Sunday 22 March 2009

Pottþétt Penne með reyktum laxi, kapers og rauðlauk og heimagerðubaguette

Þennan rétt eldaði ég á laugardaginn var þegar við snérum heim til Lundar frá Sviss. Þetta var langur dagur. Vöknuðum um sex um morguninn og tókum okkur til. Ég hafði undirbúið morgunverðinn daginn áður, smurt samlokur og pakkað niður nokkrum drykkjum og ávöxtum. Þannig gátum við sofið aðeins lengur og í staðinn snætt morgunmatinn í lestinni frá Disentis. Þetta gekk allt stóráfallalaust fyrir sig nema hvað ég flaug niður tröppurnar á leiðinni útí í leigubilinn í eina hálkublettinum sem fannst á tröppunni. Lennti illilega á bakinu og úr mér allur vindur. Og í mér virðist nægur vindur. En hvað segja menn - fall er fararheill.

Fórum með lest frá Disentis til Chur - Alparnir skörtuðu sínu fegursta þennan morgun - glampandi sól og hvassir tindar. Í Chur var skipt um lest og ekið til Zurich meðal annars meðfram Zurichvatninu, þaðan til aðallestarstöðvarinnar í Zurich. Þar var skipt aftur um lest og út á flugstöð. Flogið til Köben og svo þaðan með lest til Lundar. 7 farþegar með 14 töskur. Gott að koma heim.

Okkur langaði öll í eitthvað gott að borða. Bróðir minn var búinn að vera tala um reyktan lax alla ferðina. Ég vildi eitthvað fljótlegt ... pasta. Það tók ekki langan tíma að leggja línurnar. Kjartan og ég fórum að versla. Hentum í brauð ... og úr varð ljúf kvöldstund. Allir þreyttir eftir langan dag en líka saddir og sælir. 

Pottþétt Penne með reyktum laxi, creme fraiche, kapers og rauðlauk og heimagerðu baguette

Þrjú hvítlauksrif voru skorin í næfurþunnar skífur og steikt með einum smátt skornum rauðlauk upp úr nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu. Þá er tveimur dósum af creme fraiche 15% bætt á pönnuna og einnig þremur matskeiðum af kapers. Þvínæst tveim matskeiðum af rjómaosti, salt, pipar, handfylli af smátt skorinni steinselju. Svo safi úr hálfri sítrónu, 1-2 tsk af strásykri. Ég keypti eldislax - 400 gr - norskan og afar ljúffengan. Spaghetti var soðið samkvæmt leiðbeiningum í miklu söltuðu vatni. Þegar það var al dente var vatninu hellt frá, sósunni blandað saman við og þá laxinum sem hafði verið skorinn niður í strimla. Skreytt með ferskri steinselju.


Gerði heimagert baguette. Gerði þetta eftir uppskrift sem ég hef oft sett hérna á netið. Pakki af geri er vakin í 250 ml ylvolgu vatni með 2 msk af strásykri. 600-700 ml hveiti sett í skál, smávegis af salti og 2-3 msk jómfrúarolía. Þessu svo blandað saman og hnoðað í nokkrar mínútur. Leyft að hefast í klukkustund, þá er það lamið niður og klipið úr því og mótað í falleg baguette og leyft að hefast að nýju. Penslað með eggjablöndu (eitt egg, skvetta af vatni - hrært saman). Skorið í brauðið til að gefa því fallega áferð þegar það bakast. Með matnum drukkum við það sem var til ísskápnum. Við hjónin eigum venjulega alltaf til búkollu í ísskápnum. Fleiri og fleiri framleiðendur eru farnir að selja vínin sín í þessum pakkningum. Hentugt og ódýrt. Úrvalið í Systembolaget er talvert minna en maður á að venjast hjá ÁTVR. Við erum búin að prófa nokkrar hvítvínsbúkollur og sjálfum finnst mér best að eiga Chardonnay - það er auðvelt að gera þetta vín vel. Ég átti Drostdy-Hof Chardonnay Voigner 2008 sem er frá Suður Afríku og fékk ágætisdóma sem bestu kaupin í búkollum í Aftonbladet.se. Ég er sammála þeim að þetta er prýðisgott vín. Þetta er létt hvítvín, smá kryddað og með keim af sætum ávexti.

Bon appetit.

No comments:

Post a Comment