Showing posts with label kirsuberjatómatar. Show all posts
Showing posts with label kirsuberjatómatar. Show all posts

Sunday, 11 November 2018

Kjúklingur Milanese með spaghetti og tómatsósu gerða frá grunni úr íslenskum tómötum!


Síðastliðna daga hef ég verið í Svíþjóð að vinna að doktorsverkefni mínu við Háskólann í Lundi. Á miðvikudagsmorgun stóðst ég miðbiksmat og fékk leyfi til að halda áfram að vinna að verkefninu. Það voru ánægjuleg tímamót og mér var mikið létt. Þetta hefur verið ansi langt ferðalag - og það er nú formlega hálfnað. Það verður spennandi að halda áfram með verkefnið á Íslandi. 

Það verður því eitthvað reynt til að halda upp á þennan áfanga þegar heim verður komið. Þessi réttur er alveg kjörinn - þar sem hann er sérlega ljúffengur og fremur fljótlegur, svona miðað við margt annað. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég skrifa um þennan rétt. Þegar bloggið mitt var ársgamalt, í desember 2007, eldaði ég hann í fyrsta skipti. Og ég eldaði hann eiginlega bara af forvitni þar sem mér fannst þessi samsetning - djúpsteikt kjúklingabringa og spaghetti saman eiginlega stórfurðulegt. En viti menn - Ítalar vita sínu viti þegar það kemur að matargerð - þetta var sérstaklega ljúffengt. 



Og nú prófaði ég að elda sósuna frá grunni úr íslenskum tómötum! 

Kjúklingur Milanese með spaghetti og tómatsósu gerða frá grunni úr íslenskum tómötum! 

Hráefnalisti fyrir 4 

4 kjúklingabringur
handfylli hveiti
4 egg
brauðmylsna (helst heimagerð)
1/2 tsk hvítlauksduft
salt og pipar
olía til steikingar

500 g krisuberjatómatar
2 skalottulaukar
2 hvítlauksrif
handfylli ferskt basil 
1 kúfuð teskeið tómatpúré
50 ml rjómi
salt og pipar

400 g spaghetti 
eins mikið af parmaosti og mann lystir
basil til skreytingar


Ég verð að játa að sósuna hafði ég gert áður. Þannig er mál með vexti að í lok sumar áskotnaðist mér kílóavís af dásamlegum, ferskum, íslenskum tómötum sem við notuðum í tengslum við tökur á þáttunum, Lambið og miðin, sem verða sýndir í vetur á Sjónvarpi Símans. Auðvitað vildi ég ekki að neitt af þeim færu til spillis svo ég bjó ég til sneisafullan pott af tómatsósu og setti í poka og geymdi í frysti fyrir seinni tíma. Og nú var sá tími kominn! 

En sósan er nauðaeinföld. Bara að skera niður laukinn og hvítlaukinn og steikja við miðlungshita í nokkrar mínútur þangað til að hann verður mjúkur. Svo er tómötunum, niðurskornum, bætt saman við og þeir steiktir í nokkrar mínútur. Þá eru þeir maukaðir með kartöflustöppu og smá vatni er bætt saman við. Handfylli af fersku basil er sett út í ásamt salti og pipar. Sósunni var svo leyft sjóða niður í 30 mínútur við lágan hita. Deildi henni svo niður í poka og frysti. 


En nú var kominn tími til að nota sósuna. Skellti henni beint í pottinn með smá skvettu af vatni og hressti sósuna við með teskeið af tómatpúre. Meira þurfi ekki! 


Svo var bara að grípa töfrasprota og mauka sósuna vandlega. Lét hana svo krauma við lágan hita á meðan ég sinnti kjúklingum og pastanu. 


Ég byrjaði á því að fletja kjúklinginn út með kjöthamri þannig að bringan var jafnþunn. Svo velti ég henni upp úr hveiti sem ég hafði bragðbætt með hvítlauksdufti, salti og pipar. Því næst var bringan færð yfir í eggin sem ég hafði hrært saman og bragðbætt með því sama og fór í hveitið. Það skiptir máli að bragðbæta bæði hveitið og eggin. Þannig verður kjúklingurinn mun bragðmeiri. 
Svo lagði ég bringuna í brauðmylsnu (brauð sem hafði orðið afgangs úr heimsóknum í Brauð & Co svo að hún var líka einkar ljúffeng). 


Svo var kjúklingabringan steikt upp úr heitri olíu þangað til að hún var elduð í gegn. Fékk að hvíla í nokkrar mínútur á meðan pastað var klárað.


Pastað var soðið í söltuðu vatni þangað til að það var al dente og þá var vatninu hellt frá og því bætt saman við sósuna. 


Þá var ekkert annað að gera en að raða á disk. Snéri pastanu upp á kjötgaffal og bjó til fallega spaghettipylsu.


Með matnum nutum við flösku af víni frá Rioja, The invisible man,  sem er framleitt af Casa Rojo sem er vínframleiðandi sem við heimsóttum nú á dögunum þegar við vorum að taka upp þættina, Ferðalag bragðlaukanna, sem eru við það að fara í sýningu á Sjónvarpi Símans. Verða frumsýndir í línulegri dagskrá þriðjudaginn 20. nóvember næstkomandi. En vínið er einkar ljúffengt - ávaxtaríkt með ljúfum kryddtónum á tungu. Passaði vel með matnum. 


Það var gaman að elda þennan rétt aftur - alltof langt síðan síðast.

Bon appetit!

 -------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Tuesday, 17 January 2017

Rósmarín-stjaksett langa með rauðlauk, hvítvíni og kirsuberjatómötum

Ég var að blaða í bókinni minni, Veislunni endalausu, sem kom út fyrir jólin 2014 og rifjaði þá upp þessa uppskrift sem ég hafði ekki gert um alllangt skeið. Það var því tilvalið að rifja þessa uppskrift upp.

Rósmarín-stjaksett langa með rauðlauk, hvítvíni og kirsuberjatómötum

Rósmarín tengir maður einna helst við kjötrétti, en ég hef verið að prófa mig aðeins áfram með að nota það með fiski. Fyrst með skötusel og var alls ekki svikinn. Og það er í raun ekkert mál að nota skötusel í staðinn fyrir löngu í þennan rétt – það kemur bara aðeins meira við budduna.

Blálanga er fiskur sem hentar ákaflega vel að snöggelda því að hún heldur sér vel og minnir gjarnan á steik undir tönn þegar rétt hefur verið farið með hana. Lengi vel var þessum gómsæta fiski hent þegar hann kom í veiðarfærin þar sem hann var ekki talinn hæfur til manneldis. Sem betur fer höfum við þroskast – ekki bara sem veiðiþjóð heldur líka sem nautnaseggir. Og blálangan fellur sko vel að því!

Fyrir fjóra

800 g langa
8 rósmaríngreinar
6-8 msk hveiti
salt og pipar
1 rauðlaukur
1 hvítlauksrif
4 msk jómfrúarolía
1 hvítvínsglas
safi úr hálfri sítrónu
1 msk smjör
400 g kirsuberjatómatar


Skerið rauðlauk og hvítlauk smátt og steikið í olíunni þar til hann er mjúkur og glansandi. Setjið til hliðar.

Skerið fiskinn í fjóra bita. Tálgið rósmaríngreinarnar þannig að annar endinn verði hvass líkt og spjót.

Stingið svo rósmarínspjótunum langsum eftir fiskstykkjunum. Saltið og piprið.

Veltið fisknum upp úr bragðbættu hveiti (með salti og pipar) og steikið í tvær til þrjár mínútur upp úr olíu á hvorri hlið á vel heitri pönnu.

Bætið tómötunum á pönnuna og setjið laukinn aftur út í.

Hellið hvítvíni yfir og sjóðið upp áfengið. Bætið sítrónusafa við og svo smjöri.




Berið fram með nýjum kartöflum og góðu hvítvíni.

Thursday, 28 August 2014

Kryddaðar pönnusteiktar kjúklingabringur í salsa pizzaiola



Ég rakst á pizzaiola sósu þegar ég var í uppskriftaleit á netinu. En mín útgáfa er ansi frábrugðin og kollegi minn, sem er ítalskur, setti í brúnir þegar ég var að lýsa matseldinni fyrir honum. Honum fannst ég klárlega beygja heldur út frá hefðinni. En þannig er það nú bara. Uppskriftir geta verið góður grunnur til að byggja á.

Þegar uppskriftir að salsa pizzaiola er skoðaðar á netinu þá er hún oftast borin fram með nautakjöti sem er snöggsteikt á pönnunni og svo sett til hliðar á meðan sósan er gerð og svo er kjötið lagt aftur í pönnuna rétt til að hita það í gegn áður en það er borið fram - ég skipti yfir í kjúkling. Oftast er notast við tómata í dós en ég nota ferska og svo bætti ég við bæði kapers, ólívum og chili við tómatsósuna til að lyfta henni meira frá hefðbundinni tómatsósu! Og treystið mér - þið verðið ekki svikin!

Kryddaðar pönnusteiktar kjúklingabringur í salsa pizzaiola

Og þetta er líka snögg uppskrift - allt tilbúið á 20-25 mínútum og hægt að gera allt meðlætið á meðan kjúklingurinn er eldaður á pönnunni.

Fyrir fjóra til sex

Hráefnalisti

1 kg kjúklingabringur (4-6 bringur)
50 g smjör/2 msk jómfrúarolía
salt og pipar
250 g kirsuberjatómatar
3-4 ansjósuflök
1 msk kapers
4 hvítlauksrif
20 svartar ólívur
handfylli basil/steinselja
salt og pipar



Það hefði alveg verið hægt nota tómata í dós í þessa uppskrift en um þessar mundir er kjörbúðin sem ég skipti mikið við troðin með fallegum tómötum á góðu verði. Ég keypti öskju með þessum sætu smáu plómutómötum. 


Vilhjálmur Bjarki var ekki lengi að bjóða sig fram til að skera tómatana. Hann er duglegur að aðstoða pabba sinn í eldhúsinu.


Sneiðið chili-ið niður í sneiðar - auðvitað er hægt að kjarnhreinsa að fyrst, en að þessu sinni ákvað ég að hafa smá hita í matnum! 


Hellið 2 msk af jómfrúarolíu á pönnuna, saltið og piprið kjúklingabringurnar og steikið þangað til að þær hafa tekið smá lit að utan. Kannski tvær til þrjár mínútur á hvorri hlið. Setjið til hliðar á meðan þið útbúið sósuna. 


Skellið niðurskornum lauknum, chili og hvítlauk á pönnuna á steikið í tvær til þrjár mínútur þangað til að hann er farin að glansa. Gætið þess að brenna ekki laukinn. Þá gefur hann frá sér biturt bragð. 


Skerið niður þrjár til fjórar ansjósur og bætið saman við laukinn og steikið áfram í nokkrar mínútur til að bræða ansjósurnar niður. Hafið ekki áhyggjur - það kemur ekkert fiskibragð af matnum. Bara umamibragð sem vinnur vel með tómötunum. 


Svo er bara að skella tómötunum, ólívunum og kapersinum saman við og steikja áfram. Smá hvítvín mun bara bæta réttinn. 


Saxið ferska bergmyntu (óreganó) og setjið saman við og hitið réttinn að suðu. 


Þegar rétturinn er farinn að krauma, raðið kjúklingum saman við og eldið hann í gegn. Notið hitamæli til að meta hvenær kjúklingurinn er tilbúinn. 71 gráða er samkvæmt nýjustu heimildum nóg fyrir bringur. 



Með matnum drukkum við Masi Campofiorin frá 2010. Þetta vín er alltaf góð kaup. Þetta vín hef ég drukkið nokkrum sinnum áður - og kann alltaf jafnvel við!. Vínið er frá Ítalíu, nánar tiltekið frá svæðunum í kringum Feneyjar. Vínið er blanda úr fjórum þrúgutegundum; Corvina, Rondinella, Molinara og Rossignola þrúgum. Það hefur fallegan lit í glasi, dökkt og satínkennt.  Á tungunni er vínið ríkt af ávexti með örlitlum sýrukeim og vott af mildum tannínum. Þetta er vín sem ég verð aldrei svikinn af!


Á meðan kjúklingurinn er að eldast á pönnunni útbúið þið meðlætið, skerið niður í salat, sjóðið pasta eða hrísgrjón til að bera fram með réttinum. 

Og svo er bara að skála og njóta! 

Tuesday, 17 December 2013

Kraftmikil fyllt eggaldin með nautahakki, chili, tómötum og fetaosti með ríkulegu salati

Ég hóf þessa viku á rannsóknarvinnu - en ég er að reyna eins og rjúpan við staurinn að sinna doktorsverkefninu mínu! Það gekk ágætlega framan af dagi, sótti gögn og las í gegnum þau og reyndi að skrá niður það sem máli skipti. Planið var að halda þessari vinnu áfram út vikuna en útgefandinn minn hringdi í mig eftir hádegið og spurði hvort ég væri til í að skreppa til Íslands til að taka þátt í sjónvarpsþætti Loga Bergmann - Logi í beinni. Það hélt ég nú. Þannig að restin af deginum fór svona fyrir ofan garð og neðan. Bóka flug, redda gistingu, losa mig við eina bakvakt, skipuleggja smá matseðil! Þetta verður gaman! 

Verð því að halda vel á spöðunum næstu tvo daga svo mér verði fyrirgefin þessi ferð. Sem betur fer er ég í rannsóknaleyfi og hef engar klíniskar skyldur þannig að þetta ætti allt að ganga. Dóttir mín, Valdís Eik, verður þrettán ára á föstudaginn og fær að koma með mér heim til Íslands og vera mér andlegur stuðningur í sjónvarpssal. Hún var ekkert lítið ánægð að fá að fara þessa óvæntu ferð. Svona tveimur mínútum eftir að henni voru sagðar fréttirnar var hún búin að þaulskipuleggja daganna tvo með frænku sinni og vinkonu! 

Ætli ég nái ekki að redda jólamatnum með þessari óvæntu heimsókn! Í síðustu tveimur ferðum hef ég haft svo mikið fyrir stafni að ég hef klikkað illilega á því að kaupa inn fyrir jólin. Ég hafði treyst á að foreldrar mínir myndu ná að bjarga þessu fyrir horn eins og svo oft áður en að þessu sinni lögðu þau lykkju á leið sína og fóru viku fyrr af stað og eru núna að heimsækja gamla vini sína í Saarbrucken í Þýskalandi. Þau munu koma til okkar um næstu helgi og halda með okkur jól eins og þau hafa gert síðastliðin fimm ár! Við hlökkum mikið til að fá þau til okkar.

Kraftmikil fyllt eggaldin með nautahakki, chili, tómötum og fetaosti með ríkulegu salati


Þessi réttur varð til þegar ég var að hreinsa út úr ísskápnum núna í síðustu viku. Þar kenndi þó ýmissa grasa, fann tvö eggaldin, átti nautahakk inní frysti sem ég hafði keypt lífrænt frá bónda í Ängelholm núna fyrir nokkrum vikum, hálfaskja af tómötum úti í glugga og svo á ég oftast til nokkrar lauktegundir í skál á eyjunni minni! 

Innihaldslýsing

2 eggaldin
400 gr nautahakk
150 gr tómatar
2 smáir rauðlaukar
1 rauð papríka
4 hvítlauksgeirar
3 rauðir, smáir, chilipiprar
1 msk tómatpuré
250 ml af kjötsoði
1 msk smátt saxað ferskt basil
2 tsk þurrkað oregano
1/2 krukka af fetaosti í kryddolíu

Þetta er það sem fannst inn í ísskáp! Ekki svo slæmt, stundum eru svona "naglasúpur" bara nokkuð góðar!


Skerið laukinn, hvítlaukinn og sveppina niður smátt. 


Þegar laukurinn, hvítlaukurinn, papríkan og sveppirnir hafa fengið að steikjast í nokkrar mínútur á pönnunni bætið þið hakkinu saman við. 


Bætti síðan chilipiparnum saman við - hann var heldur lítill þannig að ég lét kjarnann fylgja með.


Þegar nautahakkið var brúnað þá setti ég tómatana saman við - sem ég hafði skorið í helminga - ásamt tómatpúréinu. Setti svo oreganoið.


Næst kjötsoðið, sem ég hitaði að suðu, og leyfði síðan að krauma þannig að það sauð niður í minnst um helming - þannig að sósan væri þykk og falleg.


Næst skar ég eggaldinið niður í helminga og hreinsaði innihaldið út en skildi nóg eftir þannig að það væri líklegra til að halda formi sínu þrátt fyrir að vera bakað í ofni. 


Steikti síðan innvolsið af eggaldininu í jómfrúarolíu. Saltaði vel og pipraði. Að lokum hellti ég eggaldininu saman við kjötsósuna. Bætti síðan basilinu saman við. 


Síðan fyllti ég eggaldinið með kjötsósunni. 


Stappaði svo niður fetaostinn. 


Og dreifði ríkulegu magni af honum yfir.


Bakaði svo inni í ofni í 35 mínútur. 




Með matnum drukkum við síðan örlítið tár af ljúffengu frönsku víni frá E.Guigal. Þetta er Cotes du Rhone vín frá því 2010. Þetta vín er blanda úr þremur þrúgum, Syrah 60%, grenache 30 % og svo 10% mourvedre þrúgur. Liggur í eikarfati í eitt ár áður en það er sett á flöskur og selt í verslanir. Þetta er ljómandi góður sopi, fallega rautt, lyktar af villtum berjum, kryddað. Langt eftirbragð, eikað og með góðu jafnvægi. Þetta vín hefur oft fengið háa einkunn í víndómum!


Þetta varð mjög gómsætt. Eggaldin umbreytist við eldun frá því að vera biturt á bragðið yfir í að vera djúpt og arómatískt. Hitinn af chiliinum kom líka vel í gegn - fyrir krakkana hefði ég kannski átt að kjarnhreinsa, en mér fannst þetta frábært. Bárum bara smá hreina jógúrt fram með matnum. Meira að segja Ragnhildur Lára var kampakát með matinn! 

Núna er kominn tími til að njóta!

Tuesday, 2 July 2013

Ljómandi grillaður lax með aspas og kirsuberjatómötum með kavíarsósu


Yngsta dóttir mín vex og dafnar. Hún er 10 mánaða nú um þessar mundir og er byrjuð að standa upp og ganga aðeins með. Hún hefur mikla matarlyst og er dugleg að borða þann mat sem er útbúinn handa henni. Og hún er líka dugleg að prófa allan nýjan mat og hafnar engu. Það er sérstaklega gaman að hlusta á hana stynja af ánægðu þegar hún er mötuð - langt "naaaammmmm" fylgir gjarnan þegar hún er ánægð og sátt við það sem í boði er. Hún er meira að segja farin að vilja vera með í eldhúsinu. Alltént var hún dugleg að ýta grindinni áleiðis inn í uppþvottavélina. Og skemmti sér stórvel. Hversu mikil hjálp hún var í eldhúsinu læt ég ósagt ... ef ske kynni að hún lesi þetta einhvern tíma. 

Þetta er einstaklega góður og sumarlegur matur. Grillaður lax með ferskum aspas og nýjum og sætum kirsuberjatómötum. Sósan sem fylgir smakkaði ég í fyrsta sinn hjá nágrönnum mínum, Jónasi og Hrund. Jónas sagði að ég yrði að geta heimilda um þessa sósu en uppskriftina af henni hafði hann fengið hjá eiginkonu annars kollega þegar hann var að vinna í Svenjunga í afleysingum vikunni áður. 

Þessi sósa er ansi ljúffeng. Kavíarinn gefur skemmtilega seltu og sjávarkennt bragð þegar hrognin eru sprengd. Best væri að nota ekta laxahrogn þar sem þau eru stærri en þau eru líka heldur dýr til að hafa með mánudagsfisknum þannig að ég lét mér nægja að kaupa kavíar frá Lysekil sem eru gerð úr "lumpfish" sem á íslensku heitir hrognkelsi. Og er líka ljúffengt.

Ljómandi grillaður lax með aspas og kirsuberjatómötum með kavíarsósu

Og þetta er einfaldur matur og krafðist nær engrar fyrirhafnar. Meira bara uppröðun. En litirnir eru fallegir og maturinn bragðgóður eftir því. 


Við erum bara tvö fullorðin í húsinu um þessar mundir þannig að skammtarnir voru hóflegir. 600 gramma laxaflak var penslað með jómfrúarolíu, saltað og piprað og lagt í ofnskúffu. Safa úr hálfri sítrónu hellt yfir.


Svo var 250 gr af kirsuberjatómötum, "on the vine", raðað í kring og fimmtán aspasspjót. tvær til þrjár msk af jómfrúarolíu var hellt yfir grænmetið og það líka saltað og piprað.

Grillið var blússhitað og bakað á beinum hita í 12-15 mínútur. Þegar fimm mínútur voru eftir var 75 ml af hvítvíni hellt yfir grænmetið og soðið upp.


