Showing posts with label reykofn. Show all posts
Showing posts with label reykofn. Show all posts

Monday, 16 May 2011

Það nýjasta af grillinu: Eldgrillaðar flatbökur og Suðræn Svínarif meðmaískólfum



tómatar og basil

Sumarið er löngu komið hérna í Suður Svíþjóð. Veðrið hefur leikið við okkur síðastliðnar þrjár til fjórar vikurnar. Hitinn hefur farið yfir tuttugu stig og það er alveg ljóst að yngstu meðlimir fjölskyldunnar njóta sín fram í hið ýtrasta. Öll börnin í hverfinu eru úti að leika sér frá því þau koma heim úr skólanum og eru úti fram á kvöld. Hérna er allt fullt af barnafjölskyldum þannig að hér er ansi fjörugt. Þetta líkist dáldið því þegar kúnum er sleppt út á vorin - hoppa og gleðjast.

Og ekki leiðist manni þetta sjálfum - Það er eitthvað svo dásamlegt að fylgjast með vorinu. Sjá hvernig lífið hreinlega springur fram! Það er ekki annað hægt en að elska vorið. Og það kom snemma í ár - vonum að sumarið verði okkur gott. Og ekkert annað stendur til. Ég fer í frí eftir fjórar vikur. Við ætlum að koma í heimsókn til Ísland í byrjun júlí og vera heima í 12 daga. Ætli við reynum ekki að ferðast eitthvað um Frónið - Ísland er auðvitað best á sumrin.

Og eins og gefur að skilja - þá kallar svona veður á að maður standi úti við grillið. Við erum búin að grilla ýmislegt. Auk þess sem ég blogga um í þetta sinn höfum við grillað kjúkling, skötusel, pylsur, hamborgara að sjálfsögðu, ýmiskonar grænmeti; kúrbít, papríkur, eggaldin og kartöflur. Það er alltaf gaman að grilla. Ég er meira farinn að grilla á kolum en ég gerði áður. Ég á einnig gamalt gasgrill - sem bara hangir saman á ryði að utan og fitu að innan. Ég held alltaf að það sé á síðustu metrunum, það lýtur út eins og það sé að fara að hrynja - það hefur orðið alelda oftar en ég get talið - en þraukar samt. Sjáum hvort að það standi af sér sumarið.

Grillfréttir: Eldgrillaðar flatbökur og Suðræn Svínarif með maískólfum

Þetta blogg inniheldur engar nýjungar - ég hef áður, vorið og sumarið 2009 bloggað um báða þessa rétti. En það er nú bara svo að suma rétti þarf að fjalla um oftar en einu sinni.

eldbökuð

Eldgrillaðar flatbökur

Eldgrillaðar flatbökur eru auðvitað veislumatur. Það er mikilvægt að gera botnana þunna, þannig að þeir eldist hratt og verði stökkir og góðir. Deigið er gert á eftirfarandi hátt; 2 tsk þurrger og 30 g af sykri er sett í 350 ml af ylvolgu vatni. Hrært saman og gerinu leyft að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur um 10-15 mín. 500 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hnoða deigið vel - þannig hefast það betur og bragðast betur. Þá er að leyfa því að hefast - í nokkrar klukkustundir. Deigið er nóg í 5-6 þunnbotna 12 tommu flatbökur.

pizza

Gerði einfalda tómatsósu; tómatar í dós, tómatpuré, venjuleg tómatsósa, salt, pipar, oregano,

Drosdtysteinselja - sett í pott og hitað upp og leyft að sjóða í dálitla stund. Ofaná flatbökurnar settum við það sem við fundum í ísskápnum. Skinku, salami, sveppir, kapers, lauk. Notaði rifin mozzarellaost sem var sáldrað yfir - einstaka flatbaka fékk einnig nokkrar klípur af rjómaosti. Saltað og piprað og svo auðvitað heimagerð hvítlauksolía.

Borið fram með heimagerðri hvítlauksolíu, salti og pipar og nokkrum tárum úr rauðvínsbúkollu sem að þessu sinni var Drostdy-Hof Shiraz Pinotage. Þetta er vín sem ég hef ekki smakkað áður svo ég muni eftir. Ég hef bragðað Cape Red frá sama merki og auðvitað hvítvínin en ekki þetta . Þetta er fyrirtakspizzuvín - því er ekki að neita!  Þetta er bragðgott, frískandi rauðvín. Ágætis berjabragð og ljúft eftirbragð. Meira er ekki hægt að krefjast af víni á búkollu.

matur

Suðræn svínarif með maískólfum

Ég var með 3 heil svínarif, sem var búið að skera í tvo bita. Oft er mælt með því að taka himnuna innan úr rifjabúrinu - en ég lét hana bara vera - veit ekki hvort að það skiptir máli - heldur kannski inni raka í kjötinu, lógíst? Rifin lögð í stóra skúffu og 1,5 lítrum af eplasíder og safa úr 4-5 sítrónum  hellt yfir. Rifin fengu að liggja í þessari lausn í rúma tvo klukkutíma.

reykofn

Þá voru þau þurrkuð og þurri kryddmarineringu nuddað inn í kjötið. Fyrir þetta magn af kjöti útbjó ég þessa marineringu; tæplega 3/4 bolli púðursykur, hálfur bolli sæt papríkuduft, 4 msk svartur pipar, 4-5 msk gróft salt, 2 msk af reyktu sjávarsalti, 2-3 tsk hvítlauksduft, 2-3 tsk laukduft, 2-3 ceyenne pipar og einnig dáldið af chilli. Þessu var svo nuddað í kjötið og látið standa í tvo klukkutíma.

Rifin voru grilluð við óbeinan hita - að mestu (eins og pláss leyfði - einstaka sinnum urðu einhver af þeim að liggja í hitanum) - rifjunum var reglulega snúið og staflað upp til að jafna eldunina - þetta tekur að minnsta kosti þrjár klukkustundir - sem gefur nóg tíma til að slaka á og sötra á nokkrum köldum bjórum! Þegar um 30 mínútur eru eftir af elduninni er BBQ sósunni penslað á. Þarna gefst færi á að gera sína eigin sósu; úr td. siderediki, tómatsósu, Worchestershire sósu, sykri, sinnepi, tabaskó og hluta af kryddinu sem fór á kjötið. Ég verð að játa að ég gerði það ekki - ég fór styttri leið - ég hafði dottið inn á sósu sem heitir Sweet baby Ray's barbeque sauce - og hún er góð! Lét mér nægja það.

Með matnum bárum við fram maískólfa - fátt er nú klassískara en slíkt - alltént með svona mat. Kólfunum var pakkað inn í álpappír og látið vera aftast á grillinu í rúma klukkustund. Það var ætlununin að fá sér gott rauðvín með þessum mat, en sumt kallar bara á aðeins eitt, sérstaklega svona kryddaður matur. Þannig að við fengum okkur bara bjór með matnum að þessu sinni! Og hann lukkaðist stórvel í þetta skiptið, kjötið lungamjúkt og bráðnaði í munni.

svínarif

Bon appetit!

Sunday, 18 October 2009

Heimagert birkireykt íslenskt hangikjöt - Er jólaundirbúningurinnhafin?!?



Já - jólaundir- búningurinn er hafinn á þessu heimili. Og hann hefur aldrei byrjað svona snemma. Aldrei nokkurn tíma. Þetta er náttúrulega alveg fáránlegt - það er eiginlega ekki hægt að segja annað - maður er bara eins og Kringlan - skrautið komið upp löngu áður en nokkur hræða fer að leiða hugann að því að þessi árstími sé um þann mund að ganga í garð. Svo er það nú líka þannig að ég er ekki jólabarn fyrir fimmaur. Auðvitað finnst mér maturinn og allt meðlætið alveg frábær - en er sjálfur ekkert fyrir jólahátíðina. Allt þetta skraut, lætin, jólatónlistin og svo allt þetta pakkafargan...fyrir fólk sem á allt. Úff!


En þetta verkefni er þó skemmtilegt - og í raun rökrétt framhald af beikoninu, pancettunni, parmaskinkunni og svo er þetta þjóðlegt. Mann vantar bara fánann! Hugmyndin af þessu vaknaði þegar ég var að horfa á netsjónvarp mbl.is/matur - Eldum Íslenskt og þar var viðtal við íslenskan bónda sem reykir sitt eigið hangikjöt. Ég fór á stúfanna og það kom á daginn að þetta er bara ansi einfalt. Svona matur er aldrei flókin - en þetta krefur tíma af manni og sem betur fer er þetta stórskemmtilegt. Ég sótti upplýsingar í eina af mínum uppáhalds matreiðslubókum sem sjá má á myndinni hér til hægri - kíkja bara í matreiðslubók Helgu Sigurðardóttur - Matur og drykkur - í þessari bók er hægt að finna nokkrar uppskriftir að því hvernig á að leggja lambakjöt í pækil fyrir reykingu. Ég notaði blautan pækil og lét kjötið liggja í honum í næstum því í viku. Þessi matreiðslubók ætti að vera til að öllum heimilum - þetta er frábær heimild um íslenska eldamennsku. Hérna eru sko engar flatbökur eða spaghetti Carbonara - hérna eru leiðbeiningar að því að taka slátur, búa til kæfu, sultur og hvað eina sem tengist íslensku eldhúsi -alveg ekta góður heimilismatur.

Heimagert íslenskt birkireykt hangikjöt - jólaundirbúningurinn er hafin?!?



Mamma mín, hún Lilja, hafði safnað saman þessum birkilaufum við sumarbústað þeirra hjóna við Lækjarkot við Meðalfellsvatn. Þau höfðu verið geymd í frysti til þess að varðveita bragð þeirra. Með sendingunni fékk ég líka nokkra búta af þurrkuðu birki til þess að nota við reykinguna.



Í vel þvegið plastílát lagði ég helminginn af laufunum, 1,5 kíló af grófu hafsalti, 250 gr af sykri, 2 msk af saltpétri.



Kom lærunum fyrir í kassanum - gerði eitt aukalega fyrir nágranna mína - Elvu og Gumma.



Hellti síðan 12 lítrum af köldu vatni saman við og bætti við öðru eins af birkilaufum. Lokaði kassanum, setti í kæli og leyfði þessu að liggja í 6 daga í pæklinum. Að sex dögum liðnum tók ég lærin úr vökvanum, þurrkaði og lét standa í kæli yfir nótt - til að mynda "pellicule" himnu sem hjálpar reyknum að bindast við kjötið.



Undirbjó reykofninn. Í vatnspönnuna sem sést til hægri á myndinni setti ég öll laufin sem voru í pæklinum. Þau liggja rétt ofan við kolinn - vatnið sýður og gefur frá sér gufu sem gerir matinn ennþá safaríkari - gegnir einnig því hlutverki að tempra hitann.



Ég sagaði birkibitana niður - lét þá liggja í vatni og lagði í sérstakt

stálílát sem maður leggur beint á kolinn - þaðan kemur reykurinn sem

gefur allt þetta frábæra gómsæta "reykta" (enn ekki hvað) á matinn. Kom lærunum fyrir í ofninum og setti hitamæli í kjötið. Lærin voru reykt í nærri því sólarhring. Þurfti að bæta nokkrum sinnum á kolinn, skipta nokkrum sinnum um reykgjafa.



Eftir 17 klukkustundir voru lærin búinn að skipta um lit. Orðin dumbrauð - brúnleit á litinn. Núna fá lærinn að hanga fram að jólum. Geri grein fyrir bragðinu þegar það verður prófað - en lyktin var alveg ótrúlega góð.