Monday 1 April 2013

Holl hleypt egg - ný aðferð - á heitri bollu með plómutómat, osti og skinku

Ég er geysilega hrifinn af eggjum. Ég veit vart betra hráefni en egg. Soðin, steikt, hrærð, bökuð og hleypt og allt þar á milli. Fjölbreytileikinn er óendanlegur. Ég hef margoft síðustu ár gert hleypt egg og oftast nær heppnast vel. Að gera hleypt egg er fólgið í að setja hrátt egg í létt sjóðandi vatn - án skurnar að sjálfsögðu. Eggið á til að losna upp og ráðleggja kokkabækur að bæta salti og ediki í vatnið til að eggjahvítan haldist betur saman. Einnig að þeyta hringiðu í vatnið til þess að eggið snúist upp í sig. Heston Blumenthal vill að maður lækki hitann og setji bara undirskál í botninn til að verja það hitanum. Allar aðferðirnar virka svosum þokkalega. Svo sá ég þessa aðferð - pottþétt!

Ég sá þetta hjá Ástu og Pétri sem eru matarbloggarar og eru með heimasíðuna Matur og með því. Mér fannst þetta svo fyrirtaks góð hugmynd að ég bara varð að prófa og miðla svo hugmyndinni. Ég get ekki betur séð en þetta hafi heppnast ágætlega, þó kannski vanti eitthvað upp á fagurfræðina í samanburði við þau hjónin!

Holl hleypt egg - ný aðferð - á heitri bollu með plómutómat, osti og skinku

2 egg
Plastfilma
Olía/brætt smjör
Salt og pipar
Brauð
Tómatur
Ostur
Skinka

Mjög sniðugt! Aðferðin byggir á því að elda eggin í plastfilmu sem tryggir að halda þeim saman þannig að þau leysast ekki upp.


Eina sem þarf er venjuleg plastfilma - hún á ekki eftir að bráðna - til að umlykja eggið.



Setjið plastfilmuna í bollann, penslið með smá olíu eða bræddusmjöri. Brjótið svo eggið ofan í bollann. Saltið og piprið eftir smekk. 



Lokið svo plastfilmunni með þræði.


Hitið vatn í potti - 80-90 gráður. Tyllið egginu úti og sjóðið  í fjórar til fimm mínútur eftir stærð eggsins. 


Veiðið svo eggin upp úr vatninu, klippið plastfilmuna af og berið fram eins og hugurinn girnist.


Ég hitaði brauðbollu í ofni, smurði síðan með dijionaise, þá skinkusneið, nokkrar sneiðar af osti, þykkar sneiðar af plómutómat og svo auðvitað hleypt egg!

Ljúffengt! Takk fyrir mig Pétur og Ásta.

Bon appetit!




No comments:

Post a Comment