Showing posts with label hvítkál. Show all posts
Showing posts with label hvítkál. Show all posts

Sunday, 11 October 2020

Ljúfir hausttónar - dásamlegt íslenskt grænmeti lagt í pækil - litadýrð í krukku

 

Ég elska haustin. Sumir segja, vonandi í gríni, að þeir sem elska haustin ættu að leita sér einhverskonar meðferðar. 

Ætli þessa færsla skýri ekki að einhverju leyti hvers vegna mér þykir svo vænt um þennan árstíma. Öll uppskeran. Sjáið alla þessa dásamlegu liti. Auðvitað er best að njóta allra þessara ávaxta sumarsins meðan það er sem ferskast - en það má líka leggja það í pækil og þannig varðveita bragð þess og áferðar yfir myrkustu mánuðina. 

Ljúfir hausttónar - dásamlegt íslenskt grænmeti lagt í pækil - litadýrð í krukku

Það eru til óteljandi blöndur af vökva sem ætti að nota í pækil. 3-2-1 blandan frá Svíþjóð og svo óteljandi aðrar blöndur. 

Ég útbjó þessa eftir að hafa skimað fjölda ólíkra uppskrifta. 

Grænmeti af ýmsu tagi;

Smágúrkur
papríkur
gulrætur
rauðkál
hvítkál
blómkál 
laukur

Pækill

1 hlutur edik
1 hlutur vatn
1/2 hlutur sykur
1/8 hlutur salt 

Krydd

Sinnepsfræ
svört piparkorn
græn piparkorn
rauð piparkorn
eldpipar
lárviðarlauf


Hægt er að hafa gúrkurnar - heilar, í sneiðum eða í ílöngum fjórðungum eins og þessum.


Sama má segja um gulræturnar. 


Svo er að fylla krukkurnar með grænmetinu. 

Í sumar krukkurnar fóru nokkrar tegundir af grænmeti - svona tilraun til að skapa einhver mynstur. 

Krukkurnar fengu að fara ferð á háum hita inn í uppþvottavélina, fengu að þorna og svo eina ferð inn í 110 gráðu heitan ofn í 10-15 mínútur. Við það ættu þær að vera sótthreinsaðar.


Svo er bara að loka krukkunum og koma þeim fyrir inn í ísskáp. 

Þetta er frábært meðlæti með ýmiskonar réttum og lyftir og lífgar við nánast hvaða disk sem lagður er á borðið. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 28 October 2018

Dásamlegur og vel nuddaður lambaframpartur á beði af nýju íslensku hvítkáli, eplum og lauk!


Ég elska haustin! Reyndar er ég þannig gerður að ég nýt hverrar árstíðar fyrir sig - en haustin eru í sérstöku uppáhaldi, en þá kemur á markaðinn fullt af splunkunýju grænmeti og svo auðvitað kjöt af nýslátruðu lambi.

Frændur okkar í Noregi kunna svo sannarlega að njóta lambakjöts og hvítkáls, en þjóðarréttur Norðmanna er einmittt Får i Kål - sem er eins einfaldur og hugsast getur. Þar sjóða menn jafnan hlut af lambakjöti og hvítkáli með fullt af heilum svörtum pipar í rúmar tvær klukkustundir. Galdurinn ku vera að þjappa kjötinu og kálinu á víxl í potti svo að hann verði alveg troðinn upp að börmum!

Þó að ég hafi þjóðarrétt Norðmanna bak við eyrað ætla ég að víkja ærlega af sporinu og sækja innblástur til Jamie Oliver, Simon Hutchinson og meira að segja Marco Pierre White. Það er þá eins gott að rétturinn heppnist vel!

Annars erum við stödd, eins og svo oft áður, í Kjósinni í sumarhúsi foreldra minna. Markmiðið er að ganga til rjúpna á morgun upp í dal. Hann er ansi erfiður yfirferðar svo það er gott að næra sig vel daginn fyrir gönguferðina.

Dásamlegur og vel nuddaður lambaframpartur á beði af nýju íslensku hvítkáli, eplum og lauk! 

Hráefni fyrir 6

1 lambaframpartur
1 hvítkálshaus frá gróðrarstöð Sigrúnar
3 epli
1 laukur
4 hvítlauksrif
4 ansjósuflök
1 lambateningar
4 greinar rósmarín
handfylli timjan
6 msk jómfrúarolía
salt og pipar

Borið fram með rjómalagaðri sveppasósu, kartöflum sem voru svo góðar að þær munu koma í sérstakri færslu og svo einföldu, en mjög svo ljúffengu salati.


