Saturday 29 August 2020

Ljúfir síðsumartónar II - Sælgæti frá Friðheimum - ristað súrdegisbrauð með ættartómötum og burrata osti


Í liðinni viku heimsóttum við Knút og Helenu í Friðheimum. Þau tengjast okkur núna fjölskylduböndum - ætli ég geti ekki kallað Knút, stjúpmág minn - þar sem tengdafaðir minn og móðir hans eru par. Knútur og Helena eiga stóra fjölskyldu og reka Friðheima - framleiða bragðgóða tómata og framreiða ljúffengar veitingar í gróðurhúsinu sínu í Reykholti.  

Við fengum góðar gjafir frá húsráðendum - heirloom tómata - sem ég ætla að þýða yfir á okkar ylhýra mál sem ættartómata - og einnig burrata - sem er eins ungur mozzarella ostur og hægt er að hugsa sér með kjarna sem minnir einna helst á rjómaost sem lekur út þegar osturinn er opnaður. Þessi ostur er ekki kominn í almenna sölu, heldur er hann einvörðungi framleiddur fyrir veitingahús um þessar mundir. En kannski er hægt að telja framleiðendum hughvarf. En þangað til að svo verður njótum við þess bara að heimsækja Friðheima - það er svo sannarlega vel þess virði. 

Dagarnir í Reykholti voru einkar ljúfir. Veðrið lék við okkur og undum okkur vel - ég leitaði að sveppum (eins og kom fram í síðustu færslu) og fór með börnin mín í berjamó (næsta færsla).

Ljúfir síðsumartónar II - Sælgæti frá Friðheimum - ristað súrdegisbrauð með ættartómötum og burrata osti


Ég gerði smá snúning á framsetningunni en reyndi að halda þessu þannig að tómaturinn og osturinn fái að njóta sín eins og framast væri kostur. 

Byrjaði á því að skola tómatana og skar þá síðan í þykkar sneiðar og svo til helminga. Lagði á disk. 


Svo var það burrata osturinn. Ég vildi óska að hann væri fáanlegur í verslunum. Hann er ljúffengur á bragðið. Gerði ekkert nema að hella mysunni frá og láta hann á miðju disksins svo að hann fengi að njóta sín. 

Raðaði svo blöðum af ferskri basilíku á milli tómatanna. 


Fékk þessa jómfrúarolíu að gjöf frá innflytjenda. Marques de Grinon - frá Spáni. Hann fullyrðir að þetta sé besta jómfrúarolía sem völ er á. Og hún er sannarlega ljúffeng. Sérstaklega bragðrík og með góðu jafnvægi. Tómatar verða bragðbetri og bragðmeiri þegar þeir komast í snertingu við jómfrúarolíu. Sáldraði henni ríkulega yfir tómatana. Salt og pipar - ég notaði rauðan Kampot pipar.  


Skar súrdeigsbrauð í sneiðar og penslaði með hvítlauksolíu og ristaði á blússheitu grilli. 


Ég veit ekki um ykkur, en mér finnst þetta einstaklega girnilegt. Litirnir og ilmurinn af nýskornum tómötum, rifnu basil, frísklegri olíu. 


Svo var bara að raða þessu ofan á brauðið. 

Og njóta. Það er, jú, aðalatriðið. 

Verði ykkur að góðu!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment