Sunday 31 May 2009

Ljúffengur lax - en croute - með blómkálsmauki og grænum aspas handa mömmunni minni


Mamma mín, hún Lilja, kom í heimsókn seinustu helgi. Þó við reynum að vera dugleg að spjalla í gegnum netið, spjalla í síma þá er ekkert eins og að hittast í persónu - þannig er það bara. Það var meiriháttar að fá mömmu í heimsókn. Við hittumst öll seinast í mars, þegar við fórum saman að renna okkur á skíðum í svissnesku Ölpunum í Disentis. Börnin mín voru svo glöð að sjá hana aftur - þau hreinlega ljómuðu. Það hefði verið gaman ef pabbi og bróðir minn hefðu getað komið líka en þeir voru önnur kafnir, faðir minn að undirbúa námskeið og bróðir minn að slá inn síðustu setningarnar í B.A. ritgerðinni sinni í heimspeki.

Nýverið fékk ég bókasendingu frá Amazon. Þar hafði ég pantað nokkrar nýjar matreiðslubækur; Chef eftir Gordon Ramsey, Coast to Coast eftir Rick Stein sem er safn af hans bestu uppskriftum og svo að síðustu nýjustu bók Jamie Oliver - Ministry of food. Sú bók fylgir eftir sjónvarpsþáttum sem hann var með í vetur - þar sem markmiðið er að fá fólk til að elda venjulegan mat á nýjan leik. Bretar munu kaupa meira af tilbúnum mat en allar aðrar Evrópuþjóðir til samans. Einnig þramma þeir þétt á hælunum á eftir Bandaríkjamönnum hvað offitu snertir. Markmið Jamie mun vera að fá fólk til að elda venjulegan hollan mat og að þannig megi vinna bug á innanmeini þeirra Bretanna. Göfug markmið. Veit ekki alveg hvort að lax í smjördeigi vinni bug á fitupúkanum en það er deginum ljósara að það að elda góða máltíð og setjast saman að matarborðinu dregur okkur nær hverju öðru, "brjóta brauð saman".

Eins og ég nefndi get ég trúað að þessi réttur sé kannski ekki sá hollasti vegna smjördeigsins en hann er ekki bara bragðgóður hann er einnig ógurlega fallegur að leggja á matarborði - beint á miðju borðsins). Það verður nánast að biðjast afsökunar á því að vera alltaf að predika aspasát fyrir fólki. Síðustu vikur hefur aspas flætt yfir mann í stórmörkuðunum, nú síðast þeir sem eru ræktaðir rétt fyrir utan Lund - verðið hefur verið alger brandari og fyrir þá sem elska aspas eins og ég geri þá langar mig bara að borða hann með öllum mat.


Ég get að sjálfsögðu ekki eignað mér þessa uppskrift þar sem hún er næstum orðrétt eftir uppskrift úr umræddri bók (bls 209). Hvet eiginlega fólk til að eignast þessa bók - hún er að mínu mati eiginlega ein af hans betri bókum. Virkilega aðgengileg, uppskriftirnar líta vel út - raunverulega mjög einfalt að elda sig í gengum uppskriftirnar - ég er þegar búinn að prófa nokkrar - læt kannski nokkrar á netið á næstunni.

Ljúffengur lax "en croute" með blómkálsmauki og grænum aspas handa mömmunni minni

Eins og flestur matur sem ég elda þá var þetta einfalt. Ég keypti góðan norskan sjóalinn lax í CityCross sem er góður stórmarkaður í nálægu hverfi. Keypti þar um 800 gr af fallegum nýjum laxi. Þegar heim var kominn tók ég tilbúinn smjördeigsblöð - kannski eins og fjögur stykki, lagði á bökunarpappír, flatti aðeins út. Þá lagði ég nokkrar greinar af flatlaufssteinselju, þá laxaflakið sem ég hafði roðdregið. Það var þvínæst smurt með olívutapenade í þykku lagi. Þá setti ég tómata í þunnum sneiðum, svo heil fersk basillauf og í lokin niðurskorinn mozzarellaost. Svo lagði ég smjördeigið hálft yfir laxinn þannig að osturinn stóð ber upp úr. Penslað með eggjablöndu og svo bakað í ofni í 25-30 mínútur við 180 gráðu hita.

Hér kemur smá myndasería hvernig þetta var sett saman;



Fyrst steinseljan,



Svo laxinn, ólívutapenade.



Síðan basil, tómatar og mozzarella.


Loka, pensla með eggjavatni og baka.


Með matnum var ég með blómkálsmauk; hálfur blómkálshaus soðin í söltuðu vatni, eftir smá suðu þegar hausinn er mjúkur þá er vatninu hellt frá, smjörklípu, smá rjómaosti, salti og nóg af pipar bætt saman við og síðan maukað með töfrasprota.

Þá grillaði ég líka aspas með matnum, sáldraði í lokin yfir smá salti og pipar og svo auðvitað vænum skammti af parmaosti.




Með matnum vorum við með Two Oceans Sauvignion blanc, Chenin blanc blöndu frá Suður-Afríku árgang 2008. Þetta er vín sem varð nýlega fyrir valinu sem ein bestu kaupin í kassavínum - eða búkolla eins og mamma vill kalla þau - í blaði sem ég er áskrifandi af - Sydsvenskan.



Þetta er ungt og ferskt hvítvín, dáldið ávaxtaríkt - kannski perukeimur bæði í nefið og á tunguna. Mér finnst alltaf gott að eiga búkollu inn í ísskáp. Alltaf fleiri og fleiri víngerðarmenn eru farnir að setja vín sín á búkollur - þetta eru sannarlega neytendavænar umbúðir. Þetta var ljúffengt vín sem gekk vel með laxinum.


Þetta var virkilega gott!


Bon appetit! 

Thursday 21 May 2009

Stórkostleg grilluð nautalund með grilluðum nýjum aspas, espagnól sósuog frábæru rauðvíni




Fórum í langan hjólatúr í dag um Lund í frábæru veðri, sól á himni, þungir skýjahnoðrar sveimandi fyrir ofan okkur. Við hjóluðum á stígum meðfram víðáttubreiðum ökrum - fullir af gullnum blómum - rappsblómum, sem í haust verður skorið og fært í vinnslu og úr unnið rapsolía. Rappsolía frá Skáni þykir ljúffeng - og það er hún. Oft er talað um rapsolíu sem jómfrúarolíu norðursins. Besta mun vera frá Österlén sem er á austanverðum Skáni og kannski frægust er sú sem kemur frá Búrgúndarhólmi. Fátt kemur þó í staðinn fyrir góða kaldpressaða extra jómfrúarolíu.


Í þessari uppskrift reyni ég að gera mína útgáfu af espagnól sósu, sem er ein af hinum frönsku "móðursósum". Ekki að það geri það eitthvað sérstaklega merkilegt - en það er gaman að grennslast fyrir um hvaðan eldhúsmenning okkar er sprottin. Nýlega var ég með færslu þar sem ég gerði hvíta bechamél sósu - sem er í raun mjólkursósa. Þar reyndi ég gera grein fyrir öllum hinum. Skelli inn aftur þessu örstutta yfirliti á nýjan leik;

"Hvít sósa er ein af nokkrum grunnsósum sem skilgreindar voru í franskri matargerð fyrir nokkrum árhundruðum. Hinar sósurnar, oft kallaðar Móður-sósurnar sem hægt að spinna þúsundir afbrigða frá, voru; Aioli - gerð með hvítlauksrifi, eggjarauðu, og olíu þannig að úr varð þykk ljósgul sósa sem gat af sér mayonaise. Hollandaise sósa - í grunninn eggjarauða og smjör þeytt saman yfir vatnsbaði - síðan bragðbætt í ýmsar áttir - sítróna/edik fyrir hollandaise eða fáfnisgras/edik/lauk extract til að gera bernaise. Velúte sósa sem er kjúklingasoð þykkt með ljósum roux (smjörbollu). Espagnól sósa - sem er gerð þannig að maður býr til mjög dökkan roux - tekur tíma - og við það er bætt kröftugu kjötsoði, bragðbætt á ýmsa vegu og svo soðið niður þangað til maður er kominn með dökkt þykkni. Síðasta móður sósan er svo auðvitað tómatsósa gerð úr nýjum tómötum. Fyrir matgæðinga/matnörda þá er að finna á þessari síðu er sagnfræðilegt yfirlit um tilurð hinna ýmsu sósa sem við notum". 

 

Vó - maður er farinn að vitna í sjálfan sig - er það ekki hámark narssissismans (ssssss - hólýmólí) - allavega. Það er gott að vita það þegar maður er að gera roux hvaða eiginleika er hægt að fá fram úr eins einföldu hráefni og smjör og hveiti bara sett á heita pönnu. Þykkingarkrafturinn er mestur í ljósu rouxi (smjörbollu) - sem verður til nokkrum sekúndum eftir að smjörið/hveitið lendir í pottinum. Dökkt roux er mun bragðmeira, gefur sósunni lit, leggur til kraft en þykkir minna en ljósi ungi bróðir hennar.

Stórkostleg grilluð nautalund með grilluðum nýjum aspas, espagnól sósu og frábæru rauðvíni


Þetta er þannig matur að það verður að byrja á sósunni - ég get bara talað fyrir mig sjálfan - en mér finnst gaman þegar eldamennskan tekur dálítinn tíma. Þessi er þess virði - og það er gott að kunna að gera þessa sósu - hún er klassíker - og ef maður notar hin ólíkustu soð saman við má nota þessa sóu við hvaða mat sem er - eins og ég nefndi að ofan þá er þetta "móðursósa".

Fyrst er að steikja grunninn í sósuna. Allar góðar sósur (og í raun súpur líka) byrja á því að kokkurinn steiki "mirepoix" í potti - sem er í raun ekkert annað en ilmríkt grænmeti eins og hvítur laukur, gulrætur og sellerí, ég set alltaf hvítlauk líka. Grænmetið er steikt í nokkrar mínútur - muna að salta og pipra til að ná kraftinum úr því. Þegar grænmetið er orðið mjúkt, tekur 7-10 mínútur þá hellti ég saman við 1 lítra af vatni, 2-3 nautateninga (eða 1 L af heimagerðu nautasoði) og setti því næst saman við bouquet garni, sem var sett saman með ferskum kryddjurtum; salvíu, timian, rósmarín og lárviðarlaufi bundið saman með tvinna. Þá setti ég einnig aspasendanna - það passaði með meðlætinu - því næst tvær teskeiðar tómatpure. Þessu er leyft að sjóða niður um helming, á meðan tekið er til við næsta verkefni. Sem er að gera smjörbollu; 60 gr af smjöri og svo 60 grömm af hveiti. Sett í pott, hrært vel saman - hrært stöðugt og henni leyft að fá brúnan lit - tekur kannski 5-10 mínútur. Þá er soðið síað saman við smjörbolluna og hrært vel á meðan. Saltað vel og piprað. Sósan fær svo að sjóða áfram þangað til hún er þykk og falleg. Það þarf oft að sinna henni aðeins í lokin, salt og pipar, kannski smá ost, skvettu af rjóma - bara svona eins og þarf til að fá réttan lit, dýpt í bragðið og jafnvægi á tunguna.


Nautalundin þurfti ekki mikið, ég var kannski með tæplega kíló, skar það miður í fallegar sneiðar, klappaði þeim aðeins með olíu, salti og pipar. Ég er búinn að fara í gegnum umræður um að salta kjöt fyrir eldun - skerpi á því hér - það er mjög mikilvægt - en muna að gera það bara rétt áður en það fer á hitann - þannig dregur maður vökvann aðeins upp að yfirborði kjötsins - sem þýðir að það karmelliserast snöggt - lokast undir eins - og maður varðveitir restina af vökvanum í safaríku kjötinu. Grillað í nokkrar mínútur á hvorri hlið - meta með hitamæli! Þegar það er tilbúið þá látið hvíla í 10 mínútur.

Borið fram með grilluðum nýjum grænum aspas. Síðustu vikur höfum við verið að sjá meiri og meiri aspas í boði, fyrst frá Ungverjalandi, síðan Póllandi og núna í síðustu viku frá bæjunum í kringum Lund. Yndislegt. Grillað, sett á disk, olíu sáldrað yfir, saltað og piprað og skreytt með parmaosti. Þá vorum við einnig með soðnar kartöflur, flysjaðar, settar í skál, smávegis jómfrúarolía, salt og svo dill.