Sósan var afar einföld. Fjórum matskeiðum af sýrðum rjóma var hrært saman við eina kúfaða teskeið af svörtum kavíar og jafnmikið af rauðum. Einni matskeið af dilli var bætt saman við, safa af hálfri sítrónu og svo smakkað til með salti og pipar.


Ljúffengt og einfalt.


Laxinn var ljúffengur og tómatarnir sætir og góðir. Og aspasinn - mjúkur í gegn og bragðið dásamlegt.



Með matnum fengum við okkur ljómandi hvítvín sem hefur lengi verið í uppáhaldi og ég hef nefnt á blogginu nokkrum sinnum áður - en það er langt síðan síðast. Þetta er hvítvín frá Chile - árgangur 2010 og er einstaklega ljúffengt. Fallega gullið vín, lyktar af ávöxtum, þétt og kraftmikið vín og frískandi á tungu.



Einföld, holl og ljúffeng mánudagsveisla. Vinnuvikan getur eiginlega ekki verið annað en góð þegar maður hefur hana með þessum hætti. 

Tími til að njóta!

Tuesday, 8 February 2011

Ljúffeng ofngrilluð sandhverfa með hvítlauk, kirsuberjatómötum og timian

Þennan fiskrétt eldaði ég um daginn. Ég hafði verið að skoða fiskborðið í stórmarkaðinum þar sem ég er vanur að versla og rakst þá á þessa sandhverfu og hún var alveg glansandi fersk. Það er ekki á hverjum degi að ég elda fisk í heilu lagi - en í flestum af matreiðslubókunum sem ég á er það alvanaleg eldunaraðferð. Eins og ég hef nefnt áður hérna á blogginu, þá verður maður að hafa aðeins varann á þegar maður er að versla fisk hérna í suður Svíþjóð. Hann er auðvitað ekki eins góður og á Fróni, ekki eins ferskur - en það kemur fyrir að maður ratar á góðan fisk - og þá er ekkert annað að gera en að hafa hann í matinn.

Það er auðvitað líka í anda manifestósins sem ég lagði upp með í upphafi janúar. Að borða aðeins hollari mat. Og verkefnið hefur tekist vel - eiginlega vonum framar og við höfum haft það ansi gott - jafnvel en betur en mér hefur kannski tekist að koma til skila á blogginu mínu. Það var sameiginlegt álit fjölskyldumeðlima að halda áfram í anda þess sem lagt var upp með - kannski með aðeins breytingum þó - við leyfum einnig fuglakjöt á virkum dögum - en reynum að hafa uppskriftirnar í hollari kantinum og munum áfram elda nóg af grænmeti. Sjáum hvað setur.

sandhverfa

Ofngrilluð sandhverfa með hvítlauk, kirsuberjatómötum, hvítlauk og timian

Þetta var auðvitað sáraeinföld eldamennska. Það var lítið að gera við sandhverfuna annað en að klippa hana aðeins til svo að hún myndi passa í ofnskúffuna mína. Ofnskúffan var smurð með smávegis hvítlauksolíu, söltuð og pipruð. Svo var sandhverfunni raðað á fatið.

Skar niður hálfan hvítlauk heldur smátt og sáldraði yfir, nokkrar greinar af fersku timian og síðan nokkur fersk lárviðarlauf. Skar niður 250 gr af kirsuberjatómötum og dreifði á milli. Sáldraði smávegis af jómfrúarolíu yfir, síðan salti og pipar, safa úr 2 sítrónum og skvettu af hvítvíni.

Sett inn í miðjan blússheitan ofn. Grillið á fullt - 275 gráður forhitaður. Fiskurinn eldast á nokkrum mínútum ekki mikið meira en 7-8 mínútum. Maður sér hvernig húðin á fisknum fer hreinlega að poppast. Fiskurinn gefur frá sér vökva - fiskikraft - sem blandast olíunni, tómötunum, hvítvíninu og sítrónusafanum.

Þegar fiskurinn er tilbúinn er hann færður á annað fat. Kryddjurtirnar sem höfðu brunnið aðeins voru færðar frá. Vökvinn á ofnskúffunni er hrærður saman í einfalda sósu.

Borið fram með soðnum möndlukartöflum og einföldu "rustic" salati; spínatlauf, gróft skorinn laukur, papríka, nokkrar kalamataólívur og gúrkubitar. Gott ef ég setti ekki mulin fetaost í salatið líka.

sandhverfaaleidiofninn

Bon appetit.