Thursday 3 September 2009

Gómsætar villisvínakjötbollur með kraftmikilli heimagerðri tómatsósu, spaghetti og góðu rauðvíni

Núna er ég byrjaður að vinna á gigtarmóttökunni í Helsingborg. Það er svosum ágæt að breyta aðeins til nema hvað móttakan er í rúmlega 50 kílómetra fjarlægð. Það þýðir tæpilega klukkustund á leiðinni í vinnuna á morgnana og svo annan klukkutíma á leiðinni heim. Á einum mánuði eyðir maður einni vinnuviku í lestinni. Hálfdapurlegt. Hef verið að reyna nota tímann að lesa og hlusta á góða tónlist. Þetta er þó ekki það versta, þ.e.a.s. tímasóunin, heldur að vakna svona snemma á morgnana. Það finnst mér erfiðast. Það er svoooo erfitt að koma sér út úr rúminu á morgnana. Snoozaholic - það er ég! Írski grínistinn Ed Byrne segir um rúmið sitt; "it's like IKEA, takes absolutly no time to get into ... but two fucking hours to get out of". Hljómar rétt og á vel við mig!.

Á Skáni er mikið um villisvín. Meira segja svo mikið að menn tala um þau sem vandamál. Villisvín hafði ég aldrei smakkað fyrr en ég gerði þessa uppskrift. Mig hefur mjög lengi langað til að elda villisvín - sennilega er þetta eitthvað sem kviknaði í Ástríks og Steinríks bókunum þegar maður var lítill. Þegar þeir félagar slógu upp veislu þá var gjarnan heilsteikt villisvín - mjög svo girnilegt. Þegar maður heimsækir slátrarann um þessar mundir þá er kjötborðið fullt af villisvíni. Kjötið er mjög svo ólíkt venjulegu svínakjöti, miklu dekkra á litinn, þéttara í sér og með djúpum villibráðarkeim.


Ég ákvað að vera með einfalda kryddblöndu í hakkinu til að leyfa því að njóta sín. Það var alveg ljóst þegar umbúðirnar voru opnaðar að um kraftmikið kjöt var að ræða. Þetta er eins og að bera svínakjöt saman við rjúpu - ég veit - hljómar kjánalega en það var það sem mér datt í hug. Ég hef nokkrum sinnum áður bloggað um kjötbollur. Hérna er ein uppskrift innblásin frá Suður-Afríku, Chukkalukkah. Hérna er svo tvær tilraunir að gera kjötbollur úr hreindýrakjöti; þessar hélt ég að væru "ultimate" og svo þessar sem voru jafnvel ennþá betri; hreindýrabollur.

Gómsætar villisvínabollur með kraftmikilli heimagerðri tómatsósu, spaghetti

Eins og ég segi oft ... þetta var einfalt. Fyrst var að setja kjötið í skál, þá 4 smátt skornir hvítlauks-geirar, hálfur smátt skorinn rauðlaukur, 6 msk af ítölsku rauðvíni sem ég á til á belju í skápnum, blanda af ferskum kryddjurtum; rósmarínlauf af tveimur litlum greinum, lauf af nokkrum greinum af kóngatimian, bergmyntu og flatlaufssteinselju, nóg af salti, nýmöluðum pipar, eitt egg, 2 tsk dijon sinnep, jómfrúarolía, handfylli af parmaosti og brauðmylsna. Hnoðað vel saman. Látið standa í 1 klukkustund í kæli - jafnvel lengur - þá er það tekið út og litlar bollur mótaðar, sirka golfboltastórar og svo steiktar í blöndu af smjöri og jómfrúarolíu.

Tómatsósan er gerð nokkurn veginn á þennan hátt. Fyrst er smáttskorin rauður laukur, nokkur smáttskorin hvítlauksrif steikt þar til mjúk og góð. Þá er tveimur dósum af góðum niðursoðnum tómötum bætt útí, salt, pipar, balsamikedik, smá sykur. Soðið niður við lágan hita. Smakkað til og jafnað út eins og til þarf. Þegar sósan er tilbúin er henni hellt saman við kjötbollurnar og fær að eldast saman í nokkrar mínútur. Þannig fær sósan bragð frá bollunum og öllu góðgætinu sem er í pönnunni.


Spaghetti er soðið eftir leiðbeiningum í ríkulega söltuðu vatni þar til það er orðið al dente. Þá er vatninu hellt frá og smávegis af sósunni bætt saman við, þannig dregur pastað í sig sósuna og verður ennþá bragðbetra. 


Með matnum drukkum við prýðisgott spánskt Rioja Coto de Imaz frá því 2004. Þetta er gott vín - vín sem ég drukkið nokkrum sinnum áður - og meira að segja bloggað um áður. Varla neitt að því - reyni að smakka ný vín reglulega. Þetta er kraftmikið Rioja - þykkt á lit, dökk ber - vanillukeimur og kraftmikil eik enda hefur vínið fengið að liggja á amerískum eikartunnum um skeið.

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment