Thursday 3 February 2011

Heimagerð rjúkandi instant núðlusúpa - ljómandi góður hádegisverður!

Ég hef upp á síðkastið verið að horfa á nýjustu þætti Hugh Fearnley Whittingstall. Hann er breskur sjónvarpskokkur sem hefur síðastliðin ár notið vaxandi vinsælda í Bretlandi. Hann hefur síðasta áratuginn sent frá sér bækur og sjónvarpsþætti um aðalverkefnið sitt, The River Cottage. Þá hóf hann sjálfþurftarbúskap sem hefur vaxið ár frá ári. Þættir hans og bækur hafa verið mér mikill innblástur bæði í eldhúsinu og í garðinum! Nýjustu þættir hans - River Cottage Every Day - fjalla um eins og nafnið gefur til kynna um þann mat sem hann eldar hvunndags. Kíkið endilega á heimasíðuna hans - www.rivercottage.net.

Í einum þættinum gerir hann hádegisverðinn að viðfangsefni og þessi hugmynd er að nær öllu leiti kominn frá honum. Takk Hugh. Mér fannst hugmyndin það brag góð að mér fannst þjóðráð að koma henni áleiðis. Þetta er fljótlegur, hollur en fyrst og fremst góður réttur.

Janúar er nú liðin - en manifestóið sem lagt var upp með í upphafi árs mun halda áfram og teygja sig inn í komandi mánuði. Var einmitt að fá sendingu af matreiðslubókum m.a. nokkrar um grænmetisrétti - kannski ég detti niður á einhvern snilldarrétt til að skella á bloggið mitt.

Heimagerð rjúkandi "instant" núðlusúpa - ljómandi góður hádegisverður!

Hráefnalisti

100-140 gr núðlur
1/2 gulrót
1/2 sellerístöng
1/2 vorlaukur
1/8 rauðlaukur
1/8 paprika
1 teningur grænmetiskraftur
2 msk soya sósa
Safi úr 1/2 sítrónu
1 tsk púðusykur
400 ml vatn
Salt og pipar

Ég keypti bara venjulega núðlur, sem þurfa ekki nema 5 mínútna suðu (eða liggja í heitu vatni í 5-6 mínútur). Þeim er gjarnan skipt í skammta sem eru passlegir í súpur - Ég notaði um 50-70 gr í hvern skammt. Skar síðan niður næfurþunnt hálfa gulrót, vorlauk, sellerí, 1/8 af smáttskornum rauðlauk og annað eins af papriku. Setti síðan smá steinselju.

Stakk síðan með hálfum tenging af grænmetiskrafti (Chef du fond - án MSG) - þó ennþá í umbúðunum. Útbjó síðan smá blöndu, með 2 msk soya sósu, safa úr hálfri sítrónu og smá púðursykur. Setti þetta í litla krukku.

Síðan skellti ég krukkunni og kraftinum ofan í súpuílátið. Lokið á og ofan í tösku. Í hádeginu er kraftinum sleppt úr hjúp sínum, soyablandan hellt yfir og síðan er 400 ml sjóðandi vatni hellt ofan á og hrært og látið standa í 5 mínútur. Salta og pipra eftir smekk. Njóta. Súpan er fantagóð.

núðlusúpa

Bon appetit!

No comments:

Post a Comment