Thursday 26 February 2009

Kraftmiklar lambakjötbollur með matarmiklu fattoush salati, couscous og auðvitað góðu rauðvíni

hla_bor.jpg Eldaði þetta prýðisgóða rétt á laugardagskvöldið núna fyrir að vera tveimur vikum síðan. Hef ekki verið frumlegur síðustu daga í eldhúsinu - en það er haldbær skýring á því. Og hún er góð. Við fluttum inn í nýja húsið okkar síðastliðin föstudag. Ég hef oft áður sagt frá húsinu okkar. Það er staðsett í Annehem hverfinu í norður hluta Lundar. Kannski í 10 mínútna hjólafjarlægð frá sjúkrahúsinu þar sem ég vinn. Leikskólinn hans Villa er í næstu götu og skólinn hennar Valdísar í nokkra mínútna göngufjarlægð. Snædís hefur hafið störf sem sálfræðingur Alviva í Lundi - fyrirtækjaheilsugæsla sem sinnir m.a. starfsmönnum Sony Ericsson. Og það er líka í nágrenninu.

Það var mikið að gera síðasta föstudag. Þá fengum við afhent húsið, nýja eldvél í eldhúsið, gáminn sem við fengum rúma klukkustund til að tæma. Vorum bara tvö framan af að fleygja úr gámnum inn í hús. Fengum í lokin góða aðstoð frá Áskeli, Hrund, Guðbjörgu tengdamóður hennar Elvu, allt nágrannar fattoush.jpg okkar eða tengd þeim til að hjálpa með stærstu mubblurnar. Við vorum alveg úrvinda eftir daginn. 

Ég hef aðeins náð að elda í nýja eldhúsinu - keyrði gamlar og góðar uppskriftir - sem ég hef áður sett hérna á vefinn; pasta með einfaldri tómatsósu, penne með reykt laxa karbónara, ofnbakaður kjúklingur með fullt af hvítlauk, entrecote með salsa og í kvöld grísakótelettur með steiktum sveppum og brie. Namminamm. En stefnan er sett hátt í nýja eldhúsinu - ég er með 2 ofna, 1 örbylgjuofn, 4 induction hellur og 6 gashellur - nóg af hnífum og allt til alls. Ég get ekki lýst því hvað hefur verið gaman að raða í eldhúsið - setja allt á sinn stað - raða upp matreiðslubókunum mínum.  Núna verður eldað.  Verð með myndasyrpu þegar allt er klárt.

lambabollur.jpg Alltént - tilbaka að verkefni dagsins. Ég er alltaf að verða hrifnari og hrifnari af mat frá miðausturlöndum nær. Það er eitthvað við bragðið af mat sem er innblásinn frá þessum heimshluta; lamb, kanil, kúmen, múskat, sítrónur borið fram með flatbrauði, baunum eða kúskús - eða bara einhverju öðru - eitthvað djúpt við þessa rétti sem kemur manni á óvart - og það finnst mér vera skemmtilegt.

 Kraftmiklar lambakjötbollur með matarmiklu fattoush salati, couscous og auðvitað góðu rauðvíni

Ég fann lambahakk í nærlægri verslun. Því miður ekki frá Íslandi - það verður þó að segjast að það var ekki auðvelt að nálgast lambahakk á Íslandi - ég var vanur að gera það sjálfur úr frampörtum sem ég keypti beint frá bónda. Allavega fékk ég lambahakk af Ný-Sjálensku lambi - það var ágætt jogurtsosa.jpg en ekki eins "gamey" og kraftmikið eins og íslenskt lamb. Setti 800 gr í skál, 1 smátt skorinn rauðlaukur, hálf teskeið af kúmeni, salt, smá chilliduft, pipar, olía, egg, smá brauðmylsna, kóríanderduft, smátt skorinn hvítlaukur. Öllu blandað vel saman og steikt á pönnu þar til var búið að loka því. Þá sett í eldfast mót og klárað í ofni í svona 20 mínútur við 200 gráður. Borið fram á beði af romaine salati, með smátt skorinni rauðri papriku ofan á ásamt flatlaufssteinselju.

Með lambabollunum var borin fram köld sósa; tyrknesk jógúrt, smátt skorinn agúrka, steinselja, salt, pipar, ferskur sítrónusafi, smá síróp - oft gert svona áður og passar með ótrúlega vel með svona mat. 

Með matnum var ég með fattoush salat. Þetta er salat fátæka mannsins þar sem hugmyndin er að endurnýta gamalt flatbrauð til að drýgja máltíðina. Ég átti ekkert gamalt brauð en hitaði tilbúið pitaflatbrauð í ofni sem ég síðan braut ofan í salatskál. Því næst gróft skorið Romaine salat, gróft skorna tómata, rauðlauk, papríku í nokkrum litum, ferskri steinselju og nokkrar radísur. Salatið er bragðbætt með dressingu úr nokkrum matskeiðum af jómfrúarolíu, sítrónusafa, 1 teskeið af sumac (fremur súrt krydd) og þurrkaðri myntu.

Með matnum var ég með cous cous - soðið samkvæmt leiðbeiningum og afar gott rauðvín. Peter Lehmann Barossa Shiraz frá því 2006. Þetta er ljúffengt ástralskt rauðvín - upprunið frá Barossa dalnum. Þetta er kraftmikið vín. Munnfyllir. Dökkt vín - sætur ávöxtur í nefinu og þykkt og ávaxtaríkt á bragðið. Gott vín. Fær góða dóma á vínáhugasíðum. 

  go_ur_diskur.jpg


Sunday 15 February 2009

Stórgott penne pasta með Chorizopylsu, sólþurrkuðum tómötum, rjómaostiog góðu rauðvíni





Það styttist all verulega í að við fáum húsið. Vorum í svona "Visning" á föstudaginn, sem fólst í að sjálfstæður skoðandi fór yfir húsið. Kom með smávægilegar athugasemdir. Vonum að það verði ekkert meira en það. Verktakinn NCC sem byggði húsið hefur lent í vanda áður með hús í þessu hverfi - 2. september á síðasta ári var forsíðan á Sydsvenskan á þá veru að Annehem (hverfið okkar) væri dýrasti skandall í Svíþjóð í húsagerð - ég fékk tak fyrir hjartað. Það kom á daginn að okkar hús er byggt með öðrum hætti - breytti því þó ekki að maður varð aðeins órólegur ... en þó - verktakanum til tekna hafa þeir gert við það sem útaf hefur brugðið. Vonum bara að okkar hús sé laust við galla svona að mestu.

Við fengum okkur gönguferð eftir vinnu á fimmtudaginn, fórum niður í Saluhallen, sem er svona Delicatessen - kjötsali, fisksali, brauðsali, ostasali og svo að sjálfsögðu kebabbúlla. Kjötsalinn er alveg frábær. Hann gerir sínar eigin pylsur og það er ekkert smá úrval. Svíar elska pylsur - KORV - og eiga gott úrval af pylsum. Frægast er kannski Falukorv sem minnir einna helst á bjúga - eða medisterpulsu. Allavega keypti ég heimagerða chorizo pylsu -sem þýðir væntanlega að kaupmaðurinn hafi gert hana sjálfur- full af grísaketi, papriku, chilli, kryddi og fitu - dásamlegt. Sterkt og bragðmikil! Namminamm!

Veit ekki alveg hvaðan þessi hugmynd er kominn - það hefur áreiðinlega einhver gert eitthvað svipað. Allavega rímar liturinn af chorizo og sólþurrkuðum tómötum saman. Rjómaostur mildir hitann frá pylsunni og sveppirnir soga einhvern veginn allt upp og jafna bragðið. Ég hef aldrei gert þetta áður en ég á örugglega eftir að gera þetta aftur. Alltént tók þetta stuttan tíma.

 

Á myndunum sést glitta í nýjasta leiktækið mitt í eldhúsinu - nokkuð sem ég gaf sjálfum mér í afmælisgjöf eða bara í verðlaun fyrir að húka í héraði, einn, í tvær vikur - Kai Shun Ken Onion Chef's hnífur. Framleiddur með sömu aðferðum og samuraia sverð hér áður (segir í bæklingum - hvað veit ég). Mörg lög af stáli lögð saman. Gullfallegt tæki. Stórgott að vinna með. Hönnuðurinn fór milli margra veitingahúsa og fylgdist með kokkum áður en hann lagði upp með þessa hönnun.

