Sunday 7 April 2013

Seðjandi Chilli con carne með nachos, sýrðum rjóma og fersku kóríander - revisited


Við fengum góða gesti um páskahelgina. Tengdafaðir minn, Eddi, kom í heimsókn. Hann hafði gefið Petru, barnabarni sínu, heimsókn til okkar í Lundi í fermingargjöf. Petra og Valdís dóttir mín hafa síðan þær voru litlar verið miklar vinkonur. Þau stöldruðu hjá okkur í vikutíma og þær skemmtu sér afar vel saman. Þær voru sérstaklega liprar við að hjálpa til í eldhúsinu sem og hjálpa til við að sjá um örverpið á heimilinu, Ragnhildi Láru. 

Þær prófuðu að baka muffins, eitt ljúffengt fléttubrauð sem var alveg með eindæmum gott og svo voru þær mér innan handar við að gera þetta Chilli con carne, sem Vilhjálmur sonur minn, óskaði sérstaklega eftir þegar við vorum á leiðinni úr sundferð í Eslöv á annan í páskum. Það varð því úr að við unnum að þessu verkefni öll saman - ég og börnin. Og heppnaðist svona ferlega vel!



Seðjandi Chilli con carne með nachos, sýrðum rjóma og fersku kóríander - revisited

Hráefnalisti

2 hvítir laukar
6 hvítlauksrif
2 msk jómfrúarolía
2 sellerístangir
2 gulrætur
1 rauður chilli
1,2 kg nautahakk
2 kanilstangir
1/2 rauðvínsflaska
2 tsk mulið koríander
2 tsk mulið broddkúmen
2 msk nautakraftur
2 dósir niðursoðnir tómatar
4 msk tómatpaste
2 tsk Worchestershire sósa



Það fengu allir verkefni, ég þurfti ekki að gera mikið sjálfur annað en rétt verkstýra þessum duglegu krökkum.


Fyrst voru tveir hvítir laukar og sex hvítlauksrif skorin smátt niður og steikt í jómfrúarolíu í stórum potti. Þegar laukurinn var orðinn gljáandi var tveimur smátt skornum sellerístönglum og tveimur smátt skornum gulrótum bætt saman við og steikt í smástund.


Bætti síðan við heilum rauðum chilli - sem ég hafði þó kjarnhreinsað.


Næst var að setja nautahakkið saman við. Ætli ég hafi ekki verið með 1200 gr af hakki fyrir þessa uppskrift. 


Bætti síðan við tveimur kanelstöngum og lét sjóða með allan eldunartímann. 


Svo tvær teskeiðar af muldu koríander og svo tvær af muldu broddkúmeni. Hrært vel saman.



Svo settum við hálfa rauðvínsflösku saman við og suðum upp. 

Því næst er tveimur matskeiðum af góðum nautakrafti bætt saman við og svo tveimur dósum af niðursoðnum, hökkuðum tómötum og fjórum matskeiðum af tómatpaste og síðast en ekki síst tveimur teskeiðar af Worchestershire sósu.

Suðunni er leyft að koma upp aftur og soðið við lágan hita með lokið á í 1eina til tværklukkustundir. Þegar um tíu til fimmtán mínútur eru eftir af eldunartímanum er bætt við tveimur dósum af rauðum nýrnabaunum - vökvanum hellt frá - bætt saman við. Saltað og piprað eftir smekk.


Borið fram skreytt með sýrðum rjóma og fersku kóríander á beði af nachosflögum - og um að gera að hafa auka kóríander svo að fólk geti bætt við. Einnig var ég með limebáta þannig að hægt var að kreista ferskan limesafa yfir chilliið.

Með matnum drukkum við smá rósavín. Þetta var létt og gott vín, ískalt úr ísskápnum. Gert úr grenache þrúgum þar sem hýðið fær að liggja á safanum í sólarhring til að gefa víninu sinn rósableika lit. Ávaxtaríkt og frískandi.


Ég borðaði algerlega yfir mig og var saddur langt fram á næsta dag. Og Villi sem hafði lagt fram óskina um þennan rétt - gaf honum "two thumbs up"!

Bon appetit! 

3 comments:

  1. Við borðuðum líka yfir okkur http://tispis.blogspot.com - takk kærlega fyrir frábæra uppskrift!

    ReplyDelete
  2. Uppáhaldsréttur á mínu heimili. Takk

    ReplyDelete
  3. Kanelstangirnar gerðu útslagið. Sérstaklega gott innlegg í þennan rétt. Frábært að sjá krakkana taka þátt í matargerðinni.

    ReplyDelete