Thursday 28 August 2014

Kryddaðar pönnusteiktar kjúklingabringur í salsa pizzaiola



Ég rakst á pizzaiola sósu þegar ég var í uppskriftaleit á netinu. En mín útgáfa er ansi frábrugðin og kollegi minn, sem er ítalskur, setti í brúnir þegar ég var að lýsa matseldinni fyrir honum. Honum fannst ég klárlega beygja heldur út frá hefðinni. En þannig er það nú bara. Uppskriftir geta verið góður grunnur til að byggja á.

Þegar uppskriftir að salsa pizzaiola er skoðaðar á netinu þá er hún oftast borin fram með nautakjöti sem er snöggsteikt á pönnunni og svo sett til hliðar á meðan sósan er gerð og svo er kjötið lagt aftur í pönnuna rétt til að hita það í gegn áður en það er borið fram - ég skipti yfir í kjúkling. Oftast er notast við tómata í dós en ég nota ferska og svo bætti ég við bæði kapers, ólívum og chili við tómatsósuna til að lyfta henni meira frá hefðbundinni tómatsósu! Og treystið mér - þið verðið ekki svikin!

Kryddaðar pönnusteiktar kjúklingabringur í salsa pizzaiola

Og þetta er líka snögg uppskrift - allt tilbúið á 20-25 mínútum og hægt að gera allt meðlætið á meðan kjúklingurinn er eldaður á pönnunni.

Fyrir fjóra til sex

Hráefnalisti

1 kg kjúklingabringur (4-6 bringur)
50 g smjör/2 msk jómfrúarolía
salt og pipar
250 g kirsuberjatómatar
3-4 ansjósuflök
1 msk kapers
4 hvítlauksrif
20 svartar ólívur
handfylli basil/steinselja
salt og pipar



Það hefði alveg verið hægt nota tómata í dós í þessa uppskrift en um þessar mundir er kjörbúðin sem ég skipti mikið við troðin með fallegum tómötum á góðu verði. Ég keypti öskju með þessum sætu smáu plómutómötum. 


Vilhjálmur Bjarki var ekki lengi að bjóða sig fram til að skera tómatana. Hann er duglegur að aðstoða pabba sinn í eldhúsinu.


Sneiðið chili-ið niður í sneiðar - auðvitað er hægt að kjarnhreinsa að fyrst, en að þessu sinni ákvað ég að hafa smá hita í matnum! 


Hellið 2 msk af jómfrúarolíu á pönnuna, saltið og piprið kjúklingabringurnar og steikið þangað til að þær hafa tekið smá lit að utan. Kannski tvær til þrjár mínútur á hvorri hlið. Setjið til hliðar á meðan þið útbúið sósuna. 


Skellið niðurskornum lauknum, chili og hvítlauk á pönnuna á steikið í tvær til þrjár mínútur þangað til að hann er farin að glansa. Gætið þess að brenna ekki laukinn. Þá gefur hann frá sér biturt bragð. 


Skerið niður þrjár til fjórar ansjósur og bætið saman við laukinn og steikið áfram í nokkrar mínútur til að bræða ansjósurnar niður. Hafið ekki áhyggjur - það kemur ekkert fiskibragð af matnum. Bara umamibragð sem vinnur vel með tómötunum. 


Svo er bara að skella tómötunum, ólívunum og kapersinum saman við og steikja áfram. Smá hvítvín mun bara bæta réttinn. 


Saxið ferska bergmyntu (óreganó) og setjið saman við og hitið réttinn að suðu. 


Þegar rétturinn er farinn að krauma, raðið kjúklingum saman við og eldið hann í gegn. Notið hitamæli til að meta hvenær kjúklingurinn er tilbúinn. 71 gráða er samkvæmt nýjustu heimildum nóg fyrir bringur. 



Með matnum drukkum við Masi Campofiorin frá 2010. Þetta vín er alltaf góð kaup. Þetta vín hef ég drukkið nokkrum sinnum áður - og kann alltaf jafnvel við!. Vínið er frá Ítalíu, nánar tiltekið frá svæðunum í kringum Feneyjar. Vínið er blanda úr fjórum þrúgutegundum; Corvina, Rondinella, Molinara og Rossignola þrúgum. Það hefur fallegan lit í glasi, dökkt og satínkennt.  Á tungunni er vínið ríkt af ávexti með örlitlum sýrukeim og vott af mildum tannínum. Þetta er vín sem ég verð aldrei svikinn af!


Á meðan kjúklingurinn er að eldast á pönnunni útbúið þið meðlætið, skerið niður í salat, sjóðið pasta eða hrísgrjón til að bera fram með réttinum. 

Og svo er bara að skála og njóta! 

No comments:

Post a Comment