Sunday 13 July 2014

Flamberaðar pönnukökur með jarðaberjasírópi, ferskum jarðaberjum og þeyttum rjóma

Fyrir tveimur vikum var ég með innslag í helgarblaði moggans þar sem ég fjallaði um veislu sem ég hafði nýverið verið með. Þá var tengdafaðir minn, Eddi, og sambýliskona hans, Dóróthea, í heimsókn hjá okkur hérna í Lundi. Þau voru einstaklega heppin með veður og sólin lék við þau. Við gestgjafarnir reyndum að gera okkar besta að þeim liði sem best hjá okkur. 

Þau voru hjá okkur yfir langa helgi og það var frábært að hafa þau hjá okkur. Við brugðum okkur meðal annars til Kaupmannahafnar á laugardeginum og röltum um, settumst niður á nokkrum stöðum, og glugguðum í bókina Á Íslendingaslóðum í Kaupmannahöfn eftir Björn Th. Björnsson sem er stórmerkileg lesning. Hvet fólk til að kynna sér þessa bók - hún dýpkar gönguferðirnar um borgina til muna!

Eftir frábæran dag enduðum við svo á Litla Apótekinu á Stóra Kaninkustræti og fengum fullkomlega misheppnaða máltíð. Hún var svo glötuð að ég setti langa færslu inn á Tripadvisor um heimsókn okkar. Eigandi staðarins var svo móðgaður við gagnrýnina að hann sendi mér kvörtunarbréf um kvörtun mína - þvílíkt og annað eins - ég hló bara!  Allavega, sleppið því að fara þangað, það er úr nógu öðru að velja. 

Á sunnudeginum héldum við því veislu heima og buðum upp á þríréttaðan matseðil og meðal annars þennan ljúffenga eftirrétt. 


Flamberaðar crepes með jarðaberjasírópi, ferskum jarðaberjum og þeyttum rjóma

Hérna eru íslensku pönnukökurnar teknar í hæstu hæðir!

Fyrir fjóra

Fyrir pönnukökurnar
2 dl hveiti
1 msk sykur
1/4 tsk salt
1/4 tsk matarsódi
1/2 tsk vanilludropar
25 g brætt smjör
250 ml mjólk
2 egg
10 g smjör (aukalega)

Fyrir sírópið

75 g sykur
100 ml vatn
10 jarðaber
50 ml koníak

10 jarðaber
Þeyttur rjómi

Blandið þurrefnunum saman í skál. Hrærið egg og vanilludropa saman við ásamt mjólkinni. Bætið svo brædda smjörinu út í deigið og hrærið vel saman.Hitið smjör á pönnukökupönnu og bakið pönnukökurnar, 8-10 stykki.Setjið pönnukökurnar til hliðar.Hellið sykrinum á pönnu ásamt vatninu og hitið að suðu. Hrærið vel á meðan og gætið þess að allur sykurinn leysist upp. Skerið jarðaberin niður og bætið úr í sírópið og látið krauma þangað til að sírópið er þykkt.Setjið pönnukökurnar út á, eina í einu og brjótið upp á þær í ferninga.Hellið svo koníakínu á pönnuna og kveikið í. Gætið þess að brenna ykkur ekki! Raðið á disk, setjið umfram sírópið með á pönnukökuna. Raðið niðursneiddum jarðaberjum ofan á og skreytið með þeyttum rjóma.Njótið vel!

No comments:

Post a Comment