Með matnum drukkum við Montes Alpha Cabernet Sauvignion frá 2006. Þetta er, eins og komið hefur fram áður, eitt af mínum uppáhaldsvínum í gegnum tíðina. Það var snemma á ferli mínum sem "matgæðingur" að ég tók eftir þessari flösku í ÁTVR, fluttar inn í viðarkössum, Það fannst mér töff. Það er ekki langt síðan að ég var með þetta vín síðast - einhvern tíma í byrjun febrúar - andskotinn það er alltof langt síðan. Þetta er bara það gott vín. Þetta er stórt Cabernet Sauvignion í þeim skilningi að þetta vín fyllir munninn - kraftmikið, þungt á tungu, eikað, djúpur og dökkur ávöxtur og með löngu eftirbragði - namminamm.

Saturday 16 May 2009

Fiskiveisla á grillinu; snögg hvítvínssoðin bláskel - ljúffengarlaxamedalíur með kryddsmjöri og hvítum aspas




Það er Eurovision stemming í loftinu. Við sátum á pallinum eftir vinnu í gær og fengum okkur ölglas (glös) í sólinni. Það var dáldið skemmtilegt að hlusta á Pál Óskar fara í gegnum stiklur Evróvision- keppninnar - setti tóninn. Við sátum svo fram eftir kvöldi og ræddum málin með nágrönnunum. Nánast allir nágrannar mínir í Pukgranden eru Íslendingar - við söfnuðust saman nokkur og áttum ljúfa kvöldstund. Undir lokin var orðið ansi kalt - á ekki svona gashitara.



Allt gaskyns kostar himinn og haf hérna í Svíþjóð - það að kaupa gaskút er meiriháttar fjárfesting - upp undir 1800 kr SEK. Á þessum krepputímum geymir maður svoleiðis fjárfestingar - maður bregður utan um sig teppi í staðinn!


Planið var að grilla í kvöld - svona Eurovision grill - en mér sýnist svona í fljótu bragði góða veðrið sem við höfðum hérna í gær verið flúið land og yfir til Íslands. Ekki veitir af smá sólarbjarma á Fróni. Mér sýnist allt stefna í það að það verði eldað innandyra í kvöld - ansi þykkir skýjabakkar farnir að hlaðast upp á himninum fyrir ofan okkur. Sjáum hvað setur.

Þessa fiskiveislu var ég með nýverið. Ætli það hafi ekki verið fyrir að verða tveimur vikum. Það er gaman að grilla lax - sá fiskur hentar ákaflega vel til þesskonar eldunar oft feitur og góðum sem varnar því að hann verður þurr. Að vefja steikurnar svona í hring finnst mér ansi sniðugt. Þessa aðferð með laxinn lærði ég af bandarískum manni - Alton Brown, sá ku vera menntaður leikari sem ákvað að helga sér matargerð og fór síðan í matreiðslunám. Eftir því sem ég hef lesið þá mun honum hafa fundist matreiðsluþættir vera slappir og viljað bæta þar úr. Dæmi hver fyrir sig - en mér finnst gaman að þessu - sérstaklega sagnfræði og jafnvel efnafræði matargerðar - þótt að það sé oft kjánalega sett fram. Myndbandið er seinnihluti af einum þátta hans, á fimmtu mínútu verkar hann fiskinn eins og ég sýni að neðan með ljósmyndum - svona fyrir þá sem nenna ekki að horfa á Alton.



Fiskiveisla á grillinu; snögg hvítvínssoðin bláskel - ljúffengar laxamedalíur með kryddsmjöri og hvítum aspas

Það er langt síðan að ég eldaði bláskel seinast - það var seinast í ágúst - nákvæmlega þann 13 ágúst síðastliðinn að ég gerði þennan rétt seinast. Ástæðan fyrir því að ég man þetta svona vel er sú að ég eldaði þennan rétt fyrir tengdaföður minn í hádegisverð á sextugsafmælinu hans. Þá vorum við í Frakklandi á fallegu setri í sveitunum fyrir utan Toulouse. Nóg af tali - þetta er alveg ótrúlega einfaldur réttur - fljótlegur og það besta...alveg ótrúlega bragðgóður. Mikilvægasta er að verða sér útum gott hráefni. Ég keypti þessa bláskel í góðri verslun í Lundi - þetta var víst líffræn bláskel - hvað um það. Fyrst er að smátt saxa nóg af hvítlauk, einn skarlottulauk. Setja pott á hlóðirnar, skella olíu í pottinn, leyfa henni að hitna aðeins, því næst laukinn útí og svo salt og pipar. Steikja í nokkrar mínútur þar til laukurinn verður mjúkur og glansandi, þá er bláskelinni skellt útí - hrært í - eldsnöggt - þá er einu glasi af góðu hvítvíni sett útí - handfylli af steinselju/skvettu af rjóma/salt og pipar - lokið sett á - og soðið í 2 mínútur. Skelinn er síðan færð yfir í skál - muna að henda þeim skeljum sem ekki opna sig - Borið fram með köldu hvítvíni.

Því næst er það að undirbúa laxinn!




Fyrst er að hreinsa beinin úr fisknum - ekkert er leiðinlegra en að borða fisk sem hefur ekki verið beinhreinsaður nægilega.



Svo er hryggjaliðurinn klipptur frá og þannig er maður kominn með tvo fría enda.




Vafið upp í hring og svo er matargarn vafið utanum þannig að hringurinn haldist saman.

Hann var keyptur ferskur í sömu verslun - sjóalinn frá Noregi. Hann var undirbúinn eins og myndirnar gefa til kynna. Penslaður með hvítlauksolíu, saltaður og pipraður og því næst grillaður eins og lög gera ráð fyrir.



Gert eins við nokkrar laxasteikur og svo brugðið á grillið



Það er mikilvægt að krydda laxasteikurnar!


Það tekur ekki langan tíma að grilla laxinn - Jamie Oliver brá einhvern tíma á það ráð að stinga hníf í miðju fisksins snöggt og bregða honum svo upp að vörum sínum - ef hann er heitur og góður þá er hann tilbúinn - ef maður skaðbrennist á vörunum er búinn að ofelda fiskinn!




Einnig vorum við með nýjan hvítan aspas sem ég grillaði með - eftir á að hyggja þá hefði ég vilja vera með grænan þar sem þessi var fremur trefjakenndur - en bragðgóður var hann.Við vorum einnig með einfalt tómat og lauksalat, bæði rauðir og gulir tómatar ásamt sneiðum af rauðum lauk. Borin fram með heimagerðu kryddsmjöri - ég fékk að gjöf nýverið íslenskt smjör frá mágkonu minni - blandaði við það rauðlauk, steinselju og smávegis af hvítlauk.

Með matnum drukkum við Trivento Chardonnay Torrentés árgang 2006. Þetta vín er frá Argentínu - ég hef prófað rauðvín frá sama framleiðanda sem ég var hrifinn af þannig að nú var að
prófa það hvíta. Þetta er bragðgott hvítvín - ljósgult á litinn - dáldið svona blómakennt í nefið. Bragðið létt,frískandi með sítrónukeim. Þetta vín kemur líka af kurteisi fram við veskið.

Gleðilega Evróvision! Áfram Ísland - nú getur maður loksins kosið eigið land!

Sunday 10 May 2009

Stórgóð og stökk eldbökuð/grilluð flatbaka síðla kvölds með rauðvínssopa

eldboku_flatbaka.jpg Ég er oft búinn að blogga um flatbökur í mismunandi útgáfum - þunn- og þykkbotna - með mismunandi áleggjum og með mismunandi aðferðum - ofnbakað eða grillað.  Hversu oft getur maður eiginlega bloggað um pizzu? Ég held að það megi gera það margoft - Pizza er nefnilega alveg frábær matur sem maður fær aldrei leið á! Ég veit ekki hversu margir sáu myndina Threesome hér um árið - vinsæl en samt arfaslök mynd en hún fjallaði um samband ungrar konu við tvo menn - allt krakkar í háskóla  - myndin er ekki eftirminnileg nema fyrir þær sakir að ein aðalpersónan leikinn af Stephen Baldwin segir eitt sinn að "sex is like pizza, no matter how bad it is its still pretty good". Vel mælt.

Þetta verður bara svona smáfærsla - pizzur hafa eins og fram hefur komið - komið við sögu hér áður á blogginu mínu. Ástæðan fyrir því að ég er að bæta þessu við er fyrir þær sakir að ég hef aldrei brennt viðarbút með. Það var bæði fyrir stemminguna - þar sem við vorum að þessu síðla kvölds og auðvitað gaf þetta ótrúlega mikið bragð.

eldboku_flatbaka2.jpg Stórgóð og stökk eldbökuð/grilluð flatbaka síðla kvölds með rauðvínssopa

Útí 250 ml af ylvolgu vatni er sett 2 tsk þurrger og 30 g af sykur eða hunangi . Blanda saman vatninu, gerinu og sykri (eða hunangi) saman og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. 500-700 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - þar sem saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma. Deigið er nóg í 5-6 þunnbotna 12 tommu flatbökur.

Gerði einfalda tómatsósu; tómatar í dós, tómatpuré, venjuleg tómatsósa, salt, pipar, oregano, steinselja - sett í pott og hitað upp og leyft að sjóða í dálitla stund. Ofaná flatbökurnar settum við það sem við fundum í ísskápnum. Skinku, pylsubita, salami, sveppir, kapers, ólífur - fullt af ólífum. Notaði rifin mozzarellaost sem var sáldrað yfir - einstaka flatbaka fékk einnig nokkrar klípur af rjómaosti. Saltað og piprað og svo auðvitað heimagerð hvítlauksolía. 

Með matnum drukkum við gott rauðvín - frá Spáni - Coto de Imaz Rioja reserva frá 2004. Þetta er vín sem ég hef drukkið nokkrum sinnum áður - en þó ekki bloggað um. Þetta er kraftmikið Rioja - þykkt á lit, dökk ber - vanillukeimur og kraftmikil eik enda hefur vínið fengið að liggja á amerískum eikartunnum um skeið. 

komi_a_bor_i_845473.jpg

 


Thursday 7 May 2009

Frábær grillaður kjúklingur með bjórdós í endanum, innbökuðum hvítlaukog brauðhleif.




Grilltímabilið hefur hafist af fullri alvöru. Pallurinn er alveg að verða klár - smá snurfus eftir - viðbótar grindverk hér - handrið þar - smámál. Það eru líka búið að vera allt á fullu í hverfinu. Það er gaman hversu mikið líf er í hverfinu. Einn að reisa hjólaskýli, nokkrir að planta trjám, við erum nokkur í pallagerð - allt iðar af lífi. Á milli húsanna okkar er leikvöllur þar sem börnin eru að leika sér á meðan fullorðna fólkið dyttar að. Þetta á eftir að vera virkilega fallegt hverfi þegar það verður meira gróið en það er núna - andskotinn - það eru ennþá vinnuvélar útum eldhúsgluggann. En hvað um það. Svíar kunna að byggja hverfi - Lundur hefur verið valin bästa kommun att bo núna í fyrra og það kemur eiginlega ekkert á óvart. Hér er virkilega gott að búa.

Sumarið kom óvenjusnemma hér ár - segja gárungarnir - síðan um páska er eiginlega búið að vera bongóblíða. Áskell kollegi minn skrifar á msn-ið sitt - Costa del Lund. Og hann hittir eiginlega naglann á höfuðið. Við erum eiginlega búinn að vera utandyra síðustu vikur. Í þarseinustu viku borðuðum við kvöldverð utandyra í fyrsta skipti - frábært - það var samt ekki merkilegur matur svosum - penne með einfaldri kjötsósu, baguette og smá salat. Mér fannst eitthvað skemmtilegt við það að sitja úti með kveikt á kertum.

Kjúklingur með bjórdós í bossanum þekkja án efa margir vanir grillarar. Þetta er fremur vulgar hugmynd. Maður getur ímyndað sér einhvern þéttholda bandaríkjamann í djúpt í suðrinu "Beer's good - chicken's good...beer chicken reeeaaally gooood!" . Einhver myndi kalla þetta whitetrash chicken. Allt er þó rétt - bjór er góður og það er kjúklingur líka - þannig að þetta er kannski bara lógíkst. Bjórkjúlli! Ég reyndi að gera þetta aðeins meira "posh" en bara svona bjór í bossann - smá hvítlaukur - brauðhleifur - rauðvín - smá franskur keimur með djúpa ameríska suðrinu - er það ekki?

Frábær grillaður kjúklingur með bjórdós í endanum, innbökuðum hvítlauk og brauðhleif.

Þetta er raun önnur útfærsla af kjúkling sem ég geri í ofni. Þessi réttur hefur þó umfram þann ofnbakaða að allar hliðar kjúklingsins verða stökkar og brakandi ljúffengar að utan. Og einfalt er þetta - það vantar ekki.

Fyrst nudda ég kjúklinginn upp úr olíu, salti, pipar og smá timian. Þá er að er að huga að bjórnum og sjálfri bjórdósinni. Ég klippi lokið af dósinni - deili í raun einum bjór í tvær dósir. Næst set ég úti safa úr hálfri sítrónu í hvorn, hálfan niðurskorinn lauk, nokkur gróft niðurskorinn hvítlauksrif, salt, nokkur svört piparkorn. Kjúklingurinn er svo þræddur upp á dósina upp í endann þannig að hann standi - undarlegt nokk þá heldur hann bara jafnvægi. Leggirnir virka svona eins og þrífótur meðan dósinni. Þetta er svo sett á forhitað blúsheitt grillið - mikilvægt er að slökkva beint undir kjúllanum annars brennur hann og ennfremur þá eldast hann líka með óbeinum hita. Hitinn í grillinu verður það mikill að bjórinn í dósinni sýður og gufann leikur um fuglinn. Einnig er gott að setja smá viðarkurl á grillið - fá svona "deepsouth smokey" fíling. Það þarf að snúa honum nokkrum sinnum á grillinu. Þetta tekur kannski tæpan klukkutíma - en auðvitað er best að dæma þetta bara með hitamæli - ég geri það alltaf og þannig forðast maður líka að ofelda kjúklinginn.


Bar fram heimagerð baguette sem ég hef bloggað um nokkrum sinnum áður. Einnig pakkaði ég inn tveimur heilum hvítlaukum inn í álpappír með smá olíu. Fékk að bakast með. Gerði líka nauðaeinfalda kjúklingasoðssósu - átti afgang af kjúklingasoði í frystinum sem ég gerði sjálfur einhvern tíma skömmu eftir að við fluttum hingað. Þetta var svo soðið niður með nokkur hvítlauksrifjum og síðan þykkt með klassískum roux (smjörbolla - jöfn hlutföll hveiti/smjör - gram á móti grammi). Þannig að þetta verður svona Veloute sósa miðað við skilgreiningar frönsku matreiðslumeistaranna.

Með matnum drukkum við ljúffengt rauðvín. Spænskt rauðvín Montecillo riserva frá því 2003. Ég drakk nýlega Montecillo Crianza sem er geysivinsælt vín bæði vegna bragðs, gæða og sérstaklega verðs. Þetta vín er ívíð dýrara - þó ekki mikið og maður bragðar muninn. Þetta er dökkt rauðvín - fallegt í glasi. Djúpt berjabragð þó ekki of þungt en viðamikið. Dökk ber og jafnvel aðeins kryddað. Þetta vín hentar kannski meira kjötréttum en mér fannst það vera ljómandi með kjúklingnum.

Tími til að njóta!

Saturday 2 May 2009

Seiðandi indverskinnblásin kjúklingakássa með hrísgrjónum, stökkum pappadums og góðu salati

undirbuningur_840991.jpg Í gegnum tíðina hef ég verið ákaflega duglegur að sanka að mér matreiðslubókum. Undanfarinn áratug hef ég keypt mér nokkrar matreiðslubækur árlega. Það eru nokkrir matreiðslumeistarar sem ég hef verið að fylgjast með og ég hef lagt smá metnað í að eiga það sem þeir gefa út auk þess sem netsíður verslana eru oft með ýmis gylliboð sem maður fellur fyrir. Þrátt fyrir þetta þá er safn mitt um indverska matargerð fremur dapurlegt. Ég hef alltaf reitt mig á safn foreldra minna í þessum efnum og var með nokkrar bækur í langtímaláni - eða allt þar til þau komu hérna í heimsókn eftir frábært skíðafrí í byrjun mars - og höfðu bækur sínar á brott með sér!

muli_i_morteli.jpg Mér hefur alltaf fundist indverskar kássur vera vetrar- og haustmatur - en stundum dettur maður í gírinn utan hefðbundinna árstíða og langar í indverskan mat - eða eitthvað sem maður heldur að sé indverskur matur. Þessi réttur var alls ekki byggður á neinni uppskrift enda ekki með neinar slíkar í höndunum, þetta var svona meira eftir minni og svo kannski tilfinningu fyrir því hvaða bragð ég vildi og hvaða hráefni eða krydd þarf til matreiðslunnar. Ég leyfði kássunni að eldast í dálítinn tíma - hefði kannski þess vegna átt að velja eitthvað annað grænmeti en sætar kartöflur þar sem þær eiga það til að verða að mauki þegar þær eldast of lengi, en í stað þess lögðu þær til sætu í sósuna og þykktu hana. Ljúffengt.

kryddi_vaki.jpg Ég minnist þess þegar ég fékk pappadums í fyrsta skipti. Foreldrar mínir voru þá á indverska skeiðinu í matargerð sinni. Þau hafa verið mér alger innblástur í matargerð - það er fátt sem þau hafa ekki reynt fyrir sér í eldhúsinu. Pappadums er fallegur matur að bera fram - haugar af stökku brauði/kexi, bragðbætt með mismunandi kryddum. Ég fór í litla matvöruverslun niðri á Marteinstorgi í miðbæ Lundar og sótti nokkrar tegundir; ókryddaðar, með hvítlauk, með svörtum pipar og með grænum chilli. Namminamm. 

Eins og ég sagði þá finnst mér eitthvað haust- og jafnvel vetrarlegt við indverskan mat - en þessi réttur var léttur og ferskur á bragðið.

 Seiðandi indverskinnblásin kjúklingakássa með hrísgrjónum, stökkum pappadums og góðu salati

komi_a_diskinn.jpg Fyrst steikti ég smátt skorinn hvítan lauk og hvítlauk og ca 5 cm smátt skorinn engifer í olíu þangað til að hann var orðin mjúkur. Þá setti ég 1 tsk kóríanderfræ - nýmulin - hálfa tsk kúmen, tvær tsk túrmerik, saltað og piprað. Kryddið steikt í augnablik til að vekja það á pönnunni. Því næst var bætt útí einni sætri kartöflu skorinni í munnbita, þrjár kjúklingabringur í bitum, kjúklingur fékk að taka lit að utan, en þá bætti ég 100 ml matreiðslurjóma, einni dós kókósmjólk og setti svo eina kanilstöng útí. Þessu var leyft að sjóða í eina klukkustund.

Með matnum bar ég fram hrísgrjón, umrædd pappadums skreytt með niðurskornum vorlauk og einfalt salat með grænum laufum, paprikum og tómötum. Einfalt og gott salat.  

pappadums-1.jpg Með matnum drukkum við Gallo Coastal Vineyards Pinot Noir 2006. Ég reyni að smakka nær öll Pinot Noir vín sem ég kemst í tæri við. Ástæðan er heldur dapurleg - fyrir þá sem sáu myndina Sideways hér um árið - þá hafði aðalsöguhetjan í myndinni dálæti á því víni þar sem sú þrúga var kröfuharðari á skilyrði en til dæmis Cabernet Sauvignion. Það þyrfti að hlúa meira að þeim berjum en öðrum og því erfiðara að gera gott Pinot en aðrar rauðvínstegundir. Má vel vera. Þetta vín var afar gott að mér fannst, Pinot er alltaf fremur ljóst á litinn - gegnsætt oft, bragðið ljúft, oft pínu kryddað eins og þetta, milt og langt eftirbragð með sætum berjum. Virkilega gott vín. 

  a_einsurfokus.jpg