Ég keypti þetta ferska hvítkál í nærlægri matvöruverslun. Hvítkál ætti maður að nota oftar - ég ætla í ár að prófa aftur að gera súrkál - sem ég hef lært að meta á endurteknum ferðum mínum til Austurríkis (panta mér alltaf væna pylsu með súrkáli og sterku sinnepi - nammi namm). Skal gera grein fyrir því í færslu á komandi vikum. 


Alltént skar ég hvítkálshausinn gróflega, sem og eplin og laukinn og lagði allt saman í stóra olíuborna ofnskúffu. 


Svo útbjó ég magnaða kryddolíu. Allt hugsað til að magna upp umami bragðið af réttinum. Hafið engar áhyggjur af ansjósunum - þær bráðna og hverfa og skilja ekkert fiskibragð eftir. Maukaði flökin saman við hvítlauk og tvo lambateninga í nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu.


Svo var olíunni hellt yfir og nuddað vandlega inn í kjötið.


Svo var bara að dreifa kryddjurtum yfir og krydda vel með salti og pipar. Setti álpappír yfir og bakaði í 170 gráðu heitum forhituðum ofni í þrjár og hálfa klukkustund.


Sko, ilmurinn var nóg til að gera mann veikan í hnjánum. Öll fitan hafði bráðnað og kjötið var lungamjúkt! Lungamjúkt segi ég. Og bragðið kyngimagnað. Sérstaklega þar sem ég hafði tekið það út úr ofninum, saltað aðeins og sett undir grillið í nokkrar mínútur til að reyna að poppa aðeins upp lambafituna.

Við gerðum rjómalagaða sveppasósu með matnum. Um uppáhaldssósuna mína hef ég bloggað margoft! ;) - Hægt er að lesa um aðferðina hérna!

Set kartöflurnar inn á bloggið í vikunni en þær voru klikkaðar - með nýjum íslenskum osti - Svörtum Tind1



Með matnum drukkum við þetta ljómandi góða rauðvín sem er frá Rioja á Spáni. En þar var ég í heimsókn í síðasta mánuði og tók upp sjónvarpþætti sem verða sýndir á Sjónvarpi Símans. Þetta vín er algert afbragð. Gert úr 100% tempranillo þrúgu - vínið er frá 2011 svo það hefur fengið langan tíma á eikartunnu og svo á flösku. Þetta vín er fallega rúbinrautt í glasi, ilmar af þroskuðum berjum og sultu. Svipað á tungu með ljúffengum eikartónum sem entust lengi.


Hvet ykkur öll til að prófa að elda lambaframpart með þessum hætti. Allir voru sammála um að það hafði heppnast sérstaklega vel í þetta skiptið.

 -------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Thursday, 5 November 2015

Kjöt og kál - þrjár afar heimilislegar uppskriftir; kjöt í káli, kálbúðingur og kálbögglar á sænska vísu!

Einfaldur heimilismatur er stundum það besta sem maður leggur sér til munns - ég hef gerst sekur um að gera hvunndagsmat ekki nógu og hátt undir höfði. Í þessari færslu eru þrír réttir sem allir eiga það sameiginlegt að sameina blandað kjöthakk og hvítkál á mismunandi hátt. Þann fyrsta lærði ég að gera af föður mínum sem er mikill kjötbolluunnandi. Kálbúðingin sá ég fyrst í IKEA - og var hann fullkomlega óætur. Ég var viss um að hægt væri að gera hann betri og sá síðasti er í raun hápunktur sænskrar kjötbollueldamennsku - kálbögglar, sem eiga uppruna sinn í Tyrklandi.

Það er nokkuð merkilegt hvernig sá réttur hafnaði í Svíþjóð - og ennþá er rökrætt um atburðarásina. Áhugaverðasta sagan er sú að Karl XII Svíakonungur, vonlaus stríðskóngur, var einu sinni sem oftar að berjast á framandi vígvöllum og tapaði bardaga árið 1709 á móti Rússum, við Poltova í Úkraníu. Hann þurfti að flýja ásamt mönnum sínum og endaði í Moldavíu undir verndarvæng Ottomanveldisins. Þar þurfti hann að bíða með her sinn í fimm ár (sem betur fer kannski því þá fór hann ekki í stríð á meðan). Meðan á dvölinni stóð bjó kóngurinn sænski í góðu yfirlæti og fékk að kynnast tyrkneskri matarmenningu. Kálbögglar eru sem sagt túlkun Svía á þekktum tyrkneskum rétti!

Fyrsti rétturinn er einn af þeim sem faðir minn kenndi mér að útbúa og var reglulega á borðum á okkar heimili. Mér fannst hann eiginlega alltaf bestur daginn eftir þegar ég notað afgangana, niðurskornar kjötbollur, kartöflur og sinnep ofan á ristað brauð. Þegar ég var lítill var ég alltaf með Gunnars sinnep, en núorðið útbý ég gjarnan dijonaise til að setja ofan á brauðið!

