Showing posts with label sólþurrkuðum tómötum. Show all posts
Showing posts with label sólþurrkuðum tómötum. Show all posts

Tuesday, 21 February 2017

Safaríkur Miðjarðarhafsþorskur með jómfrúarolíu, ólífum, sólþurrkuðum tómötum og hvítlauk og skorðalía kartöflumús


Tíminn líður eins og engin sé morgundagurinn. Skömmu eftir áramót varð mér hugsað til þess hversu langt væri þangað til að við færum í skíðafrí - sem verður núna um næstu helgi, þann 25. febrúar. Mér líður eins og ég hafi í raun bara blikkað augunum og nú fljúgum við til Evrópu næsta laugardag. Mikið óskaplega getur tíminn verið fljótur að líða. Ég hitti um daginn eldri herramann sem kom til mín á stofu sem nefndi nákvæmlega það sama, hvað tíminn væri fljótur að líða! Ég vona að hann fljóti ekki hraðar áfram en þetta! 

En kannski er það bara teikn þess að maður hafi mikið að gera og að verkefnin sem maður er að sinna séu svo skemmtileg. Og vissulega er gaman. Og á sama tíma krefjandi! Það er ótrúlega gaman að vinna á Landspítalanum þrátt fyrir þau vandræði sem stofnunin stendur frammi fyrir. Það er líka mjög skemmtilegt að byggja upp sjálfstæðan stofurekstur. Kannski er ég bara að lýsa lúxusvandamáli. Lífið er vissulega skemmtilegt. 

En á meðan tíminn líður svona hratt er þá gott að hafa fljótlega rétti til að elda. 

Safaríkur Miðjarðarhafsþorkur með jómfrúarolíu, ólífum, sólþurrkuðum tómötum og hvítlauk og skorðalía kartöflumús

Mörgum finnst fiskur vera hversdagsmatur. Sjálfum finnst mér fiskur herramannsmatur. Kosturinn við fiskmáltíðir eru oftast að þær eru fljótlegar og þurfa ekki mikinn undirbúning. Það er oft þannig með fisk - það þarf svo lítið að gera við hann til að gera hann stórkostlega ljúffengan. Þetta voru þéttir þorskhnakkabitar sem ég sótti til vina minna í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum. 

Fyrir sex

1,2 kg þorskhnakkar
1 krukka kalamataólívur
75 g sólþurrkaðir tómatar
5 hvítlauksrif
500 ml jómfrúarolía
handfylli steinselja
hveiti
salt og pipar

1 kg kartöflur
100 g smjör
75 g spínat
100 ml mjólk 
5 msk hvítlauksolía
salt og pipar


Ég fékk Snædísi til að hjálpa mér til að skræla kartöflurnar. Lífið er auðveldara með svona góðan félagsskap.


Ég bragðbætti hveitið með hvítlaukssalti.


Olían var hituð á pönnu þangað til að hún varð 160 gráðu heit.


Ég notaði þessa ljúffengu olíu. Hún var ekki ofdýr. Svo má auðvitað geyma hana þangað til að maður steikir fisk aftur. 


Fiskurinn var svo steiktur í olíunni í 5 mínútur á hvorri hlið.


Svo er fisknum snúið.


Svo er bara að bæta sólþurrkuðum tómötum, ólífum, hvítlauknum á pönnuna og steikja áfram í tvær til þrár mínútur.


Þá er bara að setja fiskinn á diskinn. 


Svo er það skorðalía kartöflumúsin. Flysjið kartöflurnar og sjóðið í söltuðu vatni í 20 mínútur. Hellið vatninu frá og maukið, blandið saman við smjörinu, mjólkinni, hvítlauksolíunni og saltið og piprið. Hrærið svo spínatinu saman við. Hitinn frá kartöflunum mun svo mýkja spínatið. 



Prófið svo þetta ljúffenga vín með matnum, Simonnet Febvre Chablis frá því 2014. Þetta er vín frá Frakklandi - frá svæðunum í kringum bæinn Chablis. Þessi ljúffengu vín eru alltaf gerð úr Chardonnay þrúgum og hefur alla þá kosti sem Chardonnay þrúgur hafa að geyma. Vínið er fallega fölgult í glasi, ilmar af þykkum ávexti, með þéttum smjörkenndum sítrónukeim. Mjúkt eftirbragð.


Þetta var, sko, veislumáltið!

