Sunday 2 March 2014

Ljúffengt fyllt veislubrauð og skíðafrí!Það hefur verið lítið um að vera á blogginu mínu síðan í byrjun febrúar. Og á því eru góðar skýringar. Við fórum um miðjan mánuðinn í árlegu skíðaferðina okkar. Við ókum af stað þann 12. febrúar og vorum komin suður til Austurríkis daginn eftir. Við lögðum af stað eftir vinnu og gistum á litlu hóteli skammt frá hraðbrautinni. Síðdegis á fimmtudeginum vorum við komin í Alpana og keyrðum í gegnum fjallaskörðin í átt að St. Michael í Lungau frá Salzburg.Við gistum eins og svo oft áður hjá vinum okkar - Dodda og Þurý - en þau reka Skihotel Speiereck í St. Michael. Þetta er í sjöunda skipti sem við gistum hjá þeim og ég er næstum því farinn að líta á þetta hótel sem mitt annað heimili! Og að þessu sinni kyngdi niður snjó. Þessi mynd hér að ofan var tekin á þriðja degi í fríinu. En vikurnar á undan hafði líka kyngt niður snjó. Færið hafði aldrei verið betra. 

Maturinn var einkar góður núna (hann hefur að vísu alltaf verið góður). Matreiðslumennirnir Barði og Örn stóðu vaktina í eldhúsinu og gerðu það með stakri prýði! Báru fram ljúffenga rétti kvöld eftir kvöld! Þetta var mjög vel heppnað hjá þeim!Eins og mörgum er ljóst þá er ég mikill aðdáandi Alpanna. Stundum er það eins og ég miði líf mitt á veturna við það hvort atburðir gerist fyrir eða eftir skíðafrí. Ég hreinlega veit ekkert betra en að vakna snemma á morgnanna, opna gluggann og draga inn fjallaloftið, klæða mig síðan í skíðagallann og skella mér á skíði. Það er bara eitthvað við þetta skíðalíf sem hugnast mér svona vel. Og það er ekki bara bjórinn - þó að mér þyki hann nú góður! Allir í fjölskyldunni virðast njóta sín vel í Ölpunum og það er sérstaklega gaman að skíða með þeim. Vilhjálmur og Valdís eru miklir skíðagarpar og sonurinn tók sérlega miklum framförum í ár. Fór frá því að skíða með veglegt bil á milli lappanna í að verða alveg "paralell" skíðamaður. Ekki slæmt fyrir átta ára gutta. 


Sú yngsta kom líka með upp í fjall þó hún hafi ekki fengið að standa á skíði þá fékk hún að koma út og leika sér í snjónum og fannst það svo sannarlega skemmtilegt.

Á næstunni mun ég setja inn valdar uppskriftir úr bókinni - margar hverjar hafa ekki birst áður á blogginu mínu en þó hef ég einhvern tíma bloggað um eitthvað þessu líkt. Ástæða þessa er sú að ég vinn hörðum höndum öll kvöld og allar helgar að því að skrifa aðra bók sem á að koma út fyrir næstu jól!

Ljúffengt fyllt veislubrauð

Þetta er brauð sem ég bjó einhvern tíma til í frumbernsku bloggsins míns. Ég bakaði það fyrir einhverja fjölskylduveisluna. Því miður féll þetta brauð síðan í gleymsku í nokkur ár og það var ekki fyrr en ég fór að undirbúa bókina mína að það rifjaðist upp fyrir mér hversu ljúfur og gómsætur hleifur þetta var. Og þetta er svona á mörkum þess að vera heitur réttur eða rúllað veislubrauð – nema hvað það er bara aðeins betra.

Fyllingin sem ég gef upp í uppskriftinni er auðvitað bara viðmið. Auðvitað mætti fylla brauðið með hverju sem er; spínati og rjómaosti eða mozzarella, kirsuberjatómötum og basil eða jafnvel ofnbökuðu rótargrænmeti og blámygluosti. Það er víst svo með matargerð að það er um að gera að leyfa hugmyndafluginu að njóta sín.

Hráefnalisti

800 g hveiti
500 ml vatn
25 g ferskt ger
2 msk sykur
1 msk salt
4 msk jómfrúarolía

Fyrir fyllinguna

1 krukka gott pestó
10 skinkusneiðar
3 tómatar
200 g hvítmygluostur
200 g rjómaostur
200 g cheddar-ostur
4 msk hvítlauksolía
salt og pipar

Byrjið á að vekja gerið í ylvolgu vatninu og bætið við sykrinum. Látið standa í 15 mínútur. Blandið hveitinu, saltinu og jómfrúarolíunni saman. Því næst bætið þið gervatninu við og látið hnoðast í 15 mínútur. Þá er deigið látið hefast í tvær klukkustundir.Færið deigið á hveitistráða borðplötu þegar það hefur þrefaldast að stærð.
Smyrjið pestóinu á botninn.Raðið afganginum af hráefninu ofan á en geymið svolítið af cheddar-ostinum.Reynið að hafa ostinn innst í brauðinu þar sem hann á eftir að bráðna og getur bleytt deigið.Aldrei vitlaust að setja hvítlauksolíu!Vefjið deiginu saman og látið þyngdina á fyllingunni hvíla á saumunum.Gætið þess að brauðið sé vel innsiglað!
Penslið með eggjablöndu.Raspið cheddar-ost yfir.Bakið við 180 gráður í forhituðum ofni í þrjú kortér.Takið brauðið úr ofninum og látið hvíla í 20 mínútur áður en það er skorið, þá nær innihaldið að setjast.Núna er kominn tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment