Showing posts with label nautarif. Show all posts
Showing posts with label nautarif. Show all posts

Sunday, 6 February 2022

Seiðandi langeldað nautarifjaragú með tagliatelle og parmaosti


Ég tók smá hvíld frá blogginu liðna mánuði, enda haft nóg fyrir stafni undanfarið ár. Það er einna helst vegna útgáfu bókarinnar - Heima hjá Lækninum í Eldhúsinu. Það var nokkuð krefjandi verkefni en svo sannarlega gefandi. Ekki síst móttökurnar - en þær glöddu mig einstaklega og það er ánægjulegt að segja frá því að bókin seldist upp hjá útgefanda og varð mest selda matreiðslubókin á liðnu ári og fyrir jólin. Með bókinni gerðum við líka matreiðsluþætti, Ástríðu, sem ennþá er hægt að sjá á Sjónvarpi Símans Premium. 

En hugurinn leitar oft tilbaka á bloggið mitt. Sjáum hvort ég hrekk í gang aftur. 

Seiðandi langeldað nautarifjaragú með tagliatelle og parmaosti

Þetta er einstaklega ljúffengur réttur, kraftmikill og seiðandi. Nautarif eru seigur biti - en bragðmikill og krefst þess að hann sé eldaður í langan tíma. Þannig verður kjötið lungamjúkt og hreinlega bráðnar í munni.

Að auki er þetta einföld uppskrift. Grunnurinn er auðþekkjanlegur - þetta er eiginlega sama uppskrift og að staðlaðri kjötsósu - ragú ala bolognese.

Hráefnalisti

2,5 kg nautarif
2 sellerístangir
2 gulrætur
1 gulur laukur
4 hvítlaukrif
3 msk tómatmauk
750 ml rauðvín
2 dósir San Marzano tómatar
1 l vatn
nautakraftur
1 kryddvöndull (rósmarín, timjan, steinselja) 
3 lárviðarlauf
jómfrúarolía til steikingar
salt og pipar 

500 g Rustichella D'Abruzzo tagliatelle
mjög góð jómfrúarolía til skreytingar
salt og pipar eftir smekk. 
parmaostur


Það er ekkert mál að fá í nautarif, en þetta er ekki biti sem oftast er hægt að finna í kjötborðinu í stórmörkuðum. Ég fór til Geira í Kjötbúðinni - hann átti þetta til. En það er skynsamlegt að hringja nokkrum dögum á undan og panta.

Byrjið á því hluta rifin niður í þægilega bita sem auðvelt er að meðhöndla. 


Saltið og piprið kjötbitana og brúnið að utan í heitri jómfrúarolíu og setjið til hliðar. 


Skerið grænmetið (gulrætur, sellerí, lauk og hvítlauk) í smáabita og steikið í blöndu af smjöri og jómfrúarolíu við miðlungs hita. Gætið þess að brenna ekki grænmetið. Saltið og piprið. 

Þegar grænmetið er orðið mjúkt og fallegt, ýtið því til hliðanna og setjið tómatmaukið í miðjan pottinn. Það er um að gera að steikja tómatmaukið aðeins, reyna að brúna það lítillega til að ýkja upp umami bragðið. 

Þegar maukið hefur tekið á sig lit er grænmetinu hrært saman við. 


Raðið kjötbitunum út í pottinn. Hellið einni flösku af drykkjarhæfu rauðvíni út í og sjóðið upp áfengið. 

Setjið næst tómatana saman við ásamt vatni og nautakrafti. 


Bætið næst við kryddvendi, hitið að suðu og færið svo inn í 160 gráðu heitan ofn í 3-4 klukkustundir. 


Eftir 3,5 tíma lítur kássan svona út. Ég veiddi bitana upp úr, og kryddvöndinn og fleytti bróðurpart fitunnar ofan af með skeið. 

Maukaði svo restinni af sósunni saman með töfrasprota.


Kjötið var svo meyrt að það rann af beinunum. Tók mest af fitunni frá og reif svo kjötið niður með gaffli og bætti saman við sósuna.


Sauð svo pastað í ríkulega söltuðu vatni. Ekki setja olíu í vatnið - olían bindst við pastað og hindrar að sósan loði við. Sjóðið þar til pastað er aðeins undir tönn - "al dente". 


Blandið hluta af sósunni saman við pastað - þannig sogar pastað í sig sósuna og verður ennþá bragðbetra fyrir vikið. 



Með matnum nutum við Trivento Golden Reserve Malbec frá Argentínu. Þetta er kraftmikið vín, ljúft á tungu, frekar þurrt með bragði af dökkum ávexti, vanillu og með eikuðu eftirbragði. Ljúffengt. 



Þessi máltíð var algert sælgæti, kjötsósan ótrúlega ljúffeng. 

Verði ykkur að góðu. 

