Friday 29 March 2013

Ljómandi ítalskt canneloni með heimagerðum ríkotta osti, spínati og tómatsósu

Við fengum góða gesti í heimsókn í Púkagrandann í Lundi. Tengdafaðir minn, Eddi, kom í hádeginu frá Íslandi ásamt uppáhalds frænku dóttur minnar, Petru. Valdís er mikið búin að hlakka til að fá frænku sína í heimsókn. Við ætlum að reyna að hafa gaman um páskanna. Á föstudaginn stefnum við yfir sundið og munum reyna að heimsækja nýja sædýrasafnið - Bláu plánetuna - sem nýlega opnaði dyr sínar. Á laugardaginn verður svo skotist í sundlaugina í Eslöv sem er afar vönduð og svo verður auðvitað almennt sælgætisát á sunnudaginn.

Ég trúi því að eitthvað verði á hlóðunum um hátíðirnar! Tengdafaðir minn stendur vaktina í kvöld og er með danskan "husmannskost" - ofnbakaða grísasíðu með karmelliseruðu hvítkáli. Á morgun verður svo sennilega heimagerðar flatbökur, á laugardaginn andaleggir á linsubaunabeði og á sunnudaginn, að sjálfsögðu, lambakjöt (hugmyndavinna ennþá í gangi). Við munum seint svelta!

Þennan rétt hef ég lengi ætlað að gera. Venjulega gerir maður þennan rétt með Bechamél sósu en rétturinn verður talsvert léttari við að gera bara tómatsósu í staðinn. Og verður sennilega ekki verri fyrir vikið. Það var engin ríkotta ostur til í búðinni þannig að ég tók bara á það ráð að búa hann til. Það er miklu einfaldara en margan grunar. Ekki þarf neinn ostahleypi (rennet) heldur einvörðungu sítrónusýru og svo salt eftir smekk - og svo tekur þetta ekki nema rétt rúman hálftíma!

Ljómandi ítalskt canneloni með heimagerðum ríkotta osti, spínati og tómatsósu

Það þarf að byrja að útbúa ríkotta ostinn. Þetta er ferskur ostur og tekur undravert stuttan tíma að gera.




Fjórir lítrar af nýmjólk settir í pott. Einni tsk af sítrónu sýru og einni tsk af salti bætt útí og hrært vel saman við.




Hitað að 90 gráðum. Tekið af hitanum og látið standa í fimm mínútur þangað til að osturinn skilur sig frá mysunni.



Hellt í gegnum gasbleyju og hengt upp í hálftíma til að þorna.



Það má láta ostinn hanga lengur til að þorna enn frekar.



Til að útbúa fyllingu þarf 250 gr af spínati. Setjið í skál.



Bætið við ostinum og svo handfylli af steinselju, tveimur til þremur msk af basil, nóg af salti og pipar. Blandið vel saman.




Næst er að útbúa tómatsósuna. Byrjið á því að taka einn stóran rauðan lauk -  smátt skorinn, fjögur stór hvítlauksrif hökkuð niður, steikt upp úr jómfrúarolíu þangað til mjúk. Bætti síðan við tveimur dósum af niðurskornum tómötum, þremur msk af tómatsósu, tveimur msk af balsamik ediki, salti og pipar. Soðið niður um 1/3 - tekur um 20 mínútur.


Penslið eldfast mót með olíu og setjið helminginn af tómatsósunni í botninn á mótinu. Fyllið síðan canneloni pastað með fyllingunni og raðið í mótið.


Lítur vel út, ekki satt?



Hellið síðan restinni af tómatsósunni yfir.




Sáldrið 150 gr af osti yfir tómatsósuna.



Bakið í forhituðum ofni, 180 gráður, í 30 mínútur þangað til að osturinn er gullinnbrúnn og girnilegur.


Borið fram með einföldu salati, heitum brauðhleif. Dreifið smá rifnum parmaosti yfir. 

Með matnum drukkum við tár af ítölsku víni sem ég hafði aldrei smakkað áður, Marchese Chianto Classico Riserva frá því 2008. Þetta var algerlega ljúffeng flaska - ætli ég hafi ekki fengið hana í gjöf frá einhverjum - þakka þeim! Þetta er berjaríkt og djúpt vín - í þurrari kantinum með ágætum tannínum. Þegar maður skoðar þetta vín á netinu fær það gjarnan yfir 90 punkta. 

Maturinn var einstaklega ljúffengur. Hvet alla til að prófa þennan rétt og endilega reynið að gera eigin ost.  Þið verðið ekki svikin!

Bon appetit!

5 comments:

  1. Þetta hljómar mjög vel. Mig langar að prófa ricottaostinn - er sítrónusýra eitthvað sem fæst bara í næstu búð?

    ReplyDelete
    Replies
    1. Sæl mooney.
      Í Svíþjóð er þetta selt í kryddhillunni! Apótek eða MS ættu líka að eiga þeeta til!

      Mbk
      Ragnar

      Delete
  2. Við hjónin vorum búin að ákveða að gera þennan rétt í kvöldmat. Lásum ekki alveg uppskriftina alveg *roðn* og við áttuðum okkur ekki alveg á sítrónusýrunni. En við fórum í Hagkaup og keyptum vínsýru -er hjá kryddunum- bættum smá sítrónusafa út í og þetta heppaðist frábærlega. En við þurftum að nota næstum 1 msk vínsýru :)

    Takk fyrir frábært blogg, við hjónin erum miklir aðdáendur...


    K.kv Þórunn

    ReplyDelete
    Replies
    1. Sæl Flintbakken

      Gleður mig að heyra að þetta hafi heppnast vel.

      Það er ekkert mál að panta vörur frá - The New England Cheese Queen - og fá þannig sítrónusýru og rennet töflur til að byrja hina einföldu ostagerð sem ég hef lýst hérna á blogginu mínu!

      Takk fyrir að kíkja við og takk fyrir að skilja eftir athugasemd!

      Fátt gleður meira manns heimska hjarta en slíkt!

      mbk, Læknirinn í Eldhúsinu - Ragnar

      Delete
  3. Apótek prófa það næst. Fór í Hagkaup,Bónus og Krónuna að leita að þessari sítrussýru enginn vissi einu sinni hvað þetta er.

    ReplyDelete