Bon appetit!

Sunday, 3 June 2012

Einn besti saltfiskréttur allra tíma með ólívum, kapers, sólþurrkuðumtómötum og skorðalía kartöflumús





Þennan rétt, sem á rætur að rekja til Miðjarðarhafsins, fékk ég í fyrsta sinn hjá nágrönnum mínum - Jóni Þorkeli og Álfhildi. Þau báru fram þennan dýrindisrétt gerðan úr íslenskum saltfiski og hann varð hreinasta lostæti! Kartöflumúsina fengum við þó ekki hjá nágrönnum okkar heldur bættum við því þegar við reyndum að líkja eftir réttinum þeirra.

Kartöflumúsin, skorðalía, er þó engan veginn mín hugmynd - því fer fjarri. Þetta er þekkt grísk uppskrift sem byggir á því að stappa heilmikið af hvítlauk saman við t.d. kartöflur, hnetur eða bleytt brauð. Það eru til margar uppskriftir af þessari "sósu" en rauði þráðurinn er auðvitað hvítlaukurinn og svo góð jómfrúarolía (sem er nánast kenniteikn grískrar matargerðar) og einhverslags sýra eins og edik eða sítrónusafi. Eins og gefur að skilja þá býður þetta upp á talsverða fjölbreyttni.

Ég smakkaði skorðalía fyrst þegar ég var strákur og þá vorum við í matarboði hjá vinafólki foreldra minna. Einn af gestunum hafði búið í Grikklandi og tekið með sér þessa uppskrift heim á Frónið. Öllum þótti mjög áhugavert að nota svona mikið af hvítlauk í kartöflumús! Hún var megn - en megn af hvítlauk - og mér fannst hún ótrúlega bragðgóð. En ég held að ást mín á hvítlauk hafi hafist þarna fyrir alvöru. Svo jókst hún bara við að alast upp á heimili mínu - móðir mín er forfallinn hvítlauksfíkill og svo virðist sem þessi fíkn erfist sem ríkjandi gen!



Einn besti saltfiskréttur allra tíma með ólívum, kapers sólþurrkuðum tómötum og skorðalía kartöflumús
Fiskurinn var fenginn frá Íslandi. Við vorum svo heppin að Álfhildur kom færandi hendi og gaf okkur rúmlega kíló af saltfiski. Svona nágranna þyrftu allir að eiga!

Ég byrjaði á því að skola fiskinn upp úr köldu vatni. Þurrkaði síðan. Þá var hann skorinn í bita, pipraður og velt upp úr hveiti.



Ég setti hvítlaukinn í matvinnsluvél og hakkaði fínt og blandaði saman við nokkrum matskeiðum af góðri jómfrúarolíu. Hvítlaukurinn var síðan notaður í kartöflurnar.



Hellti hvítlauksolíunni saman við kartöflurnar, ætli ég hafi ekki verið með 12-15 hvítlauksrif (hljómar mikið - er mikið - en er dásamlega gott!). Stappaði saman ásamt 2 msk af jómfrúarolíu, 1 msk af smjöri, salti og pipar. Setti einnig smá klípu af léttum rjómaosti og síðast, en ekki síst, safa úr hálfri sítrónu.



Næst var að steikja fiskinn. Ég gerði það síðast þar sem fiskurinn eldast afar hratt. Fyrst er að setja um það bil 1 sentimetra af olíu á pönnuna. Þegar olían er orðin heit (ca. 180 gráður), þá leggur maður fiskinn varlega í olíuna. Var með fiskinn 2 mínútur á hvorri hlið. Þegar ég var búinn að snúa saltfiskinum bætti ég kalamataolífum, sólþurrkuðum tómötum og kapers saman við og steikti með.



Tók fiskinn síðan upp úr olíunni með gataskeið, þannig að olían rann að mestu af fisknum. Raðaði á disk og stráði steinselju yfir.







Með matnum drukkum við þetta ljómandi góða hvítvín frá Uco dalnum í Argentínu, Trivento Golden Reserve Chardonnay frá því 2010. Þetta er góður sopi. Ilmar af fersknum ávexti og hefur léttan vanillukeim. Þurrt vín en hefur talsvert kröftugt ávaxtabragð og er aðeins eikað í lokin.



Það verður engin svikinn af þessari máltíð. Því get ég lofað!

Tími til að njóta!

