Wednesday 28 February 2007

Svikinn héri með sætkartöflumús

Ég hef ekki oft gert svikinn héra í minni búskapartíð. Mamma var ansi lúnkinn við þetta og þessi réttur var alltaf frekar vinsæll á mínu heimili. Fljótlega eftir að ég fór að búa var ég farinn að stunda mötuneyti Landspítalans og þar var stundum á boðstólum réttur sem hafði sama nafn, nema hvað ólíkt matnum hennar mömmu var maður illa svikinn af svikna héranum á landspítalanum...þvílíkur a%&# viðbjóður. Landspítala svikni hérinn er ekki heldur bara mjög vondur heldur líka mjög ljótur matur. En nóg um það.

 

Svikinn héri með sætkartöflumús

Svikinn héri er þægilegur matur að elda. Þetta er fljótlegt að undirbúa matinn og yfirleitt heppnast hann vel. Í þetta sinn setti ég 500 gr af nautahakki, 1 smátt skorinn rauðlauk, 5 hvítlauksrif, smá vegis tómatpaste, 1/2 búnt af steinselju, 50 gr af brauðmylsnu, 2 egg, salt, pipar, 1 tsk oregano og 1/4 bolli ristaðar furuhnetur. Þetta er svo hnoðað saman og sett í eldfast mót og mótað eins og brauðhleif. Ég setti 2 þykkar sneiðar af Camenbert osti í miðjuna og lokaði svo með kjötdeiginu. Svo er beikon lagt ofan á og bakað í 180 gráðu heitum ofni 25-mín (kjarnhiti 71 gráða).

Með þessu var gerð sætkartöflumús. Ég átti fimm frekar litlar sætar kartöflur og nokkrar venjulegar kartöflur. Þetta var soðið á hefðbundinn hátt, flysjað og svo maukað með 1 msk af rjómaosti og smávegis salti og pipar. Skreytt með steinselju.

Þetta var borið fram með fersku salati; klettasalat, konfekttómatar, smá paprika, fetaostur og nokkrar radísur. Alveg ágætt.

Ég ætlaði að gera sósu með matnum. Byrjaði ágætlega með lauk, hvítlauk, niðursneiddum sveppum, vatni, krafti - aðeins of mikið af krafti. Ætlaði svo eitthvað að djassa þetta upp með Dijon sinnepi en setti allt of mikið - eftir þetta var þetta tapað stríð - endurlífgun hófst kl 18:56 og var öllu tjaldað til, sultum, rjómaosti, pipar, steinselju, gráðaosti - ekkert gekk - sósan var úrskurðuð látin rétt áður en maturinn var borin á borð - 19:23.

Maturinn bragðist vel - allt nema sósan náttúrulega. Dóttir mín var sérstaklega ánægð að fá beikon með matnum. Beikon hefur aldrei skemmt neitt.

No comments:

Post a Comment