Showing posts with label Svínarif. Show all posts
Showing posts with label Svínarif. Show all posts

Thursday, 10 January 2019

LKL byrjun á árinu: Ótrúlega ljúffeng langelduð svínarif með hvítlauk og timjan og rauðkáls remoulade


Það er hefð hjá mörgum Íslendingum að strengja áramótaheit. Það hef ég líka gert mörgum sinnum. Að þessu sinni ætla ég að strengja aðeins hófstilltari áramótaheit - ég að gera aðeins betur! Mér finnst þetta vera nokkuð gott heit. Enginn ofstopi og engar byltingar. Ég ætla að borða aðeins hollara, minnka kolvetnainntöku, hreyfa mig meira, vera betri eiginmaður, skerpa á föðurhlutverkinu og vera betri í vinnunni! Ég held mér muni takast vel upp, en með þessu hugarfari hafa fyrstu dagar ársins verið ákaflega skemmtilegir. Það var gaman að mæta í vinnuna með þau áform að vera aðeins betri læknir, betri kennari, bæta mig í samskiptum, nálgast vandamál með jákvæðara hugarfari.
Ekki veitir af því þvi að ögranirnar eru margar sem steðja að okkur á Landspítalanum og hjá sjálfstætt starfandi læknum. Flestir sem fylgjast með fréttum sjá þetta. En ég er sannfærður um að það sé vilji hjá ráðamönnum og samfélaginu að leysa þessi vandamál á sem farsælastan hátt. 

En þetta er ekki blogg um heilbrigðispólitík, þó að hún sé að mínu mati ákaflega áhugaverð. Þetta er matarblogg. 

LKL byrjun á árinu: Ótrúlega ljúffeng langelduð svínarif með hvítlauk og timjan og rauðkáls remoulade

Þessa máltíð gerði ég fljótlega eftir áramót. Þó að þarna sé smávegis af brytjuðu epli og ögn af hlynsírópi þá er það í nógu litlu magni til þess að þessi máltíð teljist vera lágkolvetna. 

Fyrir 6 manns 

3 kg svínarif
3 msk hvítlauksolía
nokkrar greinar af fersku timjan
2 heilir hvítlaukar 
2 msk hlynsíróp

1 lítill rauðkálshaus
4 msk majónes
1 epli
2 msk hlynsíróp



Fyrst var að koma svínarifjunum fyrir í eldfast mót. Pensla þau með hvítlauksolíu, salta og pipra.


Ég er alger hvítlauksfíkill - svo að ég notaði tvo heila hvítlauka.


Þeir hitna og sjóða og gefa frá sér dásamlega angan sem mun umlykja svínakjötið. Svo lagði ég grein af fersku timjan á rifin - sem munu líka gefa svínakjötinu dásamlegt bragð. 

Þá setti ég álpappír yfir eldfasta mótið og bakaði í ofni í tvær til þrjár klukkustundir við 150-160 gráður. 


Margir eiga rauðkálshaus afgangs inn í kæli og því er þetta augljós leið til að nýta það á farsælan hátt. Enginn vill taka þátt í matarsóun.


Ég held að ég sé ekki einn um það að finnast þverskorinn rauðkálshaus - ótrúlega falleg sjón! Listaverk frá náttúrunnar hendi. 


Rauðkálið var svo hakkað í matvinnsluvél ásamt flysjuðu epli, bragðbætt með majónesi, hlynsírópi, salti og pipar.


Blandað vel saman og sett í hreina skál. 


Þegar svínarifin voru fullelduð, voru þau tekin út úr ofninum og fengu að hvíla í nokkrar mínútur.


Þá blandaði ég saman hvítlauksolíu og smá hlynsírópi og penslaði rifin vandlega. 


Svo var bara að hita ofninn og grilla rifin við háan hita þangað til að þau fóru að taka lit ...


... og augljóst að þau myndu losna auðveldlega frá beinunum.



