Wednesday 25 November 2015

Smálúða með "tandorri" sniði með túrmerikkartöflum með poppuðum sinnepsfræjum, einföldu salati og jógúrt myntusósu

Það hefur lítið verið um að vera á blogginu mínu síðustu vikur og fyrir því eru haldgóðar ástæður. Ég hef verið á faraldsfæti síðast liðnar vikur. Það tók talsvert lengri tíma að verða mér úti um vinnu í Englandi og því hef ég verið að fljúga fram og tilbaka til Svíþjóðar til að vinna. Hef verið að starfa fyrir Capio Movement þar sem ég starfa sem yfirlæknir á gigtardeildinni í Halmstad. Þó að ég hafi ekki verið mikill talsmaður einkareksturs í heilbrigðiskerfinu er gaman að fá að kynnast þeirri hlið því hérna starfar metnaðarfullt fólk sem vill sjúklingum sínum það besta og uppsker mikla ánægju frá þeim. Ég hef alltént lært að það eru fleiri leiðir til að gera vel en ég taldi sjálfur! Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.

Frá og með miðjum desember mun ég gerast starfsmaður NHS og starfa sem gigtarlæknir í Eastbourne í hálfu starfi auk þess sem ég mun aðstoða fyrirtæki sem kallast MSK Partnership að þróa leiðir til að þjónusta fólk með stoðkerfisvandmál eins vel og unnt er. Hlakka verulega til að takast á við ný verkefni. Fjölskyldunni gengur líka vel að koma sér fyrir í Englandi. Yngsta dóttirinn, Ragnhildur Lára, lærði ensku á metttíma. Sonurinn, Vilhjálmur Bjarki, unir sér vel í skólanum og táningurinn, Valdís Eik, virðist líka blómstra í nýju umhverfi. Eiginkona mín, Snædís, virðist líka njóta sín vel í háskólanum í Sussex þar sem hún er í framhaldsnámi í sálfræði. Ég var einnig nýverið á Íslandi þar sem ég hélt erindi á aðalfundi Félags íslenskra gigtarlækna og hitti þann fríða hóp á góðri stundu.

Allar þessar hræringar hafa því tafið fyrir því að ég hafi getað sinnt blogginu mínu eins og ég vildi. En svona er þetta, stundum er mikið að gera og stundum aðeins minna! Einhver sagði - "if you want something done, ask someone busy!" - Það er mikið til í þessum orðum!

Smálúða með "tandori" sniði með túrmerikkartöflum, poppuðum sinnepsfræjum, einföldu salati og jógúrt myntusósu

Ég sótti talsvert af fiski þegar ég var á landinu um síðustu helgi til að taka með mér til Englands. Legg leið mín jafnan í Fiskbúðina á Sundlaugaveginum. Sótti ýmislegt góðgæti - meðal annars þessa smálúðu sem var á tilboðsverði. 


1,2 kg smálúða
5 msk hveiti
3 msk tandori masala
1 tsk hvítlaukssalt
pipar
smjör til steikingar

Myntusósan

4 msk grísk jógúrt
2 msk majónes
1 búnt mynta
hnífsoddur broddkúmen
1 tsk hlynsíróp
1 hvítlauksrif
salt og pipar 

Kartöflurnar

800 g kartöflur (blómkál er líka ljómandi)
1 msk túrmerik
2 tsk broddkúmen
3 msk sinnepsfræ
50 g smjör
2 msk jómfrúarolía
steinselja til skreytingar

Salatið

6 tómatar
1 rauður laukur
1/6 haus iceberg kál
1 búnt vorlaukur (6 laukar)
2 msk rauðvínsedik
1 msk jómfrúarolía
safi úr einni sítrónu
salt og pipar


Fyrst var að gera hveitiblönduna. Það má vel skipta út hveitinu fyrir spelti eða jafnvel heilhveiti. Blandið saman hveitinu, tandori kryddinu, hvítlaukssaltinu og piparnum. 


Fáið svo börnin ykkar með í lið - Villi var svo sannarlega viljugur að hjálpa - hann velti fiskinum upp úr hveitinu. 


Bræðið síðan smjör á pönnu og steikið fiskinn í 1-2 mínútur á hvorri hlið og setjið í eldfast mót inn í heitan ofn (180 gráður - byrjið á þykkasta flakinu, sem þarf lengstan eldunartíma) á meðan þið steikið hin flökin.


Blandið saman jógúrtinni og majónesinu í skál. Skerið myntuna gróflega niður. Vilhjálmur er líka viljugur að vinna þessi verk. Ég hef verið að kenna honum hvernig maður á að munda hnífinn.


Blandið svo myntunni saman við, ásamt broddkúmeninu, salti og pipar. 


Það er ágætt að gera salatið fyrst þar sem edikið í dressingunni mýkir laukinn og dregur fram sætuna í honum. Sneiðið tómatana og laukinn næfurþunnt með mandólíni og leggið á flatan disk. Sneiðið icebergsalatið jafnframt smátt niður. Raðið þessu í ólíkum lögum á diskinn. Að lokum skreytið með vorlauknum. Blandið jómfrúarolíunni, edikinu og sítrónusafanum vandlega saman og hellið yfir grænmetið. Saltið og piprið og látið standa svo að dressingin marineri salatið líttillega. 


Sjóðið kartöflurnar þangað til að þær eru tilbúnar, í ríkulega söltuðu vatni. Ég var með nýjar kartöflur þannig að ég var ekkert að hafa fyrir því að flysja þær. Bræðið síðan smjör í potti og setjið túrmerikið og broddkúmenið saman við og eldið það í nokkrar sekúndur þannig að það vakni (ilmar dásamlega). Setjið svo sinnepsfræin út í og veltið upp úr kryddsmjörinu. Því næst setjið þið kartöflurnar saman við og hjúpið þær vandlega með smjörinu. Eldið þangað til sinnepsfræin fara að poppa (gætið þess að hafa þá lokið á svo þau fari ekki út um allt).


Skreytið fiskinn með fersku kóríander og njótið í faðmi fjölskyldunnar. 


Ég prófaði þetta hvítvín með matnum en ég hef áður smakkað rauðvínið frá sama framleiðenda og verið ánægður með það. Þetta er Marques Casa Concha Chardonnay frá 2012. Þetta er vín frá Chile - og er einkar ljúffengt. Kraftmikið og lifandi ávaxtabragð og smjörkennt á tungu með ljómandi ljúfu eftirbragði. 

No comments:

Post a Comment