Stórgott penne pasta með chorizopylsu, sólþurrkuðum tómötum, sveppum, rjómaosti með baguette og góðu rauðvíni

Fyrst skar ég sveppina niður í grófa bita og steikti upp úr smá hvítlauksolíu og lagði svo til hliðar. Síðan skar ég chorizo pylsuna og steikti hana upp úr sveppa-hvítlauksolíunni. Þá setti ég grófskorna sólþurrkaða tómata á pönnuna, síðan 150 gr af léttum rjómaosti, salt, pipar, sveppina aftur saman við. Þegar þetta hafði allt blandast saman þá stráði ég smá ferskri steinselju yfir.

Sauð gott pasta eins og lög gera ráð fyrir - þar til al dente - og blandaði svo saman við chorizorjómaostsósuna. Saltaði og pipraði og stráði þvínæst aðeins meira af ferskum kryddjurtum yfir.

Borið fram með góðu baguette - sem ég keypti volgt og nýbakað útí búð.

Vínið var lágstemmt og passaði kröftugum matnum vel. Trivento Malbec er vín frá Suður Ameríku - nánar tiltekið - Argentínu og er í billegari kantinum í Systembolaget. Alltaf gott að drekka góð vín - sem eru líka ódýr. Ljómandi ef mann langar til að fá sér samviskulítið tár í miðri viku. Passaði vel með matnum. Bragðgott vín - í ágætu jafnvægi, rauð vínber og jafnvel dáldið kryddað. 



Bon appetit!

Sunday 8 February 2009

Ljúffengur hlynsírópsgljáður lax með steiktum kartöflum, polkabeðum með ríkotta osti og góðu salati

valdis_og_amma.jpg Mamma, pabbi og bróðir minn voru hérna yfir hátíðarnar og það var frábært að hafa þau hérna hjá okkur þó þröngt væri í koti. Mamma er búinn að vera allt síðasta haust í Toronto í Canada að sinna doktorsnámi sínu í kennslufræðum. Í farteskinu yfir hafið hafði hún með sér nokkur blöð LCOB food and wine - sem er svona Gestgjafi þeirra Kanadamanna. Fallegt blað. Í þessu mikla blaði sem er nánast eins og auglýsingableðill rakst ég á girnilega laxauppskrift sem var nokkuð á þá veg sem ég gerði í kvöld. Maður verður nú að geta heimilda. Að sjálfsögðu með breytingum - þannig að ég geti nú tekið heiðurinn af þessu?!

Í uppskriftinni var að finna hvítar beður. Eitthvað sem ég sá ekki í búðinni hér. Gott úrval af rauðbeðum og svo eitthvað sem heitir Polkabeður. Ég sá þessar polkabeður í búðinni á mánudagskvöldið - og það verður nú að segjast að ég hafði enga hugmynd um hvað þetta var þegar ég skellti þessu með öðrum vörum í körfuna. 

kartoflur_og_polkabe_ur.jpg Við eldum oft lax - hvað fiska varðar þá er lax í miklu uppáhaldi. Dóttir mín er líka sérstaklega hrifinn af laxi. Ekki er verra hvað hann er hollur. Einstaka sinnum hefur tengdafaðir minn gaukað að okkur laxi - en þá helst reyktum sem hann hefur veitt sjálfur. Hann lætur reykja fyrir sig í Útey - sem ég held að sé á Laugarvatni - og ekki vantar hvað hann er bragðgóður. Hann stendur fyrir sínu - helst einn á báti, kannski á ristuðu brauði, með smátt söxuðum rauðlauk og blautri eggjahræru og kannski smá sýrðum rjóma. Hann er það kraftmikill að hann er erfiður að nota í mat, eins og pastarétt- það er kannski þannig með allan taðreyktan fisk.

Laxinn sem við elduðum þetta kvöld var keyptur ferskur í nærlægri matvöruverslun. Hann ku hafa verið upprunninn í Noregi - eldisfiskur. Mig grunar að þetta hafi verið lax alin í keri frekar en sjóalinn þar sem hann var frekar feitur. Ef maður kemst ekki í villtan lax, þá vel ég sjóalinn - sá fiskur hefur þurft að hafa fyrir því að berjast við sjávarföllin og verður fyrir vikið vöðvamikill og mun  minna feitur en sá sem hefur fengið að vaxa í straumlausu keri. En allt er hey í harðindum. Laxinn var bleikur og fallegur. Lyktaði meira að segja vel - ég var þó litinn hornauga þegar ég bað um að fá að lykta af flakinu. Mamma hefði verið stolt af mér hefði hún séð til mín - en hún er fræg fyrir þessa hegðun - og hefur oft fengið háð að launum. 

salat.jpg Hlynsírópsgljáður lax með steiktum kartöflum, polkabeðum með ríkotta osti og góðu salati og ljúffengu hvítvíni

Stórt beinhreinsað laxaflak var sett í eldfast mót og smurt með eins og tveimur matskeiðum af 100 prósent hreinu kanadísku hlynsírópi. Fatið var svo sett inn í 200 gráðu heitan ofn og bakaður í 15-20 mínútur þar til eldaður í geng. Þá var gróft skorinn flatlaufssteinselja stráð yfir. 

Ég flysjaði nokkrar kartöflur og þessar umtöluðu polkabeður - sem voru hvítar en með svona bleikum röndum - undarlegt. Þær voru skornar fremur smátt niður og svo steiktar á pönnu þar til mjúkar í geng. Saltað og piprað vel. 

Laxinn var lagður á diskinn, pipraður rækilega, ásamt kartöflunum og beðunum, og smávegis af Ricottaosti lagt með - svona til að þjóna sem sósa með matnum.

salat2.jpg Vorum með fallegt salat með matnum, klettasalat, smátt skornar gular paprikur, vínber, radísur í sneiðum og smávegis basillauf - bara svona til skrauts.

Með matnum fengum við okkur Fleur de Cap Chardonnay sem er hvítvín frá Suður Afríku. Gott vín, lyktin minnir á sætan ávöxt og kannski smá vanillu. Þetta er milt og ávaxtaríkt Chardonnay - eikað með góðu eftirbragði. Passaði vel með matnum. Chardonnay er hvítvín sem auðvelt er að hugnast. Chardonnay er svona Cab Sauv hvítvínanna. Bragðgóð og ljúf vín - hvað annað vill maður!

matur_a_disk.jpg


Tuesday 3 February 2009

Ljúffengar gorganzoladekkaðar grísakótilettur með steiktum eplum ogljúffengu salati






Kom heim úr héraði á föstudagskvöldið. Er búinn að vera í héraði hérna í Svíþjóð síðastliðnar tvær vikur. Þetta var áhugaverður tími - en á sama tíma hálf einmannalegur - mikið að gera í vinnunni en svo þegar að vinnunni lauk - sat maður heima í herbergi las eða glápti á sjónvarp. Fyrstu vikuna var ég í Åmål og svo seinni vikuna í Bengtsfors. Þessir bæjir eru Dalarnas Land - mér skilst að myndin Ronja Ræningjadóttir hafi verið tekin upp á þessum slóðum. Skrapp á skíði eitt kvöldið - það var ágætt - ætlaði aftur - en það rigndi. Þetta var svolítil Bláfjallarstemming - Fínar en stuttar brekkur!

Strax eftir vinnu á föstudaginn ók ég frá Bengtsfors, sem liggur 40 km norðan við Vanern vatnið, beina leið til Lundar. Stoppaði einu sinni til að létta á mér. Fjögurhundruðþrjátíufimm kílómetrar. Ég hlustaði á útvarpið alla leiðina - hálf kjánalegt, sömu lögin á öllum stöðvum, kannski ein 12 lög - látin rúlla hring eftir hring. Þetta varð pínuþreytt þegar komið var fram á fimmta tíma í akstri - I was a boy eftir Beoyncie spiluð á 25 mínútna fresti. Hinar mínúturnar var það svo Kate Perry eða Leona Lewis eða hvað þetta heitir nú allt saman - maður var kominn með upp í kok.