Með matnum nutum við þetta rauðvín sem vekur margar góðar minningar frá liðnum árum. Vorið 2017 heimsóttum við Mario Piccini á vínekru hans í Toskana og kynntumst fjölskyldunni hans sem öll vinnur við víngerð á einn eða annan hátt. Þetta er létt og óflókið rauðvín með góðu jafnvægi sem passaði fyrirtaksvel með svínarifjunum. 


Það er fátt betra en svínarif! 

Monday, 23 May 2016

Myndband: Langelduð grísa- og nautarif með óbeinni aðferð - kolasnák og reykingu

Okei, þetta er smá tilraun! Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta er klaufalegt upphaf - en ef maður gerir ekki tilraunir þá lærir maður ekki neitt. Ég prófaði að taka upp grillmennskuna á laugardaginn - þegar ég var að langelda grísa- og nautarif, með iphone 6 í einni hendi og grilltól í hinni. Árangurinn er eftir því - en ég er búinn að panta statíf fyrir tökuvél.

Ég hef fengið nokkrar spurningar um óbeina eldun vs. beina eldun þegar verið er að grilla. Best er að byrja á því að skýra hvað bein eldun er - en þá er maður beint yfir hitanum. Við óbeina eldun þá er hitagjafinn ekki beint undir kjötinu, heldur til hliðar. Í þessari uppskrift er svo kynntur til leiks kolasnákurinn sem tryggir langa og hæga eldun á kolagrilli, allt að 12 tíma ef vönduð kol eru notuð.


Uppskrift af grillnuddi og grillsósu er að finna í nýjustu bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan.


Að grilla er að njóta!

Wednesday, 18 February 2015

Alpablogg; Alparif með karamellíseruðu hvítkáli og fersku timíani

Skíðafríið okkar er nú hálfnað. Við höfum skíðað nú í sex daga (eigum þrjá daga eftir) í frábæru færi í dásamlegu veðri. Nær allir í essinu sínu - nema hvað faðir minn er hálf svekktur yfir því að ná ekki að skíða sökum meins í hné sem okkur gengur ekki að hemja. Hann náði samt hálfum degi um daginn og virtist nokkuð glaður. Vona samt að hann nái að skíða aðeins meir! Eins og fram kom í síðustu færslu þá erum við á Skihotel Speiereck. Hér erum við í áttunda sinn - og þetta er alltaf eins og að koma heim til sín!



Við erum umkringd vinum, ættingum og kunningjum. Mamma og pabbi eru hérna, bróðir minn. Sverrir og Bryndís og strákarnir þeirra. Signý Vala og Þórir og dóttir þeirra, Hrafnhildur. Þá eru líka vinir okkar frá Svíþjóð, Per-Åke og Latifa og krakkar, Gunilla og Hans og sameiginlegu grísirnir þeirra. Svo eru líka margir kunningjar frá fyrri ferðum, Óli og Íris, Jakob og Guðbjörg og Haukur og Hjördís og svo krakkaskarinn þeirra! Fullt hús af góðu fólki! Á næsta hóteli eru svo vinir okkar Sverris og Bryndísar úr Menntó; Sara Hlín og Davíð, Anna Helga og Kári með sín börn í farteskinu. Hérna er því fjör frá morgni til kvölds! Á myndinni hérna að ofan er ég við hliðina á Sverri, æskuvini mínum, en við höfum verið bestu vinir síðan við vorum fimm ára - 34 ár!

Og stemmingin á hótelinu er frábær. Umhverfið er dásamlegt - Doddi og Þurý, eigendur Skihótel Speiereck kunna sko að taka á móti manni. Haddi kokkur sér um að elda frábæran mat. Unglingarnir í hópnum fóru í dag í skíðaferð með Dodda og voru himinlifandi með daginn. Við skíðuðum í Speiereck í glampandi sólskini og áttum dásamlegan dag!

