Saturday 26 September 2009

Morgunverður sigurvegara; ristað brauð með osti, nýjum sætum tómötum og hleyptum eggjum

Ég hef nokkrum sinnum áður bloggað um morgunverði fjölskyldunnar. Á sunnudagsmorgnum hefur eiginlega myndast sú hefð að gera pönnukökur að amerískri fyrirmynd - þetta er hugmynd sem ég stal frá vini mínum, nágranna og kollega Jóni Þorkeli - sem hefur verið duglegur við þetta í gegnum tíðina. Og það er fátt heimilislegra en, á sunnudagsmorgni, að setjast með fjölskyldunni og snæða girnilegan morgunverð.

Einhvern tíma bloggaði ég svo um þennan rétt, ég kallaði það Egg's Ragnarict, og var þannig að gera gamla uppskrift að minni - Egg's Benedict - mín útgáfa var, að mér fannst, nógu frábrugðin til að réttlæta svona þjófnað...ef þjófnað skal þá kalla.

Þetta var í morgunmat einn helgardaginn - þó ekki í morgun þar sem ég átti ekki til tómata - því miður - lét mér nægja að borða ristað brauð með osti og marmelaði - sem er nú eiginlega staðal heimilisins. Þetta var á borðum seint í ágúst. Ætli að maður hafi ekki verið eilítið rykugur en samt ekki nóg til að réttlæta alveg heilan enskan morgunverð - með beikoni og öllu tilheyrandi.

Þannig að úr varð þessi réttur.

Morgunverður sigurvegara; ristað brauð með osti, nýjum sætum tómötum og hleyptum eggjum

Rista brauð, smyrja með smá vegis af smjöri, setja nokkrar sneiðar af osti, þykkar sneiðar af nýjum sætum tómötum.Að hleypa eggjum er einfaldara en margur heldur. Sjóða vatn í potti og leyfa því að sjóða bara svona ofurlétt - einstaka bólur mega koma á yfirborðið. Þá hellirðu smá skvettu af hvítvínsediki - það hjálpar að binda eggið saman þannig að það leysist ekki upp í vatninu. Síðan er vatnið saltað lítillega. Áður en eggið er sett út í er það brotið í skál eða bolla þannig að það sé hægt að setja það varlega útí. Núna er komið að því að setja eggið útí en rétt áður er vatninu hrært þannig að það myndast smá hvirfill í miðju pottarins og í þennan hvirfil er egginu rennt varlega en þó djarflega útí. Þannig verður það að fallegri lítilli kúlu - látið sjóða í 4 mínútur til að fá linsoðið egg þar sem rauðan er ennþá laus og gljáandi.

brau_me_hleyptum_eggjum_2.jpg

Skreytt með nokkrum steinseljulaufum - Verði ykkur að góðu.

No comments:

Post a Comment