Sunday 13 February 2011

Gómsætur ristaður lax á fennelbeði með hrísgrjónum og fersku salati -og auðvitað hvítvínsglasi



Við erum afar spennt á heimilinu. Við erum upptekin af því að telja niður að því að leggja af stað til Austurríkis þar sem við ætlum að vera á skíðum í rúmar tvær vikur. Þetta er fimmta skipti sem við förum á skíði í Ölpunum. Það er nú saga að segja frá því af hverju við urðum að skíðafjölskyldu - saga sem ég hef ábyggilega sagt áður - en góð saga er aldrei of oft sögð.

Árið 2006 leysti ég af á Austfjörðum í nokkra daga yfir páskana. Við ókum norðurleiðina og stoppuðum við á Akureyri þar sem vinir okkar bjuggu tímabundið. Vigdís Hrefna vinkona okkar lék aðalhlutverkið sýningu leikfélagsins, Litlu Hryllingsbúðinni, sem var alveg stórgóð skemmtun.  Við dvöldum hjá þeim yfir helgi. Bassi, maðurinn hennar Viggu, vildi endilega prófa að fara á snjóbretti og ekki vildi ég standa í veginum fyrir því.

Þá hafði ég ekki farið á skíði síðan að ég var 18 ára gamall þegar ég fór í skíðaferð með MH til Dalvíkur (það var nú fjör). Alltént var ég alvarlega ryðgaður. En við slógum til. Fórum upp í fjall og leigðum okkur búnað - það var til allt á alla - nema það voru ekki til skór á mig. God damn it (blessun þó). Hins vegar voru HEAD skór á helmingsafslætti - 18600 krónur - djöfull var það dýrt fannst mér. En allir voru komnir upp í fjall og ég sló til, en sór þess eið að þetta yrði ekki síðasta sinn sem ég stigi á skíði. Og viti menn. Þetta var dásamlegt. Að líða niður brekkurnar á skíðunum. Ég fann mig þarna í hlíðunum, og mér leið eins og barni, þetta var svo gaman! Það besta sem ég hafði gert í mörg herrans ár! Ég var frelsaður - skíðafrelsaður.

Allaveganna - þetta er ekki skíðablogg. Þetta er matarblogg. Víkjum að nú að rétti dagsins.

Gómsætur ristaður lax á fennelbeði með hrísgrjónum og fersku salati - og auðvitað hvítvínsglasi


Þetta er ákaflega einföld matargerð. Laxinn þarf auðvitað bara að hreinsa og plokka burtu bein - ef einhver eru eftir í flakinu. Salta og pipra. Skar þrjá meðalstóra fennelhausa í sneiðar og steikti á pönnu með smá hvítlauksolíu við heldur lágan hita í 10-15 mínútur - þar til fennelinn er ilmandi og karmelliseraður. Þá er fennelinn lagður í eldfast mót og laxinn settur ofaná - með roðið upp.

Bræddi síðan tvær matskeiðar af smjöri í potti og penslaði síðan roðið á fisknum, saltaði og pipraði. Fiskurinn var síðan settur í blússheitan ofninn með grillið á fullu. Setti laxinn rétt fyrir neðan miðju, þannig að hann hefði tíma til að eldast í gegn - og roðið að ristast og verða knassandi stökkt. Þetta tók ekki mikið meira en 10 mínútur.

Með matnum var ég með einfalda kalda sítrónusósu sem ég hef ábyggilega bloggað um áður. 200 ml af creme fraiche sett í skál, safi úr heilli sítrónu, mjög svo smátt skorinn börkur af hálfri sítrónu, hálf matskeið af góðu hlynsírópi og svo salt og pipar.

Með matnum bárum við fram hrísgrjón og svo einfalt salat; græn lauf, avókadó, kúrbít og svo dökk steinlaus vínber.

Með matnum drukkum við Montes Alpha Chardonnay frá því 2008 sem Kolbrún mágkona mín kom með þegar hún var í heimsókn í seinustu viku. Þetta er eitt af mínum uppáhalds hvítvínum og er einstaklega ljúffengt. Fallega gullið vín, lyktar af ljósum ávöxtum, peru, sítrus og eik. Þykkt og frískandi á tungu, smjörkennt og eikað. Virkilega gott vín.


Bon appetit.

No comments:

Post a Comment