Showing posts with label morgunverður. Show all posts
Showing posts with label morgunverður. Show all posts

Sunday, 9 July 2017

Pönnsuklám; beikon og ostapönnukaka með steiktu eggi, fínt skorinni púrru og steiktum tómat


Þetta er bara örfærsla.

Við fórum í tvöfalt fertugsafmæli í gær hjá vinum okkar, Steinunni Þórðardóttur og Árna Grími Sigurðssyni. Þar var bæði fjölmennt og góðmennt. Þetta var sérstaklega vel heppnað gilli enda eru þau hjónin stórskemmtileg! Við vorum saman í læknadeildinni og útskrifuðumst sumarið 2004 - síðan eru liðin þrettán ár. Og þarna voru samankomnir margir góðir vinir úr deildinni - mikið var gaman að sjá þessa gömlu vini aftur. Og eins og í veislum á árum áður þá var skálað og dansað.

Og það hefur, jú, sínar afleiðingar daginn eftir. Það er eðlilegt að verða örlítið framlágur eftir slíka veislu.

En þessi uppskrift réttir mann, sko, við ... ég lofa, í þessum skrifuðu orðum hafa syndir gærkvöldsins horfið út í heiðbláan sumarhimininn.

Pönnsuklám; beikon og ostapönnukaka með steiktu eggi, fínt skorinni púrru og steiktum tómat

Og, já, þetta er líklega ekki hollt - en með illu skal illt út reka!

2 bollar hveiti
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 egg
3 dl mjólk
3 epli
2-3 msk smjör til steikingar
2-3 msk smjör til steikingar
beikon (ad libidum - háð líkamlegri líðan) 
nokkrar handfyllir af cheddarosti
fullt af eggjum


Hveiti í skál, svo salt, lyftiduft og matarsódi. 


Fáið þessa yndislegu morgunhressu prinsipissu til að hræra! Hún er í stuði!


Skiljið hvíturnar frá eggjarauðunum og þeytið með písk þangað til þær eru hálfstífþeyttar.


Hrærið deigið saman og blandið svo eggjahvítunum saman við - varlega, með sleif eða sleikju - við viljum ekki slá loftið úr þeim.


Hitið grillið - í dag er kjörinn dagur til að elda utanhúss.


Veljið álegg. Það er metið eftir frammistöðu gærkvöldsins. Í mína pönnsu fóru tvær sneiðar af beikoni, allur þessi ostur, og svo smá púrra - maður verður alltaf að hafa grænmeti með!


Steikið beikon.


Já, og tómat, hann ku vera fullur af andoxunarefnum - og þeirra er þörf í dag!


Bræðið smjör.


Byrjið að steikja pönnukökuna.


Saxið beikon.


Og dreifið því svo á pönnsuna.


Svo rifinn ost. Nóg af rifnum osti.


Steikið egg, sunnyside up!


Snúið pönnukökunni til að steikja ostinn.


OMG!


Hvílík fegurð sem í frelsaranum felst!


Þið hljótið að sjá að þetta hafi verið ótrúlega gott! 


 Nú er maður, sko, til í tuskið! 

Bon appetit!


Sunday, 7 February 2016

"I will have a full english breakfast, sir - minus the toast!"

Lífið á lágkolvetnamatarræði gengur vel og það fer vel í mig, eins og raunar flesta sem það prófa. Það verður þó að viðurkennast að ég sakna brauðs og kartaflna - mun meira en bjórsins - furðulegt nokk! En það er samt auðvelt að sneiða framhjá því og velja sér eitthvað annað meðlæti - ég held að ég hafi t.d. aldrei borðað eins mikið salat og ég hef gert síðustu vikurnar. 

Svo eru það sunnudagsmorgnarnir. Síðastliðnar vikur hef ég farið til slátrarans á laugardögum og keypt helgarsteikina sem og laumað með nokkrum pylsum, stundum Cumberland pylsum, stundum með eplum - alltaf einstaklega ljúffengar!

Svo hef ég líka verið að smakka ólíkar blóðpylsur - bloodsausage eða boudin noir - sem eru einstaklega bragðgóðar. Talsvert ólík blóðmörinni íslensku sökum þess hvernig krydd eru sett í þær. Vissulega er notað smá mjöl í pylsurnar en það ætti ekki að koma að sök þar sem maður fær sér yfir leitt bara lítinn bita. 

"I will have a full english breakfast, sir - minus the toast!"

Þessi færsla er í raun engin uppskrift - heldur meira svona frásögn af hvernig sunnudagarnir hafa litið út á mínu heimili þegar við setjumst við morgunverðarborðið. 


Pylsurnar er best að steikja á lágum hita og taka sér nægan tíma.


Þegar búið er að brúna þær að utan er þeim skellt inn í ofn í um hálftíma á meðan maður sinnir restinni af morgunverðinum. 


Það eru alltaf sveppir með enskum morgunverði og svo steiktur tómatur. 


Baunirnar eru eiginlega brot á LKL reglunum en ég keypti dós sem var sykurskert og var einvörðungu með 9 g af kolvetnum fyrir hver 100 g af baunum. Ég lét mér nægja smá sýnishorn.


Eggin eru steikt í miklu smjöri! Smjör - ég elska smjör! Ég rétt brúna smjörið lítillega - beurre noisette - þá fær það smá hnetukeim áður en maður setur eggin á pönnuna. Svo er um að gera að ausa smjörinu yfir eggin á meðan þau eldast.



Svo er bara að segja gjörið þið svo vel! 

Dagurinn getur ekki orðið annað en góður!

Tuesday, 25 March 2014

Saðsamar amerískar eplapönnsur með heimagerðu reyktu beikoni

Á laugardaginn lukum við tökum á sjónvarpsþáttunum mínum - Lækninum í Eldhúsinu! Þetta hafa verið mjög annasamir en líka mjög svo skemmtilegir dagar. Það er gaman að elda og það er gaman að elda allan daginn, en kannski er það bara ég? Við náðum að fara í gegnum fjöldann allan af ljúffengum uppskriftum. Stundum vorum við með gesti í mat en oftast fékk fólkið á tökustaðnum að gæða sér á matnum. Og hann var alltaf etinn upp til agna. Það var ótrúlega skemmtilegt að gefa því duglega fólki að borða.

Það verður líka spennandi að sjá hvernig þátturinn kemur til með að líta út. Ekki vantar metnaðinn hjá framleiðendum þáttanna, Gunnhildi (sem einnig var leikstjóri) og Ómari (líka tökumaður) auk allra annarra sem lögðu lið við gerð þáttarins - en þetta voru þau Högni, Eiríkur, Svenni, Kjartan, Ísgerður, Siggi Már og Steffí! Þetta er, sko, duglegt fólk.

Nú hef ég nokkra daga leyfi á Íslandi og næ að elda fyrir bókina mína og vera duglegur að skreppa í sund. Villi, sonur minn, kom með mér til Íslands og hefur fengið að ganga í íslenskan skóla og verið ákaflega ánægður. Honum hefur tekist að eignast góða vini í götunni og unir sér vel eftir skóla í leikjum með félögunum. Stelpurnar mínar, Snædís, Valdís og Ragnhildur Lára koma á fimmtudaginn og þá er stefnt að því að skella sér upp í sumarbústað og verja helginni þar í góðu yfirlæti! Mikið hlakka ég til!

Saðsamar amerískar eplapönnsur með heimagerðu reyktu beikoni
Þetta er uppskrift sem birtist í bókinni minni sem kom út fyrir jólin en hefur ekki birst á blogginu mínu áður. 

Þessi uppskrift byggist á hefðbundinni pönnukökuuppskrift nema að röspuðum eplum er bætt við uppskriftina. Það er líka hægt að nota perur í stað eplanna eigi maður þær við höndina. Hvað sem því líður er þetta ótrúlega ljúffeng pönnukaka. Og með heimagerðu kaldreyktu beikoni – alger sigurvegari!

2 bollar hveiti
3 tsk lyftiduft
1 tsk salt
1 msk sykur (má sleppa)
2 egg
3 dl mjólk
3 epli
2-3 msk smjör til steikingar 


Blandið saman þurrefnunum. Aðskiljið hvíturnar frá eggjarauðunum. Hrærið eggjarauðurnar saman við þurrefnin ásamt mjólkinni í þykkt deig. 


Aðskiljið eggjahvíturnar frá rauðunum. Bætið ögn af salti í eggjahvíturnar og þeytið upp með písk. 


Gott er að eggjahvíturnar nái að mynda fallega toppa!


Skolið eplin (þið ráðið hvort þið flysjið þau) og raspið svo gróft. Bætið út í deigið. 



Blandið hálf-stífþeyttu eggjahvítunum við með sleikju og gætið þess að hræra ekki saman um of – það slær loftið úr eggjunum.

Hitið smjör á pönnu og steikið eina pönnsu þegar það er bráðið. Þegar kakan fer að bakast á jöðrunum snúið þið henni við með spaða.


Raðið á disk.



Berið fram með skvettu af sírópi og beikoni, helst heimagerðu – kíkið hérna
Tími til að njóta!

