Showing posts with label papríkur. Show all posts
Showing posts with label papríkur. Show all posts

Sunday, 11 October 2020

Ljúfir hausttónar - dásamlegt íslenskt grænmeti lagt í pækil - litadýrð í krukku

 

Ég elska haustin. Sumir segja, vonandi í gríni, að þeir sem elska haustin ættu að leita sér einhverskonar meðferðar. 

Ætli þessa færsla skýri ekki að einhverju leyti hvers vegna mér þykir svo vænt um þennan árstíma. Öll uppskeran. Sjáið alla þessa dásamlegu liti. Auðvitað er best að njóta allra þessara ávaxta sumarsins meðan það er sem ferskast - en það má líka leggja það í pækil og þannig varðveita bragð þess og áferðar yfir myrkustu mánuðina. 

Ljúfir hausttónar - dásamlegt íslenskt grænmeti lagt í pækil - litadýrð í krukku

Það eru til óteljandi blöndur af vökva sem ætti að nota í pækil. 3-2-1 blandan frá Svíþjóð og svo óteljandi aðrar blöndur. 

Ég útbjó þessa eftir að hafa skimað fjölda ólíkra uppskrifta. 

Grænmeti af ýmsu tagi;

Smágúrkur
papríkur
gulrætur
rauðkál
hvítkál
blómkál 
laukur

Pækill

1 hlutur edik
1 hlutur vatn
1/2 hlutur sykur
1/8 hlutur salt 

Krydd

Sinnepsfræ
svört piparkorn
græn piparkorn
rauð piparkorn
eldpipar
lárviðarlauf


Hægt er að hafa gúrkurnar - heilar, í sneiðum eða í ílöngum fjórðungum eins og þessum.


Sama má segja um gulræturnar. 


Svo er að fylla krukkurnar með grænmetinu. 

Í sumar krukkurnar fóru nokkrar tegundir af grænmeti - svona tilraun til að skapa einhver mynstur. 

Krukkurnar fengu að fara ferð á háum hita inn í uppþvottavélina, fengu að þorna og svo eina ferð inn í 110 gráðu heitan ofn í 10-15 mínútur. Við það ættu þær að vera sótthreinsaðar.


Svo er bara að loka krukkunum og koma þeim fyrir inn í ísskáp. 

Þetta er frábært meðlæti með ýmiskonar réttum og lyftir og lífgar við nánast hvaða disk sem lagður er á borðið. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Friday, 11 September 2020

Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættur með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum

 


Þessi réttur var reyndist einfaldur og afskaplega góður. Hér er notaður rjómaostur sem er bragðbættur með grillaðri papríku og chili. Hann eins og kallaði á meira af litríkum papríkum og chili og svo fannst mér passa mjög vel að hafa saffranhrísgrjón með - en það þarf ekki nema smáræði til fá bæði bragð og lit.
Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættum með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum

Hráefnalisti handa 4-5

1 kg úrbeinuð kjúklingalæri
1,5 dós af rjómaosti bragðbættum með grilluðum papríkum og chili
2 msk jómfrúarolía
1 msk ras el hanout frá Kryddhúsinu
1 msk sæt papríka
1 tsk marókósk harissa
salt og pipar

1 rauð papríka
1 gul papríka
1 appelsínugul papríka
2 hvítlauksrif
1 rauður chili
2 msk hvítlauksolía
150 ml hvítvín
salt og pipar
1 msk steinselja og basil

1 bolli hrísgrjón
2 msk jómfrúarolía
0,25 g saffran
salt og pipar

græn lauf
pikkólótómatar
Dala fetaostur


Byrjaði á því að setja kjúklinginn í skál og bætti jómfrúarolíunni og kryddinu saman við, saltaði og pipraði og leyfði að marinerast í um klukkustund. 

Þvoði allar papríkurnar og skar þær í strimla og steikti í hvítlauksolíu. Saltaði og pipraði og bætti svo smátt skornum hvítlauk og chili saman við. Þegar grænmetið var orðið mjúkt hellti ég hvítvíninu saman við og sauð nær alveg niður. 

Lagði svo papríkurnar í botninn á eldföstu móti og svo rjómaost, u.þ.b. hálfa dós. Lagði svo kjúklinginn ofan á papríkurnar og svo afganginn af rjómaostinum ofan á. 


Bakaði í ofni í 45 mínútur þangað til að rjómaosturinn var bráðinn. Skreytti svo kjúklinginn með smátt skornum kryddjurtum, basil og steinselju. 


Á meðan kjúklingurinn var í ofninum suðum við hrísgrjón. Þegar þau voru næstum því tilbúin bætti ég jómfrúarolíu og saffrani saman við og lét svitna saman í nokkrar mínútur. 


Með matnum nutum við Ramon Bilbao Reserva 2015 frá Spáni. Þetta vín hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Alveg frá því að ég heimsótti þennan framleiðenda haustið 2018 þegar við tókum upp þáttinn Læknirinn á Spáni sem ennþá er hægt að sjá á Sjónvarpi Símans Premium. Þetta vín er unnið úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum. Kryddaðir bragðtónar með ljúffengu eikuðu eftirbragði.


Svo var bara að raða á disk. Og njóta. 

Þetta var alveg stórkostleg máltíð. 

Verði ykkur að góðu.


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 21 October 2018

Spænskt innblásinn kjúklingur í chorizo, pimenton og íslenskum papríkum


Í nýlegri heimsókn okkar til Spánar heimsóttum við meðal annars Laguardia - sem er lítið þorp í norðanverðu Rioja héraði. Þegar maður stendur á borgarvirkinu er horft yfir á landamærin sem skilja að Rioja og Baskaland. Fegurðin er ógleymanleg. Við heimsóttum þennan bæ einnig síðastliðið vor þegar við vorum þar nokkur í heimsókn og það var eiginlega skylda að heimsækja bæinn aftur. Hann er einkar fallegur, er nær allur innan hárra borgarmúra sem vörðu bæjarbúa á öldum áður fyrir ofríki ræningja og ribbalda. 

Allsstaðar var tekið vel á móti okkur. Við fórum á frægan vínbar þar sem hægt er að njóta vínsopa langt neðanjarðar í gömlum víngeymslum sem gerðar hafa verið upp til að veita þyrstum ferðalöngum veigar. Í borginni er nokkrar fallegar matvöruverslanir - og ein þeirra, slátrarinn, framleiðir meðal annars þessa ljúffengu chorizo pylsu sem við fengum að smakka áður en við keyptum nokkrar. Ég var svo sannarlega ekki svikinn af þessum kaupum. 

Spænskt innblásin kjúklingur í chorizo, pimenton og íslenskum papríkum

Hráefnalisti fyrir sex

6 kjúklingabringur
250 g chorizopylsa
1 msk pimenton - sætt
1 msk pimenton - sterk reykt
3 msk hveiti
jómfrúarolía til steikingar
2 nýjar rauðar íslenskar papríkur
1 rauðlaukur 
3 hvítlauksrif
salt og pipar

hrísgrjón

salat - blönduð græn lauf, rauðlaukur, kirsuberjatómatar, agúrkur, 
einföld salatdressing - olía, sítrónusafi, salt og pipar


Ég notaði bara helminginn af þessari pylsu sem slátrarinn hafði pakkað vandlega inn fyrir mig.


Skar pylsuna í munnbitastóra bita.


Pylsuna setti ég svo á pönnuna - og lét hitann koma upp - þannig að þær gæfu sem mest af fitunni frá sér og myndu í staðinn bragðbæta kjúklinginn og grænmetið.


Var reyndar með sjö bringur - en sex hefðu verið nóg. Það er alltaf ágætt að geta tekið afganginn með sér í vinnuna daginn eftir.


Ég setti bringurnar í plastpoka og lamdi þær nokkrum sinnum svo að þær yrðu nokkuð jafnflatar og myndu þess vegna steikjast jafnt.


Papríkuduft er ekki það sama og papríkuduft. Ég notaði tvennskonar papríkuduft, annars vegar milt - svona til að leggja grunninn og svo reykt papríkuduft til að gefa þessu hressilegt bragðkikk!


Papríkuduftinu var svo blandað saman við hveiti ásamt salti og pipar. 


Ég hafði nælt mér í þessa papríku. Hún er einkar bragðgóð. 


Svo skar ég niður einn rauðlauk, nokkuð þunnt.


Þegar chorizopylsurnar voru búnar að gefa frá sér heilmikið af fitu bætti ég papríkunum á pönnuna, svo lauknum og hvítlauknum og steikti þar til grænmetið var fallega mjúkt. Þá tók ég það til hliðar um stund.


Næst var að steikja kjúklingabringurnar að utan. Þegar þær höfðu tekið á sig lit lagði ég þær í eldfast mót og tyllti grænmetinu og pylsunum ofan á. Ég lét að sjálfsögðu ekkert af olíunni fara til spillis og hellti henni yfir þannig að ekkert af bragðinu myndi sleppa frá okkur.


Ilmurinn í eldhúsinu var dásamlegur þegar ég tók réttinn úr ofninum. Skreytti með lferskri steinselju. 


Með matnum bar ég fram þetta ítalska rauðvín. Auðvitað hefði ég átt að opna einhvern Spánverja með matnum - en maður er ekki alltaf með kveikt á perunni. En það skipti engu þar sem vínið var ljúffengt og rann ljúflega niður. Ég hafði togað tappann úr úr Corte Giara Ripasso frá Valpolicella sem er skammt fyrir utan Verona. Þetta vín minnir óneitanlega á Amarone vín - það er fallegt á litinn, með þéttum ilmi af ávexti, sultað, með kryddkeim og með ljúfu og löngu eftirbragði. 


Ekki bara var maturinn ljúffengur - þá var hann líka fallegur á að horfa. Það er gaman þegar mörg skilningarvit eru örvuð. 


Hvet ykkur til að prófa þennan rétt - hann var fljótlegur og ljúffengur! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 10 June 2018

Marineraðar lambakótilettur með mangó, chili og tómatsalsa, ostafylltum papríkum, gúrkum í majó og vel laukuðu kartöflusalati

Þennan rétt gerði ég í byrjun síðustu viku fyrir grillblað Morgunblaðsins sem kom út nú um helgina. Ég var fullur af innblæstri eftir ferðalag helgarinnar en við höfðum verið við tökur á þættinum mínum, Lambið og miðin, á Mývatni og í Húsavík. Ferðalaginu er þó langt frá því lokið. Við eigum ennþá eftir að taka upp á Snæfellsnesinu, Vík, Höfn og í Vestmannaeyjum. Mikið hlakka ég til - það er svo gaman að elda góðan mat, umlukin góðu fólki og ótrúlegri náttúru.

Alltént er innleggið hér sem ég sendi í Grillblaðið. Það er vel þess virði að næla sér í eintak - auk mín voru margir með skemmtilegar og spennandi uppskriftir.

----

Loksins erum við Reykvíkingar farnir að sjá einhver teikn um að sumarið sé á næsta leiti. Sólin hefur aðeins gægst út í gegnum skýjahnoðrana og regninu hefur eitthvað slotað. Það er fátt sem gleður meira en von um góðviðri þannig að hægt sé að kynda undir grillinu með sólarglætu í hjarta.

Þessi uppskrift tyllir því besta úr íslenskri náttúru upp á ljúfan stall þar sem lambið og grænmetið fá sérstaklega að njóta sín.

Bon appetit!




















Marineraðar lambakótilettur með mangó, chili og tómatsalsa, ostafylltum papríkum, gúrkum í majó og vellaukuðu kartöflusalati 

Hráefnalisti

Marineraðar lambakótilettur

2 hryggir skornir í 1,5 cm þunnar sneiðar
4 msk jómfrúarolía
safi úr einu lime
börkur af einu lime
3 hvítlauksrif
½ rauður chilipipar
1 tsk hlynsíróp
salt og pipar

Vel laukað kartöflusalat

1 kg smælki með hýðinu
1 rauðlaukur
búnt af vorlauk
4 skalottulaukar
4 msk smátt skorinn graslaukur
4 msk smátt skorin steinselja
3 hvítlauksrif
3 msk majónes
2 msk grísk jógúrt
2 tsk hlynsíróp
2 tsk hvítvínsedik
salt og pipar

Mangósalsa

1 mangó
4 kjarnhreinsaðir tómatar
1 rauður chilipipar
2 msk hökkuð fersk mynta
4 msk jómfrúarolía
2 tsk hlynsíróp
salt og pipar

Fylltar papríkur

5 rauðar íslenskar papríkur
400 g rjómaostur til matargerðar
einn castello-ostur með chilibragði
4 hvítlauksrif
1 msk hökkuð fersk steinselja
1 msk hökkuð fersk basil
salt og pipar

Agúrkusalat frá Hveravöllum

1 kjarnhreinsuð agúrka
1 tsk sykur
2 msk majónes
1 tsk hökkuð ferks steinselja
safi úr hálfu lime
salt og pipar



Ég átti talsvert af grænmeti eftir að loknum tökum sem ekki var hægt að láta það fara til spillis.


Ég lét eina öskju af rjómaosti ná herbergishita, færði hann yfir í skál og hrærði upp til að mýkja hann enn frekar.


Kastaði mæðinni með því að deila fordrykk með gestunum okkar. Ég skenkti í glös Masi - Rosa dei Masi. Eftir að hafa heimsótt þennan vínframleiðanda hefur hrifning mín á þessu víni aukist umtalsvert. Þetta er ljúft ávaxtaríkt vín sem gott er að drekka þegar sést til sólar. 


Skar papríkurnar í helminga og kjarnhreinsaði. Saxaði kryddjurtirnar og hvítlaukinn smátt og blandaði saman við rjómaostinn ásamt salti og pipar.


Ostablöndunni tróð ég svo í papríkurnar og lagði væna sneið af castello chiliosti ofan á.


Blússhitaði grillið og bakaði papríkurnar í um 20-25 mínútur. 


Mangósalsað var nauðaeinfalt. Skar einfaldlega mangó, tómata, chili og myntu niður og blandaði saman og lagði í skál. Bragðbætti síðan með jómfrúarolíu, hlynsírópi og salti og pipar.


Gúrkusalatið var einnig fljótlegt og einfalt. Ég fékk hugmynd að þessari uppskrift frá Páli og Heiðbjörtu á Hveravöllum. Kjarnhreinsaði eina agúrku og skar í litla bita. Bætti majónesi saman við ásamt sykri, smátt skorinni steinselju, limesafa og saltaði og pipraði.


Bróðir minn tók að sér að gera salatið. Smælkið var soðið í söltuðu vatni, vatninu hellt frá og þær látnar kólna í 30 mínútur. Á meðan skar hann niður alla laukana og blandaði þeim svo saman við kartöflurnar ásamt kryddjurtunum. Að lokum hrærði hann í sósuna og blandaði henni svo saman við kartöflurnar og laukinn. Smakkað til með salti og pipar.


Auðvitað marineraði ég lambakótiletturnar. Þær hafði Bjössi í Kjöthöllinni snyrt fyrir mig með stuttum fyrirvara. Ég notaði góða jómfrúarolíu, safa úr einni límónu og svo börkinn af henni, hökkuð hvítlauksrif, chili, hlynsíróp og svo salt og pipar. Þetta fékk að standa í tvær til þrjár klukkustundir áður en þær fóru á grillið.


Ég er að prófa nýtt grill - Weberinn minn lifði ekki veturinn af - það kútveltist í einhverjum storminum og vildi ekki fara í gang. Ég fékk að prófa Napóleon grill frá Byko (var einnig að grilla þar um helgina) og það kom mér á óvart hversu hratt það náði háum hita. Hlakka til að leika mér með það í sumar. 


Lambið þurfti ekki nema nokkrar mínútur á hvorri hlið.


Papríkurnar ilmuðu dásamlega þegar þær voru bornar fram.


Með matnum drukkum við Masi Tupungato Corbec frá 2015. Þetta er blanda af Corvina og svo Malbec. Corvina þrúgan rekur uppruna sinn til Valpolicella en er ræktað í Argentínu sem er síðan blandað við Malbec (sem er undirstaðan í Argentískri víngerð). Ég tel mig bera ábyrgð á því að þetta vín er nú fáanlegt á Íslandi þar sem ég hvatti Ölgerðina eindregið til að flytja það inn þegar við vorum á ferðalagi á Ítalíu síðastliðið vor. Þetta er dúndur vín!


Þetta var dásamleg máltíð. Hvet ykkur til að prófa - hvað er betra en íslenskt lambakjöt og íslenskt grænmeti.

Verði ykkur að góðu!


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Tuesday, 29 September 2015

Nýr (og kannski ekki) rækjukokteill ala mode


Núna erum við búin að vera einn mánuð í Englandi. Ég er búinn að vera í fríi svona að mestu ef frí skal kalla. Hef reynt að sinna skrifum þar sem ég er að undirbúa bók sem á að koma út á næsta ári þannig að ég hef verið að reyna að skrifa eins vel og mikið og ég get. Ég er líka að reyna drattast áfram með rannsóknarverkefnið mitt af afar veikum mætti.

Ég flaug fyrir skemmstu til Svíþjóðar þar sem ég mun vinna á gigtarmóttöku í Halmstad áður en ég fer til Íslands til að elda fyrir brúðkaup kærra vina okkar hjónanna, Hafdísar og Magnúsar. Síðustu helgi prufukeyrðum við matseðilinn. Þetta var einn af forréttunum sem við prófuðum - hann var með í fyrstu bókinni minni - Tími til að njóta.

Ég fékk góða aðstoð frá föður mínum, bróður og svo vini okkar allra við að framreiða máltíðina. Restin af fjölskyldunni og gestir voru í dómnefnd - og samþykktu matseðilinn.

Nýr (og kannski ekki) rækjukokteill ala mode

Þessi réttur varð til eftir minni þegar ég hafði smakkað líkan rétt í matarboði hjá vinafólki okkar. Hann var ferskur og safaríkur með ljúffengri sósu. – Svo ljúffengur að Snædís stakk upp á því að kannski myndi hann sóma sér vel í bókinni. Og það gerir hann svo sannarlega.

500 g rækjur
½ rauðlaukur
1 hvítlauksrif
½ græn paprika
½ gul paprika
½ rauð paprika
safi úr einni sítrónu
handfylli steinselja eða kóríander
1/2 rauður chili
1 mangó

200 ml sýrður rjómi
2 msk taílensk chili-sósa
heill chili-pipar
salt og pipar

Gerið svona;


Skerið laukinn, hvítlaukinn og paprikurnar og chili piparinn í litla bita og setjið í skál.

Saltið og piprið og setjið saman við safa úr heilli sítrónu.

Flysjið mangó og skerið aldinkjötið í litla bita og bætið í skálina ásamt handfylli af smátt skorinni steinselju (eða kóríander).

Skolið rækjurnar og bætið út á grænmetið og mangóið. Hrærið vel saman og látið standa í ísskáp til að bragðið nái að blandast vel saman.

Sósan er einföld. Hrærið saman öll hráefnin – hugaðir hafa fræin úr chili-piparnum með en þeir sem vilja hafa sósuna mildari fjarlægja þau ásamt hvíta þræðinum sem þau hanga á.