Sunday 15 February 2009

Stórgott penne pasta með Chorizopylsu, sólþurrkuðum tómötum, rjómaostiog góðu rauðvíni





Það styttist all verulega í að við fáum húsið. Vorum í svona "Visning" á föstudaginn, sem fólst í að sjálfstæður skoðandi fór yfir húsið. Kom með smávægilegar athugasemdir. Vonum að það verði ekkert meira en það. Verktakinn NCC sem byggði húsið hefur lent í vanda áður með hús í þessu hverfi - 2. september á síðasta ári var forsíðan á Sydsvenskan á þá veru að Annehem (hverfið okkar) væri dýrasti skandall í Svíþjóð í húsagerð - ég fékk tak fyrir hjartað. Það kom á daginn að okkar hús er byggt með öðrum hætti - breytti því þó ekki að maður varð aðeins órólegur ... en þó - verktakanum til tekna hafa þeir gert við það sem útaf hefur brugðið. Vonum bara að okkar hús sé laust við galla svona að mestu.

Við fengum okkur gönguferð eftir vinnu á fimmtudaginn, fórum niður í Saluhallen, sem er svona Delicatessen - kjötsali, fisksali, brauðsali, ostasali og svo að sjálfsögðu kebabbúlla. Kjötsalinn er alveg frábær. Hann gerir sínar eigin pylsur og það er ekkert smá úrval. Svíar elska pylsur - KORV - og eiga gott úrval af pylsum. Frægast er kannski Falukorv sem minnir einna helst á bjúga - eða medisterpulsu. Allavega keypti ég heimagerða chorizo pylsu -sem þýðir væntanlega að kaupmaðurinn hafi gert hana sjálfur- full af grísaketi, papriku, chilli, kryddi og fitu - dásamlegt. Sterkt og bragðmikil! Namminamm!

Veit ekki alveg hvaðan þessi hugmynd er kominn - það hefur áreiðinlega einhver gert eitthvað svipað. Allavega rímar liturinn af chorizo og sólþurrkuðum tómötum saman. Rjómaostur mildir hitann frá pylsunni og sveppirnir soga einhvern veginn allt upp og jafna bragðið. Ég hef aldrei gert þetta áður en ég á örugglega eftir að gera þetta aftur. Alltént tók þetta stuttan tíma.

 

Á myndunum sést glitta í nýjasta leiktækið mitt í eldhúsinu - nokkuð sem ég gaf sjálfum mér í afmælisgjöf eða bara í verðlaun fyrir að húka í héraði, einn, í tvær vikur - Kai Shun Ken Onion Chef's hnífur. Framleiddur með sömu aðferðum og samuraia sverð hér áður (segir í bæklingum - hvað veit ég). Mörg lög af stáli lögð saman. Gullfallegt tæki. Stórgott að vinna með. Hönnuðurinn fór milli margra veitingahúsa og fylgdist með kokkum áður en hann lagði upp með þessa hönnun.

Stórgott penne pasta með chorizopylsu, sólþurrkuðum tómötum, sveppum, rjómaosti með baguette og góðu rauðvíni

Fyrst skar ég sveppina niður í grófa bita og steikti upp úr smá hvítlauksolíu og lagði svo til hliðar. Síðan skar ég chorizo pylsuna og steikti hana upp úr sveppa-hvítlauksolíunni. Þá setti ég grófskorna sólþurrkaða tómata á pönnuna, síðan 150 gr af léttum rjómaosti, salt, pipar, sveppina aftur saman við. Þegar þetta hafði allt blandast saman þá stráði ég smá ferskri steinselju yfir.

Sauð gott pasta eins og lög gera ráð fyrir - þar til al dente - og blandaði svo saman við chorizorjómaostsósuna. Saltaði og pipraði og stráði þvínæst aðeins meira af ferskum kryddjurtum yfir.

Borið fram með góðu baguette - sem ég keypti volgt og nýbakað útí búð.

Vínið var lágstemmt og passaði kröftugum matnum vel. Trivento Malbec er vín frá Suður Ameríku - nánar tiltekið - Argentínu og er í billegari kantinum í Systembolaget. Alltaf gott að drekka góð vín - sem eru líka ódýr. Ljómandi ef mann langar til að fá sér samviskulítið tár í miðri viku. Passaði vel með matnum. Bragðgott vín - í ágætu jafnvægi, rauð vínber og jafnvel dáldið kryddað. 



Bon appetit!

No comments:

Post a Comment