Wednesday 25 January 2017

Einfaldasta og langbesta kartöflugratínið - hlaðið að fullu!


Ég hreinlega elska kartöflugratín. Ég veit eiginlega fátt betra meðlæti með góðum kjötbita. Og ég veit fyrir víst að það eru margir sem deila ástríðu minni á þessum unaðslega rétti. Auðvitað gæti hann staðið sem sjálfstæður réttur, kannski borinn fram með léttu salati til að mæta öllum kolvetnunum og rjómanum einhversstaðar á miðri leið. En mér finnst það best sem meðlæti með góðum kjötbita eins og t.d. þessum hérna.

Kartöflurnar komu til Evrópu, fyrst til Antwerpen í kringum 1562 og dreifust um Evrópu í kjölfar þess. Ætla má að hún hafi borist til Frakklands í lok sextándu aldar og náði mikilli útbreiðslu í lok átjándu aldar þar sem hún þótti henta vel til ræktunnar og var skrifað að fátækum þætti hún góð og hún kom í stað næpunnar og rófunnar.

Kartöflugratín sem réttur á sér nokkuð langa sögu. Fyrstu heimildir um hann eru 12. júlí 1788 þar sem hann var borinn á borð í veislu á vegum Charles-Henri, hertoga af Clermont-Tonnerre og herforingja Dauphiné sem er í frönsku Ölpunum. Rétturinn kallaðist þá Dauphinoise kartöflur og var gerður úr sýrðum rjóma eins og Frökkum er von og vísa. Í fyrstu uppskriftum var ekki notaður ostur en Frakkar voru ekki lengi að fullkomna réttinn.

Auðvitað eru svo til margar uppskriftir af gratíni. Það má að sjálfsögðu skipta hluta kartaflanna út fyrir blómkál, gulrætur, seljurót, sætar kartöflur, jafnvel hvítkál. Persónulega myndi ég alltaf nota venjulegan rjóma. Ef maður ætlar að borða gratín þá fer maður alla leið.

En ætla að það væri ekki óskynsamlegt að fara aukaferð í ræktina til "að eiga inni á reikningum" fyrir þessari dásemd.

Einfaldasta og langbesta kartöflugratínið - hlaðið að fullu! 

1,2 kg kartöflur
50 g smjör
750 ml rjómi
2-3 skalottulaukar
3 hvítlauksrif
2-3 msk hvítlauksolía
nokkrar greinar ferskt timjan
salt og pipar
góður harður ostur (t.d. Óðals-Tindur)



Auðvitað þarf að byrja á því að flysja kartöflurnar.


Svo þarf að smyrja formið með mjúku smjöri. Ég kreisti einnig tvo eða þrjú hvítlaukrif og smurði eldfastamótið með þeim að innan.


Ég skar kartöflurnar með mandólíni þannig að ég fékk sneiðarnar allar jafnþunnar. Svo er bara að raða þeim upp lag fyrir lag. Svo þarf að pensla af og til með hvítlauksolíu (meira er eiginlega alltaf betra) 


Af og til er líka ljómandi að setja með smáræði af afar þunnt skornum skalottulauk. Og það er mikilvægt að salta og pipra á milli kartöflulaga.


Svo er það rjómi - nóg af alvöru rjóma. Mér finnst langbest að nota alvöru rjóma í gratínið. Ef maður ætlar að gera gratín - þá gerir maður alvöru gratín og nýtur þess. 



Næst er að rífa handfylli af ljúffengum osti yfir kartöflurnar og dreifa honum vel.


Hitið ofninn í 180 gráður og bakið gratínið, fyrst undir álpappír til að brenna ekki ostinn, í 45 mínútur. Svo er álpappírinn tekinn af og osturinn látinn brúnast í kortér í viðbót. 


Svo er ekkert annað en að bera þessa dásemd fram. 

Ég er alveg handviss um að þetta gratín er eitt það besta sem þið munið smakka. 

3 comments:

  1. Yamm,lools delitious😁👌thanks for guidance

    ReplyDelete
  2. Dásamlega gott. Ég bætti viđ þunnum sneiđum af hvítlauksosti á milli laga og setti eitt lag af sveppum efst. Algjörlega delissimo, guđdómlega gott!

    ReplyDelete
  3. Takk fyrir leiðbeiningarnar Ragnar.
    @Andrea Ólafsdóttir
    Athyglisverð hugmynd að setja hvítlauksostinn á en verður það ekki of mikið að setja lag af sveppum?

    ReplyDelete