Ég kom heim um níuleytið um kvöldið, Snædís hafði eldað kjúkling - ofnbakaðan með fullt af hvítlauk, baguette og gott rauðvín með - dásamlegt. Ég held ég hafi bloggað um þann rétt síðastliðið sumar. Algerlega meiriháttar. Fullkominn comfort matur. Ofboðslega var gott að koma heim! Réttinn sem ég er að blogga um núna gerði ég á laugardagskvöldið. Ég held að ég hafi aldrei bloggað um þetta áður - en ég hef gert nokkra rétti í þessum dúr. Ég er mjög hrifinn af svínakjöti - sem henntar vel þar sem þetta er ódýrasti maturinn sem er á boðstólnum.

Það er margt framundan hjá okkur hérna í Lundi - svona í prívat lífinu. Snædís, var að fá nýja vinnu, var ráðin sem sálfræðingur hjá fyrirtæki hérna í Lundi. Hún byrjar eftir nokkra daga. Hún er mjög spennt að byrja. Við fáum húsið okkar eftir nokkra daga. Það verður spennandi. Við erum búinn að búa í ágætri íbúð í miðbæ Lundar síðustu mánuði - það hefur verið þröngt en gengið lygilega vel. Það verður þó skemmtilegt að fá húsið. Ég verður að segjast að hlakka til að tyrfa garðinn, smíða pall, planta epla-, plómu- og perutrjám. Einnig er á döfinni að setja niður jarðaberjarunna - kollegi minn og fyrrum leiðbeinandi, Helga Ágústa innkirtlalæknir (dr. HÁS), segir að Carola jarðaber séu best - sjáum til hvernig fyrsta uppskera bragðast.

Ljúffengar gorganzoladekkaðar grísakótilettur með steiktum eplum og ljúffengu salati
Ég keypti ferskar svínakótilettur, niðursneiddar, penslaði þær með smá olíu, saltaði og pipraði, kryddaði með salvíu, rósmarín og örlitlu fennel og steikti örstutt - kannski mínútu á hvorri hlið - rétt þannig að loka þeim. Þá voru sneiðarnar lagðar í eldfast mót og þykkar sneiðar að gorganzolaosti (reyndar sænskum - ekki að það sé slæmt - Svíar fíla osta og er duglegir í ostagerð). Þetta var svo lagt inn í heitan ofn - 200 gráður - í um tuttugu mínútur þar til kótiletturnar voru eldaðar í gegn. Alger óþarfi er að hafa sósu með - osturinn þjónar því hlutverki.


Á meðan var meðlætið undirbúið. Ég skar niður 4 græn epli, þurrkaði, og steikti upp úr blöndu af smjöri og olíu ásamt rósmarín þangað til að þau fóru að taka lit og verða pínu gullin - aðeins karmelliseruð. Undir lokin blandaði ég svo ferskri flatlaufssteinselju. Mér finnst voðalega gott að vera með eitthvað sæt með svínakjöti - einhvern veginn finnst mér bragðið af svínakjöti kalla á það að því fylgi eitthvað sætmeti - oft er ég með góða sultu. Núna fengu eplin bæði að þjóna því hlutverki að vera meðlæti og sulta - allt í senn.

Valdís dóttir mín tók að sér að gera salat, grænt kál, papríka, tómatar, vínber og nokkrar ostsneiðar.

Með matnum drukkum við Montes Alpha Cabernet Sauvignion frá 2006. Ég man ennþá þegar ég ákvað að kaupa þessa tegund í fyrsta skipti. Það var snemma á ferli mínum sem "matgæðingur". Þá var ég að vafra í ríkinu og sá þegar starfsmenn ÁTVR voru af fylla á hillur. Þessar flöskur voru fluttar inn í viðarkössum - mér fannst það óhemjuflott. Veit ekki hvernig það er í dag, með kassana - en þetta var ástæðan fyrir því að ég keypti þetta í fyrsta sinn. Bragðið af víninu er síðan ástæðan að ég hef keypt það aftur og aftur - og notið þess sérlega vel. Þetta er stórt Cabernet Sauvignion - kraftmikið, munnfyllir, þungt á tungu, eikað og með löngu eftirbragði - kannsk myndu einhverjir segja að það væri full bragðmikið til að bera fram með svínakótilettum. En mér fannst þetta sóma sér mjög vel með matnum. Alltént leyfðum við engu - hvorki mat né víni.