Thursday 7 May 2009

Frábær grillaður kjúklingur með bjórdós í endanum, innbökuðum hvítlaukog brauðhleif.




Grilltímabilið hefur hafist af fullri alvöru. Pallurinn er alveg að verða klár - smá snurfus eftir - viðbótar grindverk hér - handrið þar - smámál. Það eru líka búið að vera allt á fullu í hverfinu. Það er gaman hversu mikið líf er í hverfinu. Einn að reisa hjólaskýli, nokkrir að planta trjám, við erum nokkur í pallagerð - allt iðar af lífi. Á milli húsanna okkar er leikvöllur þar sem börnin eru að leika sér á meðan fullorðna fólkið dyttar að. Þetta á eftir að vera virkilega fallegt hverfi þegar það verður meira gróið en það er núna - andskotinn - það eru ennþá vinnuvélar útum eldhúsgluggann. En hvað um það. Svíar kunna að byggja hverfi - Lundur hefur verið valin bästa kommun att bo núna í fyrra og það kemur eiginlega ekkert á óvart. Hér er virkilega gott að búa.

Sumarið kom óvenjusnemma hér ár - segja gárungarnir - síðan um páska er eiginlega búið að vera bongóblíða. Áskell kollegi minn skrifar á msn-ið sitt - Costa del Lund. Og hann hittir eiginlega naglann á höfuðið. Við erum eiginlega búinn að vera utandyra síðustu vikur. Í þarseinustu viku borðuðum við kvöldverð utandyra í fyrsta skipti - frábært - það var samt ekki merkilegur matur svosum - penne með einfaldri kjötsósu, baguette og smá salat. Mér fannst eitthvað skemmtilegt við það að sitja úti með kveikt á kertum.

Kjúklingur með bjórdós í bossanum þekkja án efa margir vanir grillarar. Þetta er fremur vulgar hugmynd. Maður getur ímyndað sér einhvern þéttholda bandaríkjamann í djúpt í suðrinu "Beer's good - chicken's good...beer chicken reeeaaally gooood!" . Einhver myndi kalla þetta whitetrash chicken. Allt er þó rétt - bjór er góður og það er kjúklingur líka - þannig að þetta er kannski bara lógíkst. Bjórkjúlli! Ég reyndi að gera þetta aðeins meira "posh" en bara svona bjór í bossann - smá hvítlaukur - brauðhleifur - rauðvín - smá franskur keimur með djúpa ameríska suðrinu - er það ekki?

Frábær grillaður kjúklingur með bjórdós í endanum, innbökuðum hvítlauk og brauðhleif.

Þetta er raun önnur útfærsla af kjúkling sem ég geri í ofni. Þessi réttur hefur þó umfram þann ofnbakaða að allar hliðar kjúklingsins verða stökkar og brakandi ljúffengar að utan. Og einfalt er þetta - það vantar ekki.

Fyrst nudda ég kjúklinginn upp úr olíu, salti, pipar og smá timian. Þá er að er að huga að bjórnum og sjálfri bjórdósinni. Ég klippi lokið af dósinni - deili í raun einum bjór í tvær dósir. Næst set ég úti safa úr hálfri sítrónu í hvorn, hálfan niðurskorinn lauk, nokkur gróft niðurskorinn hvítlauksrif, salt, nokkur svört piparkorn. Kjúklingurinn er svo þræddur upp á dósina upp í endann þannig að hann standi - undarlegt nokk þá heldur hann bara jafnvægi. Leggirnir virka svona eins og þrífótur meðan dósinni. Þetta er svo sett á forhitað blúsheitt grillið - mikilvægt er að slökkva beint undir kjúllanum annars brennur hann og ennfremur þá eldast hann líka með óbeinum hita. Hitinn í grillinu verður það mikill að bjórinn í dósinni sýður og gufann leikur um fuglinn. Einnig er gott að setja smá viðarkurl á grillið - fá svona "deepsouth smokey" fíling. Það þarf að snúa honum nokkrum sinnum á grillinu. Þetta tekur kannski tæpan klukkutíma - en auðvitað er best að dæma þetta bara með hitamæli - ég geri það alltaf og þannig forðast maður líka að ofelda kjúklinginn.


Bar fram heimagerð baguette sem ég hef bloggað um nokkrum sinnum áður. Einnig pakkaði ég inn tveimur heilum hvítlaukum inn í álpappír með smá olíu. Fékk að bakast með. Gerði líka nauðaeinfalda kjúklingasoðssósu - átti afgang af kjúklingasoði í frystinum sem ég gerði sjálfur einhvern tíma skömmu eftir að við fluttum hingað. Þetta var svo soðið niður með nokkur hvítlauksrifjum og síðan þykkt með klassískum roux (smjörbolla - jöfn hlutföll hveiti/smjör - gram á móti grammi). Þannig að þetta verður svona Veloute sósa miðað við skilgreiningar frönsku matreiðslumeistaranna.

Með matnum drukkum við ljúffengt rauðvín. Spænskt rauðvín Montecillo riserva frá því 2003. Ég drakk nýlega Montecillo Crianza sem er geysivinsælt vín bæði vegna bragðs, gæða og sérstaklega verðs. Þetta vín er ívíð dýrara - þó ekki mikið og maður bragðar muninn. Þetta er dökkt rauðvín - fallegt í glasi. Djúpt berjabragð þó ekki of þungt en viðamikið. Dökk ber og jafnvel aðeins kryddað. Þetta vín hentar kannski meira kjötréttum en mér fannst það vera ljómandi með kjúklingnum.

Tími til að njóta!

No comments:

Post a Comment