Tuesday 25 March 2014

Saðsamar amerískar eplapönnsur með heimagerðu reyktu beikoni

Á laugardaginn lukum við tökum á sjónvarpsþáttunum mínum - Lækninum í Eldhúsinu! Þetta hafa verið mjög annasamir en líka mjög svo skemmtilegir dagar. Það er gaman að elda og það er gaman að elda allan daginn, en kannski er það bara ég? Við náðum að fara í gegnum fjöldann allan af ljúffengum uppskriftum. Stundum vorum við með gesti í mat en oftast fékk fólkið á tökustaðnum að gæða sér á matnum. Og hann var alltaf etinn upp til agna. Það var ótrúlega skemmtilegt að gefa því duglega fólki að borða.

Það verður líka spennandi að sjá hvernig þátturinn kemur til með að líta út. Ekki vantar metnaðinn hjá framleiðendum þáttanna, Gunnhildi (sem einnig var leikstjóri) og Ómari (líka tökumaður) auk allra annarra sem lögðu lið við gerð þáttarins - en þetta voru þau Högni, Eiríkur, Svenni, Kjartan, Ísgerður, Siggi Már og Steffí! Þetta er, sko, duglegt fólk.

Nú hef ég nokkra daga leyfi á Íslandi og næ að elda fyrir bókina mína og vera duglegur að skreppa í sund. Villi, sonur minn, kom með mér til Íslands og hefur fengið að ganga í íslenskan skóla og verið ákaflega ánægður. Honum hefur tekist að eignast góða vini í götunni og unir sér vel eftir skóla í leikjum með félögunum. Stelpurnar mínar, Snædís, Valdís og Ragnhildur Lára koma á fimmtudaginn og þá er stefnt að því að skella sér upp í sumarbústað og verja helginni þar í góðu yfirlæti! Mikið hlakka ég til!

Saðsamar amerískar eplapönnsur með heimagerðu reyktu beikoni
Þetta er uppskrift sem birtist í bókinni minni sem kom út fyrir jólin en hefur ekki birst á blogginu mínu áður. 

Þessi uppskrift byggist á hefðbundinni pönnukökuuppskrift nema að röspuðum eplum er bætt við uppskriftina. Það er líka hægt að nota perur í stað eplanna eigi maður þær við höndina. Hvað sem því líður er þetta ótrúlega ljúffeng pönnukaka. Og með heimagerðu kaldreyktu beikoni – alger sigurvegari!

2 bollar hveiti
3 tsk lyftiduft
1 tsk salt
1 msk sykur (má sleppa)
2 egg
3 dl mjólk
3 epli
2-3 msk smjör til steikingar 


Blandið saman þurrefnunum. Aðskiljið hvíturnar frá eggjarauðunum. Hrærið eggjarauðurnar saman við þurrefnin ásamt mjólkinni í þykkt deig. 


Aðskiljið eggjahvíturnar frá rauðunum. Bætið ögn af salti í eggjahvíturnar og þeytið upp með písk. 


Gott er að eggjahvíturnar nái að mynda fallega toppa!


Skolið eplin (þið ráðið hvort þið flysjið þau) og raspið svo gróft. Bætið út í deigið. 



Blandið hálf-stífþeyttu eggjahvítunum við með sleikju og gætið þess að hræra ekki saman um of – það slær loftið úr eggjunum.

Hitið smjör á pönnu og steikið eina pönnsu þegar það er bráðið. Þegar kakan fer að bakast á jöðrunum snúið þið henni við með spaða.


Raðið á disk.



Berið fram með skvettu af sírópi og beikoni, helst heimagerðu – kíkið hérna
Tími til að njóta!

Thursday 13 March 2014

Innbakað sjávarréttapasta með skelfiski, smokkfisk og rækjum

Það er búið að vera mikið að gera síðastliðna daga. Er búinn að vera ábyrgur fyrir gigtardeildinni okkar hérna í Lundi síðustu þrjár vikur og hef haft báðar hendur fullar við það. Auk þess er vinna við næstu bók á fullri ferð - Er búinn að elda nærri sextíu uppskriftir síðan að ég byrjaði um áramótin síðustu - en það er ennþá langt í land. En það sakar ekki - seint fer ég nú að kvarta yfir því að vera borða góðan mat - og það á hverju kvöldi.

Um síðustu helgi komu samstarfsmenn mínir við sjónvarpsþáttinn í heimsókn til Lundar. Gunnhildur og Ómar komu hingað á laugardagseftirmiðdaginn og við byrjuðum strax að vinna. Elduðum og tókum upp frameftir kvöldi. Daginn eftir var svo farið í útitökur, vinnan mín heimsótt og svo var eldað meira um kvöldið - en ekki hvað! Við gátum undirbúið heilan helling fyrir tökur sem eiga að fara á stað núna á mánudaginn næstkomandi. Þetta verður spennandi.