Kjöt og kál - þrjár afar heimilislegar uppskriftir; kjöt í káli, kálbúðingur og kálbögglar á sænska vísu!


Kjöt í káli - einfalt og ljúffengt!

300 g lambahakk
300 g nautahakk
300 g svínahakk
1 tsk lyftiduft
75 g hveiti
1 egg
100-150 ml kalt vatn
cheyanne pipar - á hnífsoddi
salt og pipar

Fullt af gulrótum, kartöflum og hvítkáli
Kjötkraftur



Fyrst er að undirbúa farsið. Það er auðvitað hægt að kaupa það út í búð - en ég kann betur við að vita hvað ég legg mér til munns. Blandið lamba-, nauta- og grísahakkinu saman í matvinnsluvél. Setjið svo saman við lyftiduftið, hveitið, eggið og kryddið. Setjið að lokum kalt vatn saman við þangað til að þið eruð kominn með meðfærilegt deig.


Lovely. Svo er bara að hita nóg af vatn í stórum potti og leysa upp nokkra teninga af einhvers konar kjötkrafti (ég valdi kjúklingakraft). Flysjið gulræturnar og bætið út í létt-sjóðandi vatnið, svo kartöflunum og að lokum hvítkálið. Byrjið svo að móta kjötbollurnar (auðveldast með því að nota tvær matskeiðar) og láta þær svo út í sjóðandi vatnið. Látið bollurnar sjóða í 15-20 mínútur. 


Raðið öllum herlegheitunum á stóran disk. Sannkallað "One-pot wonder"! 


Eina sem þarf er bráðið smjör og þá er punkturinn kominn yfir i-ið! 

Sænskur kálbúðingur með smá útúrdúr!

400 g svínahakk
400 g nautahakk
200 g soðið blómkál (eða hrísgrjón)
3 egg
1 laukur
2 hvítlauksrif
2 msk smjör
3 msk soya sósa
150 ml kjötsoð
2 msk hlynsíróp
salt og pipar



Byrjið á því að skera laukinn og hvítlaukinn smátt og steikjið í smjöri þangað til laukurinn er mjúkur. Saltið og piprið. Setjið síðan kjöthakkið í skál og blandið lauknum vandlega saman við ásamt þremur eggjum, soyasósu, sírópi og kjötsoði. Næst hefði átt að blanda soðnum köldum hrísgrjónum saman við en ég átti afgangs blómkálsmús frá því kvöldinu áður og notaði hana. Blandið öllum hráefnum vandlega saman. Saltið og piprið eftir smekk. 

Skerið hvítkálið í strimla og steikið í klípu af smjöri þangað til það tekur lit.



Þá er bara að réttinum saman. Takið eldfast mót og smyrjið með hvítlauksolíu. Setjið síðan helminginn af hvítkálinu í botninn og svo kjötfarsið ofan á. Setjið afganginn af hvítkálinu ofan á farsið. Bakið síðan í 180 gráðu heitum ofni í 45 mínútur. 


Berið fram með einfaldri brúnni sósu gerða úr kjötsoði, smjörbollu, rjómaskvettu, salti og pipar. Sænsk hefð kallar á títuberjasultu en rabbabarasulta er einnig ljúffeng með!

Kálbögglar að hætti Karl XII

500 g lambahakk
500 g nautahakk
börkur af heilli sítrónu
3 msk mynta
1 msk broddkúmen
1 msk kóríander
1/2 tsk kanill
1/4 tsk chiliduft
1 steiktur rauðlaukur
4 hvítlauksrif
salt og pipar

500 ml nautasoð

1 hvítkálshöfuð


Byrjið á því að skera laukinn og hvítlaukinn smátt og steikið hann í olíu þangað til að hann er mjúkur og glansandi. Setjið hakkið í skál og bætið lauknum saman við. Skolið sítrónu og raspið börkinn (bara gula hlutann - skiljið hvítabörkinn eftir þar sem hann er bitur og bragðvondur). Saxið síðan börkinn smátt og bætið við hakkið ásamt saxaðri myntu, broddkúmeni, kóríander, kanil og chili. Saltið og piprið og blandið vel saman. 


Sjóðið vatn í potti sem mun rúma kálhausinn. Reynið að skera stilkinn úr hvítkálinu og setjið svo hvítkálið í vatnið í um 5 mínútur. Þetta auðveldar manni að losa hvítkálsblöðin frá. 

Leggið hvítkálsblaðið á skurðarbretti og setjið rúma matskeið af hakki á blaðið og vefjið því svo upp þannig að það lokist alveg. Setjið í eldfast mót. Endurtakið. 