Skíðafrí er það besta sem til er!

Alpablogg; Alparif með karamellíseruðu hvítkáli og fersku timíani



Ég kann vel að meta matseldina í austurrísku Ölpunum. Mér finnst pylsurnar, sinnepið, snitselið, brauðið og bjórinn alger himnasending. Og einnig réttur sem líkist þessum. Á einstaka veitingastöðum í hlíðum fjallanna er hægt að kaupa ljúffeng langelduð svínarif. Þetta er uppskrift sem birtist í bókinni minni sem kom út fyrir síðustu jól - Veislunni endalausu, og með svona mat á borðum er veislan auðvitað ljúffeng!

Mér hefur ekki tekist að setja saman nákvæmlega sömu uppskriftina en þetta er mín túlkun. Hugmyndinni að hvítkálinu stel ég frá tengdaföður mínum, en það passar einkar vel með þessum rétti.

Fyrir sex til átta

2 1/2-3 1/2 kg svínarif
salt og pipar
handfylli ferskt timían 
3-4 fersk lárviðarlauf 
1 hvítkálshaus 
100 g smjör 
1 msk hunangs-dijon-sinnep



1. Sneiðið hvítkálið gróft og steikið í heitu smjörinu þar til það fer að taka á sig lit. Raðið í ofnpott.


2. Skerið svínarifin í sneiðar með því að skera á milli rifj- anna, saltið og piprið og veltið upp úr fersku timíani.

Vel krydduð með salti og pipar og nóg af timian.


3. Bætið lárviðarlaufunum í pottinn og tyllið svo svínarifjunum ofan á hvítkálið.


4. Hafið lok á ofnpottinum og setjið í 175°C forhitaðan ofn í tvær til þrjár klukkustundir.

5. Þegar kjötið er tilbúið (farið að detta af beinunum) er það fært yfir á ofnplötu og penslað með sinnepinu. Bakið aftur í fimm til tíu mínútur, rétt til að bræða sinnepsgljáann.


Raðið hvítkálinu í skál og berið fram með rifjunum ásamt léttu salati.


Þetta er sko ljúffengur matur! 

Monday, 16 May 2011

Það nýjasta af grillinu: Eldgrillaðar flatbökur og Suðræn Svínarif meðmaískólfum



tómatar og basil

Sumarið er löngu komið hérna í Suður Svíþjóð. Veðrið hefur leikið við okkur síðastliðnar þrjár til fjórar vikurnar. Hitinn hefur farið yfir tuttugu stig og það er alveg ljóst að yngstu meðlimir fjölskyldunnar njóta sín fram í hið ýtrasta. Öll börnin í hverfinu eru úti að leika sér frá því þau koma heim úr skólanum og eru úti fram á kvöld. Hérna er allt fullt af barnafjölskyldum þannig að hér er ansi fjörugt. Þetta líkist dáldið því þegar kúnum er sleppt út á vorin - hoppa og gleðjast.

Og ekki leiðist manni þetta sjálfum - Það er eitthvað svo dásamlegt að fylgjast með vorinu. Sjá hvernig lífið hreinlega springur fram! Það er ekki annað hægt en að elska vorið. Og það kom snemma í ár - vonum að sumarið verði okkur gott. Og ekkert annað stendur til. Ég fer í frí eftir fjórar vikur. Við ætlum að koma í heimsókn til Ísland í byrjun júlí og vera heima í 12 daga. Ætli við reynum ekki að ferðast eitthvað um Frónið - Ísland er auðvitað best á sumrin.

Og eins og gefur að skilja - þá kallar svona veður á að maður standi úti við grillið. Við erum búin að grilla ýmislegt. Auk þess sem ég blogga um í þetta sinn höfum við grillað kjúkling, skötusel, pylsur, hamborgara að sjálfsögðu, ýmiskonar grænmeti; kúrbít, papríkur, eggaldin og kartöflur. Það er alltaf gaman að grilla. Ég er meira farinn að grilla á kolum en ég gerði áður. Ég á einnig gamalt gasgrill - sem bara hangir saman á ryði að utan og fitu að innan. Ég held alltaf að það sé á síðustu metrunum, það lýtur út eins og það sé að fara að hrynja - það hefur orðið alelda oftar en ég get talið - en þraukar samt. Sjáum hvort að það standi af sér sumarið.

Grillfréttir: Eldgrillaðar flatbökur og Suðræn Svínarif með maískólfum

Þetta blogg inniheldur engar nýjungar - ég hef áður, vorið og sumarið 2009 bloggað um báða þessa rétti. En það er nú bara svo að suma rétti þarf að fjalla um oftar en einu sinni.

eldbökuð

Eldgrillaðar flatbökur

Eldgrillaðar flatbökur eru auðvitað veislumatur. Það er mikilvægt að gera botnana þunna, þannig að þeir eldist hratt og verði stökkir og góðir. Deigið er gert á eftirfarandi hátt; 2 tsk þurrger og 30 g af sykri er sett í 350 ml af ylvolgu vatni. Hrært saman og gerinu leyft að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur um 10-15 mín. 500 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hnoða deigið vel - þannig hefast það betur og bragðast betur. Þá er að leyfa því að hefast - í nokkrar klukkustundir. Deigið er nóg í 5-6 þunnbotna 12 tommu flatbökur.

pizza

Gerði einfalda tómatsósu; tómatar í dós, tómatpuré, venjuleg tómatsósa, salt, pipar, oregano,

Drosdtysteinselja - sett í pott og hitað upp og leyft að sjóða í dálitla stund. Ofaná flatbökurnar settum við það sem við fundum í ísskápnum. Skinku, salami, sveppir, kapers, lauk. Notaði rifin mozzarellaost sem var sáldrað yfir - einstaka flatbaka fékk einnig nokkrar klípur af rjómaosti. Saltað og piprað og svo auðvitað heimagerð hvítlauksolía.

Borið fram með heimagerðri hvítlauksolíu, salti og pipar og nokkrum tárum úr rauðvínsbúkollu sem að þessu sinni var Drostdy-Hof Shiraz Pinotage. Þetta er vín sem ég hef ekki smakkað áður svo ég muni eftir. Ég hef bragðað Cape Red frá sama merki og auðvitað hvítvínin en ekki þetta . Þetta er fyrirtakspizzuvín - því er ekki að neita!  Þetta er bragðgott, frískandi rauðvín. Ágætis berjabragð og ljúft eftirbragð. Meira er ekki hægt að krefjast af víni á búkollu.

matur

Suðræn svínarif með maískólfum

Ég var með 3 heil svínarif, sem var búið að skera í tvo bita. Oft er mælt með því að taka himnuna innan úr rifjabúrinu - en ég lét hana bara vera - veit ekki hvort að það skiptir máli - heldur kannski inni raka í kjötinu, lógíst? Rifin lögð í stóra skúffu og 1,5 lítrum af eplasíder og safa úr 4-5 sítrónum  hellt yfir. Rifin fengu að liggja í þessari lausn í rúma tvo klukkutíma.

reykofn

Þá voru þau þurrkuð og þurri kryddmarineringu nuddað inn í kjötið. Fyrir þetta magn af kjöti útbjó ég þessa marineringu; tæplega 3/4 bolli púðursykur, hálfur bolli sæt papríkuduft, 4 msk svartur pipar, 4-5 msk gróft salt, 2 msk af reyktu sjávarsalti, 2-3 tsk hvítlauksduft, 2-3 tsk laukduft, 2-3 ceyenne pipar og einnig dáldið af chilli. Þessu var svo nuddað í kjötið og látið standa í tvo klukkutíma.

