Showing posts with label Villi Bjarki. Show all posts
Showing posts with label Villi Bjarki. Show all posts

Sunday, 15 March 2020

Lífið í sóttkví: Dásamleg nautarifjakássa með rauðvíni, tómat og cassislíkjör og penne pasta


Þetta er ótrúlegir tímar sem við lifum á í dag. Það er óhætt að segja að heimurinn sé að breytast dag frá degi. Sjálfur hef ég verið í sóttkví ásamt fjölskyldu minni, fyrst heima hjá mér og svo nú í sumarhúsi foreldra minna í Kjósinni. Það var gott að skipta um umhverfi. Það er erfitt að vera í sóttkví. Og ég veit líka hvað það er erfitt að vera í veikur í einangrun. Það veit ég frá fyrstu hendi þar sem ég hef tekið þátt í því verkefni að vitja Covid-19 veikra sjúklinga í heimahúsi auk þess að sinna gigtarsjúklingum mínum með fjarlækningum. Þetta er krefjandi en á sama tíma mjög gefandi verkefni. Ég er einkar þakklátur að fá að taka þátt í þessu og fá að sinna öllu þessu fólki. Þetta er tími til að standa saman og styðja hvert annað. 

Ég hef líka notað tímann til að dunda mér í eldhúsinu. Það er gott að vinna heima vitandi að það bíður ljúffeng máltíð í lok dags. Þessi nautarif fann ég frystinum. Þau eru beint frá bónda.

Þessa máltíð eldaði ég á miðvikudagskvöldið - sem var þá þriðji dagur í sóttkví. 

Lífið í sóttkví: Dásamleg nautarifjakássa með rauðvíni, tómat og cassislíkjör og penne pasta

Hráefnalisti (fyrir sex - en þetta dugar vafalaust fyrir fleiri)

2 kg nautarif
3 sellerísstangir
5 gulrætur
2 gulir laukar
5 hvítlauksrif
2 msk Edmond Fallot rauðvínsedik
4 msk hveiti (bragðbætt með salti, pipar og hvítlauksdufti)
4 msk jómfrúarolía
1/2 flaska gott rauðvín
3 dósir niðursoðnir tómatar
4 msk ítölsk kryddblanda (hefði notað kryddvöndul en var í sóttkví)
600 ml nautasoð
salt og pipar

500 g Rustichella d'Abruzzo Penne


Það er ekki leiðinlegt að elda úr svona hráefni. Þetta nautakjöt var beint frá býli.

Fyrst er að velta kjötinu upp úr bragðbættu hveiti.


Svo er kjötið brúnað að utan í nokkrar mínútur þangað til að það hefur tekið á sig fallegan lit.


Næst er að skera grænmetið; gulræturnar gróflega, laukinn, selleríið, hvítlaukinn heldur fínt og mýkja í pottinum. Þá er að bæta kjötinu aftur í pottinn og hella edikinu saman við og láta það sjóða niður og nudda botninn á pottinum til að ná upp kraftinum sem er fastur á botninum.


Næst er að bæta rauðvíninu saman við - ég setti hálfa flösku eða svo. Sauð upp áfengið og bætti svo niðursoðnum tómötum saman við ásamt nautasoðinu.


Villi Bjarki hefur verið afar áhugasamur um að hjálpa mér við mér við matargerðina. Hann sá um að krydda matinn.


Bætti smá skvettu af Cassis Noir De Bourgogne - þetta er ljúffengur sólberjalíkjör frá Búrgúndarhéraði í Frakklandi. Hann er einkar ljúfur á bragðið með djúpt sólberjabragð.


Svo er bara að láta suðuna koma upp og setja svo pottinn inn í 150 gráðu heitan ofn og leyfa honum og dvelja þar í fjórar til fimm klukkustundir.


Það er mikilvægt að sjóða pastað í ríkulega söltuðu vatni.


Kássan er tilbúin þegar beinin renna auðveldlega frá kjötinu. Svo er bara að bera veisluna á borð.

Eins og ég nefndi hér að ofan þá var þessi réttur eldaður fyrir fjölskylduna en hún dugar fyrir fjöldann allan af fólki - ég hefði boðið vinum og vandamönnum en þar sem við erum í sóttkví þá urðum við lögum samkvæmt að draga línurnar.


Með matnum nutum við Masi Nectar Campofiorin sem er frá sveitunum skammt fyrir utan Verónaborg á norðanverðri Ítalíu. Þetta er sérstaklega ljúffent vín. Hugur minn leitar oft til Ítalíu - ekki bara vegna þess að ég hef heimsótt þennan framleiðenda, og ekki bara vegna hve vænt mér þykir um Ítalíu - og hef farið þangað í ferðalög reglulega liðna áratugi, og ekki bara vegna þess hversu dásamlegur maturinn þeirra er, vínið og menningin - en þá sérstaklega núna - í ljósi þeirrar eldraunar sem þeir eru að ganga í gegnum. 


Þetta var dásamleg máltíð.

Og gerði sóttkvínna léttari!

Verði ykkur að góðu.

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa

Sunday, 7 April 2019

Fermingarveisla Galore - Villi Bjarki fermist - seiðandi Minestrone súpa með pestó, dásamlegir heitir réttir, ljúffengir ostar, brauð og brauðsalöt handa vinum og vandamönnum


Sonur minn, Vilhjálmur Bjarki fermdist borgaralega nú um helgina. Hann hefur tekið námskeið á vegum Siðmenntar og kunni vel við þá fræðslu sem þar var veitt. Það var gaman að sjá hversu stór hópur valdi að ferma sig á þennan hátt nú í ár. Sjálfur valdi ég að ferma mig ekki þegar ég var táningur þar sem ég hef aldrei verið trúaður maður, ég er ekki einu sinni skírður. Ég hefði sosum geta fermt mig borgaralega á sínum tíma - en þá var sú ferming á sínu fyrsta ári. En ég valdi að sitja á hliðarlínunni og hef ekki séð eftir því. 


Frumburðurinn minn, Valdís Eik, er líka ófermd en við bjuggum í Svíþjóð á þeim tíma og þar er ferming ekkert fyrirbæri á meðal unglinga og því fór þetta eiginlega bara framhjá henni og okkur. En Villa langaði til að fermast og fannst borgaraleg ferming vera spennandi. Og það var sannarlega gaman að safna fjölskyldunni saman og fagna með þessum unga og dásamlega manni. Við hjónin erum svo einlæglega stolt af syni okkar - hann er hlýr, greindur og góður ungur maður. 

Fermingarveisla Galore - Villi Bjarki fermist - seiðandi Minestrone súpa með pestó, dásamlegir heitir réttir, ljúffengir ostar, brauð og brauðsalöt handa vinum og vandamönnum

Hann fékk sjálfur að velja matseðilinn. Hann vildi hafa hádeigisverð með súpu og brauði fyrir ættmenni og vini. Við ræddum lengi um hvaða súpu hann myndi vilja hafa á boðstólum - og úr varð minestrone súpa sem er í miklu uppáhaldi hjá honum. 

Minestrone með pestó handa 60 manns

5 stórar gulrætur
6 sellerísstangir
3 laukar
10 hvítlauksrif
6 lárviðarlauf
15 l vatn
1 flaska hvítvín
20 kjúklingateningar
1,5 kg pasta
6 litlar papríkur
8 tómatar
6 greinar rósmarín
handfylli basil og steinselja
salt og pipar


Allar góðar súpur byrja á mirepoix - gulrótum, sellerí og lauk sem er steikt í jómfrúarolíu. Ég bæti alltaf við hvítlauk, þar sem ég er forfallinn hvítlauksfíkill. Grænmetið er steikt þangað til að það mýkist vel og þá er heilli flösku af góðu hvítvini bætt saman við og soðið niður um helming þannig að allt áfengi sjóði upp. 


Ég útbjó stóran kryddvöndul sem ég lagði ofan í pottinn og bætti svo vatninu og kraftinum saman við. Þetta fékk að krauma í nokkrar klukkustundir. Saltað og piprað. 