Á laugardaginn leggjum við land undir fót, ég, bróðir minn og sonur minn, Vilhjálmur Bjarki og verðum á Íslandi í rúmar tvær vikur. Vilhjálmur mun ganga í skóla á Íslandi í fyrsta sinn og er ákaflega spenntur. Hann mun fara í gamla skólann minn - Háteigsskólann sem þá gekk undir nafninu Æfingaskólinn.

Innbakað sjávarréttapasta með skelfiski, smokkfisk og rækjum
Þessi réttur birtist í bókinni og minni og hef ég fengið góðfúslegt leyfi til að endurbirta uppskriftina.

Þetta er dásamlega fallegur réttur og virkilega gaman að bera á borð fyrir gesti. Það er líka auðvelt að vera búinn að útbúa allt fyrirfram; laga sósuna og undirbúa hráefnið. Þá þarf ekki annað að gera en að raða þessu í böggla þegar gestirnir koma. Í raun er meira að segja hægt að gera allt fyrirfram og geyma bögglana í ísskáp þangað til gestirnir mæta á svæðið.

Rétturinn er líka nokkuð spennandi því að þegar þessir dularfullu matarbögglar eru opnaðir gýs upp þessi dásamlegi sjávarréttailmur sem leggur yfir borðið og gleður svo um munar.

Hráefnalisti

Fyrir 6

1 laukur
5 hvítlauksrif
5 ansjósuflök í jómfrúarolíu
Salt og pipar
2 dósir niðursoðnir tómatar
3 msk tómatþykkni
1 fiskiteningur
100 ml hvítvín
2 msk jómfrúarolía
Handfylli rifin steinselja og basil
1 kg kræklingur
300 g smokkfiskur
300 g rækjur eða annar fallegur skelfiskur/fiskur
500 g spaghettí

Fyrst er að undirbúa sósuna. Skerið laukinn og hvítlaukinn í smáa bita og steikið í jómfrúarolíu.
Bætið ansjósuflökunum út í og bræðið þau niður í olíunni. Þá er að hella hvítvíninu yfir og svo sjóða úr áfengið. Bætið næst við niðursoðnu tómötunum, tómatþykkninu og fiskiteningnum. Sjóðið upp. Setjið að lokum fersku kryddjurtirnar út í og látið krauma við vægan hita í 10 mínútur.



Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum í söltuðu vatni þangað til það er „al dente“ (undir tönn). Hellið vatninu frá og hrærið tómatsósunni saman við spaghettíið.



Brjótið bökunarpappír í fernt og tyllið einum skammti af pasta á miðjuna og raðið sjávarfanginu ofan á.







Brjótið upp á bökunarpappírinn til að innsigla góðgætið. Endurtakið sex sinnum – einn skammtur á mann. Bakið í ofni við 180 gráður, í 20 mínútur.


Þetta vín myndi sóma sér vel með matnum. Castillo de Molina Chardonnay Reserve frá því 2011. Þetta er vín sem ég hef drukkið áður og greint frá því hérna á blogginu. Þetta er ávaxtaríkt Chardonnay - smjörkennt eins og mörg Chardonnay eru, vanillukeim og eikartónum í lokinn! 


Njótið vel!

Verið velkominn á Facebooksíðuna mína - Læknirinn í Eldhúsinu! 

Sunday 2 March 2014

Ljúffengt fyllt veislubrauð og skíðafrí!



Það hefur verið lítið um að vera á blogginu mínu síðan í byrjun febrúar. Og á því eru góðar skýringar. Við fórum um miðjan mánuðinn í árlegu skíðaferðina okkar. Við ókum af stað þann 12. febrúar og vorum komin suður til Austurríkis daginn eftir. Við lögðum af stað eftir vinnu og gistum á litlu hóteli skammt frá hraðbrautinni. Síðdegis á fimmtudeginum vorum við komin í Alpana og keyrðum í gegnum fjallaskörðin í átt að St. Michael í Lungau frá Salzburg.



Við gistum eins og svo oft áður hjá vinum okkar - Dodda og Þurý - en þau reka Skihotel Speiereck í St. Michael. Þetta er í sjöunda skipti sem við gistum hjá þeim og ég er næstum því farinn að líta á þetta hótel sem mitt annað heimili! Og að þessu sinni kyngdi niður snjó. Þessi mynd hér að ofan var tekin á þriðja degi í fríinu. En vikurnar á undan hafði líka kyngt niður snjó. Færið hafði aldrei verið betra. 

