Tuesday 8 February 2011

Ljúffeng ofngrilluð sandhverfa með hvítlauk, kirsuberjatómötum og timian

Þennan fiskrétt eldaði ég um daginn. Ég hafði verið að skoða fiskborðið í stórmarkaðinum þar sem ég er vanur að versla og rakst þá á þessa sandhverfu og hún var alveg glansandi fersk. Það er ekki á hverjum degi að ég elda fisk í heilu lagi - en í flestum af matreiðslubókunum sem ég á er það alvanaleg eldunaraðferð. Eins og ég hef nefnt áður hérna á blogginu, þá verður maður að hafa aðeins varann á þegar maður er að versla fisk hérna í suður Svíþjóð. Hann er auðvitað ekki eins góður og á Fróni, ekki eins ferskur - en það kemur fyrir að maður ratar á góðan fisk - og þá er ekkert annað að gera en að hafa hann í matinn.

Það er auðvitað líka í anda manifestósins sem ég lagði upp með í upphafi janúar. Að borða aðeins hollari mat. Og verkefnið hefur tekist vel - eiginlega vonum framar og við höfum haft það ansi gott - jafnvel en betur en mér hefur kannski tekist að koma til skila á blogginu mínu. Það var sameiginlegt álit fjölskyldumeðlima að halda áfram í anda þess sem lagt var upp með - kannski með aðeins breytingum þó - við leyfum einnig fuglakjöt á virkum dögum - en reynum að hafa uppskriftirnar í hollari kantinum og munum áfram elda nóg af grænmeti. Sjáum hvað setur.

sandhverfa

Ofngrilluð sandhverfa með hvítlauk, kirsuberjatómötum, hvítlauk og timian

Þetta var auðvitað sáraeinföld eldamennska. Það var lítið að gera við sandhverfuna annað en að klippa hana aðeins til svo að hún myndi passa í ofnskúffuna mína. Ofnskúffan var smurð með smávegis hvítlauksolíu, söltuð og pipruð. Svo var sandhverfunni raðað á fatið.

Skar niður hálfan hvítlauk heldur smátt og sáldraði yfir, nokkrar greinar af fersku timian og síðan nokkur fersk lárviðarlauf. Skar niður 250 gr af kirsuberjatómötum og dreifði á milli. Sáldraði smávegis af jómfrúarolíu yfir, síðan salti og pipar, safa úr 2 sítrónum og skvettu af hvítvíni.

Sett inn í miðjan blússheitan ofn. Grillið á fullt - 275 gráður forhitaður. Fiskurinn eldast á nokkrum mínútum ekki mikið meira en 7-8 mínútum. Maður sér hvernig húðin á fisknum fer hreinlega að poppast. Fiskurinn gefur frá sér vökva - fiskikraft - sem blandast olíunni, tómötunum, hvítvíninu og sítrónusafanum.

Þegar fiskurinn er tilbúinn er hann færður á annað fat. Kryddjurtirnar sem höfðu brunnið aðeins voru færðar frá. Vökvinn á ofnskúffunni er hrærður saman í einfalda sósu.

Borið fram með soðnum möndlukartöflum og einföldu "rustic" salati; spínatlauf, gróft skorinn laukur, papríka, nokkrar kalamataólívur og gúrkubitar. Gott ef ég setti ekki mulin fetaost í salatið líka.

sandhverfaaleidiofninn

Bon appetit.

No comments:

Post a Comment