Wednesday 25 November 2015

Smálúða með "tandorri" sniði með túrmerikkartöflum með poppuðum sinnepsfræjum, einföldu salati og jógúrt myntusósu

Það hefur lítið verið um að vera á blogginu mínu síðustu vikur og fyrir því eru haldgóðar ástæður. Ég hef verið á faraldsfæti síðast liðnar vikur. Það tók talsvert lengri tíma að verða mér úti um vinnu í Englandi og því hef ég verið að fljúga fram og tilbaka til Svíþjóðar til að vinna. Hef verið að starfa fyrir Capio Movement þar sem ég starfa sem yfirlæknir á gigtardeildinni í Halmstad. Þó að ég hafi ekki verið mikill talsmaður einkareksturs í heilbrigðiskerfinu er gaman að fá að kynnast þeirri hlið því hérna starfar metnaðarfullt fólk sem vill sjúklingum sínum það besta og uppsker mikla ánægju frá þeim. Ég hef alltént lært að það eru fleiri leiðir til að gera vel en ég taldi sjálfur! Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.

Frá og með miðjum desember mun ég gerast starfsmaður NHS og starfa sem gigtarlæknir í Eastbourne í hálfu starfi auk þess sem ég mun aðstoða fyrirtæki sem kallast MSK Partnership að þróa leiðir til að þjónusta fólk með stoðkerfisvandmál eins vel og unnt er. Hlakka verulega til að takast á við ný verkefni. Fjölskyldunni gengur líka vel að koma sér fyrir í Englandi. Yngsta dóttirinn, Ragnhildur Lára, lærði ensku á metttíma. Sonurinn, Vilhjálmur Bjarki, unir sér vel í skólanum og táningurinn, Valdís Eik, virðist líka blómstra í nýju umhverfi. Eiginkona mín, Snædís, virðist líka njóta sín vel í háskólanum í Sussex þar sem hún er í framhaldsnámi í sálfræði. Ég var einnig nýverið á Íslandi þar sem ég hélt erindi á aðalfundi Félags íslenskra gigtarlækna og hitti þann fríða hóp á góðri stundu.

Allar þessar hræringar hafa því tafið fyrir því að ég hafi getað sinnt blogginu mínu eins og ég vildi. En svona er þetta, stundum er mikið að gera og stundum aðeins minna! Einhver sagði - "if you want something done, ask someone busy!" - Það er mikið til í þessum orðum!

Smálúða með "tandori" sniði með túrmerikkartöflum, poppuðum sinnepsfræjum, einföldu salati og jógúrt myntusósu

Ég sótti talsvert af fiski þegar ég var á landinu um síðustu helgi til að taka með mér til Englands. Legg leið mín jafnan í Fiskbúðina á Sundlaugaveginum. Sótti ýmislegt góðgæti - meðal annars þessa smálúðu sem var á tilboðsverði. 


1,2 kg smálúða
5 msk hveiti
3 msk tandori masala
1 tsk hvítlaukssalt
pipar
smjör til steikingar

Myntusósan

4 msk grísk jógúrt
2 msk majónes
1 búnt mynta
hnífsoddur broddkúmen
1 tsk hlynsíróp
1 hvítlauksrif
salt og pipar 

Kartöflurnar

800 g kartöflur (blómkál er líka ljómandi)
1 msk túrmerik
2 tsk broddkúmen
3 msk sinnepsfræ
50 g smjör
2 msk jómfrúarolía
steinselja til skreytingar

Salatið

6 tómatar
1 rauður laukur
1/6 haus iceberg kál
1 búnt vorlaukur (6 laukar)
2 msk rauðvínsedik
1 msk jómfrúarolía
safi úr einni sítrónu
salt og pipar


Fyrst var að gera hveitiblönduna. Það má vel skipta út hveitinu fyrir spelti eða jafnvel heilhveiti. Blandið saman hveitinu, tandori kryddinu, hvítlaukssaltinu og piparnum. 


Fáið svo börnin ykkar með í lið - Villi var svo sannarlega viljugur að hjálpa - hann velti fiskinum upp úr hveitinu. 


Bræðið síðan smjör á pönnu og steikið fiskinn í 1-2 mínútur á hvorri hlið og setjið í eldfast mót inn í heitan ofn (180 gráður - byrjið á þykkasta flakinu, sem þarf lengstan eldunartíma) á meðan þið steikið hin flökin.


Blandið saman jógúrtinni og majónesinu í skál. Skerið myntuna gróflega niður. Vilhjálmur er líka viljugur að vinna þessi verk. Ég hef verið að kenna honum hvernig maður á að munda hnífinn.


Blandið svo myntunni saman við, ásamt broddkúmeninu, salti og pipar. 


Það er ágætt að gera salatið fyrst þar sem edikið í dressingunni mýkir laukinn og dregur fram sætuna í honum. Sneiðið tómatana og laukinn næfurþunnt með mandólíni og leggið á flatan disk. Sneiðið icebergsalatið jafnframt smátt niður. Raðið þessu í ólíkum lögum á diskinn. Að lokum skreytið með vorlauknum. Blandið jómfrúarolíunni, edikinu og sítrónusafanum vandlega saman og hellið yfir grænmetið. Saltið og piprið og látið standa svo að dressingin marineri salatið líttillega. 


Sjóðið kartöflurnar þangað til að þær eru tilbúnar, í ríkulega söltuðu vatni. Ég var með nýjar kartöflur þannig að ég var ekkert að hafa fyrir því að flysja þær. Bræðið síðan smjör í potti og setjið túrmerikið og broddkúmenið saman við og eldið það í nokkrar sekúndur þannig að það vakni (ilmar dásamlega). Setjið svo sinnepsfræin út í og veltið upp úr kryddsmjörinu. Því næst setjið þið kartöflurnar saman við og hjúpið þær vandlega með smjörinu. Eldið þangað til sinnepsfræin fara að poppa (gætið þess að hafa þá lokið á svo þau fari ekki út um allt).


Skreytið fiskinn með fersku kóríander og njótið í faðmi fjölskyldunnar. 


Ég prófaði þetta hvítvín með matnum en ég hef áður smakkað rauðvínið frá sama framleiðenda og verið ánægður með það. Þetta er Marques Casa Concha Chardonnay frá 2012. Þetta er vín frá Chile - og er einkar ljúffengt. Kraftmikið og lifandi ávaxtabragð og smjörkennt á tungu með ljómandi ljúfu eftirbragði. 

Thursday 5 November 2015

Kjöt og kál - þrjár afar heimilislegar uppskriftir; kjöt í káli, kálbúðingur og kálbögglar á sænska vísu!

Einfaldur heimilismatur er stundum það besta sem maður leggur sér til munns - ég hef gerst sekur um að gera hvunndagsmat ekki nógu og hátt undir höfði. Í þessari færslu eru þrír réttir sem allir eiga það sameiginlegt að sameina blandað kjöthakk og hvítkál á mismunandi hátt. Þann fyrsta lærði ég að gera af föður mínum sem er mikill kjötbolluunnandi. Kálbúðingin sá ég fyrst í IKEA - og var hann fullkomlega óætur. Ég var viss um að hægt væri að gera hann betri og sá síðasti er í raun hápunktur sænskrar kjötbollueldamennsku - kálbögglar, sem eiga uppruna sinn í Tyrklandi.

Það er nokkuð merkilegt hvernig sá réttur hafnaði í Svíþjóð - og ennþá er rökrætt um atburðarásina. Áhugaverðasta sagan er sú að Karl XII Svíakonungur, vonlaus stríðskóngur, var einu sinni sem oftar að berjast á framandi vígvöllum og tapaði bardaga árið 1709 á móti Rússum, við Poltova í Úkraníu. Hann þurfti að flýja ásamt mönnum sínum og endaði í Moldavíu undir verndarvæng Ottomanveldisins. Þar þurfti hann að bíða með her sinn í fimm ár (sem betur fer kannski því þá fór hann ekki í stríð á meðan). Meðan á dvölinni stóð bjó kóngurinn sænski í góðu yfirlæti og fékk að kynnast tyrkneskri matarmenningu. Kálbögglar eru sem sagt túlkun Svía á þekktum tyrkneskum rétti!

Fyrsti rétturinn er einn af þeim sem faðir minn kenndi mér að útbúa og var reglulega á borðum á okkar heimili. Mér fannst hann eiginlega alltaf bestur daginn eftir þegar ég notað afgangana, niðurskornar kjötbollur, kartöflur og sinnep ofan á ristað brauð. Þegar ég var lítill var ég alltaf með Gunnars sinnep, en núorðið útbý ég gjarnan dijonaise til að setja ofan á brauðið!

Kjöt og kál - þrjár afar heimilislegar uppskriftir; kjöt í káli, kálbúðingur og kálbögglar á sænska vísu!


Kjöt í káli - einfalt og ljúffengt!

300 g lambahakk
300 g nautahakk
300 g svínahakk
1 tsk lyftiduft
75 g hveiti
1 egg
100-150 ml kalt vatn
cheyanne pipar - á hnífsoddi
salt og pipar

Fullt af gulrótum, kartöflum og hvítkáli
Kjötkraftur



Fyrst er að undirbúa farsið. Það er auðvitað hægt að kaupa það út í búð - en ég kann betur við að vita hvað ég legg mér til munns. Blandið lamba-, nauta- og grísahakkinu saman í matvinnsluvél. Setjið svo saman við lyftiduftið, hveitið, eggið og kryddið. Setjið að lokum kalt vatn saman við þangað til að þið eruð kominn með meðfærilegt deig.


Lovely. Svo er bara að hita nóg af vatn í stórum potti og leysa upp nokkra teninga af einhvers konar kjötkrafti (ég valdi kjúklingakraft). Flysjið gulræturnar og bætið út í létt-sjóðandi vatnið, svo kartöflunum og að lokum hvítkálið. Byrjið svo að móta kjötbollurnar (auðveldast með því að nota tvær matskeiðar) og láta þær svo út í sjóðandi vatnið. Látið bollurnar sjóða í 15-20 mínútur. 


Raðið öllum herlegheitunum á stóran disk. Sannkallað "One-pot wonder"! 


Eina sem þarf er bráðið smjör og þá er punkturinn kominn yfir i-ið! 

Sænskur kálbúðingur með smá útúrdúr!

400 g svínahakk
400 g nautahakk
200 g soðið blómkál (eða hrísgrjón)
3 egg
1 laukur
2 hvítlauksrif
2 msk smjör
3 msk soya sósa
150 ml kjötsoð
2 msk hlynsíróp
salt og pipar



Byrjið á því að skera laukinn og hvítlaukinn smátt og steikjið í smjöri þangað til laukurinn er mjúkur. Saltið og piprið. Setjið síðan kjöthakkið í skál og blandið lauknum vandlega saman við ásamt þremur eggjum, soyasósu, sírópi og kjötsoði. Næst hefði átt að blanda soðnum köldum hrísgrjónum saman við en ég átti afgangs blómkálsmús frá því kvöldinu áður og notaði hana. Blandið öllum hráefnum vandlega saman. Saltið og piprið eftir smekk. 

Skerið hvítkálið í strimla og steikið í klípu af smjöri þangað til það tekur lit.



Þá er bara að réttinum saman. Takið eldfast mót og smyrjið með hvítlauksolíu. Setjið síðan helminginn af hvítkálinu í botninn og svo kjötfarsið ofan á. Setjið afganginn af hvítkálinu ofan á farsið. Bakið síðan í 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur. 


Berið fram með einfaldri brúnni sósu gerða úr kjötsoði, smjörbollu, rjómaskvettu, salti og pipar. Sænsk hefð kallar á títuberjasultu en rabbabarasulta er einnig ljúffeng með!

Kálbögglar að hætti Karl XII

500 g lambahakk
500 g nautahakk
börkur af heilli sítrónu
3 msk mynta
1 msk broddkúmen
1 msk kóríander
1/2 tsk kanill
1/4 tsk chiliduft
1 steiktur rauðlaukur
4 hvítlauksrif
salt og pipar

500 ml nautasoð

1 hvítkálshöfuð


Byrjið á því að skera laukinn og hvítlaukinn smátt og steikið hann í olíu þangað til að hann er mjúkur og glansandi. Setjið hakkið í skál og bætið lauknum saman við. Skolið sítrónu og raspið börkinn (bara gula hlutann - skiljið hvítabörkinn eftir þar sem hann er bitur og bragðvondur). Saxið síðan börkinn smátt og bætið við hakkið ásamt saxaðri myntu, broddkúmeni, kóríander, kanil og chili. Saltið og piprið og blandið vel saman. 


Sjóðið vatn í potti sem mun rúma kálhausinn. Reynið að skera stilkinn úr hvítkálinu og setjið svo hvítkálið í vatnið í um 5 mínútur. Þetta auðveldar manni að losa hvítkálsblöðin frá. 

Leggið hvítkálsblaðið á skurðarbretti og setjið rúma matskeið af hakki á blaðið og vefjið því svo upp þannig að það lokist alveg. Setjið í eldfast mót. Endurtakið. 


Hellið kjötsoði ofan á kálbögglana og bakið í 180 gráðu heitum ofni í 30 mínútur. 


Skreytið með smá myntu. Hellið soðinu af kálbögglunum og þykkið með smjörbollu. Smá rjómaskvetta. Smakkið til með salti og pipar.


Það verður veisla í kvöld.