Ég fékk góða aðstoð frá foreldrum mínum og bróður, sem skáru niður tómatana og papríkurnar sem var bætt útí á síðasta klukkutímanum. Þegar 15 mínútur voru eftir af eldunartímanum bættum við pastanu saman við. 

Við vorum með ljúffengt pestó frá Rustichella sem við hresstum aðeins við með nýrri basilíku, meiri parmaosti og þynntum aðeins út með meiri jómfrúarolíu. 


 Súpan heppnaðist einstaklega vel og Villi var einkar ánægður með niðurstöðunar.

Við gerðum einnig fjóra stóra heita rétti. Allir voru þeir ólíkir. Það verður nú að vera smá fjölbreyttni í þessu. 


Pabbi útbjó magnaða hvítlauksolíu sem við notuðum til að pensla allar ofnskúffurnar. 


Ég skráði ekki nákvæmlega hjá mér hversu mikið fór í hverja ofnskúffu. Í fyrstu fór sirka 500 g af steiktu beikonkurli, fullt af smátt skorinni papríku, gullostur í næfurþunnum sneiðum og svo rifinn ostur og eitthvað af rifinni steinselju. Helltum svo blöndu af 15 eggjum og 500 ml af rjóma, sem hafði verið söltuð og pipruð, í hvert fat. Og að sjálfsögðu brauð - fyrst sneiðar neðst - en svo fullt af niðurrifnu brauði ofan á.


Bakað í 200 gráðu heitum ofni þangað til að osturinn varð gullinn.


Í næstu skúffu fór svo gróft brauð, einn stór haus af sperilkáli, muldar valhnetur og mangóchutney. Lögðum svo yfir þunnar sneiðar af Stóra Dímon og rifinn ost. Settum álíka magn af eggja- og rjómablöndu.


Bakað í 200 gráðu heitum ofni þangað til að osturinn varð gullinn.


Þessi er svo alger klassík. Skinka, aspas úr dós og camenbert í þunnum sneiðum. Eggja- og rjómablanda líkt og áður og svo rifinn ostur. Og muna að bleyta brauðið úr safanum úr dósinni!


Bakað í 200 gráðu heitum ofni þangað til að osturinn varð gullinn. Sælgæti.


Þessi var líka alveg frábær. Pepperóni, skinka og svo hvítlaukssteiktir sveppir. Höfðingi í þunnum sneiðum og svo rifinn ostur. Jafnmikið af rjóma og eggjablöndu.


Bakað í 200 gráðu heitum ofni þangað til að osturinn varð gullinn. Ótrúlega ljúffengt.

Við buðum einnig upp á salöt með brauðinu sem við keyptum í Brauð&Co. 


Bróðir minn sá um túnfiskssalatið. Sex dósir af túnfiski í vatni þeytt saman með átta soðnum eggjum, fullt af majónesi og svo smátt skornum vorlauk og hálfum rauðlauk. Saltað og piprað.


Faðir minn á svo heiðurinn af þessu rækjusalati. Eitt kíló af rækjum og átta soðin eggjum, fjórar smátt skornar papríkur, hálfur rauðlaukur, nóg af majónesi og handfylli af steinselju. Saltað og piprað. 



Það var eiginlega þessi réttur sem sló í gegn. Heill risavaxinn ostur, Stóra Dímon var pakkað inn í smjördeig (notaði tvo pakka af upprúlluðu smjördeigi). Amma Habbý fékk svo það hlutverk að skreyta ostinn. Svo var hann penslaður með eggjablöndu. 


Hann var svo bakaður við 200 gráður í 35 mínútur þangað til að deigið var orðið gullið að utan. Þessi var borðaður upp til agna! 


Við höfðum einnig aðra osta á boðstólunum. Stóran Gullost. Klassík.


Þá bárum við einnig fram stóran Höfðingja og aðra osta, vínber, ýmsar sultur og fjölbreytt úrval af niðursneiddum pylsum úr ýmsum áttum. 


Til hamingju með daginn þinn, elsku sonurinn okkar - Vilhjálmur Bjarki. 

-------


Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa