Sunday 8 November 2009

Gómsæt Galette pönnukaka með osti, skinku og steiktu eggi á erfiðumlaugardagsmorgni


Það var gott að koma heim til Svíþjóðar aftur. Þetta var ansi hressilegt frí á Íslandi þessa daga - ef frí skyldi kalla. Hittum nærri alla bæði vini og fjölskyldumeðlimi og það var einstaklega ljúft að sjá alla aftur. En það er full vinna að vera að hitta fólk alla daga - mörgum sinnum á dag. Einn daginn fékk ég þrjá hádegisverði - sem ef maður væri Hobbiti væri fullkomið, en fyrir þann sem langar að komast niður beltisgat er þetta þungur róður! En þetta var allt gaman samt sem áður - en ekki var mikið um hvíld þessa viku. Það má segja að maður hafi hvílt sig í vinnunni þessa síðustu vikuna. En það var samt indælt að koma á frónið - þessa ljósmynd tók ég síðasta sunnudagsmorgun í Lækjarkoti þegar við vorum að leggja í hann á leið á flugvöllinn. Það er ekki leiðinlegt að fylla hugann með minningum sem þessum. Fátt er fallegra en íslensk fjöll!

Bróðir minn, Kjartan, kom í heimsókn frá Köben og við erum búin að eiga ljúfa helgi hérna saman. Á fimmtudagskvöldið gerðum við íslenskt slátur - soðna og steikta lifrarpylsu og kartöflumús. Virkilega ljúffengt. Í okkar fjölskyldu er vaninn að bera fram rifsberjasultu með steiktu lifrarpylsunni - fyrir þá sem hafa ekki prófað þá er það sérstaklega ljúffengt...ég lofa!Á föstudaginn vorum við með ekta "comfort" mat - entrecote með ekta bernaise, hef bloggað um slíkt áður - sjá hér. Eftir matinn fórum við svo í næsta hús - til Signýjar Völu og Þóris manns hennar. Hún var með systur sína í heimsókn og pabba sinn. Það var dregin upp ákavítisflaska og þá fer sem fer. Morguninn eftir var því þörf á steiktu eggi - stundum krefur líkaminn bara um slíkt. Þá jafnar maður sig fyrr. Við fórum síðan í góða gönguferð um bæinn. Um kvöldið vorum við svo með lambahrygginn sem ég hafði smyglað frá Íslandi, fylltur núna með rósmarín og timian og niðursneiddum hvítlauk með sveppasósu a la mamma með rótargrænmeti, ekkert ólíkt því sem ég gerði síðustu viku, sjá hér. Í kvöld var svo flatbaka með afgöngum. Ljúffengt!

Annars var ég líka að sýsla við að gera kindakæfu eftir leiðbeiningum Helgu Sigurðardóttur úr bókinni - Matur og Drykkur - en breytti aðeins útaf með því að nota ekki mör og í stað þess mun minna magn af smjöri, meira af pipar og svo setti ég einnig hvítlauk í mína uppskrift. Sjáum hvernig rætist úr þessu.

Gómsæt Galette pönnukaka með osti, skinku og steiktu eggi á erfiðum laugardagsmorgni

Hráefnalisti

75 gr hveiti
75 gr grahamsmjöl
Salt
Jómfrúarolía
Lyftiduft
2 egg
400 ml mjólk
Ostur
Skinka

Þessi réttur sameinar ást mína á pönnukökum - sérstaklega crepes, bræddum osti og steiktu eggi. Fyrir mat á föstudaginn var ég að blaða í bók sem heitir Culinaria France og þar rakst ég á þessa uppskrift. Samkvæmt uppskriftinni í þeirri bók var kveðið á um að nota "buckwheat" sem að ég held að sé bókmjölshveiti - alltént þýðist það yfir á bovete og boghvede á sænsku og dönsku - ef ég hef rangt fyrir mér þá óskast leiðréttingar. Bókmjölshveiti er unnið úr grastegund ekki hveititegund ef ég hef skilið literatúrinn nógu vel. Þessi grastegund á uppruna sinn að rekja til Austurlanda og tóku Evrópubúnar vel á móti henni þar sem hún óx bæði hratt og var harðger. En hvað um það.

Ég átti ekkert bókmjölshveiti, þannig að ég blandaði bara saman venjulegu hvítu hveiti og grahamsmjöli, síðan skvettu af salti, olíu, smá lyftiduft, tvö falleg egg og svo næg mjólk og úr varð þetta fallega pönnukökudeig. Pönnukökupannan er hituð og við hliðina önnur til þess að steikja eggið. Þá er deigið sett á pönnuna í fremur þunnu lagi og á sama tíma er eggið sett á hina.

Samkvæmt uppskriftinni á kokkurinn að setja hreina fitu á pönnukökuna þegar búið er að snúa henni en ég ákvað í stað þess að setja ost, síðan nokkrar sneiðar af skinku og þvínæst er eggið sett ofaná. Brotið upp á kantana og steikt áfram þangað til að allt er orðið fallega brúnt. Borið fram með rjúkandi kaffi og góðum appelsínusafa.

Annars hef ég mikið verið að spá í bíómyndir þar sem matur leikur eitt af aðalhlutverkunum eftir að ég sá sýnishornið af Julia&Julie. Mér hefur dottið í hug mynd Stanley Tucci - Big Night, danska myndin Babette's gestebud, teiknimyndin Ratatouille, og svo Like water for Chocolat. Ef lesendum dettur fleiri myndir í hug væri ég þakklátur fyrir athugasemdir.

No comments:

Post a Comment