Saturday 2 May 2009

Seiðandi indverskinnblásin kjúklingakássa með hrísgrjónum, stökkum pappadums og góðu salati

undirbuningur_840991.jpg Í gegnum tíðina hef ég verið ákaflega duglegur að sanka að mér matreiðslubókum. Undanfarinn áratug hef ég keypt mér nokkrar matreiðslubækur árlega. Það eru nokkrir matreiðslumeistarar sem ég hef verið að fylgjast með og ég hef lagt smá metnað í að eiga það sem þeir gefa út auk þess sem netsíður verslana eru oft með ýmis gylliboð sem maður fellur fyrir. Þrátt fyrir þetta þá er safn mitt um indverska matargerð fremur dapurlegt. Ég hef alltaf reitt mig á safn foreldra minna í þessum efnum og var með nokkrar bækur í langtímaláni - eða allt þar til þau komu hérna í heimsókn eftir frábært skíðafrí í byrjun mars - og höfðu bækur sínar á brott með sér!

muli_i_morteli.jpg Mér hefur alltaf fundist indverskar kássur vera vetrar- og haustmatur - en stundum dettur maður í gírinn utan hefðbundinna árstíða og langar í indverskan mat - eða eitthvað sem maður heldur að sé indverskur matur. Þessi réttur var alls ekki byggður á neinni uppskrift enda ekki með neinar slíkar í höndunum, þetta var svona meira eftir minni og svo kannski tilfinningu fyrir því hvaða bragð ég vildi og hvaða hráefni eða krydd þarf til matreiðslunnar. Ég leyfði kássunni að eldast í dálítinn tíma - hefði kannski þess vegna átt að velja eitthvað annað grænmeti en sætar kartöflur þar sem þær eiga það til að verða að mauki þegar þær eldast of lengi, en í stað þess lögðu þær til sætu í sósuna og þykktu hana. Ljúffengt.

kryddi_vaki.jpg Ég minnist þess þegar ég fékk pappadums í fyrsta skipti. Foreldrar mínir voru þá á indverska skeiðinu í matargerð sinni. Þau hafa verið mér alger innblástur í matargerð - það er fátt sem þau hafa ekki reynt fyrir sér í eldhúsinu. Pappadums er fallegur matur að bera fram - haugar af stökku brauði/kexi, bragðbætt með mismunandi kryddum. Ég fór í litla matvöruverslun niðri á Marteinstorgi í miðbæ Lundar og sótti nokkrar tegundir; ókryddaðar, með hvítlauk, með svörtum pipar og með grænum chilli. Namminamm. 

Eins og ég sagði þá finnst mér eitthvað haust- og jafnvel vetrarlegt við indverskan mat - en þessi réttur var léttur og ferskur á bragðið.

 Seiðandi indverskinnblásin kjúklingakássa með hrísgrjónum, stökkum pappadums og góðu salati

komi_a_diskinn.jpg Fyrst steikti ég smátt skorinn hvítan lauk og hvítlauk og ca 5 cm smátt skorinn engifer í olíu þangað til að hann var orðin mjúkur. Þá setti ég 1 tsk kóríanderfræ - nýmulin - hálfa tsk kúmen, tvær tsk túrmerik, saltað og piprað. Kryddið steikt í augnablik til að vekja það á pönnunni. Því næst var bætt útí einni sætri kartöflu skorinni í munnbita, þrjár kjúklingabringur í bitum, kjúklingur fékk að taka lit að utan, en þá bætti ég 100 ml matreiðslurjóma, einni dós kókósmjólk og setti svo eina kanilstöng útí. Þessu var leyft að sjóða í eina klukkustund.

Með matnum bar ég fram hrísgrjón, umrædd pappadums skreytt með niðurskornum vorlauk og einfalt salat með grænum laufum, paprikum og tómötum. Einfalt og gott salat.  

pappadums-1.jpg Með matnum drukkum við Gallo Coastal Vineyards Pinot Noir 2006. Ég reyni að smakka nær öll Pinot Noir vín sem ég kemst í tæri við. Ástæðan er heldur dapurleg - fyrir þá sem sáu myndina Sideways hér um árið - þá hafði aðalsöguhetjan í myndinni dálæti á því víni þar sem sú þrúga var kröfuharðari á skilyrði en til dæmis Cabernet Sauvignion. Það þyrfti að hlúa meira að þeim berjum en öðrum og því erfiðara að gera gott Pinot en aðrar rauðvínstegundir. Má vel vera. Þetta vín var afar gott að mér fannst, Pinot er alltaf fremur ljóst á litinn - gegnsætt oft, bragðið ljúft, oft pínu kryddað eins og þetta, milt og langt eftirbragð með sætum berjum. Virkilega gott vín. 

  a_einsurfokus.jpg


No comments:

Post a Comment