Rifin voru grilluð við óbeinan hita - að mestu (eins og pláss leyfði - einstaka sinnum urðu einhver af þeim að liggja í hitanum) - rifjunum var reglulega snúið og staflað upp til að jafna eldunina - þetta tekur að minnsta kosti þrjár klukkustundir - sem gefur nóg tíma til að slaka á og sötra á nokkrum köldum bjórum! Þegar um 30 mínútur eru eftir af elduninni er BBQ sósunni penslað á. Þarna gefst færi á að gera sína eigin sósu; úr td. siderediki, tómatsósu, Worchestershire sósu, sykri, sinnepi, tabaskó og hluta af kryddinu sem fór á kjötið. Ég verð að játa að ég gerði það ekki - ég fór styttri leið - ég hafði dottið inn á sósu sem heitir Sweet baby Ray's barbeque sauce - og hún er góð! Lét mér nægja það.

Með matnum bárum við fram maískólfa - fátt er nú klassískara en slíkt - alltént með svona mat. Kólfunum var pakkað inn í álpappír og látið vera aftast á grillinu í rúma klukkustund. Það var ætlununin að fá sér gott rauðvín með þessum mat, en sumt kallar bara á aðeins eitt, sérstaklega svona kryddaður matur. Þannig að við fengum okkur bara bjór með matnum að þessu sinni! Og hann lukkaðist stórvel í þetta skiptið, kjötið lungamjúkt og bráðnaði í munni.

svínarif

Bon appetit!

Saturday, 18 July 2009

Mögnuð grilluð svínarif að hætti Suðurríkjamanna með gulum maís á heitusumarkvöldi





Síðustu dagar hafa verið dásamlegir. Veðurspáin alltaf heldur leiðinleg - alltaf einhver ský og jafnvel regndropar á veðurkortunum en svo verður reyndin allt önnur - sem er frábært. Óvæntur glaðningur eru alltaf eitthvað sætari en sá sem maður sér fyrir. Annars er ég byrjaður að vinna aftur á deildinni minni eftir sumarleyfi - og það er alveg ágætt - meira segja þó það sé 25 stiga hiti og glampandi sól - meira að segja.

Addý vinkona mín og kollegi kom í heimsókn undir lok síðustu helgar. Hún var hérna til þess að undirbúa flutning fjölskyldu sinnar í haust hingað til Lundar. Hún er að fara í framhaldsnám í kvennasjúkdómalækningum. Það var gaman að fá hana í heimsókn. Það kjaftaði á okkur hver tuska eins og ávallt. Annars verður mikill gestagangur næstu vikurnar í kotinu í Púkagrandanum. Sverrir æskuvinur minn, Bryndís kona hans og strákarnir þeirra koma á morgun í heimsókn. Á laugardaginn koma Sigrún og Freysi og guttarnir þeirra. Svo í næstu viku tengdapabbi, og í lok mánaðarins flytur bróðir minn út. Hér verður nóg að gera. Ætli það verði ekki eitthvað gott á grillinu. Sjáum hvað veðrið leyfir.

Ég hef eldað svínarif kannski tvisvar áður, einu sinni fyrir löngu síðan - man varla hvað ég gerði við þau þá og síðan kom Snædís einu sinni heim með BBQ ribs frá USA sem bara þurfti að hita í ofni - engin eldamennska þar - en rifin voru seld undir nafni þekkts grillhúss í USA - stóðu ekki alveg undir nafni. Ég hafði einhvern tíma prófað að snæða á þessum fræga stað í Chicago en heimsendu rifin náðu ekki hitta í mark. Ég hef lengi viljað reyna þetta aftur og gera þetta frá grunni og gera þetta vel. Ég studdist við eina af mörgum grillbókum sem ég hef sópað að mér - How to grill - eftir Steven Raichlen sem er mikill grillgúru. Hann er bandarískur sjónvarpskokkur, höfundur þó nokkurra bóka - á meðal annars bókarinnar Barbeque bible og svo skilst mér að hann reki einnig BBQ háskóla í Colorado. Hann heldur einnig út heimasíðu fyrir áhugasama.

