Sunday 10 May 2009

Stórgóð og stökk eldbökuð/grilluð flatbaka síðla kvölds með rauðvínssopa

eldboku_flatbaka.jpg Ég er oft búinn að blogga um flatbökur í mismunandi útgáfum - þunn- og þykkbotna - með mismunandi áleggjum og með mismunandi aðferðum - ofnbakað eða grillað.  Hversu oft getur maður eiginlega bloggað um pizzu? Ég held að það megi gera það margoft - Pizza er nefnilega alveg frábær matur sem maður fær aldrei leið á! Ég veit ekki hversu margir sáu myndina Threesome hér um árið - vinsæl en samt arfaslök mynd en hún fjallaði um samband ungrar konu við tvo menn - allt krakkar í háskóla  - myndin er ekki eftirminnileg nema fyrir þær sakir að ein aðalpersónan leikinn af Stephen Baldwin segir eitt sinn að "sex is like pizza, no matter how bad it is its still pretty good". Vel mælt.

Þetta verður bara svona smáfærsla - pizzur hafa eins og fram hefur komið - komið við sögu hér áður á blogginu mínu. Ástæðan fyrir því að ég er að bæta þessu við er fyrir þær sakir að ég hef aldrei brennt viðarbút með. Það var bæði fyrir stemminguna - þar sem við vorum að þessu síðla kvölds og auðvitað gaf þetta ótrúlega mikið bragð.

eldboku_flatbaka2.jpg Stórgóð og stökk eldbökuð/grilluð flatbaka síðla kvölds með rauðvínssopa

Útí 250 ml af ylvolgu vatni er sett 2 tsk þurrger og 30 g af sykur eða hunangi . Blanda saman vatninu, gerinu og sykri (eða hunangi) saman og leyfi gerinu að vakna - þá freyðir svona ofan á vatninu - tekur svona 10-15 mín. 500-700 gr. hveiti er er sett í skál og saltið og olían blandað saman við. Mikilvægt er að leyfa gerinu að vakna vel og rækilega og ekki setja saltið þarna úti - þar sem saltið hamlar aðeins gerjunarferlinu. Blanda vatninu svo hægt saman við hveitið þar til það verður að góðum deigklump. Það er mikilvægt að hræra deigið vel - þannig hefast það mikið betur og bragðast líka betur. Ég vil að deigið dúi vel undan fingri og þegar áferðin er þannig að deigið jafnar sig hratt þegar maður ýtir fingri í það breiði ég viskastykki yfir skálina og leyfi að hefast - eins lengi og maður hefur tíma. Deigið er nóg í 5-6 þunnbotna 12 tommu flatbökur.

Gerði einfalda tómatsósu; tómatar í dós, tómatpuré, venjuleg tómatsósa, salt, pipar, oregano, steinselja - sett í pott og hitað upp og leyft að sjóða í dálitla stund. Ofaná flatbökurnar settum við það sem við fundum í ísskápnum. Skinku, pylsubita, salami, sveppir, kapers, ólífur - fullt af ólífum. Notaði rifin mozzarellaost sem var sáldrað yfir - einstaka flatbaka fékk einnig nokkrar klípur af rjómaosti. Saltað og piprað og svo auðvitað heimagerð hvítlauksolía. 

Með matnum drukkum við gott rauðvín - frá Spáni - Coto de Imaz Rioja reserva frá 2004. Þetta er vín sem ég hef drukkið nokkrum sinnum áður - en þó ekki bloggað um. Þetta er kraftmikið Rioja - þykkt á lit, dökk ber - vanillukeimur og kraftmikil eik enda hefur vínið fengið að liggja á amerískum eikartunnum um skeið. 

komi_a_bor_i_845473.jpg

 


No comments:

Post a Comment