Myndavélin

Þegar ég byrjaði að blogga fyrir rúmlega hálfum áratug tók ég ekki neinar myndir. Allar færslur sem ég birti voru bara stutt greinargerð á því sem fram fór í eldhúsinu hjá mér. Seinna, þegar fólk fór að lesa bloggið mitt fór ég að taka einstaka ljósmyndir á gamla Canon Powershot myndavél sem ég hafði keypt nokkrum árum áður.

Um svipað leiti og ég var að stíga mín fyrstu skref í bloggheimum þá var ég líka iðinn við að lesa erlenda matarbloggara og varð snortinn af því hversu margir þeirra voru duglegir við að taka girnilegar myndir af uppátækjum sínum í eldhúsinu. Til að reyna að vera ekki aukvisi þeirra þá keypti ég Canon Powershot S5, sem mér fannst góð, en hún var samt aldrei á pari við það sem ég sá á öðrum heimasíðum. Fín myndavél engu að síður og þjónaði mér nokkuð vel!

Þegar heimasíðan mína varð síðan enn vinsælli fannst mér ég bera skyldu til að taka betri myndir. Áhugi minn á matargerð jókst jú ár frá ári og svo gerði áhugi minn á því að taka betri ljósmyndir. Einhvern tíma á köldu febrúarkvöldi árið 2010 var ég í heimsókn hjá vini mínum í Danmörku þar sem við vorum að elda dásemdar hamborgara, tók einn gestanna (atvinnuljósmyndari) frábærar myndir af afrekum kvöldsins. Ég sá að ég varð að gera betur. Ég fékk góð ráð frá honum og fleiri áhugaljósmyndurum og endaði með því að kaupa Nikon D3100.




Myndavélin var seld með 18-55 linsu sem er ljómandi góð fyrir að taka myndir hvunndags af vinum og vandamönnum og ég hef tekið margar góðar myndir með þessari linsu. 


En þegar kemur að því að taka myndir fyrir bloggið mitt og af mat almennt þá fékk ég ráðleggingar um að kaupa þessa linsu Nikon DX - Nikkor 35 1:1.8 sem hefur stóraukið gæði myndanna sem ég tek af matnum mínum - eða svo finnst mér alltént. Hún nær myndum í fallegri skerpu og nær oft að fanga stemminguna sem oft er við kertaljósalýstan kvöldverð!




Svo er þessi linsa nýjasta viðbótin í myndavélagræjudeildinni. Hún var að koma í hús og ég hlakka til þess að prófa hana. Árni Torfasson ljósmyndari ráðlagði mér að prófa þessa linsu!



Ég fjárfesti einnig í þessu flassi;  Nikon Speedlight SB700 sem ég hef þó lítið notað við matarljósmyndum mína en það er mestmegnis vegna kunnáttuleysis. Bót verður á því!

Ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar frá lesendum þar sem ég hef mikinn áhuga á því að bæta ljósmyndirnar mínar!

1 comment:

  1. Ákvað að nýta mér ráðleggingar sem þér hafa verið gefnar og kaupa mér svona vél. Nú á ég bara eftir að prófa :o)

    ReplyDelete