Saturday 6 September 2014

Veisla í kotinu; Thai-bláskel og grilluð þverskorin lúða með ljúflingsbættri sætkartöflumús


Eins ég nefndi í seinustu bloggfærslu þá erum við stödd á Íslandi í örstuttri heimsókn. Mér var boðið til Íslands til að taka þátt í haustkynningu Skjásins og tók af því tilefni allt liðið með mér. Snædís fór helgina á undan í veiðitúr og ég kom með börnin á fimmtudaginn. Þetta var flott veisla sem haldin í Listasafni Reykjavíkur. Það var boðið upp á veitingar frá nokkrum veitingastöðum svona í anda matarmarkaðarins sem var haldinn þarna í sumar. Mjög skemmtilegt.

Við stöldruðum samt ekki lengi við í borginni heldur drifum okkur á uppáhaldsstaðinn okkar, sumarbústað foreldra minna, Lækjarkot í Kjósinni. Á leiðinni út úr bænum komum við við í Fiskbúðinni á Sundlaugaveginum og fundum íslenska bláskel frá Stykkishólmi og svo þverskornar lúðusteikur - sem ég hreinlega elska að elda. Með svona hráefni er eftirleikurinn bara leikur einn!

Veisla í kotinu; Thai-bláskel og grilluð þverskorin lúða með ljúflingsbættri sætkartöflumús

Fyrir súpuna sem forréttur fyrir sex

1 kg bláskel
1 rauður chili
5 cm engifer
3 hvítlauksrif
1 glas hvítvín
1 dós kókósmjólk
1 sítróna
handfylli steinselja/kóríander
salt og pipar

Fyrir lúðusteikurnar

2 stórar lúðusteikur
4 msk hvítlauksolía
1/2 tsk mulinn þurrkaður chili
salt og pipar
sítrónusneiðar

Fyrir sætkartöflumúsina

1 kg sætar kartöflur
1/2 ljúflingsostur
75 g smjör
salt og pipar


Blússhitið wokpönnuna og bætið nokkrum matskeiðum af olíu á pönnuna. 


Setjið síðan engiferinn, chilipiparinn og hvítlaukinn á pönnuna og steikið þangað til að það mýkist. Gætið þess að brenna ekki hráefnið. 


Skellið síðan bláskelinni á wokpönnuna og veltið upp úr kryddinu. 


Setjið svo hvítvínið, sjóðið upp áfengið og bætið kókósmjólkinni á pönnuna. Hitið að suðu með lok á wokpönnunni. 


Skerið sítrónurnar í báta og setjið þær saman við ásamt kóríandernum og steinseljunni.  


Berið á borð og njótið vel!


Næst var svo að tækla stórlúðusteikurnar. Penslaði þær með hvítlauksolíu, svo var chili sáldrað yfir, nóg af salti og pipar og svo raðaði ég sítrónum yfir!


Fékk að marinerast í um klukkustund úti í kuldanum!


Sætkartöflumúsin var ofureinföld. Bara flysja og sjóða 1 kg af sætum kartöflum. Mauka svo og blanda við niðurskornum osti, smjöri og svo salti og pipar auðvitað. 


Faðir minn er búinn að útbúa sér svokallað "miðaldagrill" þar sem við gátum grillað yfir opnum eldi. Fyrst er að kveikja eld og láta viðarbitana verða gráa. Svo er við bætt við eftir þörfum.


Lykillinn er að hafa grillið alltaf á hreyfingu - þannig brennur hráefnið ekki!


Alltaf þarf að gæta þess að pensla fiskinn með marineringunni!


Svo er lítið annað að gera en að bera á borð. Auk sætkartöflumúsarinnar bar ég fram einfalt salat með matnum og svo smjörsósu - beurre blanc, hægt er að sjá leiðbeiningar í þessari færslu!


Með matnum drukkum við meðal annars þetta prýðisgóða ameríska hvítvín sem ég hafði tekið með mér þegar ég fór í gegnum tollinn. Beringer Founder's Estate Sauvignion Blanc frá 2011. Þetta er fölgult vín í glasi. Létt á bragðið með ágætum ávexti á tungu og jafnvel smá vanillu. Frísklegt vín sem passaði vel, sérstaklega með kræklingnum!


Njótið vel! 

No comments:

Post a Comment