Saturday 22 August 2020

Ljúfir síðsumarstónar I - Dásamleg villisveppasúpa með rósmarínolíu og brauðbita - eftir sveppamó í Reykholti

Það líður á sumarfríið og fljótlega sný ég aftur til vinnu. Við vörðum nokkrum dögum í Reykholtinu hjá mágkonu minni og fjölskyldunni hennar í sumarbústað og veðrið lék við okkur. Við brugðum okkur í göngu síðla kvöld og þar gekk ég fram á hina ýmsustu sveppi - lerkisvepp, kúalubba, furusvepp og einstaka kóngssvepp. Mér leið eins og ég hefði verið að detta í lukkupottinn. 

Það er eitthvað töfrandi við að ganga um skóginn í leit að sveppum. Það er eitthvað svo magnað við það að ganga um og finna eitthvað sem gæti mögulega væri ætt. Og svo eru verðlaunin svo ríkuleg. Það er fátt sem er jafn ljúffengt og villisveppir. 


Eftir stutta göngu! 


Ljúfir síðsumarstónar I - Dásamleg villisveppasúpa með rósmarínolíu og brauðbita - eftir sveppamó í Reykholti

Hráefnalisti fyrir fjóra

500 g blandaðir villisveppir
1/2 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
50 g smjör
150 ml hvítvín
500 ml kjúklingasoð
400 ml rjómi
salt og pipar

Þetta er í raun ótrúlega einföld uppskrift þar sem sveppirnir fá sérstaklega að njóta sín. Og tekur ekki langan tíma. Nema að sveppaleitin sé talin með - það tók um klukktíma í frjórri jörð í Reykholtinu. Meira segi ég ekki. 


Fyrst er að sneiða laukinn smátt og brúna í smjörinu. Bætið svo sveppunum saman við sem þeir hafa verið hreinsaðir vandlega. Saltið og piprið. Steikið þá vandlega niður - þetta tekur tíma. Þeir eiga eftir að láta frá sér mikin vökva sem sjóða þarf burt. Þá þarf að halda steikingunni áfram þar til sveppirnir brúnast og fylla eldhúsið af dásamlegum sveppakeim. 


Ég notaði smáræði af víninu sem var hugsað með súpunni í sjálfa súpuna. Það er mikilvægt að nota gott vín í matinn. Það þarf ekki að vera dýrt en það þarf að vera vel drykkjarhæft. Ég notaði Domaine de La Baume les Maues Sauvignion Blanc frá 2019 sem er frá Frakklandi. Ljúffengur hvítvínssopi. 


Sveppirnir fengu svo að krauma í víninu í 10 mínútur við hóflegan hita. 


Þá bætti ég soðinu saman við og notaði töfrasprota til að mauka súpuna vel og rækilega. Þá bætti ég við nóg af rjóma og sauð upp og lét krauma við lágan hita í um 30 mínútur. 


Súpan varð afar ljúffeng. 


Til að mæta skóginum þar sem sveppirnir voru tíndir notaði ég nokkra dropa af jómfrúarolíu bragðbættri með rósmarín frá Olio Principe. 


Þetta var afar ljúffengur og seðjandi kvöldverður. 

Hvet ykkur til að prófa að rölta um íslenska skóga og týna matsveppi. Sjálfur tíni ég bara rörsveppi þar sem ég þekki aðra sveppi ekki nógu vel. 

Verði ykkur að góðu!

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

No comments:

Post a Comment