Showing posts with label úrbeinuð kjúklingalæri. Show all posts
Showing posts with label úrbeinuð kjúklingalæri. Show all posts

Sunday, 16 May 2021

Bragðlaukaveisla - kjúklingur með parma, pistacíuhnetum, västerbottenosti og piccolo tómötum á aspasbeði

Þessa uppskrift fékk ég hjá einum af sjúklingunum mínum. Stundum þegar formlegaheitum er lokið er spjallað um lífið og tilveruna og margt ber á góma. Ég fæ og gef ráð um mat og matseld og oft fæ ég sendar til mín hugmyndir um skemmtilegar og spennandi uppskriftir. 

Ég myndi geta heimilda, en þá væri ég að rjúfa trúnað við sjúklinginn minn. Það besta sem ég get gert er að þakka einstaklingi sem býr á eyju skammt frá meginlandinu - bestu þakkir fyrir þessa frábæru uppskrift. Þú veist hver þú ert!  

Bragðlaukaveisla - kjúklingalæri með parma, pistacíuhnetum, Västerbottenosti og píkkoló tómötum á aspasbeði

Handa fimm 

10 úrbeinaðuð kjúklingalæri
3 egg
4 msk hveiti
2 bollar brauðraspur
1 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk chiliduft
olía til steikingar
salt og pipar

2 búnt aspas
2 box pikkolótómatar
5 sneiðar parmaskinka
handfylli pistasíuhnetur
75 ml hvítvín
75 g Västerbottenostur
jómfrúarolía
handfylli basil
salt og pipar

Best er að hefja leika með hafa þrjár skálar, eina fyrir hveiti, næstu fyrir eggin og þá síðustu fyrir brauðmylsnuna. 

Byrjið á því að leggja lærin í fat, saltið og piprið.  


Veltið lærunum svo upp úr hveiti, bragðbættu með hvítlauksdufti, chili, salti og pipar. Dustið af umfram hveitið. Hrærið egg og veltið lærunum upp úr eggjablöndunni. Færið svo lærin yfir í brauðmylsnuna og hjúpið vel. 


Steikið lærin í 1-2 mínútur á hvorri hlið. 


Leggið aspasinn í ofnskúffu, sáldrið smá jómfrúarolíu yfir, saltið og pipar og hellið hvítvíni yfir. Leggið kjúklingalærin ofan á aspasinn. 


Sáldrið Västerbottenostinum ofan á kjúklinginn. 


Piccolótómatar eru sælgæti. Skerið þá í tvennt og og dreifið yfir kjúklingalærin. Leggið sneiðar af parmaskinku ofan á hvert læri. 


Svo pistasíunum. 


Þetta er eins og listaverk! Bakið í 180 gráðu heitum ofni í 20 mínútur eða svo. 


Með matnum smökkuðum við Finca San Marín - sem er spænskt vín frá Rioja héraði. Þetta er nokkuð kraftmikið vín, þurrt með ágætum ávexti, smá tanníni. Ljómandi sopi með matnum. 



Þetta var sannkölluð bragðlaukaveisla! 


 --------------------



   Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Friday, 11 September 2020

Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættur með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum

 


Þessi réttur var reyndist einfaldur og afskaplega góður. Hér er notaður rjómaostur sem er bragðbættur með grillaðri papríku og chili. Hann eins og kallaði á meira af litríkum papríkum og chili og svo fannst mér passa mjög vel að hafa saffranhrísgrjón með - en það þarf ekki nema smáræði til fá bæði bragð og lit.
Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættum með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum

Hráefnalisti handa 4-5

1 kg úrbeinuð kjúklingalæri
1,5 dós af rjómaosti bragðbættum með grilluðum papríkum og chili
2 msk jómfrúarolía
1 msk ras el hanout frá Kryddhúsinu
1 msk sæt papríka
1 tsk marókósk harissa
salt og pipar

1 rauð papríka
1 gul papríka
1 appelsínugul papríka
2 hvítlauksrif
1 rauður chili
2 msk hvítlauksolía
150 ml hvítvín
salt og pipar
1 msk steinselja og basil

1 bolli hrísgrjón
2 msk jómfrúarolía
0,25 g saffran
salt og pipar

græn lauf
pikkólótómatar
Dala fetaostur


Byrjaði á því að setja kjúklinginn í skál og bætti jómfrúarolíunni og kryddinu saman við, saltaði og pipraði og leyfði að marinerast í um klukkustund. 

