Friday 11 September 2020

Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættur með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum

 


Þessi réttur var reyndist einfaldur og afskaplega góður. Hér er notaður rjómaostur sem er bragðbættur með grillaðri papríku og chili. Hann eins og kallaði á meira af litríkum papríkum og chili og svo fannst mér passa mjög vel að hafa saffranhrísgrjón með - en það þarf ekki nema smáræði til fá bæði bragð og lit.
Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættum með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum

Hráefnalisti handa 4-5

1 kg úrbeinuð kjúklingalæri
1,5 dós af rjómaosti bragðbættum með grilluðum papríkum og chili
2 msk jómfrúarolía
1 msk ras el hanout frá Kryddhúsinu
1 msk sæt papríka
1 tsk marókósk harissa
salt og pipar

1 rauð papríka
1 gul papríka
1 appelsínugul papríka
2 hvítlauksrif
1 rauður chili
2 msk hvítlauksolía
150 ml hvítvín
salt og pipar
1 msk steinselja og basil

1 bolli hrísgrjón
2 msk jómfrúarolía
0,25 g saffran
salt og pipar

græn lauf
pikkólótómatar
Dala fetaostur


Byrjaði á því að setja kjúklinginn í skál og bætti jómfrúarolíunni og kryddinu saman við, saltaði og pipraði og leyfði að marinerast í um klukkustund. 

Þvoði allar papríkurnar og skar þær í strimla og steikti í hvítlauksolíu. Saltaði og pipraði og bætti svo smátt skornum hvítlauk og chili saman við. Þegar grænmetið var orðið mjúkt hellti ég hvítvíninu saman við og sauð nær alveg niður. 

Lagði svo papríkurnar í botninn á eldföstu móti og svo rjómaost, u.þ.b. hálfa dós. Lagði svo kjúklinginn ofan á papríkurnar og svo afganginn af rjómaostinum ofan á. 


Bakaði í ofni í 45 mínútur þangað til að rjómaosturinn var bráðinn. Skreytti svo kjúklinginn með smátt skornum kryddjurtum, basil og steinselju. 


Á meðan kjúklingurinn var í ofninum suðum við hrísgrjón. Þegar þau voru næstum því tilbúin bætti ég jómfrúarolíu og saffrani saman við og lét svitna saman í nokkrar mínútur. 


Með matnum nutum við Ramon Bilbao Reserva 2015 frá Spáni. Þetta vín hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Alveg frá því að ég heimsótti þennan framleiðenda haustið 2018 þegar við tókum upp þáttinn Læknirinn á Spáni sem ennþá er hægt að sjá á Sjónvarpi Símans Premium. Þetta vín er unnið úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum. Kryddaðir bragðtónar með ljúffengu eikuðu eftirbragði.


Svo var bara að raða á disk. Og njóta. 

Þetta var alveg stórkostleg máltíð. 

Verði ykkur að góðu.


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment