Thursday 14 March 2013

Seðjandi skánsk eggjakaka með fleski og títuberjasultu


Fyrir rúmri viku var vor í lofti, túlipanar farnir að skjóta upp kollinum upp úr grárri vetrarjörðinni og manni létti í lund. Í byrjun vikunnar birtust síðan fréttir á að við ættum bara að gleyma vorinu þar sem veturinn væri kominn aftur. Lán í óláni. Ég kann nefnilega ekkert svo illa við veturinn. Fæ því nokkrar vikur til viðbótar með arininn minn í gangi og almenn kósíheit! Ekki svo dapurlegt!

Þessi réttur er eiginlega á mörkunum að vera álitlegur bloggréttur - þetta er skánskur heimilismatur eins og hann gerist klassískastur. Og síðustu misseri hefur sænskur matur, svona af gamla skólanum, verið að komast aftur í tísku. Veitingastaður sem sérhæfa sig í að elda fransk-sænskan heimilismat hafa skotið upp kollinum í mörgum borgum og orðið mjög vinsælir.

Og sænsk matargerð sækir margt í smiðju Frakka og þessi réttur, þó einfaldur sé, endurspeglar einn franskan rétt sem mér hefur alltaf fundist skemmtilegur - souffle! Margir segja að það að gera souffle sé flókið en þessi útgáfa sannar hið gagnstæða. Og þessi útgáfa er mun einfaldari - þegar souffle eru gerð þá blandar maður þeyttum eggjahvítum við eggjabúðing (custard) og bakar þannig að deigið rísi fallega upp úr forminu. Hérna er svindlað talsvert - enda ekki skrítið - þessi réttur varð til í fátækt og í eldhúsum ómenntaðra kokkar - en ekkert síðri fyrir vikið! Þessi réttur er góð æfing að hinu fullkomna franska souffle!

Seðjandi skánsk eggjakaka með fleski og títuberjasultuHráefnalisti

5 dl hveiti
7 egg
1 - 1/2 tsk salt
Pipar
7 dl mjólk
1 dl rjómi

Meðlæti

500 gr beikon
Títuberjasulta
Létt salat

Þetta er ákaflega einföld eldamennska. Fyrst er að setja fimm dl af hveiti í skál, svo sjö egg, eina til eina og hálfa tsk salt, nóg af pipar, ásamt sjö dl af mjólk og einum dl af rjóma (setjið helminginn af vökvanum fyrst - hrærið og setjið svo restina). Það mætti alveg krydda eggjakökuna meira - en ég ákvað að fylgja hefðinni.


Það skiptir máli að krydda vel - þ.e.a.s. vera ófeiminn við salt og pipar því að það er ekkert annað sett í upprunalegu uppskriftina til að gefa þessu bragð. Bragðið kemur með fylgihlutunum.


Það skiptir miklu máli að smyrja formið vel með smjöri eða olíu til þess að deigið nái að lyfta sér og ekki festa sig við formið! Setjið svo inn í 225 gráðu forhitaðan ofn og bakið í 20-25 mínútur.


Deigið lyftir sér fallega og tekur á sig fallega gullinn lit. Það hefði einnig verið hægt að elda kökuna í smærri formum og þá myndi deigið lyfta sér jafnar.


Ég keypti hraustlegan bita af síðufleski. Sumir myndi kalla þetta beikon en þessi biti er ekki reyktur heldur bara pæklaður og þess vegna kallast hann bara síðuflesk hér í Svíþjóð. En hvað um það!


Ég sneiddi niður bitann í heldur þykkar sneiðar.


Beikon (eða síðuflesk) í öllum sínum ljóma. Einu sinni var ég á veitingastað í Boston og þjóninn var að kynna matseðilinn og lét falla þessi fleygu orð "bacon ... is there anything it can't do?" (sagt með draumkenndri röddu og sæluaugum!)


Steikti fleskið á pönnu og raðaði síðan á svona litla pönnu til að halda því heitu. 


Raðað á disk; væn sneið af eggjakökunni, 4-5 sneiðar af fleski, góður skammtur af fersku salati og svo matskeið af títuberjasultu (lingonsylt). 

Herlegheitunum er síðan skolað niður með köldu glasi af mjólk! 

Bon appetit! 

No comments:

Post a Comment