Showing posts with label hrísgrjón. Show all posts
Showing posts with label hrísgrjón. Show all posts

Saturday, 3 October 2020

Gúllasið hennar Snædísar heimsótt aftur - 13 árum síðar


Ég deildi þessari mynd á Instagram í liðinni viku og hef fengið nokkrar óskir um að birta uppskriftina. Þetta er í raun endurbirting; hún birtist í fyrsta sinn á síðunni minni 8. febrúar 2007. Síðan eru liðin mörg ár - heil þrettán ár. 

Og þessi uppskrift er ekki frá mér komin. Konan mín, Snædís, á allan heiðurinn af þessari eldamennsku og hefur eldað hana margoft. Þetta er svona "go-to" uppskrift  sem hún er löngu búin að fullkomna. 

Gúllasið hennar Snædísar heimsótt aftur - 13 árum síðar

Hráefnalisti fyrir 4-6

500 g nautagúllas
4 gulrætur
1 rauðlaukur
1sellerístöng
2 hvítlauksrif
250 g sveppir
2 lárviðarlauf
1 dós tómatmauk (lítil)
1 msk papríkuduft
300 ml rauðvín
500 ml nautakraftur
150 ml rjómi
jómfrúarolía/smjör til steikingar
salt og pipar

2 bollar basmati hrísgrjón

Einfalt salat með pommengranat eplum


Saltið og piprið kjötið og brúnið að utan og setjið það svo til hliðar. Næst er að steikja grænmetið, niðurskornar gulrætur, saxaðan rauð- og hvítlauk, smátt skorið sellerí og niðursneidda sveppi þangað til að það er mjúkt. Losið kjötkraftinn af botninum með sleif. 

Bætið svo tómatmauki saman við og látið steikjast áfram í nokkrar mínútur til að brúna tómatmaukið. Bætið papríkuduftinu, lárviðarlaufi og saltið og piprið vandlega. 

Hellið svo rauðvíni saman við og sjóðið upp og síðan niður um helming. Þá bætið þið nautakraftinum við og látið krauma í 90 mínútur á hellu eða inni í 160 gráðu heitum ofni. Að lokum er rjóma bætt saman við og látið sjóða áfram í 20 mínútur. Það þarf stundum að smakka sósuna til með krafti, salti, pipar og soya - svona til að fá rétta bragðið. 


Berið fram með soðnum hrísgrjónum og einföldu salati. Það sakar ekki að fá sér ljúffengt rauðvín með matnum. Við bárum fram Marques de casa Concha Etuiqueta frá 2017. Þetta er kraftmikið rauðvín, mikið berjabragð, tannínríkt, frekar þurrt með gott eikað eftirbragð. Gaf matnum ekkert eftir. 

Verði ykkur að góðu! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Friday, 11 September 2020

Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættur með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum

 


Þessi réttur var reyndist einfaldur og afskaplega góður. Hér er notaður rjómaostur sem er bragðbættur með grillaðri papríku og chili. Hann eins og kallaði á meira af litríkum papríkum og chili og svo fannst mér passa mjög vel að hafa saffranhrísgrjón með - en það þarf ekki nema smáræði til fá bæði bragð og lit.
Kraftmikill kjúklingur með rjómaosti, bragðbættum með papríkum og chili - með meira af papríkum og chili borið fram með saffran hrísgrjónum

Hráefnalisti handa 4-5

1 kg úrbeinuð kjúklingalæri
1,5 dós af rjómaosti bragðbættum með grilluðum papríkum og chili
2 msk jómfrúarolía
1 msk ras el hanout frá Kryddhúsinu
1 msk sæt papríka
1 tsk marókósk harissa
salt og pipar

1 rauð papríka
1 gul papríka
1 appelsínugul papríka
2 hvítlauksrif
1 rauður chili
2 msk hvítlauksolía
150 ml hvítvín
salt og pipar
1 msk steinselja og basil

1 bolli hrísgrjón
2 msk jómfrúarolía
0,25 g saffran
salt og pipar

græn lauf
pikkólótómatar
Dala fetaostur


Byrjaði á því að setja kjúklinginn í skál og bætti jómfrúarolíunni og kryddinu saman við, saltaði og pipraði og leyfði að marinerast í um klukkustund. 

Þvoði allar papríkurnar og skar þær í strimla og steikti í hvítlauksolíu. Saltaði og pipraði og bætti svo smátt skornum hvítlauk og chili saman við. Þegar grænmetið var orðið mjúkt hellti ég hvítvíninu saman við og sauð nær alveg niður. 

Lagði svo papríkurnar í botninn á eldföstu móti og svo rjómaost, u.þ.b. hálfa dós. Lagði svo kjúklinginn ofan á papríkurnar og svo afganginn af rjómaostinum ofan á. 


Bakaði í ofni í 45 mínútur þangað til að rjómaosturinn var bráðinn. Skreytti svo kjúklinginn með smátt skornum kryddjurtum, basil og steinselju. 


Á meðan kjúklingurinn var í ofninum suðum við hrísgrjón. Þegar þau voru næstum því tilbúin bætti ég jómfrúarolíu og saffrani saman við og lét svitna saman í nokkrar mínútur. 


Með matnum nutum við Ramon Bilbao Reserva 2015 frá Spáni. Þetta vín hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Alveg frá því að ég heimsótti þennan framleiðenda haustið 2018 þegar við tókum upp þáttinn Læknirinn á Spáni sem ennþá er hægt að sjá á Sjónvarpi Símans Premium. Þetta vín er unnið úr 100% Tempranillo þrúgum. Þetta er bragðmikið vín - fullt af frísklegum berjatónum. Kryddaðir bragðtónar með ljúffengu eikuðu eftirbragði.


Svo var bara að raða á disk. Og njóta. 

Þetta var alveg stórkostleg máltíð. 

Verði ykkur að góðu.


-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Thursday, 4 June 2020

Fullkomin ofngrilluð smálúða með rjómaosti (með karmilliseruðum lauk), smjörsteiktum lauk, fersku timjan og steiktum saffran hrísgrjónum


Fullkomin ofngrilluð smálúða með rjómaosti (með karmilliseruðum lauk), smjörsteiktum lauk, fersku timjan og steiktum saffran hrísgrjónum 

Þetta er einkar fljótlegur réttur sem vandræðalaust er hægt að snara fram í miðri viku - já, eða um helgi ef því er að skipta. 

Þessi uppskrift er birt í samvinnu við Gott í matinn. Sjá hérna

Fyrir fimm

Fyrir fiskinn

1 kg spriklandi fersk smálúða (ég fer alltaf í fiskbúðina á Sundlaugaveginum)
1 hvítur laukur
1 rauðlaukur
2 msk hvítlauksolía
50 g af smjöri
1/2 box af rjómaosti með karmelliserðum lauk 
1 msk ferskt timjan
salt og pipar

Fyrir hrísgrjónin

1,5 bolli basmati hrísgrjón (soðin skv. leiðbeiningum í söltuðu vatni) 
50 g smjör
0,5 g saffran 
salt og pipar

Salatlauf


Skolið af fisknum og leggið í ofnskúffu.


Ég notaði rjómaost með karamellíseruðum lauk - þetta er bragðgóður ostur og þarna er sannarlega að finna sæta lauktóna.


Ég lagði fiskinn á bökunarpappír til þess að minnka uppþvott að matseld lokinni.


Byrjaði á því að pensla fiskinn með hvítlauksolíu og svo ríkulega af rjómaostinum, notaði hálfan pakkann. Ofan á það lagði ég svo bæði rauðlauk og gulan lauk sem ég hafði skorið í sneiðar og mýkt í nokkrar mínútur í smjöri. Gætti þess vandlega að brúna ekki laukinn. Sáldraði svo fersku timjan yfir og bakaði svo í 180 gráðu heitum ofni í 20 mínútur.


Næsta skref var að vekja saffranið í heitu vatni í um 30 mínútur.


Bræddi svo 50 g af smjöri á pönnu og steikti soðin basmati hrísgrjón í nokkrar mínútur áður en ég hellti saffraninu ásamt vatninu saman við. Steikti áfram í nokkrar mínútur. Grjónin verða fallega heiðgul.


Þetta var sérstaklega vel heppnuð máltíð - lúðan var kom einstaklega mjúk og safarík undan hjúp af rjómaosti og smjörsteiktum lauk.

Sannkölluð veislumáltíð.

Verði ykkur að góðu.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa


Sunday, 21 October 2018

Spænskt innblásinn kjúklingur í chorizo, pimenton og íslenskum papríkum


Í nýlegri heimsókn okkar til Spánar heimsóttum við meðal annars Laguardia - sem er lítið þorp í norðanverðu Rioja héraði. Þegar maður stendur á borgarvirkinu er horft yfir á landamærin sem skilja að Rioja og Baskaland. Fegurðin er ógleymanleg. Við heimsóttum þennan bæ einnig síðastliðið vor þegar við vorum þar nokkur í heimsókn og það var eiginlega skylda að heimsækja bæinn aftur. Hann er einkar fallegur, er nær allur innan hárra borgarmúra sem vörðu bæjarbúa á öldum áður fyrir ofríki ræningja og ribbalda. 

Allsstaðar var tekið vel á móti okkur. Við fórum á frægan vínbar þar sem hægt er að njóta vínsopa langt neðanjarðar í gömlum víngeymslum sem gerðar hafa verið upp til að veita þyrstum ferðalöngum veigar. Í borginni er nokkrar fallegar matvöruverslanir - og ein þeirra, slátrarinn, framleiðir meðal annars þessa ljúffengu chorizo pylsu sem við fengum að smakka áður en við keyptum nokkrar. Ég var svo sannarlega ekki svikinn af þessum kaupum. 

Spænskt innblásin kjúklingur í chorizo, pimenton og íslenskum papríkum

Hráefnalisti fyrir sex

6 kjúklingabringur
250 g chorizopylsa
1 msk pimenton - sætt
1 msk pimenton - sterk reykt
3 msk hveiti
jómfrúarolía til steikingar
2 nýjar rauðar íslenskar papríkur
1 rauðlaukur 
3 hvítlauksrif
salt og pipar

hrísgrjón

salat - blönduð græn lauf, rauðlaukur, kirsuberjatómatar, agúrkur, 
einföld salatdressing - olía, sítrónusafi, salt og pipar


Ég notaði bara helminginn af þessari pylsu sem slátrarinn hafði pakkað vandlega inn fyrir mig.


Skar pylsuna í munnbitastóra bita.


Pylsuna setti ég svo á pönnuna - og lét hitann koma upp - þannig að þær gæfu sem mest af fitunni frá sér og myndu í staðinn bragðbæta kjúklinginn og grænmetið.


Var reyndar með sjö bringur - en sex hefðu verið nóg. Það er alltaf ágætt að geta tekið afganginn með sér í vinnuna daginn eftir.


Ég setti bringurnar í plastpoka og lamdi þær nokkrum sinnum svo að þær yrðu nokkuð jafnflatar og myndu þess vegna steikjast jafnt.


Papríkuduft er ekki það sama og papríkuduft. Ég notaði tvennskonar papríkuduft, annars vegar milt - svona til að leggja grunninn og svo reykt papríkuduft til að gefa þessu hressilegt bragðkikk!


Papríkuduftinu var svo blandað saman við hveiti ásamt salti og pipar. 


Ég hafði nælt mér í þessa papríku. Hún er einkar bragðgóð. 


Svo skar ég niður einn rauðlauk, nokkuð þunnt.


Þegar chorizopylsurnar voru búnar að gefa frá sér heilmikið af fitu bætti ég papríkunum á pönnuna, svo lauknum og hvítlauknum og steikti þar til grænmetið var fallega mjúkt. Þá tók ég það til hliðar um stund.


Næst var að steikja kjúklingabringurnar að utan. Þegar þær höfðu tekið á sig lit lagði ég þær í eldfast mót og tyllti grænmetinu og pylsunum ofan á. Ég lét að sjálfsögðu ekkert af olíunni fara til spillis og hellti henni yfir þannig að ekkert af bragðinu myndi sleppa frá okkur.


Ilmurinn í eldhúsinu var dásamlegur þegar ég tók réttinn úr ofninum. Skreytti með lferskri steinselju. 


Með matnum bar ég fram þetta ítalska rauðvín. Auðvitað hefði ég átt að opna einhvern Spánverja með matnum - en maður er ekki alltaf með kveikt á perunni. En það skipti engu þar sem vínið var ljúffengt og rann ljúflega niður. Ég hafði togað tappann úr úr Corte Giara Ripasso frá Valpolicella sem er skammt fyrir utan Verona. Þetta vín minnir óneitanlega á Amarone vín - það er fallegt á litinn, með þéttum ilmi af ávexti, sultað, með kryddkeim og með ljúfu og löngu eftirbragði. 


Ekki bara var maturinn ljúffengur - þá var hann líka fallegur á að horfa. Það er gaman þegar mörg skilningarvit eru örvuð. 


Hvet ykkur til að prófa þennan rétt - hann var fljótlegur og ljúffengur! 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Thursday, 28 December 2017

Besta risalamande allra tíma - með toffísósu og heitri kirsuberjasósu


Það er auðvitað merkilegt hvernig sumir réttir ná að festa sig í sessi. Risalamande er einn þeirra - en hann á rætur að rekja til Danmerkur þar sem hann varð til á átjándu öld, þegar fólk í millistétt fór að bera hann fram í stað hefðbundins grjónagrauts með kanil. Lengi vel voru bæði hrísgrjón og kanill hráefni sem heldra fólk hafði aðgang að, en á átjándu öld fór þessi réttur að láta á sér kræla og í stað kanils var hann borinn fram með kirsuberjasósu.

Á eftirstríðsárum eftir seinna stríð voru hrísgrjón aftur af skornum skammti og þá datt kokkum það í hug að drýgja grautinn með þeyttum rjóma - og fátt versnar við þá meðferð.

Risalamande er einnig þekkt í Svíþjóð - sem Ris a'la Malta og svo í Noregi sem riskrem. Í skandínavísku löndunum hefur einnig þekkst að fela möndlu í grautnum og veita svo verðlaun þeim sem finnur hana. Möndlugjöfin hefur verið þekkt síðan á fjórtándu öld - Í Danmörku fá sigurvegarar gjöf en í Svíþjóð er almennt talað um að sá sem möndluna hlýtur muni giftast á næsta ári.

Besta risalamande allra tíma - með toffísósu og heitri kirsuberjasósu

Ég hef sjálfur enga sérstaka reynslu af því að gera risalamande, né grjónagraut hvað þá heldur. Á heimili okkar hjóna, er það Snædís sem eldar grjónagrautinn, og gerir hann oftast þegar ég er á kvöldvakt - þannig að ég fæ að njóta hans heldur sjaldan, sem er frekar leiðinlegt þar sem hún gerir besta grjónagraut sem um getur. Já, ég fullyrði það - besta grjónagraut sem um getur - hann er svo góður!

Hráefnalisti - fyrir 14 sem eftirréttur

500 g grautargrjón
500 ml vatn
salt
2 l nýmjólk
2 vanillustangir

500 ml þeyttur rjómi
150 g möndlur með hýði
75 g flórsykur

150 g smjör
150 púðursykur
1 vanillustöng
150 ml rjómi

1 krukka af kirsuberjasósu


Byrjið á því að setja grjónin í pott, ásamt vatni, smá salti og hitið að suðu. 


Sjóðið við lágan hita.



Þegar allt vatnið hefur gufað upp byrjið þið á því að bæta mjólkinni saman við - sirka 250 ml í senn. Sjóðið varlega - þegar mjólkin hefur þykknað og sogast inn í grjónin bætið þið næsta mjólkurskammti við. 


Skerið tvær vanillustangur eftir miðju, notið almennilegar vanillustangir. Þær fáið þið hjá vinum mínum Ólöfu og Omry í Krydd og Tehúsinu í Þverholtinu - beint frá Madagaskar. Þær eru miklu bragðmeiri heldur en þær sem þið kaupið annars staðar. Það skiptir máli að geyma stangirnar í kæli svo þær haldi ferskleika sínum. 


Setjið fræin út í grautinn og setjið einnig vanillustangirnar - þær eiga nóg af bragði til að gefa. Haldið áfram að bæta mjólkinni saman við og sjóðið þar til grauturinn er hnausþykkur. Gætið þess að hræra stöðugt svo hann brenni ekki við botninn. Og það þarf þolinmæði - þetta verk tekur ást og tíma - um klukkustund að gera hann alveg fullkominn! 

Látið kólna í ísskáp (eða bara út á svölum). 


Það er mikilvægt að kaupa möndlu í hýðinu - þar sem þær varðveita bragð sitt og mýkt mun betur heldur en þær sem hafa verið afhýddar. Setjið þær í skál og hellið sjóðandi vatni yfir og látið standa í 5-10 mínútur. Þá er auðvelt að losa hýðið af.


Það er um að gera að fá einhvern til að hjálpa sér með möndlurnar þar sem þetta er talsvert tímafrekt. Marteinn frændi minn var vel liðtækur. 


Og áður en maður veit af eru þær allar klárar. Látið þær þorna í hálftíma eða svo. 


Hakkið þær svo í matvinnsluvél og blandið saman við kaldan grautinn ásamt þeyttum rjóma og flórsykri. Smakkið til með meira salti og sykri. 


Blandið síðan smjöri, púðursykri, vanillu og rjóma í pott og hitið að suðu og látið krauma við lágan hita þangað til að sósan hefur þykknað. 


Ég ákvað að stytta mér leið með kirsuberjasósunna og keypti hana tilbúna í krukku. Setti í pott og hitaði. 


Svo fær fólk bara að velja. Sumir vilja kirsuberjasósu. 


 Aðrir vilja dásamlega toffísósu.


Það má líka bæta um betur og bæta muldum karmellisseruðum pekanhnetum ofan á grautinn - og þá má halda jól, áramót - eða þrettándaveislu.

Hvernig sem fólk kýs að hafa grautinn sinn - þá varð þessi alveg dásamlegur.

Verði ykkur að góðu.