Svo rakst ég á þessa kappa á Youtube með sína útgáfu af grilluðum svínarifjum. Þeir ljúka þessu annars fína myndbandi - "as you see ... cooking ribs on the grill is easy, all you need is three, four, five hours of your time". Sem er í raun lykillinn af uppskriftinni. Tími! Flest annað var fremur einfalt! Þetta er upplögð uppskrift fyrir heitan laugardag eða eins og ég gerði síðasta sunnudag. Og mikilvægt að gera eins og þeir í myndbandinu - "turn every half hour or so ... or between beers". Hljómar vel í alla staði.

Ég eldaði rifin ekki eins og sýnt er í myndbandinu - það er sett meira inn til skemmtunar fyrir svona matnörda eins og mig (með þessu er ég að vonast til að einhver játi að eyða kvöldum í að horfa á svona myndbönd).

Mögnuð grilluð svínarif að hætti Suðurríkjamanna með gulum maís á heitu sumarkvöldi

Fyrst var að undirbúa svínarifin. Ég var með 3 heil svínarif, sem var búið að skera í tvo bita. Oft er mælt með því að taka himnuna innan úr rifjabúrinu - en ég lét hana bara vera - veit ekki hvort að það skiptir máli - heldur kannski inni raka í kjötinu, lógíst? Allavega, þá voru rifin lögð í stóra skúffu og 1,5 lítrum af eplasíder og safa úr 4-5 sítrónum hellt yfir. Rifin fengu að liggja í þessari lausn í rúma tvo klukkutíma.

Þá voru þau þurrkuð og þurri kryddmarineringu nuddað inn í kjötið. Fyrir þetta magn af kjöti útbjó ég þessa marineringu; tæplega 3/4 bolli púðursykur, hálfur bolli sæt papríkuduft, 4 msk svartur pipar, 4-5 msk gróft salt, 2 msk af reyktu sjávarsalti, 2-3 tsk hvítlauksduft, 2-3 tsk laukduft, 2-3 ceyenne pipar. Þessu var svo nuddað í kjötið og látið standa í rúman klukkutíma.

Rifin voru grilluð við óbeinan hita - að mestu (eins og pláss leyfði - einstaka sinnum urðu einhver af þeim að liggja í hitanum) - rifjunum var reglulega snúið og þau færð um grillið til að jafna eldunina - þetta tekur að minnsta kosti tvær klukkustundir. Þegar um 30 mínútur eru eftir af elduninni er BBQ sósunni penslað á. Þarna gefst færi á að gera sína eigin sósu; úr td. sider ediki, tómatsósu, Worchestershire sósu, sykri, sinnepi, tabaskó og hluta af kryddinu sem fór á kjötið. Ég verð að játa að ég gerði það ekki - ég fór styttri leið - ég hafði dottið inn á sósu sem heitir Sweet baby Ray's barbeque sauce - og hún er góð! Lét mér nægja það.

Með matnum var ég með gulan maís - saltaður, vafinn inn í álpappír, grillaður við beinan hita í 30-40 mínútur - snúið nokkrum sinnum. Borin fram með smjöri - sem svo bráðnar yfir maísinn.

Með matnum drukkum við Cote de Imaz Gran Reserva - frá því 1996. Þetta er spánskt vín, dökkur litur, fremur þykkt að sjá. Lyktin er krydduð, dálítið þung meira að segja. Þetta er bragðmikið vín, kryddað, þétt jafnvel, mikið berjabragð - pínu sætur keimur. Gott vín - erfitt að segja hvort þetta hentaði matnum vel. Maður var svo upptekin við að borða að vínið var að mestu klárað eftir máltíðina. En gott var það!

Njótið vel!