Hellið kjötsoði ofan á kálbögglana og bakið í 180 gráðu heitum ofni í 30 mínútur. 


Skreytið með smá myntu. Hellið soðinu af kálbögglunum og þykkið með smjörbollu. Smá rjómaskvetta. Smakkið til með salti og pipar.


Það verður veisla í kvöld.

Wednesday, 18 February 2015

Alpablogg; Alparif með karamellíseruðu hvítkáli og fersku timíani

Skíðafríið okkar er nú hálfnað. Við höfum skíðað nú í sex daga (eigum þrjá daga eftir) í frábæru færi í dásamlegu veðri. Nær allir í essinu sínu - nema hvað faðir minn er hálf svekktur yfir því að ná ekki að skíða sökum meins í hné sem okkur gengur ekki að hemja. Hann náði samt hálfum degi um daginn og virtist nokkuð glaður. Vona samt að hann nái að skíða aðeins meir! Eins og fram kom í síðustu færslu þá erum við á Skihotel Speiereck. Hér erum við í áttunda sinn - og þetta er alltaf eins og að koma heim til sín!



Við erum umkringd vinum, ættingum og kunningjum. Mamma og pabbi eru hérna, bróðir minn. Sverrir og Bryndís og strákarnir þeirra. Signý Vala og Þórir og dóttir þeirra, Hrafnhildur. Þá eru líka vinir okkar frá Svíþjóð, Per-Åke og Latifa og krakkar, Gunilla og Hans og sameiginlegu grísirnir þeirra. Svo eru líka margir kunningjar frá fyrri ferðum, Óli og Íris, Jakob og Guðbjörg og Haukur og Hjördís og svo krakkaskarinn þeirra! Fullt hús af góðu fólki! Á næsta hóteli eru svo vinir okkar Sverris og Bryndísar úr Menntó; Sara Hlín og Davíð, Anna Helga og Kári með sín börn í farteskinu. Hérna er því fjör frá morgni til kvölds! Á myndinni hérna að ofan er ég við hliðina á Sverri, æskuvini mínum, en við höfum verið bestu vinir síðan við vorum fimm ára - 34 ár!

Og stemmingin á hótelinu er frábær. Umhverfið er dásamlegt - Doddi og Þurý, eigendur Skihótel Speiereck kunna sko að taka á móti manni. Haddi kokkur sér um að elda frábæran mat. Unglingarnir í hópnum fóru í dag í skíðaferð með Dodda og voru himinlifandi með daginn. Við skíðuðum í Speiereck í glampandi sólskini og áttum dásamlegan dag!

Skíðafrí er það besta sem til er!

Alpablogg; Alparif með karamellíseruðu hvítkáli og fersku timíani



Ég kann vel að meta matseldina í austurrísku Ölpunum. Mér finnst pylsurnar, sinnepið, snitselið, brauðið og bjórinn alger himnasending. Og einnig réttur sem líkist þessum. Á einstaka veitingastöðum í hlíðum fjallanna er hægt að kaupa ljúffeng langelduð svínarif. Þetta er uppskrift sem birtist í bókinni minni sem kom út fyrir síðustu jól - Veislunni endalausu, og með svona mat á borðum er veislan auðvitað ljúffeng!

Mér hefur ekki tekist að setja saman nákvæmlega sömu uppskriftina en þetta er mín túlkun. Hugmyndinni að hvítkálinu stel ég frá tengdaföður mínum, en það passar einkar vel með þessum rétti.

Fyrir sex til átta

2 1/2-3 1/2 kg svínarif
salt og pipar
handfylli ferskt timían 
3-4 fersk lárviðarlauf 
1 hvítkálshaus 
100 g smjör 
1 msk hunangs-dijon-sinnep



1. Sneiðið hvítkálið gróft og steikið í heitu smjörinu þar til það fer að taka á sig lit. Raðið í ofnpott.


2. Skerið svínarifin í sneiðar með því að skera á milli rifj- anna, saltið og piprið og veltið upp úr fersku timíani.

Vel krydduð með salti og pipar og nóg af timian.


3. Bætið lárviðarlaufunum í pottinn og tyllið svo svínarifjunum ofan á hvítkálið.


4. Hafið lok á ofnpottinum og setjið í 175°C forhitaðan ofn í tvær til þrjár klukkustundir.

5. Þegar kjötið er tilbúið (farið að detta af beinunum) er það fært yfir á ofnplötu og penslað með sinnepinu. Bakið aftur í fimm til tíu mínútur, rétt til að bræða sinnepsgljáann.


Raðið hvítkálinu í skál og berið fram með rifjunum ásamt léttu salati.


Þetta er sko ljúffengur matur!