Saturday, 26 September 2009

Morgunverður sigurvegara; ristað brauð með osti, nýjum sætum tómötum og hleyptum eggjum

Ég hef nokkrum sinnum áður bloggað um morgunverði fjölskyldunnar. Á sunnudagsmorgnum hefur eiginlega myndast sú hefð að gera pönnukökur að amerískri fyrirmynd - þetta er hugmynd sem ég stal frá vini mínum, nágranna og kollega Jóni Þorkeli - sem hefur verið duglegur við þetta í gegnum tíðina. Og það er fátt heimilislegra en, á sunnudagsmorgni, að setjast með fjölskyldunni og snæða girnilegan morgunverð.

Einhvern tíma bloggaði ég svo um þennan rétt, ég kallaði það Egg's Ragnarict, og var þannig að gera gamla uppskrift að minni - Egg's Benedict - mín útgáfa var, að mér fannst, nógu frábrugðin til að réttlæta svona þjófnað...ef þjófnað skal þá kalla.

Þetta var í morgunmat einn helgardaginn - þó ekki í morgun þar sem ég átti ekki til tómata - því miður - lét mér nægja að borða ristað brauð með osti og marmelaði - sem er nú eiginlega staðal heimilisins. Þetta var á borðum seint í ágúst. Ætli að maður hafi ekki verið eilítið rykugur en samt ekki nóg til að réttlæta alveg heilan enskan morgunverð - með beikoni og öllu tilheyrandi.

Þannig að úr varð þessi réttur.

Morgunverður sigurvegara; ristað brauð með osti, nýjum sætum tómötum og hleyptum eggjum

Rista brauð, smyrja með smá vegis af smjöri, setja nokkrar sneiðar af osti, þykkar sneiðar af nýjum sætum tómötum.



Að hleypa eggjum er einfaldara en margur heldur. Sjóða vatn í potti og leyfa því að sjóða bara svona ofurlétt - einstaka bólur mega koma á yfirborðið. Þá hellirðu smá skvettu af hvítvínsediki - það hjálpar að binda eggið saman þannig að það leysist ekki upp í vatninu. Síðan er vatnið saltað lítillega. Áður en eggið er sett út í er það brotið í skál eða bolla þannig að það sé hægt að setja það varlega útí. Núna er komið að því að setja eggið útí en rétt áður er vatninu hrært þannig að það myndast smá hvirfill í miðju pottarins og í þennan hvirfil er egginu rennt varlega en þó djarflega útí. Þannig verður það að fallegri lítilli kúlu - látið sjóða í 4 mínútur til að fá linsoðið egg þar sem rauðan er ennþá laus og gljáandi.

brau_me_hleyptum_eggjum_2.jpg

Skreytt með nokkrum steinseljulaufum - Verði ykkur að góðu.

Sunday, 1 March 2009

Stórgóður sunnudagsmorgunverður í nýja húsinu; Amerískar pönnukökur og eggs Ragnarict




Við erum búinn að búa í nýja húsinu í Annehem í rúma viku. Okkur hefur liðið vel. En það er búið að vera mikið af gera. Setja saman húsgögn - bæði gömul og ný - ég hugsa að ég myndi setja hraðamet í samsetningu IKEA húsgagna um þessar mundir, raða upp úr kössum - komum með 75 kassa til Svíþjóðar, taka til, taka til, taka svo til og síðan fara með í endurvinnsluna. Það er þvílíkt farganið af pappa sem fellur til við svona flutninga. Manni blöskrar hreinlega. Það mætti kalla einn svona flutning nánast náttúruhamfarir. Það eru allir á fullu í kringum okkur. Alls voru sex hús afhent síðast liðin föstudag. Þar af fimm íslenskar fjölskyldur. Hér var einn íslenskur kollegi fyrir og ein bíður eftir að fá afhent í apríl. Þannig að við verðum sjö íslenskar læknafjölskyldur hérna á einum reit. Hálfkjánalegt, en á sama tíma huggulegt að þekkja alla nágrannana sína. Og þekkja þá vel...af þessum sjö, vorum við fjórir saman í bekk og höfum fylgst að í deildinni síðan 1998. Ein útskrifaðist árinu á undan og einn á eftir. Við höfum varpað því fram að breyta nafninu á götunni - Pukgranden - í Aðalstræti, það væri sennilega hægt enda fáir Svíar hérna til þess að mótmæla.

Tengdamóðir mín kom til okkar á fimmtudaginn og er búinn að vera fjandi dugleg að hjálpa til. Við erum svona að leggja lokahönd á þetta. Aðeins nokkrir kassar eftir, gluggatjöld á neðri hæðina og einstaka ljós sem á eftir að klára. Ætli við náum ekki að slútta þessu í vikunni. Það er mikilvægt að reyna að gera þetta allt strax annars er hætt við því að maður láti þetta danka alltof lengi. Ég setti aldrei upp ljós í eldhúsinu í Skaftahlíðinni - ekki í fjögur ár - hætti bara að taka eftir því að það stóðu tveir kóngabláir feitar snúrur útúr loftinu. Maður verður alveg blindur á svona. 