Sunday, 15 March 2020

Lífið í sóttkví: Dásamleg nautarifjakássa með rauðvíni, tómat og cassislíkjör og penne pasta


Þetta er ótrúlegir tímar sem við lifum á í dag. Það er óhætt að segja að heimurinn sé að breytast dag frá degi. Sjálfur hef ég verið í sóttkví ásamt fjölskyldu minni, fyrst heima hjá mér og svo nú í sumarhúsi foreldra minna í Kjósinni. Það var gott að skipta um umhverfi. Það er erfitt að vera í sóttkví. Og ég veit líka hvað það er erfitt að vera í veikur í einangrun. Það veit ég frá fyrstu hendi þar sem ég hef tekið þátt í því verkefni að vitja Covid-19 veikra sjúklinga í heimahúsi auk þess að sinna gigtarsjúklingum mínum með fjarlækningum. Þetta er krefjandi en á sama tíma mjög gefandi verkefni. Ég er einkar þakklátur að fá að taka þátt í þessu og fá að sinna öllu þessu fólki. Þetta er tími til að standa saman og styðja hvert annað. 

Ég hef líka notað tímann til að dunda mér í eldhúsinu. Það er gott að vinna heima vitandi að það bíður ljúffeng máltíð í lok dags. Þessi nautarif fann ég frystinum. Þau eru beint frá bónda.

Þessa máltíð eldaði ég á miðvikudagskvöldið - sem var þá þriðji dagur í sóttkví. 

Lífið í sóttkví: Dásamleg nautarifjakássa með rauðvíni, tómat og cassislíkjör og penne pasta

Hráefnalisti (fyrir sex - en þetta dugar vafalaust fyrir fleiri)

2 kg nautarif
3 sellerísstangir
5 gulrætur
2 gulir laukar
5 hvítlauksrif
2 msk Edmond Fallot rauðvínsedik
4 msk hveiti (bragðbætt með salti, pipar og hvítlauksdufti)
4 msk jómfrúarolía
1/2 flaska gott rauðvín
3 dósir niðursoðnir tómatar
4 msk ítölsk kryddblanda (hefði notað kryddvöndul en var í sóttkví)
600 ml nautasoð
salt og pipar

500 g Rustichella d'Abruzzo Penne


Það er ekki leiðinlegt að elda úr svona hráefni. Þetta nautakjöt var beint frá býli.

Fyrst er að velta kjötinu upp úr bragðbættu hveiti.


Svo er kjötið brúnað að utan í nokkrar mínútur þangað til að það hefur tekið á sig fallegan lit.


Næst er að skera grænmetið; gulræturnar gróflega, laukinn, selleríið, hvítlaukinn heldur fínt og mýkja í pottinum. Þá er að bæta kjötinu aftur í pottinn og hella edikinu saman við og láta það sjóða niður og nudda botninn á pottinum til að ná upp kraftinum sem er fastur á botninum.


Næst er að bæta rauðvíninu saman við - ég setti hálfa flösku eða svo. Sauð upp áfengið og bætti svo niðursoðnum tómötum saman við ásamt nautasoðinu.


Villi Bjarki hefur verið afar áhugasamur um að hjálpa mér við mér við matargerðina. Hann sá um að krydda matinn.


Bætti smá skvettu af Cassis Noir De Bourgogne - þetta er ljúffengur sólberjalíkjör frá Búrgúndarhéraði í Frakklandi. Hann er einkar ljúfur á bragðið með djúpt sólberjabragð.


Svo er bara að láta suðuna koma upp og setja svo pottinn inn í 150 gráðu heitan ofn og leyfa honum og dvelja þar í fjórar til fimm klukkustundir.


Það er mikilvægt að sjóða pastað í ríkulega söltuðu vatni.


Kássan er tilbúin þegar beinin renna auðveldlega frá kjötinu. Svo er bara að bera veisluna á borð.

Eins og ég nefndi hér að ofan þá var þessi réttur eldaður fyrir fjölskylduna en hún dugar fyrir fjöldann allan af fólki - ég hefði boðið vinum og vandamönnum en þar sem við erum í sóttkví þá urðum við lögum samkvæmt að draga línurnar.


Með matnum nutum við Masi Nectar Campofiorin sem er frá sveitunum skammt fyrir utan Verónaborg á norðanverðri Ítalíu. Þetta er sérstaklega ljúffent vín. Hugur minn leitar oft til Ítalíu - ekki bara vegna þess að ég hef heimsótt þennan framleiðenda, og ekki bara vegna hve vænt mér þykir um Ítalíu - og hef farið þangað í ferðalög reglulega liðna áratugi, og ekki bara vegna þess hversu dásamlegur maturinn þeirra er, vínið og menningin - en þá sérstaklega núna - í ljósi þeirrar eldraunar sem þeir eru að ganga í gegnum. 


Þetta var dásamleg máltíð.

Og gerði sóttkvínna léttari!

Verði ykkur að góðu.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Saturday, 29 June 2019

Helgargrillið með langeldaðum nautarifjum "pulled" með heimagerðri BBQ sósu, pækluðum rauðlauk, klassísku hrásalati á frábærum sumardegi


Þessi uppskrift er eiginlega kjörin fyrir helgargrillið. Þessi uppskrift tekur tíma - en það er alls ekki vegna mikillar eldamennsku - því fer fjarri. Þetta er það sem kallast langdreginn skyndibiti. 

Þessi uppskrift er ekkert ósvipað uppbyggð og "pulled pork" uppskrift sem ég gerði fyrir rúmum þremur árum þegar ég var að vinna að grillbókinni minni sem kom sama vor - Grillveislan. Mér skilst að hún sé ennþá fáanleg í betri bókaverslunum :) - 


Hún er svipuð að því leyti að eldunaraðferðin er keimlík, og jafnframt vegna þess að nautarifin eru rifin niður og borin fram á hamborgarabrauði líkt og pulled pork - en samt eru þessar uppskriftir gerólíkar fyrir þær sakir að nautarif eru einstök á bragðið - þau hafa í sér djúpt nauta - umami - kjötbragð og verða lungamjúk við langa eldun.


Ég nuddaði rifin upp úr góðri olíu og kryddaði að sjálfsögðu með þessari kryddblöndu - El Toro Loco - sem ég útbjó fyrir tveimur árum síðan í samstarfi við kryddhúsið. Hugmyndin með henni er að lyfta upp eiginlegum bragði kjötsins en einnig bæta aðeins í.


Kolunum á grillinu er raðað upp á ákveðin hátt - þeim er raðað í röð eftir jaðri grillsins. Þetta kallast að útbúa "snák" sem brennur lengi og heldur grillinu við ákveðið hitastig.


Svo er kjötinu komið fyrir fjarri hitanum og grillað við óbeinan hita í tvær klukkustundir áður en þeim er svo pakkað inn í álpappír og eldaðir áfram í tvo klukkutíma til viðbótar.

Mér finnst pæklaður laukur passa rosalega vel með svona grillmat. Hann þarf að útbúa nokkrum klukkustundum áður.


Fyrir pæklaða laukinn

1 stór rauðlaukur
120 ml hvítvínsedik
50 ml sítrónusafi
1 tsk sjávarsalt
1½ tsk sykur
blandaður pipar

Skerið laukinn í sneiðar og setjið í hreina krukku. Blandið ediki og sítrónusafa, sykri, salti og piparkornum saman í pott og sjóðið upp. Hellið yfir laukinn og setjið svo í ísskápinn í nokkrar klukkustundir.


Sósan var líka heldur einföld. 

250 ml tómatsósa
2 msk púðursykur
2 msk múskóvadósíróp
2 msk Worchestershireso´sa
1 tsk af kryddblöndunni
skvetta af djionsinnepi
1/2 tsk pipar
2 msk Bera chilisósu (þetta er íslensk chilisósa frá Berufirði)

Allt sett í pott og blandað vel saman og hitað að suðu og látið krauma í nokkrar mínútur. 

Svo gerðum við klassískt hrásalat - sem var ekki flókið. 1/3 hvítkálshaus, 3 gulrætur, 2 epli, 2 msk af sýrðum rjóma, 2 msk af mayjónesi, hálfur dl af appelsínusafa. Grænmetið fékk eina salíbunu í gegnum grænmetiskvörnina. Blandað saman í skál með öllum blautefnunum.


Einhver myndi halda að kjötið sé brunnið - en það er það ekki. Þetta kallast "bark" eða börkur sem verður til þegar reykt er við lágan hita í langan tíma. Börkurinn er ljúffengur á bragðið.


Kjötið er rifið niður með gaffli og svo finnst mér gott að blanda smávegis af bbq sósu saman við kjötið.


Auðvitað notaði ég íslenskt salat á borgarann.


Sumir hefðu sagt að bjór hefði passað betur með matnum en mér finnst rauðvín bara svo gott að ég tók tappann úr Masi Campofiorin frá 2015. Og það gengur vel með reyktum og bragðmiklum mat eins og þessum enda er vínið ávaxtaríkt, nokkuð kryddað. Ljúffengt.


Þetta varð geggjuð samloka - eiginlega veislumáltið. 


Ps. Svo fékk maður að naga beinin á eftir! Geggjað!

------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Monday, 23 May 2016

Myndband: Langelduð grísa- og nautarif með óbeinni aðferð - kolasnák og reykingu

Okei, þetta er smá tilraun! Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta er klaufalegt upphaf - en ef maður gerir ekki tilraunir þá lærir maður ekki neitt. Ég prófaði að taka upp grillmennskuna á laugardaginn - þegar ég var að langelda grísa- og nautarif, með iphone 6 í einni hendi og grilltól í hinni. Árangurinn er eftir því - en ég er búinn að panta statíf fyrir tökuvél.

Ég hef fengið nokkrar spurningar um óbeina eldun vs. beina eldun þegar verið er að grilla. Best er að byrja á því að skýra hvað bein eldun er - en þá er maður beint yfir hitanum. Við óbeina eldun þá er hitagjafinn ekki beint undir kjötinu, heldur til hliðar. Í þessari uppskrift er svo kynntur til leiks kolasnákurinn sem tryggir langa og hæga eldun á kolagrilli, allt að 12 tíma ef vönduð kol eru notuð.


Uppskrift af grillnuddi og grillsósu er að finna í nýjustu bókinni minni - Læknirinn í Eldhúsinu - Grillveislan.


Að grilla er að njóta!