Showing posts with label sætkartöflumús. Show all posts
Showing posts with label sætkartöflumús. Show all posts

Monday, 9 April 2018

Fjórréttuð og fljótleg fiskiveisla fyrir vini frá Englandi - bláskel, silungur, humar og skötuselur og ljúffengir vínsopar

Vinir okkar, Sara og Davíð, voru á landinu nú í vikunni en þau hafa verið búsett í Englandi í næstum tíu ár - tilgangur þessarar Íslandsferðar var fyrst og fremst að ferma elsta barn þeirra - Alvar - í Seltjarnarneskirkju í dag.  Söru kynntist ég í Menntaskólanum við Hamrahlíð þannig að við höfum þekkst í meira en 20 ár. Sara er í námi í jákvæðri sálfræði sem ég held að sé nám sem passi hennar persónuleika ákaflega vel. Maðurinn hennar, Davíð, rekur fyrirtækið Handpoint en er líka nýbyrjaður í námi - í taugavísindum. Eitthvað sem ég held að falli afar vel að hans persónu. 

Við ræðum allt milli himins og jarðar þegar en við hittumst - en eigum sameiginlegt áhugamál, sem er að njóta lífsins yfir mat og drykk. Þar sem veislan var á föstudegi - var ekki mikill tími til undirbúnings - og matarboðinu einnig búin heldur þröngur stakkur þar sem Sara var líka á leið í þrítugsafmæli systur sinnar. Svona er þetta oft í Íslandsheimsóknum - maður er upptekinn frá morgni til kvölds - við að hitta allt fólkið í sem er manni kært. 

Og þar sem þau búa í Englandi - þar sem erfiðara er að fá ferskt sjávarfang - lá beinast við að útbúa nokkra rétti sem lyfta íslensku fiskmeti aðeins hærra. Við Íslendingar eru ákaflega heppnir hversu auðvelt það er - og tökum því sem sjálfsögðum hlut að kaupa spriklandi ferskan fisk. Ég heimsótti að sjálfsögðu vini mína í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum þar sem Arnar og Sigfús sáu mér fyrir ljúffengu hráefni í veislu kvöldsins. 

Og allir réttirnir voru einstaklega fljótlegir. 

Fjórréttuð og fljótleg fiskiveisla fyrir vini frá Englandi - bláskel, silungur, humar og skötuselur og ljúffengir vínsopar

Við gerðum eftirfarandi; 

Bláskel í kókóssósu
Reyktan og sítrónumarineraðan silung með chili og bláberjum
Grillaðan humar með chili- og mangóraitu
Parmavafinn skötusel með sætkartöflumús og grænbaunapúré

Við byrjuðum á bláskelinni sem var splunkuný - hafði verið pakkað deginum áður. 


Steikti einn rauðlauk, 2 hvítlauka og 5 cm af engifer í jómfrúarolíu. Skellti svo einum poka af skolaðri bláskel saman við, smá skvettu af víni, svo eina dós af kókósmjólk. Sauð upp. Bragðbætti svo með steinselju, chili og salti og pipar. 


Skreytti með fersku kóríander og bar fram með baguettu til að ná upp sósunni. 


Við nutum Piccini Prosecco með skelinni. Ég hef verið svo heppinn að fá að heimsækja Piccini á vínekru þeirra í Toskana. Hægt er að sjá allt um þá heimsókn í Sjónvarpi Símans Premium. 


Réttur númer tvö er einstaklega fljótlegur. Ég skar um 150 g af ferskum silungi niður í þunnar sneiðar og kreisti safa úr hálfri sítrónu yfir. Skar svo niður birkireyktan silung sem Gunni frændi gaf mér. Raðaði þessu ofan á beð af klettasalati vætt upp úr góðri jómfrúarolíu. Skreytti með rauðum chili, bláberjum og smátt skorinni steinselju. 


Með þessum rétti drukkum við Matua Savignion Blanc 2014 frá Nýja Sjálandi. Þetta er brakandi ferskt hvítvín sem passaði sérlega vel með silungnum. Þetta vín er fullt af þéttum ávexti, örlitlu af kryddi og léttri sýru, þurrt og ljómandi á tungu.


Auðitað var svo smá tími til að pósa fyrir myndir.


Réttur númer þrjú í röðinni var líka einkar fljótlegur. Snædís þræddi skelflettan humar upp á spjót sem hafði fengið að liggja í nokkrar mínútur í olíu, salti og pipar áður en hann var lagður á blússandi heitt grillið. Fékk rétt að kyssa logana.


Þá var humarinn lagður á beð af frissé salati, íslensku piccolotómötum, mislitum smápapríkum, smátt skornu mangó bragðbættu með jómfrúarolíu, sítrónusafa og salti og pipar. Ofan á var svo tyllt matskeið af chili-mangó sósu.

Hún var gerð þannig að 1/2 dl af majónesi, 1/2 dl af sýrðum rjóma var hrært saman og við það blandað 1/2 smátt skornu mangó, heilu kjarnhreinsuðu chili, salti og pipar og teskeið af hlynsírópi.


Ég skellti sætum kartöflum inn í ofn við 180 gráður í tvær klukkustundir. Skar svo ofan af þeim og setti í pott. Þeytti síðan 50 gr af smjöri og 50 gr af rjómaosti saman við. Saltaði og pipraði.

Svo sauð ég 200 g af frosnum grænum baunum í söltuðu vatni. Þær voru svo maukaðar með töfrasprota ásamt 30 gr af smjöri og rjómaosti, handfylli af ferskri steinselju. Saltað og piprað.


Ég vafði þvínæst 600 g af skötusel (hafði hreinsað himnuna af) með tveimur bréfum af parmaskinku. 


Skötuselurinn var svo brúnaður upp úr smjöri og svo bakaður í ofni þar til hann náði 48 gráðu kjarnhita.


Ég ætla að fullyrða að hann hafi heppnast fullkomlega. 


Skötuselnum var svo tyllt ofan á beð af sætkartöflumauki. Mér var aðeins strítt af því að bera fram tvennskonar maukað meðlæti. Svona er það þegar maður er að flýta sér - maður hugsar ekki málið í gegn. En bragðgott var það. 


Með skötuselnum brugðum við á það ráð að bera fram Beringer Founder's Estate Cabernet Sauvignion. Einstaklega vel til fundið. Oftast hefði ég nú borið fram hvítvín með fiski - en stundum sannar undantekningin regluna. Þetta passaði eins og flís við rass. Kraftmikið og berjaríkt vín til að hafa með kraftmiklum skötusel umvöfðum parmaskinku. 

Hvet ykkur til að prófa þessar uppskriftir. Einfaldar, fljótlegar - en fyrst og fremst stórkostlega ljúffengar. 

Verði ykkur að góðu! 

Saturday, 6 September 2014

Veisla í kotinu; Thai-bláskel og grilluð þverskorin lúða með ljúflingsbættri sætkartöflumús


Eins ég nefndi í seinustu bloggfærslu þá erum við stödd á Íslandi í örstuttri heimsókn. Mér var boðið til Íslands til að taka þátt í haustkynningu Skjásins og tók af því tilefni allt liðið með mér. Snædís fór helgina á undan í veiðitúr og ég kom með börnin á fimmtudaginn. Þetta var flott veisla sem haldin í Listasafni Reykjavíkur. Það var boðið upp á veitingar frá nokkrum veitingastöðum svona í anda matarmarkaðarins sem var haldinn þarna í sumar. Mjög skemmtilegt.

Við stöldruðum samt ekki lengi við í borginni heldur drifum okkur á uppáhaldsstaðinn okkar, sumarbústað foreldra minna, Lækjarkot í Kjósinni. Á leiðinni út úr bænum komum við við í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum og fundum íslenska bláskel frá Stykkishólmi og svo þverskornar lúðusteikur - sem ég hreinlega elska að elda. Með svona hráefni er eftirleikurinn bara leikur einn!

Veisla í kotinu; Thai-bláskel og grilluð þverskorin lúða með ljúflingsbættri sætkartöflumús

Fyrir súpuna sem forréttur fyrir sex

1 kg bláskel
1 rauður chili
5 cm engifer
3 hvítlauksrif
1 glas hvítvín
1 dós kókósmjólk
1 sítróna
handfylli steinselja/kóríander
salt og pipar

Fyrir lúðusteikurnar

2 stórar lúðusteikur
4 msk hvítlauksolía
1/2 tsk mulinn þurrkaður chili
salt og pipar
sítrónusneiðar

Fyrir sætkartöflumúsina

1 kg sætar kartöflur
1/2 ljúflingsostur
75 g smjör
salt og pipar


Blússhitið wokpönnuna og bætið nokkrum matskeiðum af olíu á pönnuna. 


Setjið síðan engiferinn, chilipiparinn og hvítlaukinn á pönnuna og steikið þangað til að það mýkist. Gætið þess að brenna ekki hráefnið. 


Skellið síðan bláskelinni á wokpönnuna og veltið upp úr kryddinu. 


Setjið svo hvítvínið, sjóðið upp áfengið og bætið kókósmjólkinni á pönnuna. Hitið að suðu með lok á wokpönnunni. 


Skerið sítrónurnar í báta og setjið þær saman við ásamt kóríandernum og steinseljunni.  


Berið á borð og njótið vel!


Næst var svo að tækla stórlúðusteikurnar. Penslaði þær með hvítlauksolíu, svo var chili sáldrað yfir, nóg af salti og pipar og svo raðaði ég sítrónum yfir!


Fékk að marinerast í um klukkustund úti í kuldanum!


Sætkartöflumúsin var ofureinföld. Bara flysja og sjóða 1 kg af sætum kartöflum. Mauka svo og blanda við niðurskornum osti, smjöri og svo salti og pipar auðvitað. 


Faðir minn er búinn að útbúa sér svokallað "miðaldagrill" þar sem við gátum grillað yfir opnum eldi. Fyrst er að kveikja eld og láta viðarbitana verða gráa. Svo er við bætt við eftir þörfum.


Lykillinn er að hafa grillið alltaf á hreyfingu - þannig brennur hráefnið ekki!


Alltaf þarf að gæta þess að pensla fiskinn með marineringunni!


Svo er lítið annað að gera en að bera á borð. Auk sætkartöflumúsarinnar bar ég fram einfalt salat með matnum og svo smjörsósu - beurre blanc, hægt er að sjá leiðbeiningar í þessari færslu!


Með matnum drukkum við meðal annars þetta prýðisgóða ameríska hvítvín sem ég hafði tekið með mér þegar ég fór í gegnum tollinn. Beringer Founder's Estate Sauvignion Blanc frá 2011. Þetta er fölgult vín í glasi. Létt á bragðið með ágætum ávexti á tungu og jafnvel smá vanillu. Frísklegt vín sem passaði vel, sérstaklega með kræklingnum!


Njótið vel! 

Wednesday, 28 February 2007

Svikinn héri með sætkartöflumús

Ég hef ekki oft gert svikinn héra í minni búskapartíð. Mamma var ansi lúnkinn við þetta og þessi réttur var alltaf frekar vinsæll á mínu heimili. Fljótlega eftir að ég fór að búa var ég farinn að stunda mötuneyti Landspítalans og þar var stundum á boðstólum réttur sem hafði sama nafn, nema hvað ólíkt matnum hennar mömmu var maður illa svikinn af svikna héranum á landspítalanum...þvílíkur a%&# viðbjóður. Landspítala svikni hérinn er ekki heldur bara mjög vondur heldur líka mjög ljótur matur. En nóg um það.

 

Svikinn héri með sætkartöflumús

Svikinn héri er þægilegur matur að elda. Þetta er fljótlegt að undirbúa matinn og yfirleitt heppnast hann vel. Í þetta sinn setti ég 500 gr af nautahakki, 1 smátt skorinn rauðlauk, 5 hvítlauksrif, smá vegis tómatpaste, 1/2 búnt af steinselju, 50 gr af brauðmylsnu, 2 egg, salt, pipar, 1 tsk oregano og 1/4 bolli ristaðar furuhnetur. Þetta er svo hnoðað saman og sett í eldfast mót og mótað eins og brauðhleif. Ég setti 2 þykkar sneiðar af Camenbert osti í miðjuna og lokaði svo með kjötdeiginu. Svo er beikon lagt ofan á og bakað í 180 gráðu heitum ofni 25-mín (kjarnhiti 71 gráða).

Með þessu var gerð sætkartöflumús. Ég átti fimm frekar litlar sætar kartöflur og nokkrar venjulegar kartöflur. Þetta var soðið á hefðbundinn hátt, flysjað og svo maukað með 1 msk af rjómaosti og smávegis salti og pipar. Skreytt með steinselju.

Þetta var borið fram með fersku salati; klettasalat, konfekttómatar, smá paprika, fetaostur og nokkrar radísur. Alveg ágætt.

Ég ætlaði að gera sósu með matnum. Byrjaði ágætlega með lauk, hvítlauk, niðursneiddum sveppum, vatni, krafti - aðeins of mikið af krafti. Ætlaði svo eitthvað að djassa þetta upp með Dijon sinnepi en setti allt of mikið - eftir þetta var þetta tapað stríð - endurlífgun hófst kl 18:56 og var öllu tjaldað til, sultum, rjómaosti, pipar, steinselju, gráðaosti - ekkert gekk - sósan var úrskurðuð látin rétt áður en maturinn var borin á borð - 19:23.

Maturinn bragðist vel - allt nema sósan náttúrulega. Dóttir mín var sérstaklega ánægð að fá beikon með matnum. Beikon hefur aldrei skemmt neitt.