Tuesday 3 February 2009

Ljúffengar gorganzoladekkaðar grísakótilettur með steiktum eplum ogljúffengu salati


Kom heim úr héraði á föstudagskvöldið. Er búinn að vera í héraði hérna í Svíþjóð síðastliðnar tvær vikur. Þetta var áhugaverður tími - en á sama tíma hálf einmannalegur - mikið að gera í vinnunni en svo þegar að vinnunni lauk - sat maður heima í herbergi las eða glápti á sjónvarp. Fyrstu vikuna var ég í Åmål og svo seinni vikuna í Bengtsfors. Þessir bæjir eru Dalarnas Land - mér skilst að myndin Ronja Ræningjadóttir hafi verið tekin upp á þessum slóðum. Skrapp á skíði eitt kvöldið - það var ágætt - ætlaði aftur - en það rigndi. Þetta var svolítil Bláfjallarstemming - Fínar en stuttar brekkur!

Strax eftir vinnu á föstudaginn ók ég frá Bengtsfors, sem liggur 40 km norðan við Vanern vatnið, beina leið til Lundar. Stoppaði einu sinni til að létta á mér. Fjögurhundruðþrjátíufimm kílómetrar. Ég hlustaði á útvarpið alla leiðina - hálf kjánalegt, sömu lögin á öllum stöðvum, kannski ein 12 lög - látin rúlla hring eftir hring. Þetta varð pínuþreytt þegar komið var fram á fimmta tíma í akstri - I was a boy eftir Beoyncie spiluð á 25 mínútna fresti. Hinar mínúturnar var það svo Kate Perry eða Leona Lewis eða hvað þetta heitir nú allt saman - maður var kominn með upp í kok.


Ég kom heim um níuleytið um kvöldið, Snædís hafði eldað kjúkling - ofnbakaðan með fullt af hvítlauk, baguette og gott rauðvín með - dásamlegt. Ég held ég hafi bloggað um þann rétt síðastliðið sumar. Algerlega meiriháttar. Fullkominn comfort matur. Ofboðslega var gott að koma heim! Réttinn sem ég er að blogga um núna gerði ég á laugardagskvöldið. Ég held að ég hafi aldrei bloggað um þetta áður - en ég hef gert nokkra rétti í þessum dúr. Ég er mjög hrifinn af svínakjöti - sem henntar vel þar sem þetta er ódýrasti maturinn sem er á boðstólnum.

Það er margt framundan hjá okkur hérna í Lundi - svona í prívat lífinu. Snædís, var að fá nýja vinnu, var ráðin sem sálfræðingur hjá fyrirtæki hérna í Lundi. Hún byrjar eftir nokkra daga. Hún er mjög spennt að byrja. Við fáum húsið okkar eftir nokkra daga. Það verður spennandi. Við erum búinn að búa í ágætri íbúð í miðbæ Lundar síðustu mánuði - það hefur verið þröngt en gengið lygilega vel. Það verður þó skemmtilegt að fá húsið. Ég verður að segjast að hlakka til að tyrfa garðinn, smíða pall, planta epla-, plómu- og perutrjám. Einnig er á döfinni að setja niður jarðaberjarunna - kollegi minn og fyrrum leiðbeinandi, Helga Ágústa innkirtlalæknir (dr. HÁS), segir að Carola jarðaber séu best - sjáum til hvernig fyrsta uppskera bragðast.

Ljúffengar gorganzoladekkaðar grísakótilettur með steiktum eplum og ljúffengu salati
Ég keypti ferskar svínakótilettur, niðursneiddar, penslaði þær með smá olíu, saltaði og pipraði, kryddaði með salvíu, rósmarín og örlitlu fennel og steikti örstutt - kannski mínútu á hvorri hlið - rétt þannig að loka þeim. Þá voru sneiðarnar lagðar í eldfast mót og þykkar sneiðar að gorganzolaosti (reyndar sænskum - ekki að það sé slæmt - Svíar fíla osta og er duglegir í ostagerð). Þetta var svo lagt inn í heitan ofn - 200 gráður - í um tuttugu mínútur þar til kótiletturnar voru eldaðar í gegn. Alger óþarfi er að hafa sósu með - osturinn þjónar því hlutverki.


Á meðan var meðlætið undirbúið. Ég skar niður 4 græn epli, þurrkaði, og steikti upp úr blöndu af smjöri og olíu ásamt rósmarín þangað til að þau fóru að taka lit og verða pínu gullin - aðeins karmelliseruð. Undir lokin blandaði ég svo ferskri flatlaufssteinselju. Mér finnst voðalega gott að vera með eitthvað sæt með svínakjöti - einhvern veginn finnst mér bragðið af svínakjöti kalla á það að því fylgi eitthvað sætmeti - oft er ég með góða sultu. Núna fengu eplin bæði að þjóna því hlutverki að vera meðlæti og sulta - allt í senn.

Valdís dóttir mín tók að sér að gera salat, grænt kál, papríka, tómatar, vínber og nokkrar ostsneiðar.

Með matnum drukkum við Montes Alpha Cabernet Sauvignion frá 2006. Ég man ennþá þegar ég ákvað að kaupa þessa tegund í fyrsta skipti. Það var snemma á ferli mínum sem "matgæðingur". Þá var ég að vafra í ríkinu og sá þegar starfsmenn ÁTVR voru af fylla á hillur. Þessar flöskur voru fluttar inn í viðarkössum - mér fannst það óhemjuflott. Veit ekki hvernig það er í dag, með kassana - en þetta var ástæðan fyrir því að ég keypti þetta í fyrsta sinn. Bragðið af víninu er síðan ástæðan að ég hef keypt það aftur og aftur - og notið þess sérlega vel. Þetta er stórt Cabernet Sauvignion - kraftmikið, munnfyllir, þungt á tungu, eikað og með löngu eftirbragði - kannsk myndu einhverjir segja að það væri full bragðmikið til að bera fram með svínakótilettum. En mér fannst þetta sóma sér mjög vel með matnum. Alltént leyfðum við engu - hvorki mat né víni. 

No comments:

Post a Comment