Þvoði allar papríkurnar og skar þær í strimla og steikti í hvítlauksolíu. Saltaði og pipraði og bætti svo smátt skornum hvítlauk og chili saman við. Þegar grænmetið var orðið mjúkt hellti ég hvítvíninu saman við og sauð nær alveg niður. 

Lagði svo papríkurnar í botninn á eldföstu móti og svo rjómaost, u.þ.b. hálfa dós. Lagði svo kjúklinginn ofan á papríkurnar og svo afganginn af rjómaostinum ofan á. 


Bakaði í ofni í 45 mínútur þangað til að rjómaosturinn var bráðinn. Skreytti svo kjúklinginn með smátt skornum kryddjurtum, basil og steinselju. 


Á meðan kjúklingurinn var í ofninum suðum við hrísgrjón. Þegar þau voru næstum því tilbúin bætti ég jómfrúarolíu og saffrani saman við og lét svitna saman í nokkrar mínútur. 


Með matnum nutum við Ramon Bilbao Reserva 2015 frá Spáni. Þetta vín hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Alveg frá því að ég heimsótti þennan framleiðenda haustið 2018 þegar við tókum upp þáttinn Læknirinn á Spáni sem ennþá er hægt að sjá á Sjónvarpi Símans Premium. Þetta vín er unnið úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum. Kryddaðir bragðtónar með ljúffengu eikuðu eftirbragði.


Svo var bara að raða á disk. Og njóta. 

Þetta var alveg stórkostleg máltíð. 

Verði ykkur að góðu.


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday, 15 February 2020

Ljúffengur og fljótlegur kjúklingaréttur - stroganoff - með basmati hrísgrjónum


Ætli stærsti kosturinn við þennan rétt er að hann er á sama tíma einkar ljúffengur og fljótlegur. Galdurinn er að nota ungverskt papríkuduft - ég notaði tvennskonar papríkuduft, bæði sterkt og sætt og það ljáði réttinum smá hita og ljúfa sætu.

Ljúffengur og fljótlegur kjúklingaréttur - stroganoff - með basmati hrísgrjónum

Hráefnalisti fyrir fimm

700 g úrbeinaðuð kjúklingalæri
2 dósir 36% sýrður rjómi
250 ml kjúklingasoð
250 g sveppir
2 gulur laukur
2 hvítlauksrif
100 g smjör
2 msk jómfrúarolía
1 msk sterkt papríkuduft
1 msk sætt papríkuduft
1 msk Edmond Fallot Dijon hunangssinnep
Worchestershire sósa eftir smekk
1 msk ferskur graslaukur, smátt skorinn
salt og pipar

1 bolli basmati hrígrjón
soðið í 2 bollum af söltuðu vatni


Byrjið á því að sneiða sveppina, laukinn í þunnar sneiðar og hvítlaukinn smátt niður. 


Bræðið helminginn af smjörinu á pönnu og steikið laukinn í nokkrar mínútur þangað til að hann er mjúkur. Bætið þá papríkuduftinu saman við og ristið á pönnunni í mínútu eða svo.


Bætið næst sveppunum og hvítlauknum saman við og steikið í nokkrar mínútur þar til sveppirnir eru orðnir mjúkir. Gætið þess að brenna ekki hvítlaukinn.


Bætið næst sinnepinu saman við og blandið vel saman. Setjið sveppina og laukinn til hliðar.


Skerið kjúklinginn í strimla. Bætið restinni af smjörinu og olíunni á pönnuna og steikið kjúklinginn vandlega. Saltið og piprið.


Bætið því næst sveppunum og lauknum saman við og blandið vel saman. Bætið heitu kjúklingasoði saman við og sjóðið niður í fimm mínútur.


Bætið að lokum sýrða rjómanum saman við og hrærið varlega. Sjóðið rjómann upp og svo niður um þriðjung. Smakkið sósuna og bragðbætið með salti, pipar og Worchestershire sósu eins og bragðlaukarnir kveða á um.


Á meðan verið er að vinna í stroganoffinu - sjóðið hrísgrjónin samkvæmt leiðbeiningum.


Svo er bara að kalla fjölskylduna að borðinu og njóta. 

Þetta er algert sælgæti.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa