Wednesday 20 August 2014

Kraftmikill kóreskur grísa "stir-fry" með sykurbaunum og vorlauk



Það er ágætt sparnaðarráð að skoða reglulega í frystikistuna sína og sjá hvað þar er að finna. Ég fer reglulega í gegnum frystinn og geri lista yfir hvað þar er. Og nú í morgun fann ég þessa fínu grísalund. Ég setti nýverið hlekk á FB síðuna mína um grísapönnu sem ég eldaði einhverntíma snemma 2012. Hugmyndin var að gera eitthvað þvílíkt en svo fór ímyndunaraflið á flug og á endanum langaði mig að gera eitthvað allt annað.

Ég eyddi nokkrum klukkutímum yfir bókum og netinu og fann nokkrar uppskriftir sem mig langaði til að prófa. Eins og með flest annað þá virðast ekki vera nein takmörk fyrir hugmyndarflugi okkar mannanna og endalaus afbrigði að finna á netinu. Ég fann margar girnilegar uppskrifir frá Kóreu sem mér fannst spennandi - en átti ekki kóreskt chili mauk (gochujang) þannig að ég bjó til mína eigin blöndu með því að nota sambal oleak, tómatmauk og mísómauk - byggt á lýsingum á því hvernig hið kóreska chilimauk var á bragðið.

Og það er alltaf gaman að skoða nýjar uppskriftir og sækja sér innblástur á nýjar slóðir. Ég hef síðustu árin haft mestan augastað á franskri matargerð (og geri enn) sem mér finnst alveg stórkostleg. Ég hef í gegnum tíðina af og til eldað sitthvað frá öðrum heimshornum en sjaldnast einbeitt mér að því í lengri tíma. Evrópa hefur alltaf kallað of hátt á mig - en síðustu vikur hef ég verið að gramsa í gegnum uppskriftir frá Indlandi og Asíu. Og þar kennir ýmissa grasa. Kannski að ég haldi mér eitthvað við það efni áfram? Hver veit?

Kraftmikill kóreskt grísa "stir-fry" með sykurbaunum og vorlauk

Þetta er fljótlegur réttur að elda, en það er ágætt að gefa sér smá tíma í að leyfa kjötinu að marinerast í að minnsta kosti klukkustund áður en því er snarað á blússheita wokpönnuna. Ég hugsa að það að marinera yfir nótt væri ennþá betra, en það er ekki alltaf svo að maður nenni að gera áætlanir svo langt fram í tímann.

Hráefnalisti

Fyrir fjóra til sex

1 kg grísalund
6 msk soya sósa
5 sm engifer
4 hvítlauksrif
1 rauður chili
1/2 laukur
1 lítið epli
1 tsk sesamolía
2 tsk mirin (hrísgrjónavín)
1 pk misosúpa
1 msk sambal oleak
2 msk tómatpúré
1 msk papríkuduft
1 msk hrásykur
salt og pipar

3 gulrætur
4-5 stórir sveppir
4-5 vorlaukar
150 g sykurbaunir

icebergkál (eitt blað á mann)
sesamfræ til skreytingar



Skerið grísalundina í þunnar sneiðar og setjið í skál.



Flysjið eplið og raspið niður og setjið í skálina með kjötinu.



Skerið laukinn smátt og bætið saman við.



Takið utan af hvítlauknum, engifernum og kjarnhreinsið chilipiparinn (hetjur setja hann allan með!)



Setjið hvítlaukinn, engiferin og chili-ið (valfrjálst að kjarnhreinsa) í matvinnsluvél og tætið niður smátt.



Einhvern veginn svona! Bætið útí skálina.



Setjið síðan sambalið, tómatpúréið, misómaukið, papríkuduftið, sesamolíuna, hrísgrjónavínið, salt og pipar og hrærið vandlega saman.



Látið standa í ísskáp í að minnsta kosti klukkustund, helst lengur.



Skerið sveppina í þunnar sneiðar, gulræturnar niður í strimla, vorlaukinn gróflega og látið sykurbaunirnar bara vera eins og þær komu af plöntunni!



Hitið nú wokpönnuna þannig að hún verði blússheit! Setjið tvær til þrjár matskeiðar af olíu á pönnuna og skellið kjötinu á pönnuna.



Dreifið því vel um pönnuna og lokið kjötinu.



Setjið næst grænmetið saman við og steikið í sjö til tíu mínútur þangað til að kjötið er steikt í gegn.



Skolið icebergblöðin og fyllið með kjötinu og grænmetinu.



Skreytið með sesamfræjum og niðurskornum vorlauk.



Með matnum völdum við að drekka rósavín. Hvítvín hefði líka verið gott val. Eitthvað sem er frískandi með mat sem er skarpur og hitar manni aðeins á tungunni. Ég fann þessa flösku nýlega þegar ég var í Köben og tók hana með mér til Lundar. Léttvínið er alltaf aðeins ódýrara í Kaupinhöfn þannig að það er ágætt að birgja sig aðeins upp. Þetta er ítalskt rósavín með miklu ávaxtabragði, ferskt - aðeins sýra á tungubroddinum þannig að þetta passaði afar vel með matnum.

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment