Sunday 1 March 2009

Stórgóður sunnudagsmorgunverður í nýja húsinu; Amerískar pönnukökur og eggs Ragnarict




Við erum búinn að búa í nýja húsinu í Annehem í rúma viku. Okkur hefur liðið vel. En það er búið að vera mikið af gera. Setja saman húsgögn - bæði gömul og ný - ég hugsa að ég myndi setja hraðamet í samsetningu IKEA húsgagna um þessar mundir, raða upp úr kössum - komum með 75 kassa til Svíþjóðar, taka til, taka til, taka svo til og síðan fara með í endurvinnsluna. Það er þvílíkt farganið af pappa sem fellur til við svona flutninga. Manni blöskrar hreinlega. Það mætti kalla einn svona flutning nánast náttúruhamfarir. Það eru allir á fullu í kringum okkur. Alls voru sex hús afhent síðast liðin föstudag. Þar af fimm íslenskar fjölskyldur. Hér var einn íslenskur kollegi fyrir og ein bíður eftir að fá afhent í apríl. Þannig að við verðum sjö íslenskar læknafjölskyldur hérna á einum reit. Hálfkjánalegt, en á sama tíma huggulegt að þekkja alla nágrannana sína. Og þekkja þá vel...af þessum sjö, vorum við fjórir saman í bekk og höfum fylgst að í deildinni síðan 1998. Ein útskrifaðist árinu á undan og einn á eftir. Við höfum varpað því fram að breyta nafninu á götunni - Pukgranden - í Aðalstræti, það væri sennilega hægt enda fáir Svíar hérna til þess að mótmæla.

Tengdamóðir mín kom til okkar á fimmtudaginn og er búinn að vera fjandi dugleg að hjálpa til. Við erum svona að leggja lokahönd á þetta. Aðeins nokkrir kassar eftir, gluggatjöld á neðri hæðina og einstaka ljós sem á eftir að klára. Ætli við náum ekki að slútta þessu í vikunni. Það er mikilvægt að reyna að gera þetta allt strax annars er hætt við því að maður láti þetta danka alltof lengi. Ég setti aldrei upp ljós í eldhúsinu í Skaftahlíðinni - ekki í fjögur ár - hætti bara að taka eftir því að það stóðu tveir kóngabláir feitar snúrur útúr loftinu. Maður verður alveg blindur á svona. 




Ég er ferlega ánægður með eldhúsið mitt. Ég reyndi lengi að fá þá hjá NCC til að setja gaseldunartæki í eldhúsið en það var ekki tauti við þá komið - það mátti ekki einu sinni hafa ekki neitt þannig að ég gæti sett gashellur - þannig að ég valdi spanhellur - fékk Ittala pottasett með...nánast gefins. Eldhúsið er að drukkna í pottum. Alltént - hafði ég bitið það í mig að vera með gas - enda vanur því - endaði með að kaupa eldvél frá SMEG sem var á útsölu í fallegri verslun fyrir utan Helsingborg. Þannig að núna er ég drukkna í eldunartækjum - ekki bara í pottum.

Ég hef nefnt það í færslu áður að við erum búinn að gera það svona að hefð að gera pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Börnin elska að byrja daginn með þessu - þeim finnst líka gaman að hjálpa til. Valdís er orðin ansi lunkin við þetta. Villi - duglegur að hræra. Efnileg börn, finnst mér!

Ég keypti þessa koparpotta á markaði í Frakklandi í sumar. Þeir höfðu staðið inn í skáp í áraraðir og eftir því sem ég komst næst aldrei verið notaðir. Það þurfti smá vinnu að bóna þá upp aftur og hreinsa innan úr þeim. Mér finnst þeir vera fallegt skraut og svo eru þetta líka góðir pottar. Þungir og leiða vel hitann frá eldinum.




Ákvað að skella inn mynd af því sem ég kem til með að kalla kjarnorkukljúfinn - þvílíkt og annað eins hvað spanhellur eru öflugar. Það kom mér á óvart að sjá hversu hraðar þær voru að hita upp vatn og svoleiðis - næstum eins og hraðsuðuketill. Ætli spanið verði ekki notað mest í það - sjóða pasta og kartöflur.


Kaffibarinn okkar. Höfum átt þessa prýðis góðu kaffivél lengi - keypti hana í einhverju brjálæði eftir næturvakt með dönskum kollega - Ulrik Overgaard sem ég vann með á sínum tíma á bráðamóttökunni í Fossvogi. Hann er mikill gourmet og kaffibrjálæðingur. Brennir sínar eigin baunir. Hann fluttist einnig í nágrennið og býr utan við Lund í fallegu húsi í Vallakra með eiginkonu sinni Ingunni lækni og tveimur börnum þeirra. Hann lofaði mér einhvern tíma að kenna mér að brenna mitt eigið kaffi. Málverkið sem sést á myndinni gerði dóttir mín á námskeiði hjá Önnu Gunnlaugsdóttur frænku okkar og myndlistarkonu.


Það sést nú ekki mikið í eyjuna hérna. Hún var keypt í IKEA - ekki frá Myresjökök. NCC verslar við myresjökök sem er sænskt fyrirtæki. Ég fékk tilboð frá þeim í eyjuna - hvílíkt okur. IKEA eyjan var 5 sinnum ódýrari. Ég fæ ekki séð að það sé mikill munur. Myresjökök virðist límt en IKEA skrúfað. En skúffusystemið er alveg það sama. Kannski endist IKEA eyjan eitthvað skemur!

Stórgóður sunnudagsmorgunverður í nýja húsinu: Amerískar pönnukökur og eggs Ragnarict


Það eru nokkur atriði - kannski í raun eitt - sem mér finnst miklu máli skipta þegar maður er að gera amerískar pönnukökur. Það er að skilja hvíturnar frá eggjunum, rauðurnar fara beint ofan í deigið. En hvíturnar eru þeyttar þannig til þær hafa tvöfaldast. Þá er þeim bætt saman við - þannig fær maður loftkenndari pönnsur - sem drekka betur í sig sírópið.

Uppskriftin breytist helgi frá helgi - allavega hlutföllin. Ég á erfitt með að segja til um magn af hverju hráefni. Kannski 2-3 bollar af hveiti, 1 tsk salt, 2 msk sykur, 1-2 tsk lyftiduft, 2-3 egg, 2 msk jómfrúarolía og svo mjólk bætt saman þangað til að maður er komin með þykkt deig - sem minnir á vöffludeig eða lummudeig - þykkt þannig að það lekur hægt af skeiðinni í þykkum gullnum taumi. Eins og ég nefndi áðan - eru eggjahvíturnar þeyttar með smá salti þangað til tvöfaldað og blandað varlega saman við deigið, ekki hræra harklega, bara "fold them inn".

No comments:

Post a Comment