Maturinn var einkar góður núna (hann hefur að vísu alltaf verið góður). Matreiðslumennirnir Barði og Örn stóðu vaktina í eldhúsinu og gerðu það með stakri prýði! Báru fram ljúffenga rétti kvöld eftir kvöld! Þetta var mjög vel heppnað hjá þeim!



Eins og mörgum er ljóst þá er ég mikill aðdáandi Alpanna. Stundum er það eins og ég miði líf mitt á veturna við það hvort atburðir gerist fyrir eða eftir skíðafrí. Ég hreinlega veit ekkert betra en að vakna snemma á morgnanna, opna gluggann og draga inn fjallaloftið, klæða mig síðan í skíðagallann og skella mér á skíði. Það er bara eitthvað við þetta skíðalíf sem hugnast mér svona vel. Og það er ekki bara bjórinn - þó að mér þyki hann nú góður! 



Allir í fjölskyldunni virðast njóta sín vel í Ölpunum og það er sérstaklega gaman að skíða með þeim. Vilhjálmur og Valdís eru miklir skíðagarpar og sonurinn tók sérlega miklum framförum í ár. Fór frá því að skíða með veglegt bil á milli lappanna í að verða alveg "paralell" skíðamaður. Ekki slæmt fyrir átta ára gutta. 


Sú yngsta kom líka með upp í fjall þó hún hafi ekki fengið að standa á skíði þá fékk hún að koma út og leika sér í snjónum og fannst það svo sannarlega skemmtilegt.

Á næstunni mun ég setja inn valdar uppskriftir úr bókinni - margar hverjar hafa ekki birst áður á blogginu mínu en þó hef ég einhvern tíma bloggað um eitthvað þessu líkt. Ástæða þessa er sú að ég vinn hörðum höndum öll kvöld og allar helgar að því að skrifa aðra bók sem á að koma út fyrir næstu jól!

Ljúffengt fyllt veislubrauð

Þetta er brauð sem ég bjó einhvern tíma til í frumbernsku bloggsins míns. Ég bakaði það fyrir einhverja fjölskylduveisluna. Því miður féll þetta brauð síðan í gleymsku í nokkur ár og það var ekki fyrr en ég fór að undirbúa bókina mína að það rifjaðist upp fyrir mér hversu ljúfur og gómsætur hleifur þetta var. Og þetta er svona á mörkum þess að vera heitur réttur eða rúllað veislubrauð – nema hvað það er bara aðeins betra.

Fyllingin sem ég gef upp í uppskriftinni er auðvitað bara viðmið. Auðvitað mætti fylla brauðið með hverju sem er; spínati og rjómaosti eða mozzarella, kirsuberjatómötum og basil eða jafnvel ofnbökuðu rótargrænmeti og blámygluosti. Það er víst svo með matargerð að það er um að gera að leyfa hugmyndafluginu að njóta sín.

Hráefnalisti

800 g hveiti
500 ml vatn
25 g ferskt ger
2 msk sykur
1 msk salt
4 msk jómfrúarolía

Fyrir fyllinguna

1 krukka gott pestó
10 skinkusneiðar
3 tómatar
200 g hvítmygluostur
200 g rjómaostur
200 g cheddar-ostur
4 msk hvítlauksolía
salt og pipar

Byrjið á að vekja gerið í ylvolgu vatninu og bætið við sykrinum. Látið standa í 15 mínútur. Blandið hveitinu, saltinu og jómfrúarolíunni saman. Því næst bætið þið gervatninu við og látið hnoðast í 15 mínútur. Þá er deigið látið hefast í tvær klukkustundir.



Færið deigið á hveitistráða borðplötu þegar það hefur þrefaldast að stærð.




Smyrjið pestóinu á botninn.



Raðið afganginum af hráefninu ofan á en geymið svolítið af cheddar-ostinum.



Reynið að hafa ostinn innst í brauðinu þar sem hann á eftir að bráðna og getur bleytt deigið.



Aldrei vitlaust að setja hvítlauksolíu!



Vefjið deiginu saman og látið þyngdina á fyllingunni hvíla á saumunum.



Gætið þess að brauðið sé vel innsiglað!




Penslið með eggjablöndu.



Raspið cheddar-ost yfir.



Bakið við 180 gráður í forhituðum ofni í þrjú kortér.



Takið brauðið úr ofninum og látið hvíla í 20 mínútur áður en það er skorið, þá nær innihaldið að setjast.



Núna er kominn tími til að njóta!