Eldaði þetta prýðisgóða rétt á laugardagskvöldið núna fyrir að vera tveimur vikum síðan. Hef ekki verið frumlegur síðustu daga í eldhúsinu - en það er haldbær skýring á því. Og hún er góð. Við fluttum inn í nýja húsið okkar síðastliðin föstudag. Ég hef oft áður sagt frá húsinu okkar. Það er staðsett í Annehem hverfinu í norður hluta Lundar. Kannski í 10 mínútna hjólafjarlægð frá sjúkrahúsinu þar sem ég vinn. Leikskólinn hans Villa er í næstu götu og skólinn hennar Valdísar í nokkra mínútna göngufjarlægð. Snædís hefur hafið störf sem sálfræðingur Alviva í Lundi - fyrirtækjaheilsugæsla sem sinnir m.a. starfsmönnum Sony Ericsson. Og það er líka í nágrenninu.
Það var mikið að gera síðasta föstudag. Þá fengum við afhent húsið, nýja eldvél í eldhúsið, gáminn sem við fengum rúma klukkustund til að tæma. Vorum bara tvö framan af að fleygja úr gámnum inn í hús. Fengum í lokin góða aðstoð frá Áskeli, Hrund, Guðbjörgu tengdamóður hennar Elvu, allt nágrannar okkar eða tengd þeim til að hjálpa með stærstu mubblurnar. Við vorum alveg úrvinda eftir daginn.
Ég hef aðeins náð að elda í nýja eldhúsinu - keyrði gamlar og góðar uppskriftir - sem ég hef áður sett hérna á vefinn; pasta með einfaldri tómatsósu, penne með reykt laxa karbónara, ofnbakaður kjúklingur með fullt af hvítlauk, entrecote með salsa og í kvöld grísakótelettur með steiktum sveppum og brie. Namminamm. En stefnan er sett hátt í nýja eldhúsinu - ég er með 2 ofna, 1 örbylgjuofn, 4 induction hellur og 6 gashellur - nóg af hnífum og allt til alls. Ég get ekki lýst því hvað hefur verið gaman að raða í eldhúsið - setja allt á sinn stað - raða upp matreiðslubókunum mínum. Núna verður eldað. Verð með myndasyrpu þegar allt er klárt.
Alltént - tilbaka að verkefni dagsins. Ég er alltaf að verða hrifnari og hrifnari af mat frá miðausturlöndum nær. Það er eitthvað við bragðið af mat sem er innblásinn frá þessum heimshluta; lamb, kanil, kúmen, múskat, sítrónur borið fram með flatbrauði, baunum eða kúskús - eða bara einhverju öðru - eitthvað djúpt við þessa rétti sem kemur manni á óvart - og það finnst mér vera skemmtilegt.
Kraftmiklar lambakjötbollur með matarmiklu fattoush salati, couscous og auðvitað góðu rauðvíni
Ég fann lambahakk í nærlægri verslun. Því miður ekki frá Íslandi - það verður þó að segjast að það var ekki auðvelt að nálgast lambahakk á Íslandi - ég var vanur að gera það sjálfur úr frampörtum sem ég keypti beint frá bónda. Allavega fékk ég lambahakk af Ný-Sjálensku lambi - það var ágætt en ekki eins "gamey" og kraftmikið eins og íslenskt lamb. Setti 800 gr í skál, 1 smátt skorinn rauðlaukur, hálf teskeið af kúmeni, salt, smá chilliduft, pipar, olía, egg, smá brauðmylsna, kóríanderduft, smátt skorinn hvítlaukur. Öllu blandað vel saman og steikt á pönnu þar til var búið að loka því. Þá sett í eldfast mót og klárað í ofni í svona 20 mínútur við 200 gráður. Borið fram á beði af romaine salati, með smátt skorinni rauðri papriku ofan á ásamt flatlaufssteinselju.
Með lambabollunum var borin fram köld sósa; tyrknesk jógúrt, smátt skorinn agúrka, steinselja, salt, pipar, ferskur sítrónusafi, smá síróp - oft gert svona áður og passar með ótrúlega vel með svona mat.
Með matnum var ég með fattoush salat. Þetta er salat fátæka mannsins þar sem hugmyndin er að endurnýta gamalt flatbrauð til að drýgja máltíðina. Ég átti ekkert gamalt brauð en hitaði tilbúið pitaflatbrauð í ofni sem ég síðan braut ofan í salatskál. Því næst gróft skorið Romaine salat, gróft skorna tómata, rauðlauk, papríku í nokkrum litum, ferskri steinselju og nokkrar radísur. Salatið er bragðbætt með dressingu úr nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu, sítrónusafa, 1 teskeið af sumac (fremur súrt krydd) og þurrkaðri myntu.
Með matnum var ég með cous cous - soðið samkvæmt leiðbeiningum og afar gott rauðvín. Peter Lehmann Barossa Shiraz frá því 2006. Þetta er ljúffengt ástralskt rauðvín - upprunið frá Barossa dalnum. Þetta er kraftmikið vín. Munnfyllir. Dökkt vín - sætur ávöxtur í nefinu og þykkt og ávaxtaríkt á bragðið. Gott vín. Fær góða dóma á vínáhugasíðum.
No comments:
Post a Comment