Showing posts with label iceberg. Show all posts
Showing posts with label iceberg. Show all posts

Wednesday, 20 August 2014

Kraftmikill kóreskur grísa "stir-fry" með sykurbaunum og vorlauk



Það er ágætt sparnaðarráð að skoða reglulega í frystikistuna sína og sjá hvað þar er að finna. Ég fer reglulega í gegnum frystinn og geri lista yfir hvað þar er. Og nú í morgun fann ég þessa fínu grísalund. Ég setti nýverið hlekk á FB síðuna mína um grísapönnu sem ég eldaði einhverntíma snemma 2012. Hugmyndin var að gera eitthvað þvílíkt en svo fór ímyndunaraflið á flug og á endanum langaði mig að gera eitthvað allt annað.

Ég eyddi nokkrum klukkutímum yfir bókum og netinu og fann nokkrar uppskriftir sem mig langaði til að prófa. Eins og með flest annað þá virðast ekki vera nein takmörk fyrir hugmyndarflugi okkar mannanna og endalaus afbrigði að finna á netinu. Ég fann margar girnilegar uppskrifir frá Kóreu sem mér fannst spennandi - en átti ekki kóreskt chili mauk (gochujang) þannig að ég bjó til mína eigin blöndu með því að nota sambal oleak, tómatmauk og mísómauk - byggt á lýsingum á því hvernig hið kóreska chilimauk var á bragðið.

Og það er alltaf gaman að skoða nýjar uppskriftir og sækja sér innblástur á nýjar slóðir. Ég hef síðustu árin haft mestan augastað á franskri matargerð (og geri enn) sem mér finnst alveg stórkostleg. Ég hef í gegnum tíðina af og til eldað sitthvað frá öðrum heimshornum en sjaldnast einbeitt mér að því í lengri tíma. Evrópa hefur alltaf kallað of hátt á mig - en síðustu vikur hef ég verið að gramsa í gegnum uppskriftir frá Indlandi og Asíu. Og þar kennir ýmissa grasa. Kannski að ég haldi mér eitthvað við það efni áfram? Hver veit?

Kraftmikill kóreskt grísa "stir-fry" með sykurbaunum og vorlauk

Þetta er fljótlegur réttur að elda, en það er ágætt að gefa sér smá tíma í að leyfa kjötinu að marinerast í að minnsta kosti klukkustund áður en því er snarað á blússheita wokpönnuna. Ég hugsa að það að marinera yfir nótt væri ennþá betra, en það er ekki alltaf svo að maður nenni að gera áætlanir svo langt fram í tímann.

Hráefnalisti

Fyrir fjóra til sex

1 kg grísalund
6 msk soya sósa
5 sm engifer
4 hvítlauksrif
1 rauður chili
1/2 laukur
1 lítið epli
1 tsk sesamolía
2 tsk mirin (hrísgrjónavín)
1 pk misosúpa
1 msk sambal oleak
2 msk tómatpúré
1 msk papríkuduft
1 msk hrásykur
salt og pipar

3 gulrætur
4-5 stórir sveppir
4-5 vorlaukar
150 g sykurbaunir

icebergkál (eitt blað á mann)
sesamfræ til skreytingar



Skerið grísalundina í þunnar sneiðar og setjið í skál.



Flysjið eplið og raspið niður og setjið í skálina með kjötinu.



Skerið laukinn smátt og bætið saman við.



Takið utan af hvítlauknum, engifernum og kjarnhreinsið chilipiparinn (hetjur setja hann allan með!)



Setjið hvítlaukinn, engiferin og chili-ið (valfrjálst að kjarnhreinsa) í matvinnsluvél og tætið niður smátt.



Einhvern veginn svona! Bætið útí skálina.



Setjið síðan sambalið, tómatpúréið, misómaukið, papríkuduftið, sesamolíuna, hrísgrjónavínið, salt og pipar og hrærið vandlega saman.



Látið standa í ísskáp í að minnsta kosti klukkustund, helst lengur.



Skerið sveppina í þunnar sneiðar, gulræturnar niður í strimla, vorlaukinn gróflega og látið sykurbaunirnar bara vera eins og þær komu af plöntunni!



Hitið nú wokpönnuna þannig að hún verði blússheit! Setjið tvær til þrjár matskeiðar af olíu á pönnuna og skellið kjötinu á pönnuna.



Dreifið því vel um pönnuna og lokið kjötinu.



Setjið næst grænmetið saman við og steikið í sjö til tíu mínútur þangað til að kjötið er steikt í gegn.



Skolið icebergblöðin og fyllið með kjötinu og grænmetinu.



Skreytið með sesamfræjum og niðurskornum vorlauk.



Með matnum völdum við að drekka rósavín. Hvítvín hefði líka verið gott val. Eitthvað sem er frískandi með mat sem er skarpur og hitar manni aðeins á tungunni. Ég fann þessa flösku nýlega þegar ég var í Köben og tók hana með mér til Lundar. Léttvínið er alltaf aðeins ódýrara í Kaupinhöfn þannig að það er ágætt að birgja sig aðeins upp. Þetta er ítalskt rósavín með miklu ávaxtabragði, ferskt - aðeins sýra á tungubroddinum þannig að þetta passaði afar vel með matnum.

Tími til að njóta!

Tuesday, 16 July 2013

Frábærar salatvefjur með kjúklingi, grænmeti, ávöxtum og dásamlegri hnetusósu allt að hætti Bryndísar

Við komum til Íslands nú á föstudaginn og tókum hús hjá foreldrum mínum, Ingvari og Lilju. Snædís fór með tvö yngstu börnin með hádegisvélinni en ég varð að standa vaktina á barnagigtardeildinni frameftir og fór því um kvöldið. Prógrammið um helgina var auðvitað þéttbókað. Hádeigisverður hjá tengdó í Kópavoginum á laugardaginn, matarmarkaður, búðarráp og svo matarboð hjá Vigdísi og Bassa. Þar fengum við ljúffengt Chilli con carne - ekki svo ósvipað því sem sjá í þessari færslu, sjá hérna

Í gær fórum við svo í Laugardalslaugina og svo í langa gönguferð um Öskjuhlíðina sem er nú vin innan borgarmarkanna. Það var stillt í veðri og ilmurinn af greninu og birkinu fyllti vitin. Meðfram stígunum hafði sprottið upp talsvert af sveppum sem því miður voru ekki ætir - en nóg til að vekja tilhlökkun til sveppatínslu í skógunum á Skáni. 



Um kvöldið fórum við í matarboð hjá Sverri og Bryndísi og strákunum þeirra í Norðurmýrinni. Við Sverrir höfum verið bestu vinir síðan að við vorum fimm ára gamlir - nú í 32 ár. Dísus ... hvað maður er að eldast! Bryndís er frábær kokkur - algerlega meiriháttar. Það var hún sem kom mér á bragðið með lambarifjurnar, sjá hérna - sem voru alveg dásamlegar. Og svo gerði hún handa mér nautasteik sem var svo stórkostleg að ég eldaði hana fyrir bókina mína - nánar um það þegar nær dregur jólunum. Í gær trompaði hún svo alveg með þessum rétt. 

Frábærar salatvefjur með kjúklingi, grænmeti, ávöxtum og dásamlegri hnetusósu allt að hætti Bryndísar




Hráefnalisti

1 kg kjúklingabringur
1/4 bolli soya sósa
2 msk lime safi
1 tsk engifer
1 tsk chilli duft
4 vorlaukar
1 tsk túrmerik
1 msk hlynsíróp

1 msk broddkúmen
Iceberg salat fyrir vefjur
Grænmeti, t.d. gulrætur, mangó, ag
úrka, melóna, graslaukur, rauð og gul papríka, baunaspírur

Sósa

5 cm engifer
1 rauður chilli
1 dl sítrónusafi
2/3 dl hlynsíróp
2 msk tamarind sósa
2 1/2 dl hnetusmjör



Kjúklingurinn var marineraður í nokkrar klukkustundir áður en hann var eldaður. Fyrst var kíló af kjúklingabringum skorið í þrjár strimla. Þá er eftirtöldu; 1/4 bolli soya sósa, tvær msk lime safi, ein tsk rifið engifer, ein tsk chilli duft, fjórir vorlaukar skornir í þunnar sneiðar, ein teskeið túrmerík, ein matskeið hlynsíróp, ein tsk broddkúmen. Til stóð að grilla herlegheitin en gasið kláraðist þannig að þær voru steiktar á pönnu.


 

Fjölbreytt úrval grænmetis var á boðstólunum. Iceberg salat var notað sem vefjur, og svo gulrætur, mangó og kóríander.


Og það var ennþá meira á boðstólunum; gúrka, heimagerð pækluð agúrka, melóna, graslaukur, rauð og gul papríka og svo ljúffengar baunaspírur sem voru steiktar á pönnu með einni matskeið af sesamolíu og einni matskeið af soyasósu ásamt einni matskeið af ristuðum sesamfræjum. 


Hnetusósan var eiginlega aðalmálið í þessari máltíð. Bryndís kallar hana happ-hnetusósu en hún minnir óneitanlega mikið á satay sósu þar sem undirstaðan er líka hnetusmjör.

Fyrst er þumlungur af fersku engifer, ásamt einum rauðum chilli pipar sett í matvinnsluvél og hakkað. Þá er rúmlega einum dl af sítrónusafa, 2/3 dl hlynsíróp, 2 msk tamarind sósu og 2 1/2 dl af hnetusmjöri bætt saman við og blandað vel saman. Látið standa í ísskáp þangað til að maturinn er borinn fram.


Kjúklingurinn var steiktur á pönnu og svo haldið heitum í eldföstu móti á meðan allt var steikt. Í lokin var 2 msk af soyasósu hellt á pönnuna og svo öllu hellt yfir kjúklinginn. 


Við drukkum Trivento Tribu Pinot Noir frá 2011 sem er ljómandi gott rauðvín frá Argentínu. Ég hef smakkað þetta vín áður - gott ef ekki einmitt með þeim hjónakornum, Sverri og Bryndísi. Þetta er góður sopi - fallega rúbinrautt í glasi, létt fylling með góðu berjabragði og léttri sýru. 


Við vorum alveg yfir okkur hrifin. Þetta er eitthvað sem verður reglulega eldað á mínu heimili.


Svo er ekki annað að gera en að raða þessu saman. Taka laufblað, hnetusósu, baunaspírur, melónu, papríku og kóríander. Dásamlegt. 



Þessi var svo með hnetusósu, kjúklingi, gulrótum, pæklaðri gúrku, baunaspírum og blaðlauk. Himneskt! 

Hvet ykkur eindregið til að reyna þetta! 
Tími til að njóta!