lækni og tveimur börnum þeirra. Hann lofaði mér einhvern tíma að kenna mér að brenna mitt eigið kaffi. Málverkið sem sést á myndinni gerði dóttir mín á námskeiði hjá Önnu Gunnlaugsdóttur frænku okkar og myndlistarkonu.


Það sést nú ekki mikið í eyjuna hérna. Hún var keypt í IKEA - ekki frá Myresjökök. NCC verslar við myresjökök sem er sænskt fyrirtæki. Ég fékk tilboð frá þeim í eyjuna - hvílíkt okur. IKEA eyjan var 5 sinnum ódýrari. Ég fæ ekki séð að það sé mikill munur. Myresjökök virðist límt en IKEA skrúfað. En skúffusystemið er alveg það sama. Kannski endist IKEA eyjan eitthvað skemur!

Stórgóður sunnudagsmorgunverður í nýja húsinu: Amerískar pönnukökur og eggs Ragnarict


Það eru nokkur atriði - kannski í raun eitt - sem mér finnst miklu máli skipta þegar maður er að gera amerískar pönnukökur. Það er að skilja hvíturnar frá eggjunum, rauðurnar fara beint ofan í deigið. En hvíturnar eru þeyttar þannig til þær hafa tvöfaldast. Þá er þeim bætt saman við - þannig fær maður loftkenndari pönnsur - sem drekka betur í sig sírópið.

Uppskriftin breytist helgi frá helgi - allavega hlutföllin. Ég á erfitt með að segja til um magn af hverju hráefni. Kannski 2-3 bollar af hveiti, 1 tsk salt, 2 msk sykur, 1-2 tsk lyftiduft, 2-3 egg, 2 msk jómfrúarolía og svo mjólk bætt saman þangað til að maður er komin með þykkt deig - sem minnir á vöffludeig eða lummudeig - þykkt þannig að það lekur hægt af skeiðinni í þykkum gullnum taumi. Eins og ég nefndi áðan - eru eggjahvíturnar þeyttar með smá salti þangað til tvöfaldað og blandað varlega saman við deigið, ekki hræra harklega, bara "fold them inn".