Ég er ferlega ánægður með eldhúsið mitt. Ég reyndi lengi að fá þá hjá NCC til að setja gaseldunartæki í eldhúsið en það var ekki tauti við þá komið - það mátti ekki einu sinni hafa ekki neitt þannig að ég gæti sett gashellur - þannig að ég valdi spanhellur - fékk Ittala pottasett með...nánast gefins. Eldhúsið er að drukkna í pottum. Alltént - hafði ég bitið það í mig að vera með gas - enda vanur því - endaði með að kaupa eldvél frá SMEG sem var á útsölu í fallegri verslun fyrir utan Helsingborg. Þannig að núna er ég drukkna í eldunartækjum - ekki bara í pottum.

Ég hef nefnt það í færslu áður að við erum búinn að gera það svona að hefð að gera pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Börnin elska að byrja daginn með þessu - þeim finnst líka gaman að hjálpa til. Valdís er orðin ansi lunkin við þetta. Villi - duglegur að hræra. Efnileg börn, finnst mér!

Ég keypti þessa koparpotta á markaði í Frakklandi í sumar. Þeir höfðu staðið inn í skáp í áraraðir og eftir því sem ég komst næst aldrei verið notaðir. Það þurfti smá vinnu að bóna þá upp aftur og hreinsa innan úr þeim. Mér finnst þeir vera fallegt skraut og svo eru þetta líka góðir pottar. Þungir og leiða vel hitann frá eldinum.




Ákvað að skella inn mynd af því sem ég kem til með að kalla kjarnorkukljúfinn - þvílíkt og annað eins hvað spanhellur eru öflugar. Það kom mér á óvart að sjá hversu hraðar þær voru að hita upp vatn og svoleiðis - næstum eins og hraðsuðuketill. Ætli spanið verði ekki notað mest í það - sjóða pasta og kartöflur.


Kaffibarinn okkar. Höfum átt þessa prýðis góðu kaffivél lengi - keypti hana í einhverju brjálæði eftir næturvakt með dönskum kollega - Ulrik Overgaard sem ég vann með á sínum tíma á bráðamóttökunni í Fossvogi. Hann er mikill gourmet og kaffibrjálæðingur. Brennir sínar eigin baunir. Hann fluttist einnig í nágrennið og býr utan við Lund í fallegu húsi í Vallakra með eiginkonu sinni Ingunni lækni og tveimur börnum þeirra. Hann lofaði mér einhvern tíma að kenna mér að brenna mitt eigið kaffi. Málverkið sem sést á myndinni gerði dóttir mín á námskeiði hjá Önnu Gunnlaugsdóttur frænku okkar og myndlistarkonu.


Það sést nú ekki mikið í eyjuna hérna. Hún var keypt í IKEA - ekki frá Myresjökök. NCC verslar við myresjökök sem er sænskt fyrirtæki. Ég fékk tilboð frá þeim í eyjuna - hvílíkt okur. IKEA eyjan var 5 sinnum ódýrari. Ég fæ ekki séð að það sé mikill munur. Myresjökök virðist límt en IKEA skrúfað. En skúffusystemið er alveg það sama. Kannski endist IKEA eyjan eitthvað skemur!

Stórgóður sunnudagsmorgunverður í nýja húsinu: Amerískar pönnukökur og eggs Ragnarict


Það eru nokkur atriði - kannski í raun eitt - sem mér finnst miklu máli skipta þegar maður er að gera amerískar pönnukökur. Það er að skilja hvíturnar frá eggjunum, rauðurnar fara beint ofan í deigið. En hvíturnar eru þeyttar þannig til þær hafa tvöfaldast. Þá er þeim bætt saman við - þannig fær maður loftkenndari pönnsur - sem drekka betur í sig sírópið.

Uppskriftin breytist helgi frá helgi - allavega hlutföllin. Ég á erfitt með að segja til um magn af hverju hráefni. Kannski 2-3 bollar af hveiti, 1 tsk salt, 2 msk sykur, 1-2 tsk lyftiduft, 2-3 egg, 2 msk jómfrúarolía og svo mjólk bætt saman þangað til að maður er komin með þykkt deig - sem minnir á vöffludeig eða lummudeig - þykkt þannig að það lekur hægt af skeiðinni í þykkum gullnum taumi. Eins og ég nefndi áðan - eru eggjahvíturnar þeyttar með smá salti þangað til tvöfaldað og blandað varlega saman við deigið, ekki hræra harklega, bara "fold them inn".