Sunday 31 May 2009

Ljúffengur lax - en croute - með blómkálsmauki og grænum aspas handa mömmunni minni


Mamma mín, hún Lilja, kom í heimsókn seinustu helgi. Þó við reynum að vera dugleg að spjalla í gegnum netið, spjalla í síma þá er ekkert eins og að hittast í persónu - þannig er það bara. Það var meiriháttar að fá mömmu í heimsókn. Við hittumst öll seinast í mars, þegar við fórum saman að renna okkur á skíðum í svissnesku Ölpunum í Disentis. Börnin mín voru svo glöð að sjá hana aftur - þau hreinlega ljómuðu. Það hefði verið gaman ef pabbi og bróðir minn hefðu getað komið líka en þeir voru önnur kafnir, faðir minn að undirbúa námskeið og bróðir minn að slá inn síðustu setningarnar í B.A. ritgerðinni sinni í heimspeki.

Nýverið fékk ég bókasendingu frá Amazon. Þar hafði ég pantað nokkrar nýjar matreiðslubækur; Chef eftir Gordon Ramsey, Coast to Coast eftir Rick Stein sem er safn af hans bestu uppskriftum og svo að síðustu nýjustu bók Jamie Oliver - Ministry of food. Sú bók fylgir eftir sjónvarpsþáttum sem hann var með í vetur - þar sem markmiðið er að fá fólk til að elda venjulegan mat á nýjan leik. Bretar munu kaupa meira af tilbúnum mat en allar aðrar Evrópuþjóðir til samans. Einnig þramma þeir þétt á hælunum á eftir Bandaríkjamönnum hvað offitu snertir. Markmið Jamie mun vera að fá fólk til að elda venjulegan hollan mat og að þannig megi vinna bug á innanmeini þeirra Bretanna. Göfug markmið. Veit ekki alveg hvort að lax í smjördeigi vinni bug á fitupúkanum en það er deginum ljósara að það að elda góða máltíð og setjast saman að matarborðinu dregur okkur nær hverju öðru, "brjóta brauð saman".

Eins og ég nefndi get ég trúað að þessi réttur sé kannski ekki sá hollasti vegna smjördeigsins en hann er ekki bara bragðgóður hann er einnig ógurlega fallegur að leggja á matarborði - beint á miðju borðsins). Það verður nánast að biðjast afsökunar á því að vera alltaf að predika aspasát fyrir fólki. Síðustu vikur hefur aspas flætt yfir mann í stórmörkuðunum, nú síðast þeir sem eru ræktaðir rétt fyrir utan Lund - verðið hefur verið alger brandari og fyrir þá sem elska aspas eins og ég geri þá langar mig bara að borða hann með öllum mat.


Ég get að sjálfsögðu ekki eignað mér þessa uppskrift þar sem hún er næstum orðrétt eftir uppskrift úr umræddri bók (bls 209). Hvet eiginlega fólk til að eignast þessa bók - hún er að mínu mati eiginlega ein af hans betri bókum. Virkilega aðgengileg, uppskriftirnar líta vel út - raunverulega mjög einfalt að elda sig í gengum uppskriftirnar - ég er þegar búinn að prófa nokkrar - læt kannski nokkrar á netið á næstunni.

Ljúffengur lax "en croute" með blómkálsmauki og grænum aspas handa mömmunni minni

Eins og flestur matur sem ég elda þá var þetta einfalt. Ég keypti góðan norskan sjóalinn lax í CityCross sem er góður stórmarkaður í nálægu hverfi. Keypti þar um 800 gr af fallegum nýjum laxi. Þegar heim var kominn tók ég tilbúinn smjördeigsblöð - kannski eins og fjögur stykki, lagði á bökunarpappír, flatti aðeins út. Þá lagði ég nokkrar greinar af flatlaufssteinselju, þá laxaflakið sem ég hafði roðdregið. Það var þvínæst smurt með olívutapenade í þykku lagi. Þá setti ég tómata í þunnum sneiðum, svo heil fersk basillauf og í lokin niðurskorinn mozzarellaost. Svo lagði ég smjördeigið hálft yfir laxinn þannig að osturinn stóð ber upp úr. Penslað með eggjablöndu og svo bakað í ofni í 25-30 mínútur við 180 gráðu hita.

Hér kemur smá myndasería hvernig þetta var sett saman;Fyrst steinseljan,Svo laxinn, ólívutapenade.Síðan basil, tómatar og mozzarella.


Loka, pensla með eggjavatni og baka.


Með matnum var ég með blómkálsmauk; hálfur blómkálshaus soðin í söltuðu vatni, eftir smá suðu þegar hausinn er mjúkur þá er vatninu hellt frá, smjörklípu, smá rjómaosti, salti og nóg af pipar bætt saman við og síðan maukað með töfrasprota.

Þá grillaði ég líka aspas með matnum, sáldraði í lokin yfir smá salti og pipar og svo auðvitað vænum skammti af parmaosti.
Með matnum vorum við með Two Oceans Sauvignion blanc, Chenin blanc blöndu frá Suður-Afríku árgang 2008. Þetta er vín sem varð nýlega fyrir valinu sem ein bestu kaupin í kassavínum - eða búkolla eins og mamma vill kalla þau - í blaði sem ég er áskrifandi af - Sydsvenskan.Þetta er ungt og ferskt hvítvín, dáldið ávaxtaríkt - kannski perukeimur bæði í nefið og á tunguna. Mér finnst alltaf gott að eiga búkollu inn í ísskáp. Alltaf fleiri og fleiri víngerðarmenn eru farnir að setja vín sín á búkollur - þetta eru sannarlega neytendavænar umbúðir. Þetta var ljúffengt vín sem gekk vel með laxinum.


Þetta var virkilega gott!


Bon appetit! 

No comments:

Post a Comment