Thursday, 26 January 2012

Safaríkar fylltar kjúklingabringur með einföldu salati og ofnbökuðugrænmeti

Kannski er þessi uppskrift eitthvað meira í áttina að þeim hollari lífstíl sem maður á að hefja ætti nýja árið með! Ég var eitthvað búinn að nefna það í síðustu færslum að ég ætlaði að stefna eitthvað í þá áttina. Þetta er kannski bara hálfa leiðina þangað, eða bara einn þriðja hluta leiðarinnar. Það er nú smá beikon í matnum - en bara örlítið! Hvað eru þrjár litlar beikonsneiðar á milli vina?

Það er auðvelt að fylla kjúklingabringur og það er hægt að fylla þær með hvaða góðgæti sem er. Mér datt þessi fylling í hug snemma um morguninn og gat því hlakkað til allan daginn til að koma heim um kvöldið og prófa þessa útgáfu.
Ég hef einhvern tíma áður gert svona fylltar bringur - og líklega hefur það ratað á bloggið mitt sömuleiðis. Uppskriftin var ekkert svo frábrugðin - hélt ég - þangað til að ég gáði núna þegar ég var að skrifa þessi orð - hélt ég um stund að ég hafði verið frumlegur - þó ekki nema í eitt augnablik. En hvað um það, fyllingin var aðeins frábrugðin, meðlætið annað og svo sósan - og svo tók ég myndir. Þannig að kannski sleppur þetta fyrir horn.

Safaríkar fylltar kjúklingabringur með einföldu salati og ofnbökuðu grænmeti



Ég útbjó einfalda fyllingu. Setti handfylli af kalamataólífum, 2-3 msk af niðurskornum sólþurrkuðum tómötum, 2-3 msk af fetaosti, 2-3 msk af niðurskornum basillaufum, álíka magn af rjómaosti, salt og pipar og blandaði saman með gaffli.



Fyrst er að skola af kjúklingabringunum og þerra með pappír. Þá skar ég lundina frá og lagði til hliðar. Þvínæst setti ég plastfilmu á brettið, aðra plastfilmu yfir og flatti út með kjöthamri.



Síðan lagði ég bringuna á plastbrettið og setti 2 msk af fyllingu á hverja bringu. Þá lagði ég lundina ofan á. Felldi síðan bringuna saman og vafði þremur beikonsneiðum utan um hverja bringu.



Til að gera þetta eillítið traustara stakk ég í þær nokkrum löngum tannstönglum - til að fyrirbyggja að þetta myndi detta í sundur við eldun.

Hitaði síðan pönnu, smá skvetta af olíu og steikti síðan bringurnar í 2 mínútur á hvorri hlið - rétt til að brúna beikinið áður en raðaði þeim í eldfast mót og bakaði þangað til að kjarnhiti náði 82 gráðum. Tók um 25 mínútur við 180 gráðu hita.



Grænmetið hafði ég gert á undan. Flysjaði kartöflur, gulrætur og setti í eldfast mót og bætti við nokkrum aspasstönglum sem ég átti. Velti grænmetinu upp úr smávegis af kraftmikilli hvítlauksolíu. Skar niður heilan hvítlauk og bætti við. Steikti svo grænmetið á gashellunni á nokkrar mínútur. Hreyfði það til aðeins svo það brynni ekki. Setti það síðan inn í heitan ofn og bakaði í 35-40 mínútur þar til fallega brúnað.




Sósan var afar einföld. Hafði hitað 250 ml af kjúklingasoði. Þegar kjúklingurinn var tilbúinn hafði runnið af talsvert af vökva sem ég hellti saman við sósuna. Setti síðan 50 ml af rjóma - leyfði suðunni að koma upp, saltaði og pipraði og þykkti með maizenamjöli.

Gerði einnig einfalt salat, bara blöndið grænlauf, tómata, agúrku og rauðlauk. Sáldraði smávegis af olíu og sítrónusafa, salti og pipar. Meira þurfti ekki.
Með matnum var drukkið ágætis hvítvín, Montes Sauvignion Blanc frá því árið 2010. Þetta er létt og gott vín frá Chile. Lyktin er ferskt, smá sítrónukeimur og ávöxtur. Létt sýrt á bragðið, ávaxtaríkt og þurrt. Ágætt eftirbragð.



Tími til að njóta

Sunday, 15 February 2009

Stórgott penne pasta með Chorizopylsu, sólþurrkuðum tómötum, rjómaostiog góðu rauðvíni





Það styttist all verulega í að við fáum húsið. Vorum í svona "Visning" á föstudaginn, sem fólst í að sjálfstæður skoðandi fór yfir húsið. Kom með smávægilegar athugasemdir. Vonum að það verði ekkert meira en það. Verktakinn NCC sem byggði húsið hefur lent í vanda áður með hús í þessu hverfi - 2. september á síðasta ári var forsíðan á Sydsvenskan á þá veru að Annehem (hverfið okkar) væri dýrasti skandall í Svíþjóð í húsagerð - ég fékk tak fyrir hjartað. Það kom á daginn að okkar hús er byggt með öðrum hætti - breytti því þó ekki að maður varð aðeins órólegur ... en þó - verktakanum til tekna hafa þeir gert við það sem útaf hefur brugðið. Vonum bara að okkar hús sé laust við galla svona að mestu.

Við fengum okkur gönguferð eftir vinnu á fimmtudaginn, fórum niður í Saluhallen, sem er svona Delicatessen - kjötsali, fisksali, brauðsali, ostasali og svo að sjálfsögðu kebabbúlla. Kjötsalinn er alveg frábær. Hann gerir sínar eigin pylsur og það er ekkert smá úrval. Svíar elska pylsur - KORV - og eiga gott úrval af pylsum. Frægast er kannski Falukorv sem minnir einna helst á bjúga - eða medisterpulsu. Allavega keypti ég heimagerða chorizo pylsu -sem þýðir væntanlega að kaupmaðurinn hafi gert hana sjálfur- full af grísaketi, papriku, chilli, kryddi og fitu - dásamlegt. Sterkt og bragðmikil! Namminamm!

Veit ekki alveg hvaðan þessi hugmynd er kominn - það hefur áreiðinlega einhver gert eitthvað svipað. Allavega rímar liturinn af chorizo og sólþurrkuðum tómötum saman. Rjómaostur mildir hitann frá pylsunni og sveppirnir soga einhvern veginn allt upp og jafna bragðið. Ég hef aldrei gert þetta áður en ég á örugglega eftir að gera þetta aftur. Alltént tók þetta stuttan tíma.

 

Á myndunum sést glitta í nýjasta leiktækið mitt í eldhúsinu - nokkuð sem ég gaf sjálfum mér í afmælisgjöf eða bara í verðlaun fyrir að húka í héraði, einn, í tvær vikur - Kai Shun Ken Onion Chef's hnífur. Framleiddur með sömu aðferðum og samuraia sverð hér áður (segir í bæklingum - hvað veit ég). Mörg lög af stáli lögð saman. Gullfallegt tæki. Stórgott að vinna með. Hönnuðurinn fór milli margra veitingahúsa og fylgdist með kokkum áður en hann lagði upp með þessa hönnun.

Stórgott penne pasta með chorizopylsu, sólþurrkuðum tómötum, sveppum, rjómaosti með baguette og góðu rauðvíni

Fyrst skar ég sveppina niður í grófa bita og steikti upp úr smá hvítlauksolíu og lagði svo til hliðar. Síðan skar ég chorizo pylsuna og steikti hana upp úr sveppa-hvítlauksolíunni. Þá setti ég grófskorna sólþurrkaða tómata á pönnuna, síðan 150 gr af léttum rjómaosti, salt, pipar, sveppina aftur saman við. Þegar þetta hafði allt blandast saman þá stráði ég smá ferskri steinselju yfir.

Sauð gott pasta eins og lög gera ráð fyrir - þar til al dente - og blandaði svo saman við chorizorjómaostsósuna. Saltaði og pipraði og stráði þvínæst aðeins meira af ferskum kryddjurtum yfir.

Borið fram með góðu baguette - sem ég keypti volgt og nýbakað útí búð.

Vínið var lágstemmt og passaði kröftugum matnum vel. Trivento Malbec er vín frá Suður Ameríku - nánar tiltekið - Argentínu og er í billegari kantinum í Systembolaget. Alltaf gott að drekka góð vín - sem eru líka ódýr. Ljómandi ef mann langar til að fá sér samviskulítið tár í miðri viku. Passaði vel með matnum. Bragðgott vín - í ágætu jafnvægi, rauð vínber og jafnvel dáldið kryddað. 



Bon appetit!