Tuesday 17 January 2017

Rósmarín-stjaksett langa með rauðlauk, hvítvíni og kirsuberjatómötum

Ég var að blaða í bókinni minni, Veislunni endalausu, sem kom út fyrir jólin 2014 og rifjaði þá upp þessa uppskrift sem ég hafði ekki gert um alllangt skeið. Það var því tilvalið að rifja þessa uppskrift upp.

Rósmarín-stjaksett langa með rauðlauk, hvítvíni og kirsuberjatómötum

Rósmarín tengir maður einna helst við kjötrétti, en ég hef verið að prófa mig aðeins áfram með að nota það með fiski. Fyrst með skötusel og var alls ekki svikinn. Og það er í raun ekkert mál að nota skötusel í staðinn fyrir löngu í þennan rétt – það kemur bara aðeins meira við budduna.

Blálanga er fiskur sem hentar ákaflega vel að snöggelda því að hún heldur sér vel og minnir gjarnan á steik undir tönn þegar rétt hefur verið farið með hana. Lengi vel var þessum gómsæta fiski hent þegar hann kom í veiðarfærin þar sem hann var ekki talinn hæfur til manneldis. Sem betur fer höfum við þroskast – ekki bara sem veiðiþjóð heldur líka sem nautnaseggir. Og blálangan fellur sko vel að því!

Fyrir fjóra

800 g langa
8 rósmaríngreinar
6-8 msk hveiti
salt og pipar
1 rauðlaukur
1 hvítlauksrif
4 msk jómfrúarolía
1 hvítvínsglas
safi úr hálfri sítrónu
1 msk smjör
400 g kirsuberjatómatar


Skerið rauðlauk og hvítlauk smátt og steikið í olíunni þar til hann er mjúkur og glansandi. Setjið til hliðar.

Skerið fiskinn í fjóra bita. Tálgið rósmaríngreinarnar þannig að annar endinn verði hvass líkt og spjót.

Stingið svo rósmarínspjótunum langsum eftir fiskstykkjunum. Saltið og piprið.

Veltið fisknum upp úr bragðbættu hveiti (með salti og pipar) og steikið í tvær til þrjár mínútur upp úr olíu á hvorri hlið á vel heitri pönnu.

Bætið tómötunum á pönnuna og setjið laukinn aftur út í.

Hellið hvítvíni yfir og sjóðið upp áfengið. Bætið sítrónusafa við og svo smjöri.
Berið fram með nýjum kartöflum og góðu hvítvíni.

No comments:

Post a Comment